laugardagur, júlí 24, 2004

Lestur undanfarnar vikur 
 
Akira Katsuhiro Otomo, fyrsta útgáfa 1982, ensk útgáfa 1986 - 6 bindi.
Bað mömmu mína, bókasafnsvörðinn, að hafa uppá þessum bókum fyrir mig, hún fann þær hjá bókasafninu á Akranesi. En því miður vantaði eina bók, þannig ég þurfti að bíða í rúmlega tvær vikur þangð til ég fékk þær loks í hendurnar. Biðin var vel þess virði. Eitt orð sem lýsir þessari sögu, orð sem er í senn klisja en samt á vel við : Snilld, ég geng svo langt að segja gargandi, epísk snilld.

Katsuhiro Otomo er japani, og það tók hann nær 10 ár að klára þessa sögu. Útkoman er alveg ótrúleg.

Akira-myndin er ein af mínum uppáhaldsmyndum, teiknimynd sem kom út árið 1988, leikstýrð af Katsuhiro Otomo, höfundinum. Hún toppar nær allar handteiknaðar teiknimyndir gerðar fyrir 1995, en þá var byrjað að nota tölvur til að fullkomna hreyfingarnar. Tónlistinn er einnig í miklu uppáhaldi hjá mér, og það hefur reynst nær ógjörningur að hafa uppá tónlistinni á geisladisk.

Árið 1986 sprakk sprengja af áður óþekktri stærð og styrkleika í miðborg Tókíó, og 9 tímum seinna braust út þriðja heimstyrjöldinn. 

Sagan byrjar 31 ári síðar, í Neó-Tókíó. Mótórhjólagengi á táningsaldri, með söguhetjunni Kaneda í broddi fylkingar, bruna eftir ónotaðri og óupplýstri hraðbraut útúr Neo-Tókíó um koldimma nótt. Þeir koma að endanum á hraðbrautinni, sem eru rústir einar, en fyrir neðan þá er staðurinn þar sem sprengjan sprakk 1986. Þeir snúa við, og fara aftur til borgarinnar. Tetsuo, góður vinur Kaneda, tekur fram úr honum. En útúr myrkirinu verður á hans vegi lítil mannvera, og af furðulegum ástæðum springur hjólið hans Tetsuo. Kaneda og hinir komu aðvífandi að slysinu, og Tetsuo liggur á götunni í sárum. Kaneda hleypur að honum, en sér þessa mannveru, sem lítur út einsog lítill strákur, en andlitið er á skjön við vöxtinn. Strákurinn lítur út einsog gamall maður...

...síðan upphefst spennandi atburðarrás, þarsem herinn, ríkistjórnin, byltingarherinn, unglingar, og yfirnáttúrulegar verur blandast inní söguna og úr verður ein besta teiknimyndasaga sem nokkurntímann hefur verið gefinn út.  Teiknimyndasaga sem hafði gífurleg áhrif á þróun teiknimyndasagna, innan og utan Japans.

Islam : Saga pólitískra trúarbragða eftir Jón Orm Hallgrímsson, gefin út 1991

Einsog nafnið bendir til, þá fjallar þetta litla rit um Islam, upphaf þess og áhrif. Afar fróðleg bók, skrifað á hlutlægan hátt, og upphefur enga sleggjudóma um Miðausturlönd. Í þessarri bók er rakin saga Múhaðmeðs, muninn á súnní og shía-múslímum, áhrif Breta og Bandaríkjamanna á þessi lönd, hættuástand sem skapaðist af stofnun Ísraels o.fl.

En ég ætla mér að fræðast örlítið meira um þessa trú og þessi lönd og hef þar af leiðandi byrjað að lesa Kóraninn, sem er afar tormelt bók.