fimmtudagur, mars 10, 2005

"Hvað segist?"

skilyrtar spurningar og skilyrt svör

Það er afar sjaldgæft að maður skrifi eitthvað um sjálfan sig, hvað ég hef verið að gera, hvað hefur drifið uppá mína daga, eitthvað spennandi? Eitthvað krassandi? Eitthvað yfirnáttúrulegt? Kraftaverk? Geimverur? Eitthvað?

"Hvað segirðu gott?" er afar klisjukennt og margtuggð og í hæsta lagi leiðinleg spurning, en maður finnur sig alltaf knúinn til að svara henni á sama veg, þ.e. á þann hátt sem hún var spurð, klisju- og formúlukennt þannig að maður bregði ekkert útaf vananum "Ég segi bara allt gott", það sama gildir um spurningarnar "Hvað er að frétta?", "Hvernig hefurður það?", "Hvað ertu búinn að vera gera?" og ekki skiptir máli hver er spurður, því svörin eru nær ætíð og ávallt á sama veg "Allt gott að frétta", "Hef það fínt", "Sosum ekki neitt" eða "Bara allt ágætt."

Í fyrra sló frændi minn mig út af laginu þegar hann spurði góðfúslega "Hvað væri að frétta?" og er ég svaraði "Allt ágætt" þá spurði hann á ný með alvarlegum tón og svip "Ertu viss um það?" Ég var dálítið vankaður útaf smá skralli kvöldið áður og þessi spurning kom mér alveg gífurlega á óvart, mér fannst einsog ég hafði gert eitthvað af mér "Er ég viss? Já, það held ég.. já, já!" En málið er að ég hafði eitthvað verið að hugsa um þessar klisjukenndu tilvsör við formúlukenndum spurningum fyrir einhverju síðan. Eitt sinn höfðu þessar spurningar merkingu og svörin voru væntanlega mun lengri.

Um daginn var ég spurður þessa spurningu "Hvað er að frétta?" og ég held að ég hafi svarað með spurningum "af mér? Hvaðan þá sérstaklega, skólanum eða vinnunni?" og bætt við um leið að í hvert sinn sem maður er spurður þessa eða sambærilega spurningu þá komi maður alltaf með sama eða sambærilegt svar í hvert einasta skipti, þessi spurning er merkingarlaus, en er samt góðfúsleg tilraun til að vekja upp einhverjar samræður. En þegar maður svarar þessarri spurningu á annan hátt en maður hefur áður gert þá virðist það geta haft það vald að slá fólk útaf laginu, en annars "er allt ágætt að frétta." En ég má ekki gleyma því að er viðkomandi spyrill að spurja bara útaf vananum og hefur engan áhuga að heyra neitt meira en "allt ágætt!" Og útlýsti síðan hvað ég væri að gera í skólanum og í vinnunni. En viðkomandi spyrli brá aðeins, en jafnaði sig fljótt.

En maður er aldrei með neitt annað svar tilbúið, maður er orðinn hálf-skilyrtur til að svara þessum spurningum ætíð á sama veg. Ætli maður verði ekki að reyna afskilyrða mann, og fara segja eitthvað í fréttum, segja fólki hvernig manni líður í raun og veru en ekki bara að maður hafi það "ágætt" því það er ekkert svar, það segir manni ekkert hvort manni líði vel, hvort maður sé ofsakátur, hvort maður sé sorgmæddur, hvort manni líði illa. Því oft svarar maður "ágætlega", "bara fínt", "vel" jafnvel þó maður er í svartasta þunglyndi. Þó það virðist vera asnalegt, þá er ef til vill skynsamlegra og skemmtilegra að koma með greinargott svar við þessum spurningum, um leið og maður gerir það þá fá þessar spurningar aðra merkingu, og kannski þykir fólki vænt um að heyra hvernig manni í raun og veru líði og hvað er í raun og veru að frétta, annað en "ekki neitt."

Við skulum athuga þetta með dæmi:
"Hvað er að frétta?"
"Ég er að fara taka þátt í uppfærslu á Jesus Christ Superstar, og mun túlka Pontíus Pílatus á eftirminnilegan hátt. Það verður frumsýnt 16. Apríl. Mér gengur bara nokkuð vel í skóla, en þarf samt að skipuleggja námið betur, en næ samt alveg að skila verkefnum og fá nokkuð góðar einkunnir. Búinn að bæta við mig eina vinnu enn, það er á hjúkrunarheimilinu að sjá um gamalt fólk, sumir hverjir með Alzheimer, og sú vinna hefur þann drífandi kraft, rétt einsog Kleppsvinnan hvatti mig til að fara í skóla, að klára skólann og fara í hjúkrunarfræði. Það gæti verið að maður taki þátt í uppsetningu á myndlistarsýningu í Apríl. Mér finnst vera nóg að gera einsog er, en ég er til í að bæta einhverju við. Hef snarminnkað Kaffihornsferðirnar, aðallega sökum fjárskorts. Einnig er sú hugmynd að hætta að reykja alltaf að vega þyngra og þyngra hjá mér. Ekki nema 25 ára og hef reykt í meira en áratug."


Þarna er komið greinargott svar, þarna er ég að koma með einhverja fréttir sem einhverjir hafa ef til vill aldrei heyrt. Það vill nefnilega stundum til ég tala við einstaklinga einsog það viti alveg um hvað ég er að tala, þ.e.a.s. að það hefur kannski lesið sömu bækurnar og ég, sömu fréttirnar og ég, sömu greinarnar og ég, veit alveg hvað ég er að gera útfrá þriðja aðila o.s.frv. Þetta er dálítið sjálfhverf hugsun viðurkenni ég, sem ég verð að hætta og þess í stað spurja viðkomandi hvort hann hafi lesið þetta og þetta, og þar af leiðandi láta umræðuna snúast um það eða eitthvað annað.

Önnur spurning, sem verður ef til vill snúið að svara án þess að upplýsa um of er:

"Hvernig líður þér?"
"Í stuttu máli þá líður mér svo sum ágætlega, en er dálítið kvíðafullur sem má held ég að öllu leyti rekja til fjárskorts. Maður er ekki að gera neitt spes til að betrumbæta andann og rækta mínar tilfinningar þannig séð, annað hvort vantar mig ást eða einfaldlega púntang. Ég er dálítið smeykur við dálítið einkennilegan vöxt á vinstri olnboganum á mér, ég vona bara að þetta sé ekki það sem mig grunar..."
Það er ekkert víst að viðkomandi vilji heyra allt mitt tilfinningaflæði eða allar mínar áhyggjur, en þó það er aldrei að vita. En það er allt gott að frétta og mér líður ágætlega. En tilgangurinn með þessu er einfaldlega að koma með hugmynd sem er í megindráttum beind að sjálfum mér, til þess að brjóta upp daginn.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

skemmtilegar pælingar, þú mikli huxuður. Minnnir mig á Fóstbræðrasketsjinn: Hvað segirðu gott? - Mér líður ömurlega - Flooot, gott að heyra...
Kvartmilljón á ári í hús eða meira ef þú hættir að röge... Hefurðu reynt það reykspúandi blysfarinn þinn?

Hvað er púntang?
-Bessi

Doddi sagði...

Mig minnir að það sé borið einhvern megin svona fram = púntang - poon tang eða e-ð. en þetta á víst að þýða píka.

Nafnlaus sagði...

OJJJ! þarftu að fá að ríða? ojbarasta.

Anywho, skemmtilegar pælingar, hef einmitt verið að hugsa út í þetta. Fólk spyr alltaf sömu spurninguna, aftur og aftur, út af því það hefur ekkert meira til að tala um, eru að reyna að finna út hvað þau geta talað um. En maður kemur alltaf með sama svarið, aftur og aftur og aftur. "eitthvað að frétta?" "nei.. voða lítið" þótt það sé eitthvað að frétta þá held ég samt áfram að koma með þetta svar

Nafnlaus sagði...

hvernig hefurðu það Doddi?

-Ari

Doddi sagði...

Ég er búinn að hafa það ágætt undanfarna daga, ekkert sem kemur manni á óvart og engar óvæntar uppákomur síðan ég kíkti til læknis um daginn og grennslaðist fyrir um þennan einkennilega hnúð á olnboganum, hún tjáði mig um það að þetta væri vöknasöfnun útaf núningi eða einhverju álíka, þarf að taka bólgueyðandi og hafa hendina í fatla við og við, þannig að maður þarf ekki að hafa áhyggjur af því.