miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Hérna er enn eitt vælið mitt um fátækt, ritgerð fyrir Íslensku:

Leti er orsök fátæktar

• Leti fátækra eða leti stjórnvalda
• Afríka/Þriðji Heimurinn
• Ísland
• Fátækt
• Bankakerfið stuðlar að fátækt
• Öryrkjar
• Niðurlag

Leti, samkvæmt íslensku orðabókinni, þýðir:
“Það að vera latur, nennigarleysi, fjörleysi, deyfð; andleg l. sljóleiki…”Leti fátækra eða leti stjórnvalda
Vissulega er til fólk sem er latt og nennir ekki að vinna, þau tilfelli má nú oftast tengja við fólk sem hefur afar góðar og fastar tekjur. Leti er orð sem gjarnan er tengt við fátækt, og er það illskiljanlegt, það sem leti kemur fátækt lítið við. Þegar kemur að því að leita sér lífsviðurværis, svo sem fæði, klæði og húsnæði, þá er enginn það latur að hann velji fátækt í stað atvinnu eða bóta. En er leti orsök fátæktar? Það fer eftir því hvernig á það er litið, er þetta leti hjá þeim fátæku, er virðast gera sama sem ekkert til að rífa sig uppúr fátæktinni eða leti hjá stjórnvöldum sem neita að gera grein fyrir fátækt, gera lítið úr þeim skoðunum, rannskóknum og sönnunum hjá óháðum og hámenntuðum aðilum er kveða á um að hér sé vissulega til fátækt, sem er vissulega staðreynd í Íslensku samfélagi.
Haft er eftir Davíð einum Oddsyni, hæstvirtum forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, sem sagði að “hér sé ekki til fátækt”, þar með neitar hann staðreyndum. Haft er eftir flokksbróður hans, Pétur H. Blöndal, alþingismaður, að “lítið mál er að lifa á tæplega 50.000 krónum á mánuði” og gerir þar með lítið úr staðreyndum og gerir lítið úr þeim aðilum sem þurfa virkilega að skrimta á 50 þúsund krónum á mánuði.
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og tilvonandi forsætisráðherra, vill eyða rúmlega 300 milljónum króna, eða meira, í að fróa sinni samvisku og reyna að hjálpa þriðja heiminum, með matargjöfum, fatagjöfum, lyfjagjöfum og öðrum gjöfum, svosem aðgang að hreinu vatni og rafmagni. Þetta er göfugt marmkið, en vonlaust, enda þarf meira til en peninga til að bjarga þriðja heiminum. Samstarf milli ríkja í þriðja heiminum (Afríka, S-Ameríka og Asía) og SÞ, vestræna ríkja (BNA og Evrópa), en þó sérstaklega stórfyrirtæki sem misnota bága aðstöðu fátækra í Afríku til að hagnast á því volæði, í formi skattfríðinda, svo dæmi sé tekið.
En einblínum aðeins á þessar 300 milljónir sem utanríkisráðherra er tilbúinn að punga útúr ríkisjóði, og bera saman Afríku og Ísland í stærð, fólksfjölda og hversu stór hluti í báðum löndum eiga bágt. Vandamál þriðja heimsins, og þó sér í lagi Afríka, er alltof margþætt og því miður of flókið til að fara nánar útí það hér, en ég mun nefna örfá dæmi í næstu klausu.

Afríka/Þriðji heimurinn
Afríka er gríðastórt land, 303,380,000 ferkílómetra stórt og 750 milljón manns búa þar og vandamálin í Afríku (og víðar) eru fleiri nokkrum manni grunar. Miklu meira en helmingur Afríkubúa lifa langt undir fátæktramörkum (þéna kannski 100 krónur á mánuði), hafa ekki aðgang að hreinu vatni, rafmagni, menntun eða minniháttar hjúkrun. Tökum nokkur dæmi:
• Hver manneskja í Þriðja heiminum skuldar vestrænum ríkjum sem nemur 32.500 krónur
• Afríka eyðir fjórum sinnum meira í afborganir á alþjóðlegum lánum en í heilbrigðiskerfið
• Árið 1960 voru tekjur 20% af ríkustu mönnum í heiminum 30 sinnum meiri en 20% af fátækasta fólkinu, í dag er bilið 60 sinnum meira.
Þetta eru örfá dæmi og einnig má minnast á það að skuldir þriðja heimsins orsaka fátækt hjá milljónum einstaklinga í hinum vestræna heimi. Það hryggir mig að segja að dæmin og vandamálin sem sprottin eru af afskipti og, þó sér í lagi, afskiptaleysi hins vestræna heims eru alltof mörg: arðrán, borgarastyrjaldir, fátækt og hungur, ekki sé minnst á sjúkdóma-faraldur, HIV-smitun og eyðni.
11 milljón manns hafa dáið af eyðni síðan 1999 og í byrjun árs 2000 voru 24 milljón manns smitaðir af eyðni, 6000 manns deyja af eyðni daglega, og 11000 manns smitast daglega, og mínir útreikningar sýna að 12.045.000 manns hafa smitast síðan árið 2000, og ef ekkert verður gert á næstu 10-20 árum, gæti farið svo að þetta verði stærsta og þöglasta þjóðarmorð í sögu mannkyns, telja svartsýnismenn að rúmlega 10-20% afríkubúa mun deyja fyrir árið 2020. Stærstu lyfjafyrirtækin neita að selja Afríku-ríkjum eyðni- og HIV-tengt lyf á hagstæðu verði, jafnvel gefins, enda eru skilyrðin afar einföld fyrir þessi fyrirtæki “við verðum að græða á óförum annarra!”
Fátækur einstaklingur í Afríku er rændur af þeim sjálfsögðu mannréttindum að leita sér lífsviðurværis. Afríka er arðrænd og kúguð af alþjóðasamfélagi, meinað eðlilegum lífskjörum sem við í hinum vestræna heimi teljum sjálfsögð. Rændir til að viðhalda ríkidæmi örfáa aðila.
Fyrir sunnan Sahara nema alþjóðleg lán og skuldir rúmlega 140 milljarða bandaríkjadali, og Suður Ameríka skuldar meira en 365 milljarða bandaríkjadali. Það má þó áætla að allur þriðji heimurinn (Afríka, S-Ameríka, Asía) eru með skuldir sem nemur um 500-600 milljarða bandaríkjadali, og þessar 300 milljónir sem Halldór Ásgrímsson ætlar sér að nota til að seilast eftir atkvvæðum, duga varla til að borga 1% af þessarri skuld, þetta dugir kannski til að borga 0,005% - má þar bæta við, svona Ad Hominum, að Halldór Ásgrímsson er veruleikafirrtur bjáni ef hann heldur að hann geti skipt sköpun í vandamálum þriðja heimsins.
En hann getur skipt sköpun með því að sleppa því að gefa þessa peninga í alþjóðahjálp þegar þessir peningar geta komið sér ennþá betur fyrir fátæka Íslendinga, með þessarri skoðunn minni er ég alls ekki að gera lítið úr vandamálum þriðja heimsins. Hann mætti reyna á það að minnka útgjöld utanríkisráðuneytisins, einsog er að gerast víða erlendis, svosem Noregi, Svíðþjóð og Danmörk, leggja niður sendiherraskrifstofur og skera niður reisugjöldin.
Sumum finnst kannski að 300 milljónir sé mikill peningur, en miðað við vandamál þriðja heimsins, þá skipta þessir peningar afar litlu máli, þetta eru minniháttar aurar, smápeningur sem er vel varið í eitthvað annað. Því önnur lausn verður að finnast, önnur en að dæla peningum í formi gjafa, en þó aðallega í formi lána, til þriðja heimsins og þar af leiðandi bæta ofaná núverandi vandamálum og óförum, því með öllum aur fylgja viss skilyrði og vandkvæði, og í þessu tilfelli getur Davíð engan veginn unnið Golíat.

Ísland
Ísland er afar lítið land, ca. 103.000 ferkílómetrar á stærð, og hér búa ca. 280.000 manns. Við erum 5. ríkasta þjóð í heimi og meðal þeirra ánægðustu á jörðinni. Hér er langlífi og lítið af sjúkdómum, kannski að 10-20 manns séu smitaðir af HIV, en þessir örfáu aðilar hafa aðgang að þeim lyfjum sem þarf til að slá á sjúkdóminn. Við höfum ágætis heilbrigðiskerfi. Allir hafa aðgang að fæði, klæði og húsnæði. Lítil spilling þrífst hér. Við skuldum, að mig minnir, rúmlega milljarð í alþjóðalán. Vandamálin hér eru lítil, rétt einsog stærðin og fólksfjöldinn. Þannig að rökrétt er að telja sem svo að þau vandamál sem eru til staðars er lítið mál að leysa. En svo virðist ekki vera, af einhverjum furðulegum ástæðum.
Vandamálin í þriðja heiminum er nær ógjörningur að reyna líkja við þau vandamál hér á landi, því vandamálin hér eru minniháttar miðað við t.a.m. Afríku. En vandamál eru hér samt og vandamálið er fátækt.
Fátækt elur af sér ýmis önnur samfélagsleg vandamál; auknir glæpir, geðsjúkdómar og sjálfsmorð. Fjöldi fátækra, félítilla, auralausra og skuldamiklum hér á landi er alltof mikill, ef miðað er við þá litlu staðreynd að Ísland er, samkvæmt rannsóknum og könnunum 5. ríkasta land í heimi og það hamingjusamasta og fyrst við erum svona rík og hamingjusöm, hvernig stendur á þessu fátæka og óhamingjusama fólki?

Fátækt
Það er enginn sem vill vera fátækur, þetta eru aðstæður sem enginn kýs. Fátækt er orsök af efnahagslegum og félagslegum þáttum og einsog ég nefndi hér fyrir ofan, elur fátækt af sér ýmis önnur vandamál, samfélagsleg og andleg.
Heilu kynslóðirnar í Afríku fæðast í örbirgð, vesæld og vosbúð, hér á Íslandi er þetta meira einstaklingsbundið, og er afar sjaldgæft að kynslóð eftir kynslóð lifi í sárri fátækt, þó undantekningar séu til.
Flestir hafa einhverntímann haft áhyggjur af fjármagni og kvíða yfir að ná ekki endum saman, en í flest öllum tilfellum þá blessast úr þeim áhyggjum og kvíða. En hvernig líður manneskju sem er með stanslausar áhyggjur og kvíða sökum skorts á tekjum, fjármagni til að viðhalda sér og fjölskyldunni sinni? Áhyggjur geta leitt til alvarlegra afleiðinga. Þetta getur leitt til andlegra kvilla á borð við þunglyndi, misnotkun á áfengi og/eða vímuefnum. Atvinnuleysi og fátækt getur einnig leitt til örþrifaráða einsog innbrot og þjófnað, hórdóm, og þessi örþrifaráð geta valdið áhyggjum sem einnig leiða til fyrrnefndra kvilla og misnotkun á vímugjöfum. Þannig getur sá vítahringur glæpa sprottið upp hjá einstaklingum sem eru þegar orðnir utan við samfélagið.
Fátækt stafar einnig af fyrrnefndum efnahagslegum toga; afborganir af láni, of hátt leiguverð, ýmsar óupptaldar skuldir, matarreikningur o.fl, þá þurfa sumir að taka upp á því leggja allt sitt félagslíf á hillunna til lengri eða skemmri tíma, og taka að sér tvær, jafnvel þrjár vinnur til að ná endum saman. Það ætlar enginn að segja mér að maður sem hefur tvær vinnur eða fleiri, sé latur. En ef einstaklingurinn er ekki svo heppinn að geta fengið aðra vinnu, þá er kannski tekið uppá áður títtnefndum örþrifaráðum; selja vímuefni, selja sig eða selja börnin sín. Þar með er einstaklingurinn búinn að gefa uppá bátinn þau siðferðismörk sem samfélagið leggur, og orðinn glæpamaður.

Bankakerfin stuðla, beint eða óbeint, að aukinni fátækt
Með því að lána hægri og vinstri, hækka yfirdráttaheimild, kreditkortavæða almenning, og styðja of háa vexti á öllum þessum platpeningum, er beinlínist verið að hvetja til þess að Íslendingar geti ekki lifað öðruvísi hér á landi en að vera skuldum vafið, sem við flest öll erum. Fyrirtæki fara á hausinn sökum þess, einstaklingar verða gjaldþrota sökum þess og fjölskyldur geta lent á götunni sökum þess.
Það er rúmlega 8000 manns sem er atvinnulaust, og þessi tala segjir okkur hversu mikið af vinnuhæfu fólki er atvinnulaust, þar með er ekki sagt hvort að þessir einstaklingar eiga fjölskyldu eða ekki. Það má þá meta það svo að allavega 12000-14000 einstaklingar, ungir sem aldnir, sem þurfa að lifa á lágmarkstekjum. Reikna má með því að sumir þessarra einstaklinga er skuldum vafið, einsog fyrirtækin sem einhver hópur af þessum unnu eitt sinn hjá. Ég skal vera sanngjarn og telja sem svo að helmingur, eða 4000, af þessu vinnuhæfa fólki er skuldugt, aftur skal ég vera sanngjarn og telja sem svo að helmingurinn af þessu skulduga fólki nær ekki að skrimta til að ná endum saman – það skilur eftir sig 2000 manns sem, af öllum líkindum er fátækt, og ég þori að fullyrða að þetta er gróflega vanmetið hjá mér.

Öryrkjar
Ég er ekki búinn að telja upp öryrkja, óvinnuhæfa og/eða geðsjúka einstaklinga sem geta ekki unnið útaf líkamlegum og/eða andlegum kvillum, sem sumir hverjir fá örorkubætur sem nema rúmlega 70.000 til 80.000 þúsund krónur – fer eftir því hversu mikill öryrki einstaklingurinn er. Þetta eru einstaklingar sem af öllum líkindum þurfa að borga lyfjakostnað, sjúkrahúsreikninga og leigu. Svar við fyrirspurn Katrínar Fjeldsted, fyrrv. Alþingiskonu, um fjölda öryrkja í mars árið 2001 var eftirfarandi:
“Í mars sl. voru 9.467 öryrkjar með 75% örorku sem fengu greiddar lífeyrisbætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Síðan voru 955 öryrkjar með 50--65% örorku sem fengu greiddan örorkustyrk á sama tíma. 396 voru á lífeyri vegna endurhæfingar.”
-Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrv. heilbrigðisráðherra


Niðurlag
Það má áætla að hér á landi eru á bilinu 2000 – 15.000 einstaklinga sem ekki ná endum saman, eru gjaldþrota, geta ekki lifað eðlilegu lífi. Það er mikill munur á 2000 og 15.000 – en það sem enginn almennileg viðmiðun er enginn leið til að hafa það á hreinu. Davíð gæti haft rétt fyrir sér, en ég stórefast um það.
Halldór Ásgrímsson, sjálftitlaður mannvinur, telur að hann geti bjargað stórum hluta þriðja heimsins með fjárframlögum sem nema 300 milljónir króna, ég fullyrði að það sé bull. Vandamál þriðja heimsins eru miklu meira en þessi dropi í hafið getur ráðið við.
Æðstu ráðamenn þessa lands neita að viðurkenna fátækt, þrátt fyrir sannanir og kannanir. Þessir aðilar eru ekki í tengslum við almenning eða raunveruleika. Þessir menn eru ekki starfi sínu hæfir.
Þegar litið er á atburði sem gerast erlendis er oft litið framhjá þeim vandamálum sem fylgir “lausninni” – peningar í sumum tilfellum bjarga ekki öllu, en það getur bjargað sumu. Að dæla peningum í þriðja heiminum bjargar engu, það þarf miklu meira til. En að nota þessa peninga hér á Íslandi til að koma á fót öryggisneti til að hindra fátækt, dæla fjármagni í velferðakerfið og reyna bjarga þessu fátæka fólki frá algjörri glötun á götunni. Ef við huguðum að þeim vandamálum sem eru hér heimafyrir og einbeittum okkur að því að tjasla uppá kerfið þannig að komandi kynslóðir þurfa ekki að lenda í þeim vítahring sem skapað hefur verið af efnahagskerfinu, þá fyrst getum við hugað að því að bjarga heiminum, ekki fyrr.
Það er margt sem leiðir til fátæktar, og leti er ekki eitt af því. Aðalrótin að þessu vandamáli er græðgi. Græðgi er orsök fátæktar!

Engin ummæli: