miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Þökkum gvuði fyrir vantrú!

Eftir þá stórhættulega depurð og vonsvikni ekki sé minnst á nær óbætanlegu sálfræðilegu tjóni og vellandi stungusár á sálina sem ég varð fyrir útaf prentgalla í bókinni Why People Believe in Weird Things eftir Michael Sherman, þá lagðist ég uppí rúm í rúmlega 5 mínútna þunglyndi og hugleiddi þann valkost að svipta mig lífi. Ég ákallaði til almættisins með orðunum "Gvuðsi, hví hefurðu yfirgefið mig?!" og bætti við "Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta hæðnislega hatur heimsins gagnvart mér? Er ég ekki nægilegur kriztlingur til að hlotnast náð í þínum augum? " og einsog heilagur andi hafi svarað mér þá læddist að mér örfá orð í heilabúið - Þórður, líttu þangað - og einsog Allah flutti fjallið til sín þá reis ég fyrir dogg og teygði ég mér í áttina að þykkum ritlingi og mitt sálartetur var hrært, það læddist að mér útkampað bros er ég sá bókina Losing Faith in Faith* eftir fyrrverandi kriztna predikarann Dan Barker sem eftir að hafa, þó hægt og bítandi, fengið nóg af þessu helvítis kjaftæði sem hann hafði saurgað huga sinn í hartnær 19 ár með viðbjóði sem finna má í hinni svokallaðri heilagri ritningu eða Bifíflíunni gerðist eitilharður trúleysingji og frjáls hugsuður.

Einnig bendi ég lesendum á það að þessar fimm mínútur sem ég tala um í byrjun og það athæfi sem kallast má "sheer act of desperation" að ákalla eitthvað yfirnáttúrulegt í "þunglyndi" mínu er hreinn uppspuni, en ég var óneitanlega eilítið vonsvikin.

Best að gera hreint fyrir mínum trúlausu dyrum. Ég hef verið meira og minna trúlaus alla mína ævi. Meira og minna segji ég því þegar ég var um 11 ára gamall þá var mér afhent Nýja Testamentið og ég velti fyrir mér þeim möguleika hvort að eitthvað almætti væri til. Vissulega var kristninfræði kennd í skóla og efalaust varð ég fyrir einhverjum áhrifum þaðan, en þær minningar eru ekki eftirminnilegar, þannig að "kennslan" eða tilraun til kristilegs innrætis höfðu lítil áhrif á mig. En ég byrjaði að lesa þetta fornaldar-Mein Kampf-rit dulbúið með hulu yfirnáttúrunnar en leiddist brátt það bull sem þar mátti finna. Ég reyndi að fara með bænir en mér fannst þær vera óttalega tilgangslausar. Ég prófaði að trúa á þetta almætti með stóru Géi, en gafst upp því ég fann ekki fyrir neinni yfirnáttúru og heyrði engar raddir í höfðinu á mér. En viðurkenni þó að ég var samt agnostiker í nokkur ár þar til að það rann upp fyrir mér ljós þegar ég var um 18 ára gamall og ég frelsaðist frá forneskjulegri og fáránlegri hugsun um að "kannski er eitthvað ótrúlega ótrúlegt til?" Í dag er ég trúlaus efahyggjumaður og anarkibóhedónisti.

En Dan Barker er samt gott dæmi um mann sem hefur verið innrætt kristilegt gildi og í næstum 20 ár velt sér uppúr þessu svaði en eftir 5 ára vangaveltur um kjarna og þversagnakenndu kenningar kriztindóms og komist að þeirri niðurstöðu að hann hefur verið að trúa á bull og beinlínis skammaðist sín fyrir að hafa lifað lífi sínu í þessu andlega fangelsi en hefur jafnað sig þó. Dan er angurvær andvari inní trúleysisumræðuna.

Ég þarf varla að taka það fram að áhugasamir um trúleysi, vantrú og efahyggju er bent á frábært framtak nokkurra frambærilega einstaklinga sem í algjörri ást og umhyggju fyrir andlega fanga trúarbragða halda úti afar vönduðu vefsvæði þar sem mögulegir kandítatar geta frelsast frá forneskjunni en aðrir geta velt vöngum yfir þær, oftar en ekki, stórgóðu pistla og frábærar greinar sem þar má finna. Auðvitað er ekki allt sem reitað er á þessu svæði "mindboggling" brilljant og skidte godt, en stór hluti af þessu gæti fengið sumt fólk til að efast um tilvist yfirnáttúru, sem er náttúrulega ekki til.

*Takk Vésteinn!

þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Adolf Hitler

Horfði á þessa mögnuðu mynd um síðustu daga Nasistastjórnarinnar og Adolf nokkurs Hitlers. Myndin kallast Der Untergang (smekklega þýdd á ísl. sem Hrun) og er hreint út sagt alveg frábær upplifun. Má kalla þetta uppgjör Þýsku kvikmyndalistarinnar gagnvart þessu tímabili?

Einnig er það óskaplega þægilegt að sjá Hitler vera leikinn af afbragðsgóðum þýskum leikara að nafni Bruno Ganz og talandi þýsku og auk þess að gera manninn manneskjulegan með sína geðbiluðu galla og parkinson en ekki einhverskonar holdgerving illskunar, nokkurs konar sonur Satans einsog Robert Carlyle gerði í Hitler: Rise of Evil.

Mér fannst Hitler í þeirri mynd vera nær alltof og alltaf æstur, froðufellandi júðahatari með mikilmennskubrjálæðistakta, sem blikkaði kannski tvisvar í gegnum syrpuna. Þó svo að Hitler hafi eflaust verið soddan skíthæll, þá fannst mér þessi túlkun bara ekki trúleg, eiginlega frekar ótrúleg.

En Der Untergang gef ég æruverðug meðmæli.

mánudagur, ágúst 29, 2005

Ástæðan af hverju fólk trúir einhverju bulli

Why people believe weird things eftir Michael Sherman er afar áhugaverð bók, fróðleg og skemmtileg. Ég var að enda við að lesa 25 spurningar frá Sköpunar"vísinda"trúmönnum og 25 svör frá vísindamönnum við því. En merkilegra finnst mér sú viðvörun sem Sherman gefur manni við að fara í rökræður við sköpunarsinna, í raun mælir hann gegn því. Þó svo að hægt sé að rökræða við þetta fólk að einhverju marki þá er ekki hægt að komast að neinni sameiginlegri niðurstöðu, því umræðan fer í óstjórnlega hringavitleysu, MORFÍS-röktakta og útúrsnúninga, einsog má örugglega finna í einni tilteknri umræðu á spjallborði Vantrú.is, þ.e. fyrir þá sem hafa þolinmæði að þreifa sig áfram í myrkri og tjöru sem þessi umræða er. Þróun er orðin afturför, svart er orðið hvítt, bifíflían er grundvöllur allra vísinda þannig að óhætt er að brenna aðrar bækur enda stangast það á við Orðið og allt er þetta orðið orð gvuðs að þakka hvernig allt er orðið. Jörðin og við erum svo fullkomin að það hlýtur að vera guðlegri forsjón að þakka og annað einsog helbert kjaftæði og fimbulfamb. Af hverju er ég með geirvörtur? Hvað hafði ég að gera við þennan bévítans botnlanga? Hvað var svo málið með tvíburann í rassinum á mér*? Og ef allt er svo fullkomið og frábært af hverju er verið að rífast um það?

Sem sagt viðvörunin er sú að þrátt fyrir öll þau skotheld rök og kjarnyrtar spurningar sem viðkomandi mun skjóta á sköpunarsinnan þá mun viðkomandi ekki eiga séns í að "vinna" rökræðunna því Sköpunarsinnin mun eflasust slá þessu öllu uppí grín og glens, svara þessu á póstmódernískan hátt með smá bifíflíukenndum tilvitnunu og reyna hvað hann getur til að sigra andstæðinginn. Þar liggur akkúrat vandamálið. Þetta snýst ekki um rök heldur að vinna, sigurinn að fá smá forsmekk af því að drottna. Vandamálið er að vísindi snúast ekki í kringum sigra um hver er betri að bauna út heimildum heldur að komast niðurstöðu byggðar á athugunum og ígrundun þar sem þeir aðilar sem koma að rannsókninni geta verið sáttir við. Síðan geta sömu aðilar eða aðrir tekið þessa kenningu eða niðurstöðu tætt hana í öreindir eða betrumbætt.

Vísindi og trú geta ekki og munu aldrei fara saman.

*tvíburi í þessari merkingu er semsagt aukalegur og vita gagnslaus þarmur sem getur, ef hann er ekki umsvifalaust klipptur í burtu, valdið sýkingu og öðrum viðbjóði.

laugardagur, ágúst 27, 2005

Hólí skólí!

Það er ýmislegt sem maður verður að læra. Til að mynda beygingar á hjálparsögnum í þýsku, s.s. haben (hafa) og sein (vera). Sjáiði þessi ótrúlegheit:

Persónufornöfn eintölu;
Ich habe, Ich bin. Du hast, du bist. Er/sie/es hat, er/sie/es ist.

Persónufornöfn fleirtölu;
Wir haben, wir sind. Ihr habt, ihr seid. Sie, sie haben, Sie, sie sind.

Takið eftir því að fleirtalan á hann/hún/það er sie, en svokölluð þérun er Sie. Merkilegt, ekki satt?

Du bist ein dumkauf, ja?

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Færsögu fráandi?

Ég dvaldi þarna í Reykjavík í rétt rúmlega viku, föstudaginn 12. til föstudaginn 19. ágúst Gerði þau aulalegu ákvörðun að taka vakt fyrir samstarfskonu laugardaginn 20. ágúst, þannig að ég setti mig í þá klemmu að vera undir einhverja pressu að drulla mér heim. Fjármál hafa aldrei verið mitt sterkasta svið, þannig að þótt ég hefði flogið eða tekið rútu þá hefði ég ekki getað borgað fyrir það og auk þess hefði það ekki skipt neinu máli því flugvélin var full og rútan var farin. Þannig er nú það. Einnig reyndi ég á heppni mína með því að hafa samband við tvo trukkabílstjóra sem voru á leiðinni til Hafnar klukkan 16:00, en báðir voru þeir með farþega. Ég vissi ekki mitt rjúkandi eitt augnablik, en eftir augnablik komst ég þó að niðurstöðu um tilraun til ferðamáta og að reyna á hægri þumalputtann og fara á puttanum. Sem ég geri aldrei aftur, því ég komst ekkert heim á puttanum.

Mér datt í hug að byrja ferðina á Selfossi, þar sem rúta fer þangað 3svar á dag og kostar þúsund kall farið. Óskar var nú svo indæll að bjóðast til að skutla mér þangað, enda þurfti hann að útréttast þangað og skila einhverju til einhvers. Ég þáði það með þökkum og vér settumst inní bílinn og ókum áleiðs til áfangastað. Ég tek það fram að ég er rosalegur léttur ferðamaður, þ.e. að ég hafði meðferðis tvær litlar töskur, eina handtösku og einn lítinn, grænan bakpoka sem innihélt skítug föt. Þannig að ólíkt sumum ferðamönnum sem bera á baki sér stöff fyrir þrjár fjölskyldur þá tók ég ekkert sérlega mikið pláss í þeim bílum sem voru svo vænir að taka mig uppí.

Á Selfossi stoppuðum við á Kaffi Krús og fengum okkur kaffi, ég bætti nú "gourmet"ostaköku við pöntunina fyrir mig sem var sérdeilis góð. Eftir það borgaði ég, kvaddi vininn og gekk áleiðis útúr bænum. Stoppaði þó á Snælandsvídjó fyrir smá pulsu og kókómjólk, auk sódavatn frá Egils. Taldi mig ekkert þurfa meira, en var þó blendin gagnvart puttaferðalagi, bæði bjartsýnn og svartsýnn. Gekk útúr bænum, hægra megin á þjóðvegi I og drakk mitt vatn. Eftir rúmlega klukkutíma ark þá stansaði nú einn kall í fínum bíl er ég settist uppí og vér ræddum lítillega um ókurteisi ökumanna, þó sérstaklega á Þjóðvegi I. Eftir rúmlega hálftíma akstur vorum við komnir að Langvegamótum (eða hvað sem það nú heitir) en þar er starfrækt sjoppa og ég hélt áfram að arka þaðan eftir ég hafði fengið mér kaffisopa. Bjartsýniskvótinn vó meira en hið svarta og ekki leið á löngu þar til bóndakona ein stansaði og bauð mér far, sem ég auðvitað þáði. Með þökkum. Hún spurði hvert ferðinni væri heitið og ég ansaði "Hornafjörður", en einsog langt hún væri að fara mundi alveg duga mér. Minntist á einhvern pilt frá mínum heimabæ sem þekkti dóttur hennar og kæmi stundum í heimsókn til hennar á Hellu, en þangað var hennar ferð heitið. Hún stoppaði fyrir utan bensínstöð þar sem ég hitti einatt sömu starfstúlkuna sem bað mig um að taka þessa vakt fyrir, reyndi að sannfæra hana um að fá ekki samviskubit yfir aðstæðum mínum þar sem ég hafði nú kallað það yfir mig sjálfur. Augun mín beindust svo að húsbíl og eldri manni sem var að dæla bensíni á kaggann og ég ávarpaði hann kurteisislega hvort möguleiki væri að fá far hjá honum. Það var nú lítið mál.

Ég mundaði sömu hreyfingunar sem ég hafði endurtekið stuttu áður með því að opna farþegasætishurðina og setjast inn með mínar fáu föggur. Við lögðum af stað og ræddum lítillega um ýmislegt smálegt þangað til umræðan fór útí alþjóðapólítík og stríð, en gaurinn hafði feiknarlega gaman af því umræðuefni og ekki skal ég skafa af því að ég hafði nú gaman af því líka og tíminn leið hratt. Frá Hellu til Hvolsvallar og alla leið til Skógarfoss var rætt um Bush, olían í Írak (og meira segja kom ég inná skort á olíu í náinni framtíð), stríðið þar og í Víetnam, Agent Orange, Kolómbía og hvað þjóðvegir Íslands hafa batnað undanfarin 10-15 ár. Kallinn vildi stoppa á Skógarfossi til að sýna ungu dætrum sínum og þýskri konu þá myndarlegu sprænu. Ég þakkaði pent fyrir mig og hann gerði einnig "Það var gaman að tala við þig, og vertu blessaður." voru síðustu mannlegu samskiptin sem ég hafði í nær tvo tíma.

Puttaferðalag er ekki minn tebolli, þar sem ég hef enga þolinmæði og verð óstjórnlega pirraður að sjá tugi bíla keyra framhjá manni og meirihlutinn inniheldur heila eina manneskju, jafnvel tvær og svart- og bölsýnin rigndi yfir mig, ég var bölvandi illur innra með mér. Veðrið var vont. Rok, búist var við rigningu og kalt, auk þess var klukkan að ganga átta um kvöldið. Þolinmæði mín var þrotin. Ég sagði pass við þessu helvítis kjaftæði, bjallaði í Hauk vin minn á Selfossi (sem var á leiðinni til Reykjavík á sama tíma og ég var að fara) og spurði hvort hann væri mikið upptekinn. Hann svaraði því neikvætt og ég velti vöngum hvort hann gæti mögulega sótt mig og ef til vill skutlað mér áleiðis með því fyrirkomulagi að bíll mundi koma á móti. Ég vissi alveg að sá möguleiki var lítill en hann jánkaði við með ótrúlega glöðu geði en með því skilyrði að ég gæti reddað mér fari til Hvolsvallar. Bjallaði síðan heim og spurði móður mína hvort hún væri eitthvað upptekin. Hún var samt svo góðhjörtuð að skella bensíni á bílinn og kíkja á olíuna og leggja af stað. Ég skipti svo um akrein að loknu símtali og reyndi að húkka far til baka, sem tókst mjög vel.

Ég sá glitta í bíl sem ég reyndi að stöðva með mínum vanmáttuga þumall. Þetta var einn af þeim fáu bílum sem ég hafði séð á þessum tíma í þessa átt. Hann keyrði framhjá. Horfði á eftir honum með titrandi reið augu þar til hann stoppaði og byrjaði að bakka. Nei, hvur andskotinn hvað er í gangi hér? Virkuðu "my patented evil eyes of doom"? Ekki var það svo ótrúlegt, það var frekar skondið því í bílnum sátu Hornfirðingar. Bílstjórinn tjáði mig um það hann ætlaði ekkert að stoppa sökum plássleysis, en einn af tveimur farþegunum í bílnum sagði honum að hann þekkti mig þannig að ákvörðuninni um puttaferðalingsbann var aflétt og mér var hleypt inní bílinn.

Síðan endaði ég á Hvolsvelli, Haukur kom og sagði að byrjað væri að rökkva og bíllin sem hann var á væri ljóslaus, þannig ég hringdi í mömmu og bað hana umsvifalaust að halda aftur heim. En hún náði samt að tjá mig um þá staðreynd að hún og systurnar mínar tvær væru á leiðinni suður á laugardag og haldið heim á sunnudag. Svo ég hringdi í vinnuna og sagði ég gæti ómögulega mætt í vinnuna daginn eftir. Fór með Hauki til Selfossar og eyddi þessar helgi í að reykja allt það kannabis sem ég hafði komist yfir á meðan dvöl minni í Reykjavík stóð, horfði á League of Gentlemen-seríurnar ásamt Hauki og sambýlingi hans sem reyktu ekki kannabis.

Fór heim á sunnudegi.

Færandi frásögu?

Meðal merkilegra manneskja er varð á mínum fáfarna vegi var þessi unga og laglega snót að nafni Þórunn er ekki vill vera kennd við kvenlega ókind sem Grýla er oftast kölluð. Í húsakynnum Svarta Kaffinu sötruðum við á kaffi og röbbuðum saman. Mér hlotnaðist síðan sá heiður að hitta systur hennar, sem vitjaði staðinn til að afhenda systur sinni vídjóspólur og sýna okkur glimrandi góða ull, ásamt að vera oss til samlætis með kakóbolla í hönd. Þær eru á leiðinni til Amsterdam blessunirnar að gera eitthvað löglegt einsog að skoða hús og gista á hóteli, synda um síkin og elta bleika fíla.
Það kom upp vangaveltur er varðar listrænt menntað fólk, s.s. atvinnuljósmyndurum, grafískum hönnuðum, fatahönnuðum og því tengt, auk tölvunarfræðinga o.s.frv. og hvort að framboðið svaraði eftirspurn. Ég velti vöngum yfir því að hvort að það virkilega borgaði sig að punga út gífurlegu magni af péningum í menntun sem mundi síðan ekkert borga sig, enda er til alveg óhemju mikið magn af þessum starfsstéttum og æ fleiri vilja ganga til liðs við þetta og vita ef til vill ekki að þau eiga ekki möguleika í að ná neitt sérstaklega langt á þessari framabraut því að eftirspurnin fer minnkandi. Hvað á að gera við allt þetta menntaða fólk?
Þetta minnir mig á margan hátt á smá ævintýri Arthur Dents í Hitchhiker´s Guide to the Galaxy er hann lendir á óþekktri plánetu sem er óbyggt að undanskildum hópi fólks sem brotlendu á plánetunni. Þetta fólk virðast öll vera óttalegir froðusnakkar og búðingar en telja sig gera mikið gagn, en kunnátta þeirra er meðal annars hárgreiðsla, dýrasálfræði, símaþrif, markaðsetning, almannatengsl og fleira djobb sem er of mikið framboð af en lítil sem engin eftirspurn. En forsprakki hópsins segir Dent frá því að þau höfðu komið af fjarlægri plánetu. Pláneta þessi var í þann mund að eyðast upp og ráðamenn pláneturinnar ákváðu að gera þrjár geimferjuarkir, eina fyrir verkamenn, eina fyrir ráðamenn og eina fyrir restina. Planið var að senda "restina" fyrst af plánetunni og hin tvö skipin mundu fylgja fast á eftir...
...síðar kemur í ljós að þessa óþekkta pláneta sem Arthur Dent lenti á er plánetan Jörð.

"Það er ekki til sú hegðun eða mannvera, sem nútíma geðlæknir getur ekki auðveldlega sjúkdómsgreint sem óeðlilega eða sjúka"

- Thomas S. Szasz, prófessor í geðfræðum
Í bókinni Skákað í skjóli Hitlers bendir Jóhannes Björn á þann möguleika að sá hryllingur sem blómstraði í útrýmingarbúðunum í Dachau, Auschwitz, Treblinka, Belzec og fleirum hafi átt sér töluverðan aðdraganda og má rekja til kynbótastefnu Chamberlins og geðlæknisfræði sem hafði mótast í seinni hluta 19. aldar og fengið töluverðan hljómgrun og náð mikilli athygli víðs vegar um heiminn í byrjun 20. aldar. Undir akademískum formerkjum höfðu læknar unnið markvisst að því að annaðhvort gelda eða drepa ónytjunga, vanvita, óvita, sjúka, veika og "óaríska" einstaklinga í hundruðum þúsundum áður en gyðingum var útrýmt einsog um fjöldaframleiðslu væri að ræða. Þetta var kallað líknarmorð. Á árunum 1933-38 var starfrækt á nokkrum spítölum svokallaðir "dauðaskólar" þar sem áhugasömum og kaldrifjuðum einstaklingum var sýnt hvernig heppilegast væri að drepa fólk, hundruðir útskrifuðust og voru sendir til hina margumrómuðu dauðabúðir einsog Auschwitz.
Í Þýskalandi nasismans gafst kjörið tækifæri og algjört tómarúm fyrir ótrúlega tilrauna- og villimennsku í nafni læknisfræðinnar undir formerkjum andlegrar geðheilsu og flest allir sem tengdust þessu sátu í fangelsi í örfá ár eða ekki neitt. Sumir störfuðu við þetta í mörg ár, eða þar til þeir dóu eðlilegum dauðdaga.
Á tímum galdraofsókna í Evrópu á sautjándu öld, spratt upp ný starfsstétt manna, sem hafði af því góðar tekjur, að ferðast á milli byggðarlaga og finna tilfinningalausa bletti á fólki. Ef einn eða fleiri slíkir blettir fundust, var það nægileg sönnun fyrir að viðkomandi einstaklingur væri göldróttur og honum var varpað á bál. Fjöldi galdrakarla og galdrakerlinga óx síðan í beinu hlutfalli við fjölda "sérfræðinga".
-Skákað í skjóli Hitlers, b. 95
Áhugavert er einnig að síðan geðheilsa var "uppgötvuð" þá hefur hún farið versnandi. Hverjir eru að krukka í hausnum á okkur?

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Frásögu færandi?

Eins og ég minntist á fyrir stuttu, þá skrapp ég til suðvesturhluta landsins nánar tiltekið í stærsta dreifða þéttbýli landsins (þ.e. Höfuðborgarsvæðið, en þó aðallega Reykjavík fyrir þá sem ekki fatta) í rúmlega þrennum tilgangi:
  1. Fara á tónleika með Sonic Youth.
  2. Neyta vímugjafa á borð við áfengi (að mestu bjór) og kannabis.
  3. Bera augum og hlýða á hjal þeirra vini og kunningja ásamt að veita þeim kjörið tækifæri að bera mig augum og hlýða á mitt hjal.
Fyrir það fyrsta voru tónleikarnir með Sonic Youth þriðjudaginn 16. ágúst hrein unun og algjört eyrnakonfekt, ei sakaði að fá að sjá með eigin augum hvernig þessi goð og gyðja líta út í lifandi lífi. Djöfull óskaplega er Thurston Moore hávaxinn og Kim Gordon er milf. Ballið byrjaði með Brúðarbandinu sem tóku nokkrar syrpur og óskuðu eftir meiri sleik hjá áhorfendum og tónlistarunnendum, ekki veit ég hvort einhver eða einhverjir voru að ósk þeirra pjatla, en ég skemmti mér ágætlega yfir sæta og stutta tónlistarspilaríi stúlkukindana. En menn voru samt fljótir að ókyrrast er þau stigu af sviðinu og beðið var með eftirvæntingu og kökk í hálsinum eftir því að Sonic Youth stigu á sviðið, sem þau og gerðu við mikin fögnuð skarans í salnum. Við tók þetta þétta tveggja tíma prógram sem liðu því miður alltof fljót og endaði á óhljóðavörumerki meðlimana þar sem Moore, Gordon, Ranaldo og O´Rourke byrjuðu að fróa hljóðfærunum með þar tilgerðum bakflæðismagnarahávaða meðan Shelley barði rólega húðir þar til hann gafst upp á að reyna halda einhverju samhengi í þessari organdi óhljóðaorgíu og eipaði með kjuðana. Mín eyru þrútnuðu og gátu ei umborið þessi óguðlegu læti þannig að ég steig út fyrir til að ná andanum, brosa breitt og þakka forsjárhyggju minni að kaupa miðana í Maí. Fyrir utan hvað þetta var ótrúlega góð keyrsla hjá Sonic Youth, en þau spiluðu aðallega lög af nýjustu plötunum, Sonic Nurse og Murray Street (en lagavalið náði alla leið til plötunnar Sister frá 1987) þá var stemmingin á NASA hreint mögnuð, það er alveg ótrúlegt hvað Íslenskir tónlistaráhugamenn eru kurteisir og Sonic Youth spiluðu einmitt með hópnum ef svo má segja. Ótrúlega góðir tónleikar með ótrúlega góðri hljómsveit. Bjórinn kom þarna mikið við sögu, en það skemmdi ekki unaðinn.

Í þessari ferð minni gisti ég hjá góðkunningjum mínum Óskari og Guðrúnu, að vísu var Gunna að mestu vant við látinn við masters-ritgerðina og þegar hún var heima þá var ég úti að sprella. T.a.m. sprellaði ég með Vésteini og Bessa ásamt öðrum góðkunningjum (þekktum og óþekktum) í vesturbænum og bjór kom þar eitthvað við sögu. Ég sprellaði t.d. á Classic Rock sem staðsett er á Ármúla 5 (í sama húsnæði og Gigtarfélag Íslands heldur sig) þar sem nokkrir gamlir og nýjir vinir héngu (að undanskildum Vésteini og Ragnari en þeir fóru að vinna). Bjór kom þar töluvert til sögu. En þetta var víst eftirpartí fyrir Alice Cooper-tónleikana (sem ég mætti ekki á sökum skorts á áhuga), en þar var á boðstólnum tvær hljómsveitir sem ætluðu að reyna slökkva þorstann í rokkþyrstum Alice Cooper-aðdáendum. Sú fyrsta var Truckload of Steel, sem mér fannst alls ekki góð, eiginlega var þetta bara ein sú ömurlegasta þungarrokkklisjutónlist sem ég hef heyrt. Eftir þessa hörmungar tóna stigu á þetta litla svið goðin í Sólstöfum er tóku þrjú lög sem öll voru meira en 10 mínútur á lengd og það verður að segjast að Sólstafir eru alveg hreint ótrúlegt band. Þvílík gargandi snilld. Á meðan spilun stóð kom bjór nokkuð við sögu í viðbót.

Fullt af bókum og öðru gúmmílaði

Keypti mér tvær góðar bækur af sitt hvoru tæji. Sú fyrri er teiknimyndasagan V for Vendetta sem teiknuð er af David Lloyd en sagan er eftir Alan nokkurn Moore, sá hinn sami sem reit hina afbragðsgóðu Watchmen. Þeir byrjuðu á sögunni 1981 og hún var fullkláruð 1988. V er mjög góð saga sem byrjar 5. Nóvember 1997 og spanar heilt ár. Kringumstæðurnar sem sagan gerist í er eftir þriðju heimstyrjöldina og kjarnorkuveldin hafa nýtt kjarnorkuvopnin, afmáð nokkur lönd af landakortinu og andrúmsloftið einkennist af kjarnorkuvetri. Sögusviðið er Bretland, en þar hefur fasistastjórn verið við völd í nokkur ár og stjórnskipulagið er keimlíkt þýsku nasistastjórninni, nema að ríkistjórnin hefur gefist nægilegt tómarúm til að klára kynbótastefnu sína með því að drepa óaríska einstaklinga í hundruðiþúsundatali og eru tiltölulega nýbúnir að loka útrýmingarbúðunum þegar eintaklingur er kallar sig V fer á stjá og leitar hefnda en er þó með stærri áætlun í gangi. V þessi er klæddur í síðri skikkju með hálfgerða nornahatt á höfði nema með flatan topp og ber á sig brosandi grímu af Guy Fawkes. Hann byrjar á því að bjarga ungri stúlku frá því að vera nauðgað af hópi lögreglumanna og sprengir síðan Breska þinghúsið stuttu síðar, en kyrjar fyrir stúlkunni rétt fyrir "ódæðið" lítinn lagstúf sem fer á þessa leið:
Remember, remember
the fifth of November,
the gun powder treason and plot.
There is no reason,
for the gunpowder treason,
should ever be forgot.

Hin góða bókin er Þjóðríkið, endurreisn þess á Íslandi eftir Halldór Jónasson frá Eiðum og er rituð 1942 í hringiðu heimsstyrjaldar og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Sú bók er hreint afbragð, svo ekki sé minna sagt. Ég lánaði síðan báðar bækurnar til sitt hvors aðilans, félagi Vésteinn fékk V for Vendetta eftir að drengurinn hlaðaði bókum í fangið á mér og Jón Karl frændi fékk Þjóðríkið sem ég vona að hann hafi haft gaman af.

Meðal bóka sem eru í lesningu nú eru:

  • Skákað í skjóli Hitlers. Jóhannes Björn Lúðvíksson.
  • Why do people believe in weird things? Michael Sherman.
  • Lord of the Rings. J.R.R. Tolkien.

Einnig vil ég minnast á bestu framhaldsgamanþáttaseríu sem ég hef barið augum og pungað út péning fyrir, en það er öll serían auk sérjólaþátts af League of Gentlemen. Við uppflettningu á þeim á veraldarvefnum kemur í ljós að þeir eru einnig nýbúnir að klára kvikynd er heitir League of Gentlemen:Apocalypse. Ja, sei, sei.

Kaupstaðarferð

Skrapp til höfuðborgarinnar sem er ekki frásögu færandi.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Andvirkjunarsinnar verða að láta fyrirtækin sem standa að verknaðnum kæra sig

Af gefnu tilefni verð ég að minnast á McLibel-réttarhöldin í Bretlandi. Tveir einstaklingar sem höfðu kynst sér starfemi McDonalds prentuðu út bæklinga sem í stóð hversu ógeðsleg starfsemi McDonalds er og hversu mikinn skaða fyrirtækið stendur fyrir. Þegar forsvarsmenn McDonalds í Bretlandi fengu þessa bæklinga í hendurnar þá vovar bréfberi að nafni Helen Steel og garðyrkjumaðurinn Dave Morris kærð fyrir óhróður og lygar. Þetta mál byrjaði 1990 og átti farsælan endir 1997 þegar í ljós kom að ásakanir þær sem Steel og Morris létu prenta voru hárréttar og nákvæmar. Ástæða þess að dómurinn fór á þessa leið er einfaldlega útaf því að þær ásaknir sem skötuhjúin komu með voru svo alvarlegar að það þurfti að rannsaka þær, þannig að lögfræðingar og lögreglan hafði fullan rétt til að glugga í gegnum öll þau gögn sem þau gátu fundið í höfuðstöðvum McDonalds í Bretlandi. En í þessum réttarhöldum fékk McDonalds væna rasskellingu.
Í þessu ljósi má ég til að benda á viðbrögð fyrirtækja einsog Landsvirkjun, Impregilo, Alcoa og Bechtel er talsmenn þess tjá fjölmiðlum um það efni að fyritækin íhuga að kæra mótmælendur fyrir eignaspjöll og tafir en gera það ekki. Ástæðu þess er að réttarhöld mundu fyrir það fyrsta gefa lögfræðingum og lögreglum kleyft að gramsa í gegnum e.t.v. óþægileg skjöl sem sýna, það sem flestir vita er hafa kynnt sér málið lítillega, að þessar framkvæmdir bæði í Kárahnjúkum og Reyðarfirði eru kolólöglegar og það mundi einfaldlega þýða að framkvæmdirnar mundu tefjast enn frekar.
Þess vegna verða þeir einstaklingar sem eru réttilega á móti þessum framkvæmdum að annaðhvort kæra fyrirtækin eða reyna láta kæra sig.

föstudagur, ágúst 12, 2005

Afstæðisflokkurinn

Er ekki kominn tími á nýjan flokk? Flokkur þar sem kjósendur geta verið vissir um að flokksmenn munu svara spurningum sem þeir vonuðust eftir að væri spurt en ekki spurningunni sem valt útúr munni viðmælanands? Flokkur þar sem allt er rétt og allt er rangt og milljón apar verði fengnir til að skrifa stefnuyfirlýsingu Afstæðisflokksins? Flokkur þar sem mótherjar munu ekki eiga möguleika á að fylgja eftir bullinu sem kemur útúr flokksmönnum Afstæðisflokksins? Flokkur fyrir alla og engan? Flokkur sem inniheldur skríbenta og spekúleringa sem hafa þúsund sannleika og þúsund rangindi, þar sem sannleikurinn er afstæður og staðreyndir einnig?

Afstæðisflokkurinn, já takk og nei takk?

Errol Morris

Spjallaði við bróðir minn í Kanada nú í gær og hann benti mér góðfúslega á nokkrar heimildarmyndir sem maður ætti að vera vakandi fyrir ef titlarnir verði á vegi manns. Sérstaklega verður maður að vera vel vakandi yfir öllu efni eftir leikstjóra að nafni Errol Morris. En titlarnir eru eftirfarandi:
  • The Fog of War
  • The Thin Blue Line
  • Gates of Heaven
  • Mr. Death
Þetta eru nokkrir titlar eftir þennan athyglisverða leikstjóra sem Roger nokkur Ebert hefur sagt að sé "galdramaður... og er jafn góður kvikmyndagerðamaður og Hitchock eða Fellini."

The Fog of War : Eleven Lessons from the Life of Robert S. McNamara er viðtal við þennan fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjana, en þarna er hann, að mér skilst, að réttlæta allann þann hrylling og viðbjóð sem hann var stór hluti af, s.s. ráðagerð, skipulag og framkvæmd, t.a.m. Dómínós-kenningin sem Víetnamstríðið var byggt á. Einnig voru nokkrar vafasamar hugmyndir í gangi einsog Operation Northwood. Öllu heldur fjallar hún um hvernig Bandaríkin halda áfram að réttlæta sífelld stríð, og sú taktík hefur lítið breyst síðan Víetnamstríðið.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

dEUS

Eitt af mínum uppáhaldsböndum eru fara gefa út plötu þriðjudaginn 13. september nk. Þetta gleður mig óspart, enda gott band hér á ferð og einnig voru þeir hættir um tímabil. En þetta er staðfest á heimasíðu þeirra dEUS-manna.

Ofurnæm viðbrögð yfirvalda

Undanfarnar vikur hefur farið mikið í fjölmiðlum útaf hóp mótmælenda sem staðið hafa fyrir mótmælendabúðum á Austurlandi til að mótmæla Kárahnjúkavirkjun og Alcoa-álverið í Reyðafirði. Tvö frekar spillt verktakafyrirtæki sjá um verkið, Impregilo og Bechtel. Aðferðirnar sem mótmælendur byrjuðu að notast við eru af þeirri hugmyndarfræði sem kallast borgarleg óhlýðni (civil disobediance) og felast í beinum aðgerðum til að stöðva, hindra eða tefja framkvæmdir, t.a.m. með því að hlekkja sig við vinnuvélar.

Mótsvar yfirvalda hafa verið handtökur, hótanir um brottvísun, auk þess að ónáða og ögra mótmælendum með einkennilegum vinnubrögðum, t.d. þegar þau voru að pakka saman og fara til Reykjavíkur nú í dag. Sérsveitar- og óeirðarlögreglan eltu mótmælendur á tveimur merktum bílum. Ekki fékkst fjármagn til að rannsaka aðbúnað erlenda vinnumanna við Kárahnjúka á sínum tíma en endalaust fjármagn er til að ausa í dýrar aðgerðir einsog þessar, nema náttúrulega að þessir lögreglumenn höfðu stundað sjálfboðavinnu einsog mótmælendurnir.

Mótsvar fyrirtækja við mótmælendum er "milljónatjónið." Skemmst er frá því að minnast þegar Ingólfur Haraldsson, hótelsstjóri á Hotel Nordica, lýsti yfir 6 milljóna tjóni á búnaði og öðru eftir skyrslettumálið ógurlega. Talsmenn Impregilo tala um milljónatjón sökum tafa sem hlotist hafa útaf aðgerðum mótmælenda, á Reyðafirði er sama sagan og nú síðast var RARIK að tala um milljónatjón, og strax var ályktað að mótmælendur, sem voru "óþægilega nálægt" Skriðdal, höfðu staðið fyrir því að saga jarðstreng í sundur.

Ætli það verði svo í nákomnri framtíð að allt sem skemmist eða er eyðilagt sé mótmælendum að kenna? "Malbik illa farið við Völundarhús, talað er um milljónatjón. Borist hefur til heyrna að mótmælandi búi þarna nálægt", "Ruslatunna sprengd um áramótin á Ísafirði og telur lögreglan að mótmælandi hafi komið nálægt verkinu því vitni höfðu tekið eftir grunsamlegum ferðum bæjarmótmælendans", "Víða á þjóðvegum hafa sést til glerbrota sem hugsanlegt er til spjellvirkja á glænýjum Mussojeppnum, telja yfirvöld að erlendir mótmælendur frá Kárahnjúkavirkjun hafa komið þar nálægt." Ég ýki, vissulega.

Tilraunirnar til að gera lítið úr þessum mótmælum hafa verið misjafnar og barnalegar. Fyrir það fyrsta var talað um þessa "örfáu mótmælendur" og "eitt tjald" einnig bent á að þeir "ættu að klæða sig vel." Ekki virtist það hindra tugi útlendinga og íslendinga til að leggja sér leið þarna við og stoppa í smátíma, eina nótt eða nokkrar. Einnig var talað um hvað það væri of seint í rassin gripið, að þessar tjaldbúðir hefðu átt að vera settar upp fyrir tveimur árum síðan. En þessu var harkalega mótmælt fyrir tveimur árum síðan, jarðfræðingar og náttúrufræðingar skrifuðu skýrslur um landsvæðið og hversu óheppilegt væri að gera virkjun þarna, aðrir fræðimenn og áhugamenn reituðu margar greinar til að mótmæla, en það var ekkert tekið mark á þessu. Síðan var alltaf reynt að undirstrika að þarna voru nær eingöngu erlendir mótmælendur og það voru þessir helvítis útlendingar sem standa fyrir þessum skemmdarverkum og spjöllum. En samt er því tekið fagnandi að einhverjir erlendir aðilar eru að koma og kaupa upp landið til þess eins að vinna því óbætanlegt tjón. Það hlýtur samt að segja okkur eitthvað að það að erlendir einstaklingar eyða fjármagni og tíma til að koma hingað til landsins og mótmæla þeim skemmdarverkum sem Landsvirkjun, Impregilo, Bechtel og Alcoa standa fyrir, meðan Íslendingar sitja heima og láta sig litlu máli skipta hvað verður um þetta land sem talið er vera eitt stærsta óspillta landsvæði í Evrópu. Sökkvum þessum öllu. Fokkitt, mér er alveg sama. Það er nóg til af óspilltri náttúru á landinu, er það ekki? Er það ekki?

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Andvarp

Til hvers er maður að þessu? Vakna á tilteknum tíma, fara í vinnu, fara úr vinnu, sofa, vakna. Éta, drekka, vinna, sofa. Dag eftir dag eftir dag eftir dag. Síðan fær maður útborgað mánaðarlega og til hvers? Halda þessum litla efnahag rúllandi og síðan tekur sama rútínan við. Þreytir mann þannig að maður vill ekki gera neitt sem getur mögulega brotið upp daginn. Vissulega reynir maður að krydda lífið eilítið, en þetta krydd er orðið bragðlaust og dauft. Smá frítími eftir vinnu, hvað gerir maður? Hengur í tölvunni, röflar á netinu, les kannski nokkrar blaðsíður í blaði eða bók, glápi á idjótkassann, sting kannski kassettu í vídjótækið eða mynddisk í fjölspilarann. Frí um helgar, hvað gerir maður? Drekkur bjór og dettur í það. Skrepp suður, drekk bjór og dett í það í öðru umhverfi, horfi á vídjó í öðru umhverfi, nota annarskonar og ólöglegt krydd til að brydda upp á daginn, skrepp kannski á einstaka tónleika, kvikmyndahús eða málfund. Auðvitað hittir maður góða kumpána, það þarf varla að minnast á það. Ágætt að gera sér grein fyrir þessu og svona verður þetta næstu tvö eða þrjú árin hér á Höfn, en eftir það mun ég fara í annað umhverfi norðarlega á landinu.

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

50 ár!

Af stríði gegn ósýnilegum óvin! En hvar? Nú það byrjaði í Írak, en Íran, Sýrland, Vestur Afríka og Sádí Arabía eru á dagskrá! Af hverju? Hmm... hvað ætli þessi svæði eiga sameiginlegt? Ein tiltekin auðlind, sem gæti bjargað Ameríku frá efnahagslegu hruni eða allavega nokkra útvalda (af gvuði?) Ameríska einstaklinga.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Komandi kynslóðir fagna

Bara svona til að undirstrika komandi katastrófíu þá bendi ég nýlega færslu á Hugarstríði Sigga Pönk auk heimasíðu er ber hið bjartsýna heiti Life after the Oil Crash.