föstudagur, mars 12, 2004

Hér er heimildaritgerð um Kvísker sem ég skrifaði fyrir ÍSL203, fyrir þá sem hafa gaman af:
Kvísker: Náttúra og Byggð
• Inngangur
• Um Kvísker og Öræfasveit
• Náttúran á Kvísker
• Byggð og búskapur á Kvísker
• Fjölskylda Björns Pálssonar
• Lokaorð
• Heimildaskrá

Inngangur
Kvísker hefur oft verið ofarlega á baugi hjá mér. Ég man eftir mér þar er ég var 11 ára í berjamó með fjölskyldunni um hásumar, man að veðrið var æðislegt og náttúran í kring gullfalleg, ég man eftir rafmagnsbílnum úr trefjaplasti, man eftir þeim tækjum og tólum sem þeir notuðu til að mæla mismunandi veðráttu og rigningu. En ég hef ekki farið til Kvískerja síðan, og það eru liðin næstum 13 ár.
Kvísker eru nú aðallega þekkt fyrir fræðimennsku Kvískerja-bræðra, þá Sigurð, Helga og Hálfdán Björnsyni, en þó hafa margir spakir menn búið á Kvískerjum á undan þeim.
Ég byrjaði, því miður, allseint að afla mér heimilda og upplýsinga um Kvísker, og það hefði geta komið sér til að góðs að fara þangað og eflaust hefði maður getir drukkið úr viskubrunni þeirra bræðra. Ég hafði ætlað mér að fara til Kvískerja, en sökum anna og annarra ófyrirsjáanlega atburða hefur mér ekki tekist það ætlunarverk. En ég mun láta verða af því í náinni framtíð.
Þessi ritgerð er byggð á þeim heimildum sem ég fann um Kvísker og reyni ég að setja þetta fram á skipulegan hátt.

Um Kvísker og Öræfasveit
Kvísker er austasti bærinn í Öræfum og er afar tignarlegur og fallegur staður. Bærinn stendur undir Bæjarskeri, og við Bæjarsker er stöðuvatn er heitir Stöðuvatn. Norður af Kvískerjum má sjá Breiðamerkurfjall og vesturmeginn má sjá Hvannadalshnúk, en Öræfajökull gnæfir yfir býlið í öllu sínu veldi. Austan við Kvísker er Breiðamerkur-sandur, en næsti bær er Hnappavellir er liggur u.þ.b 13 km vestan við Kvísker, en næsti bær til austurs eru Reynivellir og 28 km er á milli.
Öræfasveit hefur gjarnan verið kallað “Sveitin milli sanda”, því sveitin er aðskilin af Skeiðarársandi og Breiðamerkursandi. Byggðin í Öræfum hefur átt erfitt uppdráttar sökum náttúruhamfara, t.a.m. jökulhlaup og þó sérstaklega eldgos úr Öræfajökli, sem lagði byggðina í eyði árið 1362.
En mannsandinn er þrjóskur, og byrjað var að byggja í Öræfunum aftur upp undir 16. öld, og hefur byggð haldist þarna meira og minna síðan. Á Kvískerjum hefur byggð haldist nær órofin í 180 ár, en íbúar hafa flæmst þaðan sökum náttúruaðstæðna, og var skilgreint sem eyðibýli í byrjun og lok 18. aldar, en margar fjölskyldur hafa búið þar síðan. Meira um það seinna.

Náttúran á Kvískerjum
Náttúruaðstæður hafa gjörbreyst á Kvískerjum á undanförnum 100 árum. Má það rekja til hopandi skriðjökla, sem olli því að áin Hrútá færðist í betri farveg, en hafði gjarnan flæmst yfir akra og tún, og eyðilagt uppskerur og, einsog áður segir, flæmt burt íbúa Kvískers öldum áður til nærliggjandi sveita.
Á Kvískerjum er gróður- og dýralíf frekar fjölbreytt. Af gróðrinum má nefna að þar finnst plantan glitrós, og er talið að þetta sé eini staðurinn á landinu þar sem sú planta vex og er nú friðlýst svæði. Einnig má nefna sjöstjörnu, klettaburkna, svartburkna, auk þess hafa Kvískerjabræður tekið þátt í að finna og skrá hátt uppí 300 aðrar plöntur og tré, meðtalið 12 undafífla.
Á Kvískerjalandi má finna þrjú mikil og margbrotin gljúfur er heita Vattárgljúfur, Hellisgil og Múlagljúfur. Vestast er Vattárgljúfur og er allmikið af fossum. Gljúfur þetta er einfaldlega nefnt Gljúfur hjá sveitungum. Það þrengist og dýpkast þegar innan dregur og er sá staður nefndur Þrengsli. Vestan við Gljúfur er Vatnafjallamosar og Vatnafjallaegg er liggur að Kvíárjökli, þar er mikið af líparíti, er Sveinn Pálsson minntist á að hafa fundið í ferðasögu sinni:
“Svört hrafntinna, en ólík hinni venjulegu í því, að hún virðist vera alsett litlum örðum í sárið og neistar mjög við stál. […] steinar af þessu tagi finnast auk þess á víð og dreif í fjöllunum kringum Kvísker”
-Ferðasaga Sveins Pálsonar, blaðsíða 279

Smá spotta frá Kvískerjum er Hellisgil, þröngt er við mynnið en breikkar síðan þegar lengra er komið, og er fagurt þar um að líta. Foss lokar leiðinni inn eftir gilinu, en við Þrengslin má greina Stafn og Urðargil. Morsurák er sunnan megin við gilið, er þar hellir sem nafnið Hellisgil er komið af. Austan við brún gilsins eru Hnausar, en vestan við er fjallið Hnúta.
Norðvestur af Kvískerjum er Múlagljúfur, fellur þar er foss í ánni Múlakvísl, sem steypist úr Rótarfjallsgili og sameinast Hrútá. Sunnan við Múlagljúfur er hægt að sjá fornar jökulöldur er kallast Bringur og einnig skógivaxnar torfur og blágrýtismelar.
Í kringum Kvísker er margt hægt að sjá og skoða, og er þessi bær algjör paradís fyrir bæði upprennandi jafnt sem lærða náttúrufræðinga, grasafræðinga og líffræðinga, sem vilja læra meira um líf, gróður og náttúru Íslands.
Sveinn Pálsson, læknir, sem ég minntist aðeins á, ferðaðist mikið um landið. Hann tjaldaði á túninu á Kvískerjum 9. og 10. ágúst, 1793 og lagði svo af stað upp Öræfajökul til að staðfesta hugmynd sína um að hægt væri að komast yfir jökulinn frá Kvískerjum. En Sveinn gekk Öræfajökull norður á miðjan Vatnajökull og í þessarri ferð varð Sveini ljóst um eðli skriðjöklana. Þó svo að fræðimennskan á Kvískerjum hafi ekki verið fræg fyrr en á 20. öld, þá á hún sér nokkuð langa forsögu.

Byggð og búskapur á Kvískerjum
Það eru líkur á því að byggð hafi verið á sömu jörð og Kvísker stendur nú á þriðju öld eftir kristsburð, en er það óstaðfest. Jarðbergskvikur sem grafnar voru upp á vegum Þjóðminjasafnsins segja að það sé hugsanlegt. Annars er staðfest að byggð hafi verið á Kvískerjum 1343, en í fyrstu ritaðu heimildinni um Kvísker er að finna í öðru bindi Fornbréfasafns frá sama ári, en þar segir “ Í Kvískerja land skóg í milli Kambskarðs og Vattarár slíkur sem hann er.” En það líður langur tími þartil ritað er um jörðina aftur.
Árið 1522 er þess getið að Teitur einn Þorleifsson eignast staðinn, en hann er ei lengi í hans eigu því hann selur jörðina til Skálholtsstól árið 1525 þann 26. júlí, en hefur á þessum þremur árum gert jörðina vænlegri til gróðurs og akuryrkju. Ekki er jörðin lengi í eigu Skáltholtstóls, því sama ár selur Ögmundur biskup Kvísker, ásamt Hofi og Breiðármörk, til Ásgríms Ásgrímssonar, með því skilyrði að Ögmundur eignast þau tré sem eru hærri en fjórir metrar.
Það er sagt síðan að árið 1661 var jörðin í eigu Brynjólfs Sveinssonar biskup. En ábúandinn var Guðmundur Eggertson, og hafði búið þarna í tæp 17 ár. Húsin þarna er víst eitthvað lítil, en það sjást nú í dag einhverjar tætlur af þeim mannvirkjum sem voru þarna.
Í byrjun 18. aldar, 1701, býr Stefán Sigurðarsson á Kvískerjum, og er lítið vitað um búskap en meira um ættina. Hann dó nokkrum árum seinna, en ekkjan hans bjó þarna áfram. Niðjar Stefáns halda áfram búskap þarna í einhvern tíma. Sonarsonur hans, Þorsteinn Sigurðarsson að nafni, fluttist frá Hnappavöllum og settist að Kvískerjum 1777, eftir að hafa keypt alla jörðina. Hann giftist ekkju einni, er átti tvo drengi fyrir, en hún dó fljótlega sökum barnsfara. Þorsteinn giftist aftur, heimasætu frá Kálfafelli að nafni Guðrún Vigfúsdóttir, þau eignuðust sjö börn. Þau eignuðust Svínafell og fluttust þangað 1791.
Kvísker fellur í eyði. Sveini Pálsson finnst það miður hvað jörðin er ekki nýtt, því þegar hann kemur þarna að í leiðangri sínum, ritar hann í bókina sína þetta:
“ […] og einnig kringum Kvísker voru þau mestu kynstur af krækiberjum, sem ég hef séð til þessa. Kvísker eru nýlega komin í eyði, en gætu vel framfleytt lítilli fjölskyldu. Þar er jafnvel dálítið skógarkjarr til eldiviðar, en ekki á öðrum bæjum í Öræfum nema á Skaftafelli.”
-Ferðasaga Sveins Pálssonar, blaðsíða 278

En árið 1796 er nýtt fólk komið í Kvísker, Þorsteinn Þórðarson frá Hofi og kona hans Guðrún, en þau fengu jörðina leigða hjá Þorsteini Sigurðssyni, en Guðrún var gift Ófeigi, bróðir Þorsteins. En þau bjuggu þarna til 1802.
Sonur Þorsteins Sigurðarsonar, Vigfús, flytur í bæinn sama ár, ásamt konu sinni Vilborgu Árnadóttur frá Svínafelli. Þau búa þarna í eitt ár.
Hjón frá Lækjarhúsum í Hofi, þau Jón Eiríksson og Ingibjörg Þorvarðardóttir búa þarna frá 1805-1811. Árið 1812 taka við ung hjón með eitt barn Eiríkur Bjarnason og Guðný Einarsóttir, en voru þarna mjög stutt, því Eiríkur féll niður Ingólfshöfða sama ár. Páll Jónsson og Rannveig Þorláksdóttir flytja inn þetta ár og eru þar til 1817. Árið 1818 tekur Bjarni Þorsteinssonar við búinu og býr þar til dauðadags 1848. Hann giftist Krístínu sem bjó þarna áfram með börnunum, en árið 1860 gekk mjög mannskæð sótt yfir sveitina og dó Kristín og börnin hennar þrjú úr smitandi lungnabólgu.
Vorið 1863 fluttu inn hjón, Sigurður Ingimundarsson og Guðrún Pálsdóttir frá Hnappavöllum, með fimm börn; Helga, Páll, Guðrún eldri, Guðrún yngri, og Guðný. Guðrún Bjarnardóttir, dóttir hennar Kristín og Kjartan Þorláksson, 19 ára uppeldi-sonur hennar, voru á Kvískerjum fyrir. 1870 andaðist Guðrún Bjarnadóttir, og ánafnaði hún jörðina til Sigurðar.
Sigurður þessi var nokkuð liðtækur í sýslunni, og afrek hans voru þó nokkur sem gagnaðist sýslunni mjög. Hann var t.a.m sendur, ásamt einum öðrum, að semja við Johnsen kaupmann um að koma á Papós, sem varð til mikilla hagsbóta. Alls-herjar-landsfundur var haldinn á Þingvöllum vorið 1873, og áttu tveir menn að koma úr hverri sýslu. Sigurður var kosinn ásamt Jóni Jónsyni frá Hólum. Samkvæmt fundar-gerð frá fundinum, var Sigurður nokkuð óhræddur að taka til máls og segja það sem honum fannst ábótavant.
Hann ferðaðist til Rangárvalla, eftir stutta viðkomu í Reykjavík, þar sem hann skoðaði kornmyllu sem knúinn var af bæjarlæknum, einnig skoðaði hann vatnsveitur á engjum. Seinna þegar hann kom aftur til Kvískerja, byggði hann myllu eftir fyrir-myndinni sem hann sá á Rangárvöllum. Þetta var hið mesta furðuverk, en það leið ekki á löngu fyrr en vatnskúnar myllur voru komnar á hvern bæ í sýslunni.
Einnig var hann ötull baráttumaður fyrir stofnun félagskaps sveitunga sem væri til hagsbóta við búskapinn. Það dróst til ársins 1883 þegar Búnaðarfélag Öræfinga var stofnað. Þó að Sigurður hafði unnið mest að þessu félagi, þá var sr. Sveinn Eiríksson ráðin sem fyrsti formaður.
Sigurður var valin sem sýslunefndsmaður, og síðan varð hann hreppstjóri frá 1881 til dauðdags 5. nóv 1891.
Guðrún eldri, dóttir Sigurðar, giftist Páli Jónssyni frá Svínafelli, skömmu fyrir dauða Guðrúnar konu Sigurðar 1877, en hún lést 57 ára gömul.
Frá 1891 til 1900 bjuggu þar nokkrar mismundandi fjölskyldur og hver bjó þar í skamman tíma. Árið 1901 flutti að Kvískerjum ungur maður, 22 ára gamall, Björn Pálsson að nafni, sonur Guðrúnar eldri Sigurðardóttur frá Kvískerjum og Páli Jónssyni frá Svínafelli. Með honum voru systur hans, Guðrún, Ljótunn og Sigríður, sem allar voru yngri en hann.

Fjölskylda Björns Pálssonar
Björn og Þrúður giftust 1905 og bjuggu þau á Kvískerjum til dauðadags. Þau eignuðust níu börn, er fæddust á árunum 1906-1927 og heita Flosi, Ari, Guðrún eldri, Guðrún yngri, Páll, Sigurður, Ingimundur, Helgi og Hálfdan. Á lífi eru Sigurður, Helgi og Hálfdán og hafa þeir búið á Kvískerjum alla sína ævi.
Björn, eins og afi hans Sigurður, var mjög liðtækur í sveitinni. Það kom mjög oft í hlut Kvískerjabænda að fylgja mönnum austur fyrir Jökulsá. Dálítill styrkur var gefinn sökum þess, vegna póstferða Eyjólfs á Reynivöllum. Birni var falið að fara með póstinn líka ef Jökulsá var ekki fær. Tvisvar kom það fyrir í tíð Björns að skip strandaði rétt hjá Kvískerjum, og má segja að það var mikið happ fyrir sjómennina að byggð var á Kvískerjum.
Björn fékk magasár um 1915, var ráðlagt að hann þyrfti að fara í uppskurð til Reykjavíkur, hann fór seinnipart sumars sama ár. Þar var hann rannsakaður, og talið var að lækna mætti magasárið með meðulum, og þurfti því ekki að fara í uppskurð. Á Suðurlandi sá hann hvernig kerrur voru notaðar, og hugsaði sér að hægt væri að nota þær líka í Öræfasveitinni. Er hann kom aftur heim til Kvískerja, fékk hann öxul, kerruhjól og aktygju, og smíðaði heygrind á hjólin, faðir hans hafði keypt kassakerru 1905, og Björn tók þá kerru og útfærði eftir sínum hentugleika. Þar var hann kominn með tvær heygrindur, sem hann notaði til að flytja hey. Óneitanlega vakti þetta mikla athygli hjá sveitungum, er komu til að skoða þessi furðuverk. Björn bætti við sig þremur kerrum í viðbót, og ekki leið á löngu þartil að allir bændur í Öræfunum voru komnir með kerrur.
Björn var nokkuð mörg ár í sveitastjórn, og var einnig oddviti frá 1907 til 1910, en baðst undan sökum langra vegalengdar milli annarra hreppsnefndarmanna. Björn var ansi fróður maður, hafði t.a.m. unnið aðeins hjá sr Ólafi Magnússyni, sem kenndi honum á kvöldin reikning, réttritun og dönsku, sem kom sér mun betur en launin. Hann tók þátt í Ungmennafélag, sem stofnað var 1911, og hann hjálpaði við að safna fjármunum til að byggja hús undir félagið. Hann skráði sig og sína tvo syni í lestrarfélag þar í sveit.
Rafstöð var sett upp á Kvískerjum 1927, sem var nægilega öflug fyrir þennan litla bæ. Rafstöðin var endurbætt 1955 af Kvískerjabræðrum. 1942 var keyptur vörubíll, og 4 árum seinna var keyptur herbíll með drif á öllum hjólum. Má með sanni segja að þessi fjölskylda hafi verið afar tæknilega sinnuð.
Vorið 1953 gekk slæm inflúensa um sveitina, og Björn andaðist 14 maí. Þrúður bjó áfram með börnunum sínum, þar til hún andaðist 5. febrúar 1968.

Kvísker er án efa þekktust fyrir vísindastarf Kvískerjabræðra. Eins og áður segir, eru þrjú af þeim níu systkinum enn á lífi; Sigurður, Helgi og Hálfdan. Þeir eru ötulir náttúrufræðingar, líffræðingar, sagnfræðingar, jöklafræðingar, lífræðingar, í tveimur orðum: Sjálfmenntaðir “Háfræðingar”
Þeir hafa skrifað mikið af greinum sem birst hafa í ýmsum vísinda- og fræðiblöðum bæði hérlendis og erlendis, þeir hafa hjálpað fjöldanum öllum af innlendum og erlendum vísindamönnum að rata um Öræfin, fjöllinn og jökulinn. Þeir hafa rannsakað og skrásett fjöldann allan af plöntum, fuglum, skordýrum og öðrum kvikindum, innlendum eða sem hafa flæmst hingað frá fjarlægum löndum sökum óveðurs.
Hálfdan er allþekktur náttúru- og líffræðingur, hann á yfir 200 flugutegundir af 300 tegundum sem til eru á landinu, 160 af 180 bjöllutegundum og allar fiðrildategundir nema eina af þeim 82 sem til eru. Hann hefur hjálpað til við að finna og skrásetja þær 343 fuglategundir sem til eru á landinu, og hefur komið sér upp ágætis skógarjaðri við Kvísker til að “veiða” fuglana. Þeir eru allir bræðurnir mjög fróðir, hver á sínu sviði, og frægir eru þeir fyrir framlag þeirra til náttúrfræði fyrst og fremst, en þó er dæmi um frægðarsögu sem tengist vísindum á engan hátt.
Sigurður varð fyrst allþekktur árið 1936. En síðla dags þann 7. nóvember, voru hann og Gunnar Þorsteinson frá Hofi að leita að kindum á fjallshlíð Breiðamerkurfjall, en urðu fyrir því óhappi að snjóflóð féll á þá. Gunnar kastaðist frá, og lenti ekki undir, en Sigurður hrapaði niður hlíðina og lenti alla leið niður undir jökulröndina. Gunnar leitaði að Sigurði, en án árangurs. Hann fór til Kvískerja til að fá hjálp. Slysstaðurinn var 3-4 tíma gangur frá bænum og þegar að slysstaðnum var komið, var kominn myrkur og þurfti þá að bíða með leitina til morguns. Það töldu flestir að Sigurður hefði ekki komist lífs af.
En að morgni var leitinni haldið áfram , en grípum aðeins í það sem Sigurður sjálfur sagði í bók Ómars Ragnarsonar "Fólk og firnindi - stiklað á skaftinu":
“Ég var alltaf að synga, söng mest sálma en ýmis góð kvæði flutu þó með. Ég bjóst við því að klukkan myndi vera tíu til ellefu og var að syngja "Lofið vor drottin". Ég var einmitt að hugsa um að nú myndu leitarmennirnir vera að koma er ég heyrði nafn mitt verað en heyrði þó ekki svo greinilega að ég væri viss um þða. Rétt á eftir heyrði ég að kallað var sterkum rómi: "Siggi!" Ég þekkti að það var Palli bróðir minn sem kallaði og ég kallaði strax: "Já!", "Þú ert þá lifandi," kallaði Palli. "Já og meira að segja ómeiddur" svaraði ég”
- Fólk og firnindi – Stiklað á skaftinu, blaðsíða 222

En hann fannst, sem betur fer, eftir að hafa verið fastur í 28 metra djúpri gjá inni undir jöklinum í nær sólarhring.
Þeir bræðurnir hafa ánafnað Háskóla Íslands hluta í Kvískerjalandi er þeir falla frá, og umræður hafa verið að koma þarna upp jöklasetri í einhverri óskilgreindri framtíð. Þeir nota ennþá tímann til rannsóknastarfa og athugana, þó svo þeir séu komnir ára sinna.

Lokaorð
Falleg og heillandi náttúra, löng og merkileg saga, ásamt framlagi Kvískerja til tækniframfara í Öræfum, Íslenskra vísinda og auknum áhuga á náttúru landsins gerir Kvísker að einum merkilegasta stað á landinu, vonast höfundur að þessi staður mun eigi gleymast í framtíðini, og vona að það rætist úr þessu jökla- og fræðisetri sem Háskólinn hefur lofað.
Ég hef ákveðið að fara drífa mig og skoða staðinn áður en árið er liðið og vona að mínar minningar frá æsku hafa ekki logið að mér um hina stórbrotnu náttúrufegurð sem ég man eftir.
Guðný Hafdís Svavarsdóttir, móðir mín, bókasafnsfræðingur og mikill spekingur, fór yfir og prófarkalas þessa ritgerð.

Takk fyrir.

Heimildaskrá
Kvískerjabók. 1998 Ritstjóri Gísli Sverrir Árnason. Styrktarsjóður Menningarsjóðs. Sýslusafn Austur-Skaftafellssýslu, Höfn.
Ferðabók Sveins Pálssonar (rituð 1791-1797). 1965 Þýðing og ritstjórn Jón Eyþórsson, Pálma Hannessoni og Steindór Steindórsson. Snælandsútgáfan, Reykjavík.
Ómar Ragnarsson. 1994. Fólk og Firnindi: Stiklað á Skaftinu. Fróði, Reykjavík.
Hjörleifur Guttormsson. 1993. Árbók 1993. Við rætur Vatnajökuls. Byggðir, fjöll og skriðjöklar. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.

Engin ummæli: