föstudagur, júní 09, 2006

Um Þingholt og vímugjafa

Af ferðum mínum um Þingholtin kennir ýmisa grasa. Þingholtin eru að mínu hógværa mati eitt skemmtilegasta göngusvæði á landinu aðallega útaf því að þetta er svo svakalega óskipulagt svæði, en það er það sem gerir það skemmtilegt. Það er nefnilega ekkert hús eins í Þingholtunum, þó hafa verið gerðar tilraunir með til að mynda raðíbúðarblokkir. En raðíbúðarblokkirnar eru einatt skiptar í blokkir og íbúar í hverri blokk taka stundum uppá því að mála blokkirnar í mismunandi litum, þannig hefur maður húslengju í allskyns regnbogalitum, sem er vel. Þingholtin er einsog landsbyggðarþorp í lítilli borg.

Ósjaldan hef ég ráfað um Þingholtin í annarlegu ástandi og það, börnin góð, er hörkugaman. Með annarlegu ástandi á ég nú ekki við töluvert prómílmagn í mínum æðum, onei, með þeim eftirminnilegu gönguferðum um Þingholtin er þegar ég var á sveppum eftir miðnætti rétt eftir áramótin 2002.

Ég gekk um hverfið ásamt vini mínum í næstum 4-5 tíma. Stoppuðum fyrir framan Hallgrímskirkju í rúmlega klukkutíma þar sem ég talaði nærri því nonstop um eitthvað sem mér var hugleikið, hvað það var skiptir ekki máli en þetta meikaði allt sens þá. Ef einhver hefði stoppað og hlustað á það sem ég var að segja þá hefði sá hinn sami eflaust hrist hausinn og hugsað með sér "Þvílíkur moðhaus!"

Næsti viðkomustaður var listagarður Einar Jónssonar. Það var allsvakalegt móment er við gengum upp tröppurnar tvær, ég snarhemlaði áður en ég gekk inn því þetta var einsog að labba inní málverk. Þar fetuðum við félagarnir um svæðið í nærri því klukkutíma og dáðumst að þessum meistaraverkum eftir þennan ókrýnda skúlptúrmeistara.

En það sem mér finnst einna eftirminnilegast eru byggingarnar og hvernig húsin öðluðust hálfgert líf og persónuleika, höfðu einhvern sérstaka sjarma og ef maður fer útí hið ljóðræna þá voru þarna hús sem brostu og hlógu eða voru sveipuð dulúð og fýld á svip. Maður gat staðið fyrir framan einhvern kofann og undrast yfir ótrúlegheitunum. Þó eru þetta bara hús.

Einn helsti kosturinn við að ganga um Þingholtin, sérstaklega eftir miðnætti, er hvað það er lítið af fólki á rölti og manni leið þá einsog maður væri svefngengill, vakandi, dreymandi, arkandi um annann heim í okkar heimi.

3 ummæli:

Vésteinn Valgarðsson sagði...

Humm... ég held að þú sért að leggja of víða merkingu í örnefnið "Þingholt". Það er svosem ekki stór synd, enda gera það mjög margir -- en Þingholtin eru frekar lítið svæði, ekki nema ca. milli Lækjargötu/Fríkirkjuvegi og Bergstaðastrætis, og milli Laugavegar og Skothússvegar/Hellusunds.

Doddi sagði...

Þeijiðu!

Þó er það aðallega það svæði og nálæg sem ég er að tala um, ekki alveg alla hæðina.

Nafnlaus sagði...

Þetta var eftirminnilegt kvöld minn kæri ven. Eigin heimur í huga beggja, óð augu starandi út í Reykjarvíkurnóttina.

Einar.