föstudagur, september 29, 2006

Skilgreining: Veruleikafirring


Vonandi verður þessi maður ríkisstjórninni og lýðræðinu að falli.
Glæpamaður, dusilmenni, forhertur fordómapúki, fábjáni og óforskammfeilinn framapotaviðbjóður.

fimmtudagur, september 28, 2006

Vel á minnst...

... þeir sem hafa mikinn áhuga á skeggvöxt athugið:

Ég hef rakað af mér ryðgaða víradraslið sem var byrjað að stingast í nef mér og bringu og valda óþarfa óþægindum. Í kjölfarið komist að þeirri niðurstöðu að mikið skegg hæfir eingöngu gamalmönnum, sækópötum og blindum konum. Hef þarmeð rofið þann eið er ég setti í lok sumarsins um að raka ei af mér skeggið, sem var þá orðið tölvuert. Ég bara hef hvorki þolinmæði í það að safna moðerfokking skeggi í heilt fokking ár og auk þess kom þetta ekki sómasamlega út. Þetta var orðið ljótt og asnalegt. Hvorteðer, ég er miklu sætari skegglaus ellegar með takmarkaðan skeggvöxt.

Sönnunargagnið er ekki astralterugubb (úff! Slappur þessi!) en sjáið þetta:


Huggulegur, ha? Ég skora þann mann á hólm að kalla mig skeggsvikahrapp og dusilmenni sem ekki sér hina óumdeilanlegu fegurð á þessari vel teknu sjálfsmynd.

(og ekki sakar að hafa þetta gullfallega barn þarna í bakgrunninum til að vega á móti fegurðinni minni og guli liturinn lýsir upp lífið og tilveruna sem gerir mig enn fallegri og barnið líka, auk þess glittir í Leviathan (með Mastodon)-bolinn minn)

Þetta var hin árlega skylduegófærsla, njótið og niðurhalið myndinni af mér og finnið tíma til að fróa ykkur yfir fegurðinni.

Tvennt og hugsanlega meira

Hef sagt starfi mínu lausu á hjúkrunarheimilinu vegna tveggja ástæðna:
  1. Fáar vaktir og langt á milli sem skilar sér í minni launum
  2. Bauðst skárri vinna og betri kjör sem skilar sér í meiri launum
Mun hefja störf hjá MarTölvunni (sem er auk þess umboðsaðili Símans á Höfn) við uppsetningar á raftækjum o.fl. Lýst ansi vel á djobbið og hlakka til að byrja að fullu. Þarf samt að klára þær vaktir sem eftir eru.

Held djobbinu á Dagþjónustunni, málefni fatlaðra, um helgar og aukavaktir ef þess krefst, þar til annað kemur í ljós.

Verð alltaf fallegri og fallegri með hverjum degi sem líður.

miðvikudagur, september 27, 2006

Eitt og annað

Litli drengurinn bara orðinn 23 ára gamall. Og þykist vera orðinn gamall! Sei, sei, ég, sem er að ganga á níræðu, það er gamalt! En uððitað óska ég spjátrungnum allra heilla og vona að hann njóti dagsins. Og bjórinn, að sjálfsögðu.

Þess má til gamans geta að ég er hugsanlega bara búinn að fá nýja vinnu. Stefni á að segja upp í annarri hvorri aukavinnunni sem ég er í.

mánudagur, september 25, 2006

27 ár!

Og hvað hef ég gert?

Ég er allavega ekki búinn að gifta mig, ég er ekki búinn að eignast börn, ég á ekki bíl, íbúð, fyrirtæki eða hund. Að vísu er ég með kreditkort og skuldir.

Til hamingju ÍSLAND!

Og af gefnu tilefni þá mæli ég með:

Eggin - Vefrit um samfélagsmáll.

sunnudagur, september 24, 2006

Leti, framtaksleysi og svona...

Ég velti mér oft uppúr því hvað ég er óhemju latur og framtakslaus. Nenni ekki neinu, geri ekki neitt og hef engann áhuga á að stunda eitthvað annað en að hanga í tölvuleikjum og fletta í gegnum heimasíður. Áður hef ég sagt þetta og ég ítreka enn og aftur : what gives?

Járnskortur? Geðklofi? Búlemía? Eyðni? Eða bara einfaldlega áhuga- og iðjuleysi? Ég tel hið síðasta vera mjög líklegir valkostir og það getur hugsanlega verið járnskortur líka.

En for fuck sake ég þarf að fara hætta þessu og rífa mig upp á rassgatinu og gera eitthvað!
  • Lesa og fara eftir þeim ábendingum sem koma fram í bókinni Becoming a Writer eftir Dorothea Brande.
  • Enn og aftur hætta þessu væli og aumingjaskap.
  • Klára þessa ferðasögu sem ég lofaði.
  • Lesa allar þessar bækur sem bíða eftir að vera lesnar.
En hvað er maður annars að gera þessa dagana? Það ætti nú að vera augljóst öllum þeim sem kunna að lesa að ég er ekki gera mikið þessa dagana. Að vísu er ég að taka þátt í söngvaskemmtun Hornfirska skemmtifélagsins, en að þessu sinni verða tekin rokklög frá ca. 1955-1964; Buddy Holly, Beach Boys, Johnny Cash, Neil Diamond og fleira í þeim dúr. Ótrúlegt hvað útgáfufyrirtæki á þessum tíma dreymdu blauta drauma um raddanir og lélega texta.

Svo var ég að sjá í fréttum að Usama Bin Laden er dáinn. Aftur. Í þriðja eða fjórða sinn. Núna dó hann úr taugaveiki. Áður var það nýrnabilun. Einnig í sprengjuárás. Svo drapst hann líka úr lungnabólgu ef ég man rétt. En auðvitað vilja frönsk yfirvöld ekkert staðfesta þetta endanlega. Um að gera að halda grýlunni á lífi. Hvernig ætli að hann deyji næst?
  1. Krabbameini í ristli
  2. Eyðni
  3. Ein af hjásvæfum hans kæfir hann með kodda
  4. Dettur fram að fjalli
  5. Lendir fyrir bíl
Möguleikarnir eru endalausir. Hann er einsog Elvis.

Elvis Aron Prestley stendur á legsteininum, þetta litla fun-fact hefur gefið Elvisdýrkendum byr undir báða brotna vængi um að þessi fituhlunkur og fíkill sé enn á lífi, því hann hét Elvis Aaron Prestley. Rétt einsog Usama Bin Muhammad Bin Ladin heitir líka Shaykh Usama Bin Ladin, prinsinn, emírinn, Abu Abdallah, Mujahid Shaykh, Hajj og framkvæmdastjórinn. Stundum kallaður Osama Bin Laden.

Usama lifir. Einsog Elvis. Ekki satt?

miðvikudagur, september 13, 2006

Bruni...

Mér dettur í hug Heilögu krossferðirnar þegar ég les þessa umræðu og innlegg lesenda. Þegar heilagar riddarar voru svældir út með því að leggja mikinn bálkvöst í helli er lá undir kastalananum sem innrásaraðilinn frá Evrópu hafði tekið herfangi frá óvininum. Eldurinn varð töluvert meiri en búist var við og hluti af kastalanum hrundi. Afdrif hin háheilögu og prúðu riddarana voru sum hver blóðug.

Stöff of legends.

föstudagur, september 08, 2006

Brauðmylsnur

Flýg til Reykjavíkur núna á eftir klukkan 10:15 í þeim tilgangi einum að fara á Entombed.
Fékk símtal um klukkan níu gærkvöldi:
Kona: Góða kvöldið. Þórður?
Ég: Já.
Kona: Já, Hulda heiti ég og hringi frá Gallup og...
Ég: Nei, heyrðu, ég er búinn að fá alveg nóg af þessu.
Kona: Já, allt í lagi. Afsakið og vertu sæll.
Ég: Bless.
Ef ég fæ eitt símtal í viðbót frá moðerfokking Gallup þá fríka ég út. Þetta var í þriðja eða fjórða sinn á of stuttum tíma sem maður fær fokking símhringingu frá fokking Gallup og örugglega í tíunda sinn sem hringt er í mig á þessu ári. Það er ekki furða að þessar Gallup-kannanir sýna svipaða eða nákvæmlega eins niðurstöðu enda er alltaf verið að hringja í nákvæmlega sama fólkið. Skil ekki þolinmæðina í mér.
Hringdi í bankann og reyndi að rétta úr fjárhag mínum sökum þess að sumarfríið var eingöngu tekið út á Visakorti. Ekki sniðugt.
Stúlka ein sem ég hef verið að dúlla mér með mun fljúga heim til síns heimalands í næstu viku.

fimmtudagur, september 07, 2006

Ferðasaga - I. hluti

Inngangur
VARÚÐ: Tekið skal fram að í sumum tilfellum tek ég mér ljóðrænt leyfi og ýki eða lýg eða jafnvel falsa staðreyndir. Í flestum tilfellum ætti það að vera augljóst lesendum, en í sumum tilfellum ekki. Auk þess skal bent á að stuttu eftir að færslan hefur farið í loftið mun höfundur taka sér bessaleyfi til að lagfæra stafsetningavillur, hugsanlega bæta við sem vantar og snurfusa textann þartil höfundur verður sáttur við útkomuna. Vona að það muni ekki skemmileggja upplifun þeirra sem eiga leið hér hjá. Njótið vel.
Það sem af er af þessu ári hefur verið frábært. Stórkostlegt. Júlí og ágúst hafa verið til fyrirmyndar.
Í júlí-byrjun var Humarhátíðin á Hornafirði og þá fékk ég tvo valinkunna gesti til að dreypa á alkahóli og eilitlum humar yfir eina helgi. Þetta voru þeir frændurnir Vésteinn Valgarðsson og Bessi Eydal Egilsson. Að vísu var nú humarhátíðin sjálf ekki sérstaklega í sviðsljósinu þar sem tímanum var eytt að mestu heima hjá mér, drukkið bjór og Bacardi í sprite með ísmolum er voru týndir af sérstökum ístrjám, er aðeins finnast í hlíðum Everest-fjallsins, af nöktum búddamunkum og sent til mín alla leið frá Nepal og kosta um 6000 kjedl kílóið.
Þessi tiltekna helgi var ein af þónokkrum helgum sem alkahólið mundi væta mínar kverkar og veita mér margar ánægjustundir þó maður man aðeins eftir sumum stundum.
Sú helgi er veitti mér afar mikla ánægju var helgin 14. og 15. júlí á Neskaupstað, en þá var stærsta metalhátíðinn á Íslandi haldið hátíðlega undir nafninu Eistnaflug (eða Balls Flying ef atburðurinn verður alþjóðlegur). Ferðinn byrjaði á Höfn. Ferðast var á grænum Hyundai Pony sem fékk viðurnefnið Græna þruman og ferðafélagi minn var Júlíus Sigfússon, hinn landsþekkti tónlistarmaður. Farið var í Húsasmiðjuna og keypt bónustjaldpakka sem innihélt tjald, tvo svefnpoka og tvær draslfroðudýnur. Þaðan var farið í Essoskálann, sem einnig vill svo heppilega til að inniheldur Vínbúð, svo það var fyllt á bílinn og fylltur bíllinn.
Síðan var keyrt útúr bænum í kringum sex eða sjö, í gegnum Almannaskarðsgöngin, farið yfir Öxi, með viðkomu á Egilstöðum tilað pikka upp Jóhann Inga frá flugvellinum, sem hafði lent klukkan níu eða þarumbil og svo var ferðinni haldið að áfangastað, til Neskaupstaðar. Auðvitað var hlustað á góða tónlist á leiðinni; Britney Spears, Pink, Christina Aguilera, Justin Timberlake og svoleiðis kjellingatónlist. Jú, auk dægurlagapoppsveita einsog Kyuss, Slayer, Sepultura, Damageplan, Fu Manchu, Superjoint Ritual og Pantera.
Tjaldað var á einhverjum fótboltavelli. Eftir þá annasömu athöfn var "laz-e-boy"-tjaldstólarnir dregnir út og settumst vér kumpánarnir niður með bjór í annarri hendi til að hvíla okkur eftir að hafa setið í bíl í næstum fimm tíma. Aðstæður voru metnar og í ljós kom að við þekktum afar fáa á svæðinu. Það kom þó ekki að sök.
Föstudagurinn stóð undir nafninu flöskudagurinn mikli. Ég var ásakaður um að gjöra einn af tveimur gítarleikurunum í Changer, áðurnefndan Jóhann, nær óhæfan í mannlegum samskiptum sökum botnlausa skotgleðigjöf mína á Egilsbúð. Auk þess tókst mér að klára næstum flösku af eplasnafsi og, með dyggri aðstoð ferðafélaga míns Júlíus, að torga kassa af bjór. Einhverjar fabúleringar og furðulegheit áttu sér eflaust stað og hefur maður efalaust ýmist styggt eða skemmt einhverjum furðufuglinum.
Föstudagurinn var, svei mér þá, vel heppnaður, þó ég hafi ekki munað mikið eftir kvöldinu eða aðfaranótt laugardags, þó vaknaði ég sæmilega sæll og glaður og meira segja myndaðist bros á minni vör stuttu eftir uppvakningu og eflaust ennþá vel kenndur klukkan að ganga hádegi á sjálfum hátíðardegi Eistnaflugs.
Dagurinn byrjaði samt hálfbrösulega er vér kumpánarnir ætluðum okkur að fá okkur flatböku í Egilsbúð. Vér keyrðum á Grænu þrumunni áleiðis skemmti- og pitsustaðnum Egilsbúð og örkuðum inn. Við stóðum fyrir framan barinn sem við ályktuðum að hægt væri að panta flatböku frá afgreiðsludömu ellegar -herra ef einhver væri, en enginn var. Er ég leit til hægri sá ég luktar dyr er blaðasnepill var límdur á sem á stóð "Til að panta pitsu farið á næsta bar" og ég yggldi brúnir. Er ég ætlaði að opna þessa hurð þá var hún læst, svo við löbbuðum út og fórum innum aðra inngöngudyr. Þar var okkur leiðbeint að fara aftur sama stað sem við vorum, er við gerðum og biðum. Bakvið barinn gekk hommalegur fituhlunkur sem virti okkur varla viðlits og það viðlit sem maður fékk var "verri en dýr" stuttu síðar gekk ung stúlka framhjá með sama viðmót. Ég og Júlli litum djúp í augu hvors annars og tautuðum "Þetta er absúrd og fáránlegt, förum eitthvað annað" sem við og gerðum.
Ég minntist á annað stað sem við keyrðum framhjá þegar við komum í bæjinn, blá bygging er heitir Hótel Capitano, sem er, nota bene, hótel, bar og restaurant. Auðvitað skunduðum við þangað, gengum inn og veltum aðeins fyrir okkur "hvað næst?" Sú vangavelta var ekki fyrr flogin á braut er ég fann afar, afar kunnuglega lykt. Lykt sem ég hef að öllu jöfnu vanist að finna á aðfangadagskveldi. Moðerfokking hamborgarahryggur. "Vinsamlegast farið úr skónum áður en þið gangið inn" stóð á skilti við dyr sem var augljóslega matsalurinn og ég dreif mig auðvitað úr skónum og skaust inn og sá í horninu borð sem búið var að leggja á hamborgahrygg, brúnaðar kartöflur, brún sósa, rauðkál, baunir og salat, plús diska og hnífapör. Ég skellti kræsingum á disk og settist niður og borðaði moðerfokking hamborgarahrygg og það verður að segjast að betri moðerfokking þvinkumat hef ég sjaldan moðerfokking borðað. Og þó, ég var í raun ekkert þunnur, ég var í raun frekar fullur. Það byrjaði samt að renna af mér í kringum fjögur, en það var ráðið bót úr því tiltekna vandamáli með bjórþambi.
Eftir matinn á Hótel Capitano var farið í menningarferð um Neskaupsstað og reynt að finna rúnthringinn. Það sem maður hélt í fyrstu að væri lítill bær með einni langri götu er í raun lítill bær með einni langri götu og nokkrum öðrum minni götum og eftir smá þref fannst hinn goðsagnakenndi rúnthringur og rúntað var tvisvar eða þrisvar um bæinn.
Við pikkuðum upp Forsetann, sem þurfti ólmur að komast á tjaldsvæðið og vitaskuld keyrðum honum á tjaldsvæðið, því við þurftum einnig ólmir að komast þangað. Þar var aðeins athafnað sig, skellt bjór í bílinn og haldið aftur í Egilsbúð. Lögðum bílnum við bryggjuna og stigið var út. Mér var litið til norðurs og hvern sá maður þar? Engann annann en kjeppann Ara "Flippari" Eydal Egilsson að rölta með Elvari "höldum partíinu gangandi" Flefleson. Þannig að þarna bættist við enn einn metalhausinn við þá ca. 100 sem fyrir voru.
Hátíðin byrjaði klukkan eitt eftir hádegi og vitaskuld missti maður af nokkrum böndum. En, og ég vona að minnið sé ekki að bregðast, þá sá ég og heyrði í Hostile, Nevolution, Changer, Sólstafir, Severed Crotch, Atrum og Denver. Að vísu var maður með soddan athyglisbrest með ofvirkni að ég hélt mér ekki út heilt sett nema hjá Changer og Severed Crotch, en bæði böndin voru alveg stórkostleg.
Í sumum tilfellum heyrði maður ekki nema eitt eða rúmlega hálft lag og aldrei var nöldrið langt í burtu, sérstaklega í sambandi við hljómsveitina Hostile, en hljómsveitarmeðlimir voru greinilega búnir að skemmta sér ansi vel og voru sumir stútfullir af einkahúmor að mér leiddist settið þeirra. Ef þeir hefðu skrúfað niður í flippinu og einbeitt sér að því að spila tónlist þá hefðu þeir efalaust verið betri og skemmtilegri. Þetta var í annað sinn sem maður bar þessa kjeppa augum. Fyrra skiptið var á Grand Rokk og það var ömurlegt, þó aðallega útaf einni ástæðu: flippi. Einhver vinur þeirra, sem e.t.v. er með öllu hæfileikalaus nema að vera fyndinn, hefur heflaust tuðað í þeim hvort hann "mætti ekki ðífa upp ðtemminguna ðtrákar með því að veða með Djeiðon-grímu, það væði geggjað mar og ðeyna fá alla til að ðtanda upp og ðlamma, híhíhí!" Sem gerði sig engann veginn og eiginlega eyðilagði stemminguna að mínu leiti og fjölda annarra og það nákvæmlega sama var uppá teningnum á Eistnaflugi.
Það má vera að þessi hljómsveit eigi einhverja "hardcore" og hliðholla aðdáendur, en ég er ekki einn af þeim og ég efast um að þeir hafi aflað sér einhverjar sérstakra vinsælda, og tel nú litlar líkur á að nýjir áhangendur bætast við ef tilgangurinn er eingöngu að haga sér einsog fífl. Það má ekki misskilja mig sem svo að ég hafi engann húmor og þoli ekki flipp, þvert á móti, málið er bara að einkahúmor og fyllerísflipp skilar sér ekki útí sal einsog hann skilar sér á milli vina. Fökking Hostile. Tónlistinn hjá þeim var þó ágæt, trommarinn og aðalgítarleikarinn voru til fyrirmyndar.
Margoft hefur mér boðist tækifæri til að sjá Severed Crotch performa en eiginlega alltaf farið á mis við það. En þarna var alveg hreint kjörið tækifæri, frábærar aðstæður, til að sjá og heyra í "Klobbaranum" og stóðust þeir undir öllum þessum væntingum? Voru sögusagnirnar sannar? Eða var fólk bara búið að ljúga að mér? Já, já og nei. Severed Crotch voru alveg magnaðir. Skildist mér að söngvarinn, Ingi, hafi verið hálfdauður af áfengisdrykkju inní hljómsveitarkompunni en þegar honum var hent inná svið rann snögglega af honum og var afspyrnu líflegur með mækinn. Stórkostlegt.
Eftirminnilegasta hljómsveitin var án efa Changer, sem voru næstsíðastir á svið á undan Momentum. Þeir tóku alla smáskífuna, Breed the Lies, með þvílíku offorsi og trukki að það ætlaði allt um koll að keyra... máske overstatement, en ég var afar hrifinn. Ansi flinkir og færir hljóðfæraleikarar, góður söngvari og fín bakrödd þarna líka (sem einnig mundar bassann). Þessi Kristján, sem eipar með kjuðum, er alveg svakalega góður trommari. Breytararnir breyttu endanlega viðhorfi mínu gagnvart íslensku metalsenunni. Hún er á lífi og dafnar vel.
Snöggt recap af öðrum böndum: Nevolution voru nokkuð góðir. Pósstafir hafði ég varla þolinmæði í, hef heyrt I Myself the Visionary Head auk meira af þeirri framúrstefnumálmi sem þeir hafa uppá að bjóða nokkuð oft. Denver finnst mér ekki skemmtilegir. Svo man ég lítið eftir Atrum, annaðhvort útaf a) of kenndur eftir föstudagskvöldið eða b) óeftirminnilegt.
Eftir Changer var farið á barinn. Egilsbúð er tvískipt bygging, þetta er sveitaballahús og bar og er aðskilið með hurð. Viðvörunarorð voru hvísluð í eyru að læst yrði eftir Momentum. Ég, Júllli og Ari skruppum frá til þess að sötra bjóra. Að vísu var Júlli einstaklega þunnur og illa farinn eftir föstudagskvöldið að hann var bara ekki í drykkjarstandi, greyið, svo það var uppá mér komið að hala í heiðri orðspor Hornfirðinga og drekka einsog það væri enginn morgundagur.
Ari, sá mæti kappi, breyttist síðan í nöldrara þegar læst var og lokað eftir að Momentum enduðu sitt sett og verðlaunaafhendinginn átti sér stað í tónleikasvæði Egilsbúðar. Tuðari og vælari því að það var læst og hann fékk ekki að fara inn, og ferðafélagi minn var orðinn geðveikur á þessu væli í greyis drengnum. Vælið var svo sem skiljanlegt, en að grenja svona í meira en hálftíma var fullmikið fyrir Júlla og vissulega fyrir mig líka rétt áður en hurðin var opnuð. Bakvið hinar luktu dyr blasti við sýn sem seint mun gleymast. Tugi metalhausa af karlkyninu, berir að ofan, að dansa við júrótrasjdanspoppóbjóð og kvenfólkið starði á af forundrun, eða aðdáun.

Áfram hélt felleríið og minnið varð þokukenndara og dularfullt...
Á næstu dögum mun birtast lokun á Eistnaflugsferðinni, ferðin til Danmerkur og dularfullu svíamorðin á Wacken.

Ferðasaga

Jæja börnin góð, afsakið biðina. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þið eruð óþreyjufullir gemlingar sem hafa litla þolinmæði í að bíða. En það gleður mig að tilkynna að á næstu dögum mun ég pósta ferðasögu minni hér sem mun koma í nokkrum köflum. Fyrsti kaflinn mun birtast síðar í dag, en þá verður júlí-mánuðirinn tekin fyrir. Haldið ykkur fast.