föstudagur, janúar 23, 2004

Mitt litla líf á Hornafirði: Kafli II

M βίος
Ég er búinn að koma mér upp þrjú heimili, það er náttúrulega heimilið á Smárabrautinni, síðan er það Kaffihornið og að lokum er það Nýheimar. Þessa staði stunda ég mest.

Nýheimar er alveg gífurlega sniðug miðstöð, þar er framhaldskólinn, bókasafnið, lesstofa með tilheyrandi aðgang að tölvum og rólegheitum, kaffitería, útibú Háskóla Íslands og að auki er hér starfrækt frumkvöðlasetur fyrir frumkvöðla á öllum aldri með góðar hugmyndir. Þetta er Academia í forn-grísku meiningunni. Það sem afturá móti vantar eru fleiri nemendur í skólann, fleiri kennara og þar af leiðandi fleiri námsbrautir, auk þess að efla kvöldskólann eilítið og hafa fleiri námskeið í boði. En þetta er nú nýstofnað og tekur smá tíma að byggja þetta upp og efla. Möguleikarnir eru ansi margir, en sú brýnasta nauðsyn sem vantar uppá svo að þetta verði öflug Academia er fjármagn, og því miður er lítið af því í þessum bæ.

Kaffihornið er kaffihús, veitingastaður og bar. Einnig tekur lókal bandið Parket uppá því að spila þarna nokkur vel valinn lög á ýmsum tímum í skiptum fyrir bjór. Kaffihornið er best lýst sem hugmyndinn af viðarhúsinu uppí Alpafjöllum þar sem maður drekkur Swiss Miss og dembir sér á skíði. En ég fer gjarnan þangað með tösku af bókum, panta mér bjór eða kaffi og les eitthvað skemmtilegt.

Það er nú óþarfi að lýsa heimilinu sjálfu, þar les ég, sef ég og ét ég, einsog flest allir aðrir.

Engin ummæli: