laugardagur, ágúst 07, 2004

Operation : Blog Resurrection!

Já, það er, að ég held og nokkrum öðrum, kominn tími fyrir mig að reyna einhverskonar endurlífgunartilraunir við bloggið mitt, aðeins of seint fyrir heimlich-aðferðina. Einu sinni var það svo að það kom lífsmark einstaka sinnum upp á nokkra vikna fresti, en nú hefur það verið eitt lífsmark í hverjum mánuði síðan í apríl, held ég. Mitt blogscore er heil 87 á tæpum átta mánuðum eða svo. Vá, það er næstum 10 innlegg á mánuði. Atorkusamur... ha? Magnað? Nei.

Maður er búinn að vera í einhverri andlegri lægð undanfarna mánuði, manni hefur fundist að það hafi ekki verið neitt nýtt að frétta, ekkert nýtt að segja og ekkert nýtt til að bæta við. En vissulega er margt að frétta, margt að segja og margt hægt að bæta við, það hafa komið upp ýmist atburðir sem truflaði aðeins mitt mók þetta sumar.

Skrapp til London, þar sem ég innbyrti annað hvort löglegan eða löglega vafasaman vímugjafa, sem var fínt.

Mig dreymdi afar merkilegan og skemmtilegan draum. Það er erfitt að útskýra drauma, sama hversu ljóslifandi þeir geta verið í mínum huga meðan ég sef, í mínum draumaheimi. En fjórða júlí til fimmta júlí, dreymdi mig draum sem nú er orðinn minn uppáhaldsdraumur. Lýsingarnar eru dálítið "sketchy" og ansi erfitt að koma með smáatriðin, einsog útlit á manneskjunum, hvað þau sögðu og ýmislegt annað sem skiptir kannski máli eða skiptir engu máli. En málið með þennan draum að hann kom mér fyrir hugsjónir einsog ég væri virkilega á staðnum að gera þessa hluti, mér fannst þetta ósköp eðlilegt, þangað til ósköp óeðlilegir hlutir byrjuðu að gerast.

En hér byrjar lýsinginn á ýmsum atvikum, atburðum og umhverfi:

Ég var á röltinu með vini mínum, sem ég kem ómögulega fyrir mér þessa stundina, um koldimma nótt. Við gengum á stétt sem var staðsettur við "freeway" í risastórri borg. Það var ekki mikið af bílum, sem var einkenilegt. Borginn var blanda af ýmsum borgum og bæjum, strúkturinn einsog Reykjavík, dálítið handahófskennt, byggingar á hólum og hæðum, arkitektúrinn frá London og Amsterdam, múrsteinar og miðaldahús og síðan grænt gras, grænir hólar, græn lauf á fallegum trjám einsog í þjóðgörðum eða sveitabæjum á borð við Höfn, eða viss hverfi í Höfuðborgarsvæðinu. Það mátti einnig glitta í háhýsi og skýjakljúfur einsog í New York.
Við gengum saman, vinur minn og ég, framhjá frekar bröttum og götóttum hól, bakvið hólin voru margar byggingar. Síðan heyrði ég í hlátrasköllum fyrir ofan mig, og mér var litið á þennan hól. Í eini laut sá ég tvær persónur, stelpu og strák, á unglingsaldri, dálítið illa til fara, rifin föt, tætt hár, skítug í framan, en voru að skemmta sér vel. Ég skildi ekki strax af hverju, en þegar það byrjaði að neista úr kveikjara og glitta í krumpaða hálfslíters plast-gosflösku, þá gat ég áætlað að þessir krakkar voru að reykja kannabis, eða í raun hvaðsemer, því síðan tóku þau upp túpu og sniffuðu.
Stuttu seinna, sá ég rétt út úr auganu á mér, þriðju manneskjuna sem sat í annarri laut ekki langt í burtu. Þessi manneskja var aðeins snyrtilegri og rólegri, gallabuxum, hermannaskó, síðerma bol. Hann var kannski á þrítugs aldri með skolhært hár, rauðleit goatie á hökunni, barta og dálítið órakaður. Satt best að segja, og af ástæðum sem eru mér ókunnar, þá leit hann út einsog Birkir í I adapt, sem mér fannst dálítið einkennilegt í draumnum, yppti öxlum og ég héld áfram mína leið, labbað hægt og fylgdist með þessu fólki. Það leið ekki á löngu fyrren unglingarnir tóku eftir sama einstaklingi, og höguðu sér einsog þau þekktu hann, sem þau og gerðu. Þau voru að biðja um eitthvað, og hann hafði fyrst margt viskulegt að segja meðan hann gekk frá ýmsum vímugjöfum í þartilgerðar plastumbúðir, hegðaði sér einsog íslenskur "shaman", með ýmis varnaráð hvað má og má ekki gera. Síðan heyrði ég hann segja "meskalín",orð sem ég lét mig sperra eyrun og stoppa, snúa mér við og íhuga hvort ég ætti að kaupa mér meskalín hjá þessum skuggalega, en einkennilega, karakter.
Þessi díler fór síðan í hverfi sem var þarna rétt hjá, stelpan og strákurinn fylgdu með. Ég byrjaði að elta þau í gegnum þetta furðulega hverfi, fann þau síðan í húsasundi. Þetta var útvherfi sem var einnig þessi sérkennilega borgarblanda, raðhús úr múrsteinum, en raðhúsin voru öll í þvers og kruss, hálfgerð völundargöng. Ascher-leg. En í afar íslenskri umgjörð, í villtri náttúru. Mjög fínt hverfi, en það var samt þessi tilfinning að þetta væri hálfyfirgefið svæði, fáir á ferli og lítið um að vera.
En ég fann dílerinn, og vildi kaupa hjá honum "meskalín". Hann lét mig fá mikið magn af hvítum kögglum á meðalstóru viðarskurðbretti, ég þarf helst að mylja það sjálfur. Ég byrja að mylja, tek upp peningaseðill, rúlla honum upp og ætla mér að sjúga "meskalín" uppí nefið, þá koma smá gola og feykti hluta af meskalíninu af, ég reyndi að gefa því skjól svo að meira mundi nú ekki fjúka af, setti úlpuna mína yfir skurðbrettið, byrjaði síðan að hlaupa til að finna almennilegt skjól, enda kominn góður strekkingur. Mold, sandur og annað drasl blandaðist við meskalínið, þannig ég hendi mér niður, tók upp upprúllaðan peningaseðill og saug af öllum lífs og sálarkröftum.

Síðan byrjaði mér að líða einkennilega, orðinn dálítið léttur. Leit í kringum mig, og síðan fauk ég útúr þessu hverfi inní annað verra hverfi, síðan útúr því og útí sveit, á fullri ferð að fjöllum, stoppa þar, næ áttum. Stend, horfi uppí fjall, horfi uppí himinn, lít síðan niður og fýk síðan upp. Jörðinn byrjaði síðan að minnka og minnka, síðan byrjaði það að breytast og breytast afar hægt þangað til það myndaðist röð af bókum fyrir framan mig að ég tók eftir því að ég var kominn aftur inní herbergi og mér leið einsog ég hafði ekkert sofnað. Leit á klukkuna og hún var að vera eitt um nóttina, og fór að sofa klukkan hálf ellefu eða svo. Það fannst mér magnað.
Þar endar draumurinn minn.

Skrapp aðeins til Reykjavíkur. Þar var mér sýndur menningarviðburður í hjarta Reykjavíkur. Andspyrnu/róttæklinga/byltinga/jaðarhópar-spjallstofa, bókasafn og -sala. Bullaði alveg ósköp við eitthvað fólk sem ég þekkti. Keypti mér varning af ýmsu tæji (bækur og fleira). Skrapp síðan aftur heim til Hornafjarðar. Allsvakaleg ferð.

Er að fara til London aftur, síðan Kanada, síðan aftur London og þaðan heim. Inná milli verð ég vitni að giftingu og ýmist annað sem mun koma mér á óvart.

Þetta og fleira sem hefur drifið uppá mína ótrúlega nægjusama daga. Vissulega jaðrar þetta ekkert á við pakkfullt augnablikslíf, þar sem hver mínúta er undursamleg og viðburðartíkt, það er ekki einsog ég sé að ferðast á milli bæja til þess að berjast við forhertar forynjur af ýmsu tæji.

En jæja, ég ætla samt að passa mig að ofblogga ekki, en ég mun samt einnig reyna að vanblogga ekki of mikið.

Engin ummæli: