föstudagur, janúar 20, 2006

Trúarjátning

Ég var skírður í Hafnarkirkju þegar ég var vanviti árið 1979. Ég man ekki hvað átti sér stað í leikskóla. Ég gerði heimaverkefni mín í kristinfræði er ég var óþroskaður hálfviti í barnaskóla og litaði myndir af goðsögu sem kallaður er Jesús Kristur Jósepsson. Ég fékk gefins Nýja testamentið er ég var 12 ára. Ég gerði tilraun til að lesa það rit. Ég fór í fermingarfræðslu og var látinn lesa valda kafla úr Nýja testamentinu þegar ég var á frekar viðkvæmum aldri. Ég var fermdur í Hafnarkirkju sem átti að vera einhverskonar bullsáttmáli milli mín og Gvuðs um að staðfesta skírn mína. Ég var þrettán ára og sjö mánaða. Ég á afmæli 25. september. Þessir atburðir eru merkingarlausir fyrir mér.
Ég fór að velta þessari hálf-kristilegu uppeldissögu fyrir mér og finnst það athyglisvert að enginn önnur lífsskoðun var á boðstólnum í bænum sem ég ólst upp í. Ég man ekki eftir því að rætt var um Búddisma, Hindúisma, Bahaísma og hvað þá skeptismisma, efahyggju, guðleysi né trúleysi í barna- eða gagnfræðiskóla nema sem einhverjar undirmálsgreinar, varla það.
Í þessu litla bæjarfélagi var einhvernmeginn búist við því að allir mundu trúa á eitthvað Kristskjaftæði. Ég lít á þetta tiltekna kristilega sinnuleysi sem hreina blessun, ef mér leyfist að nota það orð, og einnig stend í þakkarskuld fyrir það að foreldrar mínir ólu mig alls ekki upp undir guðsótta og kristna siðnum, hvað þá kristnum gildum eða venjum.
En samt sú "kennsla" eða kristilega ítroðsla sem ég varð fyrir, sérstaklega í barnaskólanum, gerði það að verkum að mér fannst yfirnáttúran og hið ótrúlega ekki vera svo ólíklegur veruleiki; hugsanaflutningur, örlög, jólasveinar, geimverur, anda, drauga, grýlur, álfar, tröll, guðir og aðrar forynjur, þetta var allt "til". Enda hafði mér verið sagt það af eldri mönnum og þegar ég var lítill þá var fullorðið fólk miklu gáfaðri en ég. Nú, þegar ég er að endurrifja gamlar minningar, veit ég að þetta fólk voru bara trúgjarnir bjánar og kjánaprik.
Þó ég hafi fermst, get ég ekki sagt að það hafi sérstaklega verið til að taka við hinu tvíeggja kærleiksboðskap Jesú Krist, heldur útaf því að "allir aðrir voru að gera þetta." Ekki beint hópþrýstingur, ekki beint hefð, frekar blanda af hvoru tveggja.
Ég var skráður í þjóðkirkjuna heillengi og það er ekkert svo rosalega langt síðan að ég skráði mig úr henni, og það er heldur ekki svo langt síðan að ég náði að losa mig algjörlega undan þeirri hugsanavillu að einhverskonar yfirnáttúra og ótrúlegheit sé til, þó það sé ekki nema bara smá vottur, oggupínupons, nanódropar af hinu fjarstæðukennda. Og þvílíkt fargan! Og þvílíkt kjaftæði!
Ég trúi ekki á þríeinan Gvuð, ég trúi ekkert á neinn andskotans Jesús Krist, tólf lærisveina, krossfestingu, upprisu né endurkomu. Ég trúi ekki að einhver 2000 ára gömul þverstæðukennd, kreddufull, hrottaleg bókarskrudda sem notuð hefur verið sem afsökun fyrir ógeðslegum ódæðisverkum innihaldi svörin við öllum lífsins gátum. Ég trúi þessu ekki, því þetta er kjaftæði. Ég viðurkenni það, og þetta er mín trúarjátning, að ég trúði þessu að hluta til, einu sinni. En það var ekki mér að kenna, heldur þeim sem sáðu þennan óskunda í minn óþroskaða svampheila, en sem betur fer varð ekki varanlegur heilaskaði af.

5 ummæli:

Vésteinn Valgarðsson sagði...

Hmm... þetta gæti nú verið uppistaða í Vantrúargrein?

Doddi sagði...

Ef til vill.

Nafnlaus sagði...

ég er sammála flestu en lít svo á að það er ekki allt kjaftæði í boðskap Krists. Það er margt í hans boðskap sem á erindi við okkur og mikið vit er í, en nóg er af kjaftæðinu samt sem áður. Það er líka búið að afbaka kristnar kenningar svo mikið eftir eigin geðþótta og persónulegum skoðunum.

Vésteinn Valgarðsson sagði...

Skárra væri það nú. Kirkjan er ekki heimsk, hún veit að hún þarf að markaðssetja sig vel til að höfða til fólks, og það gerir hún ekki með tómri heimsku. Nei, hún blandar viti saman við heimskuna, á sama hátt og fiskimaður setur maðk utan um öngulinn.

Doddi sagði...

Máske mun ég vinna eitthvað úr þessu og reyni að gera grein sem hæfir Vantrú...