laugardagur, desember 24, 2005

fimmtudagur, desember 15, 2005

Rykkorn v.3.2

Þessa dagana stend ég fyrir überstarfsemi á heimilinu á Smárabraut með því að troðfylla svarta ruslapoka af hlutum sem hafa fengið að rykfalla og almenn þrif. Það er svakalegt verk fyrir höndum, svo ekki sé minna sagt. Af þeim tiltektarafrekum sem mér hefur tekist er að henda hlutum sem ekki hafa færst úr stað síðan ég tók til fyrir nokkrum árum, hægt er að fóta sig í búrinu... þeir aðiljar sem hafa ýmist búið hér eða rekið nefið inn skilja e.t.v. hversu svakalegt þetta verkefni ku vera.

Í kvöld ætla ég að binda endi á bindindið enda gefast ágætis tilefni, prófin eru búin, einn vinur minn er að flytja til Belgíu og einnig sú staðreynd að bjórinn er góður. En þegar kvöldið er liðið og ek hef náð að festa fullann svefn þá mun bindindið taka aftur við og meira verður ekki innbyrt af áfengi fyrren í janúar í fyrsta lagi. Já, ég er óskammfeilin, en þetta er eitthvað sem verður að taka í litlum skrefum.

Pantaði um daginn tölvuleik er nefnist F.E.A.R. (First Encounter Assault Recon) sem er fyrstu persónu skotleikur og kláraði hann í dag. Hann er bara afbragð. Verið að blanda saman vissum bíómynda-elementum við hið hefðbunda "skjóta/hlaupa/finna takka/ýta á takka"genre. Þessi element eru meðal annars slómó a lá Matrix og tölvuleikirnir Max Payne I&II (sem mér finnst svo tilgerðalegur, með svo klisjukenndan söguþráð, en hann er ekki mjög leiðinlegur en hann er bara ekkert spes) og svo Japanskar hryllingsmyndir. Magnþrunginn leikur, flott grafík, ótrúlega intense, spennandi, hrollvekjandi og býður uppá svakalega skemmtileg hetjumove (t.d. ef þú ert búinn með skotfærin og vondi kallinn er rétt hjá þá er hægt að hlaupa að honum í slómó, hoppa og sparka í hausinn á honum eða beygja sig og fella hann) en því miður er hann töluvert einhæfur.

Jólaskapið svokallaða er að láta á sig kræla í mínum hugarfylgsnum. Frekar að orða það svo að skammdegið fer ekki eins illa í mig og það hefur gert undanfarna 2 mánuði.

Skráði mig á MySpace, fyrir þá sem hafa áhuga. Veit ekki af hverju, kannski til að vera með, kannski til að fá tilfinningu að ég sé hluti af stórri heild, kannski til að kynnast nýju fólki, kannski bara af forvitni, kannski bara allt fyrrtalið... hver veit?

föstudagur, desember 09, 2005

Nóbelsverðlaunahafinn Harold Pinter

Líkt og eitt stykki tiltekinn Vésteinn, þá mæli ég með lestur á þessum væna og góða pistli eftir Nóbelsverðlaunahafann Harold Pinter. Þessi pistill, þó langur sé, setur stjórnmálalegt ástand í heiminum í visst samhengi... þetta snýst um hið myndræna en mikiðfenglega reður sem allir leiðtogar vilja bera.

Átök í Afríku

Inngangur

Það er mér nær óskiljanlegt hvers vegna lítið sem ekkert hefur verið gert til að draga úr átökum og blóðsúthellingum í Afríku sem hafa verið að blossa upp hér og þar í álfunni undanfarna áratugi. Í sumum ríkjum hafa verið linnulaus borgarastyrjöld, andspyrna eða milliríkjadeilur frá því að ríkin fengu sjálfstæði.

Fátæktin, vosbúðin og hungrið í Afríku er það sem maður þekkir af álfunni í gegnum fjölmiðla og sögubækur, en á meðan er lítið minnst á hrottafengnar aðgerðir Andspyrnu her Drottins í Norður-Úganda eða landamæradeilur Eþíópíu og Eratríu. Vissulega koma fram einstaka fréttir frá átakasvæðum í Afríku, en lítið virðist vera gert til að stilla friðinn. Jafnvel þjóðarmorðin í Rúanda árið 1994 var afskiptaleysi lykilorðið, auk þess var aðaltakmark Sameinuðu þjóðana í landinu, þegar blóðsúthellingarnar hófust, að koma öllum ferðamönnum og diplómötum í burtu, aðallega þá sem voru hvítir.

Einnig finnst manni einsog vissir aðilar misnota sér aðstöðuna í Afríku til að koma sér á framfæri í stað þess að gera eitthvað í málunum, stutt er síðan að Live8 var haldið í kjölfarið á loforði leiðtoga stærstu iðnríkjana, G8-fundurinn, um að fella niður allar skuldir í Afríku. Frægar tónlistarstjörnur komu á sjónarsviðið og tókust með afbrigðum vel að leika og lifa sig inní hlutverk hins samúðarfulla vesturlandabúa. Enn virðist ekkert þokast í þeim málum, eflaust vory yfirlýsingarnar og glamúrið bara innihaldstómt orða- og tónlistargjálfur vissra aðila sem þyrla ryk í augum almennings svo að athyglinn beinist í smástund eitthvert annað. Gæti verið að þessu volæðarástandi í Afríku sé viðhaldið til þess að láta okkur, samúðarfullu og hugulsömu vesturlandabúana, líða vel? Ekki gott að segja, en það er hjákátlegt að vita að meiri pening, tíma og orku er varið í að kaupa, þróa og selja vopn heldur en að reyna að stuðla að varanlegum stöðugleika í Afríku.

Varla hefur það farið framhjá neinum sem fylgst hafa með fréttum undanfarin 10 ár að stríðsástand og innanríkisátök virðist hafa verið nær linnulaust víðsvegar um heiminn, þjóðarmorðin í Júgóslavíu, andspyrnan í Palestínu, stríðið í Írak og frelsisbarátta í N-Írlandi svo fátt eitt sé nefnt. Margar bækur hafa verið skrifaðar um þessi fyrrgreind átök, kvikmyndir hafa verið gerðar sem fjalla um þær eða er notað sem bakgrunnur. Sama afskiptaleysi almennings og ráðamanna sem einkennir átökin í Afríku, einkennir einnig mikið af þessum átökum, en munurinn felst samt í afhjúpun í fjölmiðlum. Vestrænir fjölmiðlar gera lítið til að kynna vesturlandabúum fyrir þeim svívirðilega hryllingi sem hefur átt sér stað og á sér stað í Afríku, miðað við t.a.m. fréttaflutninginn í kringum Kósóvo, stríðin í Írak, andspyrnan í Palestínu og N-Írlandi. Ein af fáu fréttamiðlunum sem greina eitthvað frá þessum málum eru óháðir fréttavefir, og jafnvel þótt að ítarleg greinargerð sé gerð fyrir ástandinu þá ratar það afar sjaldan í fjölmiðla meginstraumsins.

Í þessari ritgerð, öllu heldur úttekt, er stefnan að greina frá helstu átakasvæðum í Afríku undanfarna áratugi til okkar daga, greina frá pólítískum eða þjóðernislegum rótum þess, hvort átökin eiga sér enn stað eða hvort að varanlegur[1] friður hefur verið náð og að hvaða leyti önnur ríki styðja við baráttuna, hvort sem það er með fjárframlögum eða vopnasölu. Farið verður í gegnum 11 ríki í Afríku, í stafrófsröð, sem eru í eða hafa verið í einhverjum átökum, einnig að tala lítillega um hlut fjölmiðla í þessum málum, þáttur auðhringa í mörgum átökunum og reynt verður að meta ástandið í lok ritgerðarinnar. Gera verður grein fyrir því að þetta er ekki tæmandi og hugsanlega verður ýmsum smáatriðum sleppt.

Angóla

Ríkið liggur á vesturströnd Afríku, við þjóðríkin Namibíu, Kongó og Zambíu. Þetta var Portúgölsk nýlenda frá árinu 1575, en þá náðu Portúgalar fótfestu í Lunda-héraðinu í kjölfarið á gegndarlausri þrælasölu, þó var ekki algjör Portúgölsk stjórn fyrr en í byrjun 20. aldar.

Þegar Portúgalar neituðu að veita Angóla sjálfstjórn árið 1951 spruttu uppþrjár3 frelsishreyfingar; Frelsishreyfing Angóla (MPLA) sem hafði aðsetur í Kimbundu og var í tygjum við kommúnistaflokka í Portúgal og Sovétríkjum, Þjóðarfrelsishreyfing Angóla (FNLA) með aðsetur í Bakongo-héraði og var í sambandi við BNA og Mobutu-stjórnina í Zaire og Samband fyrir algjört sjálfstæði Angóla (UNITA) sem hafði aðsetur í Ovimbundu sem er höfuðhérað Angóla.

Skæruhernaður stóð í 14 ár þartil stjórnvöld voru velt úr sessi í janúar árið 1975. Fallist var á sjálfstæði í nóvember 1975, en strax urðu átök milli þessara þriggja hópa sem rekja má til íhlutun erlendu stórveldana, Ameríka og Rússland. Stríðsástandið var bein afleiðing af pólítik Kalda stríðsins.

Árið 1991 var samþykkt að gera Angóla að fjölflokka ríki og kosningar voru haldnar undir eftirliti alþjóðlegra stofnana og MPLA fékk meirihluta atkvæða, en UNITA taldi að um kosningasvindl væri að ræða og átökin blossuðu upp á ný. Aftur var reynt að koma á friði árið 1994, en þrátt fyrir friðarumleitanir og pólítiska sátt sem náðist 1997 byrjuðu átök á ný í lok ársins 1998.

Átökin stóðu meira og minna til ársins 2002, en þá var leiðtogi UNITA myrtur, en þau samtök höfðu verið helstu friðarspillarnir. Í kjölfarið náðust sættir milli tveggja fylkinga og í dag virðist vera viss stöðugleiki í ríkinu, en það hefur kostað mikið af mannslífum. Ekki er vitað fyrir vissu hversu mikið fólk hefur drepist, en talið er að rúmlega hálf milljón manna hafa fallið síðan 1989 og um þrjár milljónir af flóttamönnum hafa komið frá Angóla.

Alsír

Á norðurströnd Afríku liggur annað stærsta ríki Afríku, við landamæri þess eru ríkin Túnisía, Líbýa, Níger, Malí, Máritanía og Morokkó. Samkvæmt stjórnarskránni er ríkið skilgreint sem Íslamskt, Arabískt og Amazigh. Árið 1830 gerði Frakkland innrás í Alsír en sökum mikillar mótspyrnu náðu þeir ekki fullum yfiráðum á landinu fyrren í byrjun 20. aldar. Evrópsk-ættaðir Alsírbúar og gyðingar urðu franksir ríkisborgarar í lok 19. aldar meðan stór hluti múslíma stóðu fyrir utan frönsk lög, þannig að þeir fengu hvorki franskan ríkisborgarétt eða kosningarétt og þetta furðulega háttalag franskra stjórnvalda skapaði gífurlega spennu milli þessara hópa. Menntun snarminnkaði og upprót var á íbúm Alsírs þegar evrópskum landtökumönnum var hleypt inní landið og gerðu tilkall til jarðar sem heilu ættliðirnir voru búnir að búa á.

Það er löng saga um byltingar og kollvörpun stjórnarfars í Alsír sem hefur jafnvel skapað pólítiska spennu í dag og í raun er sífelld hætta um skyndileg stjórnarskipti, en herinn hefur hvað mestu völdin í landinu, þó er ríkið skilgreint sem stjórnarskrárbundið lýðveldi.

Árið 1954 hófst skæruhernaður gegn Frökkum, sem kallað var Stríð Alsírs fyrir sjálfstæði, sem stjórnað var af Þjóðarfrelsishreyfingunni (FLN) og náðu að bola frökkum burt árið 1962. Fyrsti forseti Alsírs, Ahmed Ben Bella, var velt úr sessi af varnarmálaráðherranum, Houari Boumédiènne árið 1965 og við tók tiltölulegur stöðugleiki sem varaði í næstum 25 ár undir sósíalíska flokk Boumédiènn og eftirmanni hans Chadli Bendjedid.

Íslamska frelsishreyfinginn vann fyrstu lotu í kosningum sem haldnar voru í desember 1991, fyrstu fjölflokkakosningunum í Alsír frá sjálfstæði. En herinn stöðvaði aðra lotu og neyddi Bendjedid til að segja af sér og bönnuðu Íslömsku frelsishreyfinguna í kjölfarið. Borgarastyrjöld hófst þar sem meira en 100.000 manns féllu, sem að mestu mátti rekja til múslímskra andspyrnuhópa, s.s. Vopnaða íslamska hópinn sem stóðu fyrir fjöldamorðum á borgurum. Borgarastyrjöldin leið nokkurn veginn undir lok í kringum 2000, en þó halda einstaka skærur áfram víðsvegar um landið gegn óbreyttum borgurum og öðrum hryðjuverkaárásum.

Búrúndí og Rúanda

Lýðveldið Búrúndi er pínulítið ríki með rosalega stór vandamál. Hún liggur norðan við landamæri Rúanda, Tansaníu til suðurs og austurs og Kongó í vestri. Það liggur líka við Tanganyikavatnið, er samt landfræðilega innilokað og er ekki nema 28.000 ferkílómetrar[2] í stærð, en þar búa um 2,3 milljónir manns.

Árið 1903 var Búrúndi þýsk nýlenda en síðan tóku Belgar við í fyrri heimstyrjöldinni. Búrúndí var samt konungsveldi og hafði verið síðan á 16du öld og þar til það féll árið 1966 í kjölfar sjálfstæðis árið 1962. En frá 1962, þar til kosningar voru haldnar 1993, var Búrúndí stjórnað af fjöldann öllum af herskáum einræðisherrum sem allir voru af minnihlutahóp Tútsa og stjórnuðu þjóðernishreinsunum sem beint var að Hútsum sem voru langtum fleiri en Tútsar, alvarlegustu atvikin áttu sér stað 1964, 1972 og seinni hluta níunda áratugs.

Fyrstu frjálsu kosningarnar voru árið 1993 og flokkur Hútsa náðu yfirgnæfandi meirihluta. Í kjölfarið á því að fyrsti Hútu-forsetinn var myrtur blossaði upp borgarastyrjöld og hundruði þúsunda Tútsar féllu í valnum, því var svarað af hernum, sem Tútsar voru meirihluta í, með morðum á þúsundum Hútsa.

Stöðugleiki náðist nokkurn veginn 1996 þegar fyrrum forseti Búrúndí, Pierre Buyoya, náði völdum og friðarsamkomulagi var náð árið 2000 milli allra flokka nema tvo og reynt var að komast á samkomulagi um lýðræði, en átök héldu samt áfram. Samið var um vopnahlé árið 2003 milli ríkistjórnar og öflugustu Hútu andspyrnuhópinn. En ógnvænlegasti andspyrnu-hópurinn, FNL, neitaði öllum friðarumleitunum og héldu áfram skærum gegn Tútsum. En í maí 2005 náðist vopnahlé við FNL, en skærur og átökunum hefur ekki linnt.

Nær nákvæmlega sama atburðarrás átti sér stað í nágrannaríkinu Rúanda þegar Hútsar slátruðu Tútsum í hundruðumþúsundum. Það grátbroslega er að þetta þjóðarmorð vakti nær enga athygli í fjölmiðlum þrátt fyrir að fréttamenn voru á staðnum, sem urðu vitni og tóku myndir af svívirðilegum ódæðisverkum þegar Hútsar voru bókstaflega að slátra Tútsum með sveðjum. Líkin sem söfnuðust voru fleygð útí Ruzizi-ánna og þaðan lá leiðin í annað elsta og stærsta stöðuvatnið í heiminum, Tanganyika, og tugþúsundir rotnandi líka skoluðust uppá strendur Tanzaníu, Zambíu og Lýðveldið Kongó.

Eþíópía og Eretría

Eitt frægasta sjálfstæða ríkið í Afríku er talið vera Eþíópía, frægðin er útaf því að ríkið hefur alla tíð verið sjálfstætt jafnvel þegar nýlendukapphlaupið stóð sem hæst, að undanskildum 5 árum þegar Ítalía náði völdum. En það tímabil, frá 1891-96, varð til þess að lítil Ítölsk nýlenda, sem var hluti af Eþíópíu, varð til. Það var ríkið Eratría. Einnig náðu Ítalar einhverjum völdum yfir Eþíópíu í seinni heimstyrjöldinni, en sá sigur stóð einnig stutt.

Eþíópía er staðsett á austurhorni Afríku við landamæri Sómalíu, Kenýu, Súdan, smáríkið Djíbúti og auðvitað Eratríu, sem liggur við Rauðahafið og Adenflóann. Eratría fékk sjálfstæði 1952 og 10 árum seinna þá innlimuðu Eþíópía ríkið sem leiddi til átaka sem stóðu í næstum 30 ár þar sem Eratría barðist fyrir sjálfstæði á ný. Sjálfstæðisbarátta Eratríu fékk aðstoð frá Eþíópískri andspyrnuhreyfingu sem barðist á móti hrottalegu einræðisstjórn í Eþíópíu. Í Apríl 1993 var þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Eratríu sem alþjóðastofnanir fylgdust með, gífurlegur meirihluti landsmanna vildu sjálfstæði sem og varð. Þetta virtist ganga vel í nokkur ár eða þar til stjórn Eratríu hóf útgáfu á eigin gjaldmiðli, þá blossuðu upp á ný milliríkjaátök.

En gjaldmiðillinn var bara dropinn sem fyllti mælirinn, því að landamærin voru frekar óljós þegar þjóðaratkvæðagreiðslan var borin á borð á sínum tíma, því að Eþíópía hefur ekki greiðan aðgang að Rauðahafinu, og þurfa því að stóla á það að ferðast í gegnum önnur ríki, s.s. Eratría, Sómalíu eða Djíbútí. Reynt var að stilla til friðar af alþjóðlegum samtökum og Samband samstöðu Afríku sem lokst náðist í júní 2000.

Á þessu tímabili var samt marg-brotið á mannréttindum, t.a.m. voru hópar af fólki sem komu frá eða voru af Eretríuskum ættum handteknir í Eþíópíu, börn voru notuð sem hermenn og fleira, einnig á meðan átökin stóðu sem hæst urðu miklir þurrkar í ríkjunum, sem líktust mjög þurrkatímabilinu 1984.

Einsog er þá ríkir friður milli þessara ríkja, en landamærin hafa samt ekki breyst og það gæti vel farið svo að átök gætu blossað á ný. En samkvæmt nýlegri frétt frá Reuters[3] þá er aftur byrjuð að myndast viss spenna milli ríkjana tveggja.

Fílabeinsströndin

Á vesturströnd Afríku, við landamæri Búrkína Fasó, Líberíu, Gíneu, Ghana og Malí er ríki sem átti mikla efnhagslega velsæld frá því að hafa fengið sjálfstæði 1960 og fram að miðjum níunda áratugnum. Fílabeinströndin var frönsk nýlenda frá 1890, en frakkar höfðu samt efnahagskerfið í höndum sér eftir að ríkið var veitt sjálfstæði og í kjölfarið varð Fílabeinströndin með einn mesta hagvöxt af Afríkjuríkjunum, útflutningur var meðal annars kaffi, kakó og ávextir.

En þó að efnahagsleg velsæld einkenndi landið þá var það stjórnað með offorsi af einræðisherranum Houphouët-Boigny þangað til um miðbik 9. áratugarins þegar heimskreppann skall á og mikið þurrkatímabil skók hagkerfið. Það sem áður hafi verið kallað franska kraftaverkið var liðið undir lok og í kjölfarið jukust glæpir sem náði nokkurri fjölmiðlaathygli.

Uppúr 1990 urðu vandamálin enn fleiri þegar opinberir starfsmenn fóru í verkfall og stúdentar mótmæltu spillingu ríkisins, þessi óöld neyddi stjórnvöld að koma á fót fjölflokkalýðræði, en undir stjórn Houphouët-Boigny var aðeins einn flokkur á móti ríkjandi flokki forsetans. Eftir að hann dó árið 1993 þá tók Henri Konan Bédié við, en hann var persónulega valinn af Houphouët-Boigny.

Kosningar voru haldnar í október 1995 og ráðandi flokkur þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að sigra þær kosningar þar sem mótframbjóðendur voru óskipulagðir og tvístraðir. Bédié sendi hundruði andstæðinga í fangelsi og herti þar með tak sitt í stjórnmálum. En vandamálin voru samt rétt að byrja fyrir íbúa Fílabeinstrandar, því ólíkt Houphouët-Boigny, sem hafði landið opið fyrir mismunandi þjóðflokka og kynstofna, þá undirstrikaði Bédié þjóðernislegar kenndir í pólítískum tilgangi, semsagt að þeir sem væru ekki af ”hreinum” ættum frá Fílabeinströndinni voru úthýstir frá öllum almennum störfum og blöndun var bönnuð.

Þetta náði einnig til her landsins sem skapaði töluverða óánægju innan hersins sem leiddi til þess að herinn framkvæmdi valdarán og Bédié flúði til Frakklands. Valdaránið hafði frekar góð áhrif þar sem spilling og glæpir minnkuðu töluvert, en þetta var skammlífur vermir. Aftur voru haldnar opnar kosningar í október árið 2000, en því miður voru þær ekki friðsamlegar né lýðræðislegar. Sá sem tók við völdin eftir kosningarnar, Robert Guéi, var ásakaður um svindl sem leiddi fljótlega til borgarastyrjaldar, 180 manns féllu og Guéi var neyddur til að segja af sér. Mótframbjóðandi hans, og líklegur sigurvegari, Gbagbo, var fljótur að taka við leiðtogataumana. Einn frambjóðandi, Alassane Ouattara var talinn vanhæfur af hæstarétti á grundvelli þjóðernis, en hann var frá Búrkína Fasó. Þetta leiddi til frekari átaka á norðurhluta landsins.

Kvöldið 19. september árið 2002 eru skiptar skoðanir hvað gerðist nákvæmlega og hver stóð fyrir því, atburðarásin var á þá leið að herinn gerði uppreisn og náði völdum á norðurhlutanum, Guéi var myrtur ásamt fimmtán öðrum á heimilinu sínu og Ouattara leitaði skjóls í Franska sendiráðið. Ýmist er talið að herin hafi reynt valdarán, aðrir segja að andstæðingar Gbago voru myrtir af dauðasveitum stuðningsmönnum hans og að valdaránið hafi verið óskipulagt afsprengi þess.

Reynt hefur verið að stilla til friðar í landinu, en skipulagðar ofsóknir og fjöldamorð halda enn áfram. T.a.m. í mars 2004 voru 120 manns drepnir sem voru mótfallnir forsetanum.

Kongó

Þetta litla ríki má ekki rugla við Lýðveldið Kongó sem er suður og vestan við Kongó. Önnur lönd við landamærin eru Gabon, Kamerún, Miðafríkulýðveldið og Gíneuflóinn. Þetta var frönsk nýlenda frá því um 1880 og einsog með aðrar nýlendur var mikið um arðrán í ríkinu og almenn mannréttindabrot.

Það var í seinni heimstyrjöldinni að höfuðborg Kongó, Brazzaville, varð symbólísk höfuðborg hins ”Frjálsa Frakkland” frá árunum 1940-43 og það urðu gífurlegar breytingar gagnvart þegnum Kongó þar sem miðstýring á vissum stofnunum var minnkuð umtalsvert. Íbúar Kongó fengu Franskan ríkisborgararétt og þrælavinna var aflögð. Í kjölfarið voru innviði ríkisins styrkt og má segja að ríkið hafi verið ”vestrænað” ef svo má að orði komast.

Árið 1960 var Kongó veitt sjálfstæði, fyrsti forsetinn var Fulbert Youlou. En hans valdatímabil stóð stutt, en sama ár hófu pólítískir andstæðingar og verkamenn þriggja daga andspyrnu og Youlou var neyddur til að segja af sér. Herinn tók við stjórn í nokkra mánuði þar til að ákveðið var að mynda ríkistjórn sem Alphonse Massamba-Débat leiddi, en í ágúst 1968 var valdarán og Marien Ngoubi, kapteinn í hernum, tók við forsetatitlinum og ári seinna ákvað hann að gera Kongó að fyrsta sósíalistaríkinu í Afríku. 1977 var hann myrtur og Joachim Yhombo-Opangi tók við völdum.

Í 24 ár var Kongó sósíalískt ríki, en þegar Sovétríkin hrundu, urðu pólítískar breytingar á þann veg að fjölflokklýðræði var sett á fót og kosningar voru haldnar í ágúst 1992 og prófessor Pascal Lissouba var kjörinn forseti. En lýðræðið lendi í hættu 1997 þegar mikil spenna myndaðist milli flokks Lissouba og flokks Denis Sassou-Nguesso, sá sem tapað hafði kosningunum fimm árum fyrr. Forsetinn fyrirskipaði hernum að umkringja aðsetur Sassou í Brazzaville, sem sjálfur fyrirskipaði sínu herliði að veita mótspyrnu. Þá hófust fjögra mánuða átök sem steypti ríkistjórn Lissouba af stóli og Sassou lýsti sjálfur yfir því hann væri forseti.

Kosningar voru haldnar 2002 og Sassou vann með 90% atkvæða, þetta voru augljóslega spilltar kosningar þarsem flokkar höfðu verið bannaðir og mótherjar neituðu að taka þátt og hvöttu flokksmenn sína að hundsa kosningarnar. Átök geisa enn víða í Kongó, sérstaklega í þorpum og bæjum.

Lýðveldið Kongó

Viðstöðulaus átök í Lýðveldinu Kongó (áður þekkt sem Belgíska-Kongó og Kongó-Zaire)er bein afleiðing nýlendustefnu Belgíu sem, árið 1885, réðst inní landið og náði skjótt völdum. Leópald II, konungar Belgíu, leit á landið sem sitt persónulega lénsveldi þrátt fyrir að hafa aldrei stigið fæti inná landið fyrir né eftir valdaránið. Eftir 75 ára nýlendustjórnun fóru Belgar fljótlega frá landinu og skildi landið eftir í fjárhagslegum brunarústum. Þar sem lítið var af fjármagni náði landið aldrei að komast á réttan kjöl og í kjölfarið hafa milljónir manna verið drepnir eða limlestir og líkist helst ástandinu sem var í Sierra Leone nú fyrir stuttu.

Árið 1959 var flokkur Patricé Lumumba kosinn í fyrstu frjálsu kosningunum og varð hann forsætisráðherra. Jospeh Kasavubu var kosinn forseti af þinginu. Rúmlega ári síðar var Lumumba varpað fyrir róða til að viðhalda Bandarískum og Evrópskum hagsmunum. Hann var myrtur árið 1961. Í pólítíska og stjórnlausa tómarúmi mynduðustu þónokkrar ríkistjórnir sem héldu varla velli og í fimm ár ríkti óöld í ríkinu.

Árið 1965 var gert valdarán og Mobutu Sese Soko settist í valdstólinn og landið var skýrt Zaire. Þessi aðgerð var styrkt af Bandaríkjunum. Sese Soko var dyggur stuðningsmaður BNA og einnig var greiddur aðgangur að auðlindum, sem Kongó er afar ríkt af, sem bandarískir og evrópskir auðhringir græddu gífurlega á, en lítið sem ekkert fór til að byggja upp innviði ríkisins.

Lýðveldið Kongó er þriðja stærsta ríkið í Afríku og er staðsett í mið-Afríku. Það liggur við landamæri Miðafríkulýðveldið, Súdan, Úganda, Rúanda, Búrundi, Tansaníu, Zambíu og Angóla. Tvö stríð hafa verið háð útaf Kongó, fyrra og seinna Kongóstríði sem hófst 1998 og það er ein mesta og blóðugusta styrjöld síðan seinni heimstyrjöldin var. Þetta stríð er einnig kallað Afríska heimstyrjöldin, því að mörg Afríkuríki taka þátt í baráttunni sem þarna á sér stað, þ.á.m. Zimbabwe, Angóla, Namibíu, Tjad og Súdan.

Á meðan Mobutu var við stjórn þá sökkti hann ríkinu í ótrúlegar skuldir sem nema um 12 milljarða bandaríkja dali og í landi þar sem árlegar meðaltekjur einstaklings er um 110$ þá skuldar hver manneskja næstum 230$ í alþjóðlegar lánastofnanir. En samt hafa hópar efni á því að versla hjá vopnasölum sem koma bæði frá Bandaríkjunum og Sovétríkjunum. Ríkistjórn Mobutu var velt úr sessi í maí 1997 af andspyrnuhópi sem leitt var af Laurent-Désiré Kabila, eina breytinginn var að nafninu var breytt í annað sinn, en annars kom það fljótlega ljóst að spilltum einræðisherra hafi verið skipt út fyrir nýjum spilltum einræðisherra og stjórnarfarið var mætt mótspyrnu sem styrkt var af Rúanda og Úganda í Ágúst 1998.

Þrátt fyrir umsamið vopnahlé milli stríðandi fylkinga sem skrifað var undir árið 1999 halda átökin áfram og er fjármagnað af ólöglegri námuvinnu, s.s. koltan, tinoxíð og demanta. Í janúar 2001 var Kabila myrtur og sonur hans Joseph Kabila var tilnefndur sem næsti leiðtogi og hann hófst fljótlega við frekari friðarumleitana. Árið 2002 samþykktu stríðandi hópar vopnahlé sem undirritað var í Suður-Afríku, en samt héldu átökin áfram, en friður hélst árið 2003 og hengur á bláþræði í dag, því enn eru átök, árásir og hryðjuverk í bæjum og borgum.

Stríðið sem hófst 1998 hefur kostað að minnsta kosti 4 milljónir manna lífið, útaf átökum, sjúkdómum og hungri, auk þess að 2.5 milljón manns hefur verið rekið á flótta frá heimilum. Fjöldinn allur af vandamálum hrjá landið sem ekki gefst ráð að telja upp[4].

Nígería

Nígería er eitt ”auðugusta” landið í Afríku en samt er morandi af fátækt, spillingu, hungur, morðum og átökum. Árið 1999 náði ríkið að losa sig frá 16 ár af hryllilegum einræðisstjórnum og valdaránum þegar lýðræði var endurreist, en samt eru vandamál ríkisins langt í frá lokið þar sem erlend stórfyrirtæki eru mjög ráðandi í öllu sem viðkemur stjórnskipulagi landsins.

Landið er mjög auðugt í auðlindum, stærstu olíulindir sem finnast í Afríku, kolanámur og tin, auk ávaxta, sykureyr, kókós, maís og fleira. Sökum þess að fyrrum einræðisherrar hafa misnotað fjármagnið sem fékkst af þessum vörum þá er efnahagskerfi Nígeríu mjög óstöðugt. Ríkið liggur við Gíneuflóan og við landamæri Kamerún, Tjad, Níger og Benín.

En ríkið hefur samt verið mjög í deiglunni hjá umhverfisverndarsinnum, mannréttindarsamtökum og sanngjörnum verslunarsamtökum (fair trade) útum allan heim. Atvik sem henti fyrir nokkru náði heimsathygli þegar Ken Saro-Wino og átta aðrir frá Ogoni-ættbálknum voru hengdir fyrir að mótmæla umhverfispjöll sem m.a. Shell stóð fyrir. Í kjölfarið varð vaxandi samúð fyrir barráttu Ogoni-ættbálksins. Einnig hafa aðgerðir stórfyrirtækja vakið athygli og gagnrýni, s.s. ExxonMobil, Chevron, Shell, Elf, Agip o.fl. sem hafa átt stóran þátt í því að gera Nígeríu að einu fátækasta ríki í heimi, sem er í hrópandi mótsögn við þann gífurlega gróða sem fæst af olíusölu.

Samkvæmt Human Rights Watch þá eru þessi stórfyrirtæki beinlínis að stuðla að mannréttindabrotum til að fá einhvern frið að athafna sig. Fólk frá Níger Delta, s.s Ogoniþjóðflokksins, Ijaw og fleiri, hafa reynt að standa í hárinu á þeim, en Nígerísk stjórnvöld og olíufyrirtækin hafa bara svarað með því að lúskra á öllum mótmælendum, til að mynda hefur Shell verið harðlega gagnrýnt fyrir að borga aðilum til að tvístra friðsamlegum mótmælum og þar með reyna að tvístra litlum samfélögum. Umhverfisverndarhópar og skipulögð mótmæli hafa mætt óeirðalögreglum og jafnvel hernum, sem hefur leidd til morða. Það þekkist líka að olíufyrirtækin hafa kallað til hersins fyrir aðstoð gegn mótmælendum.

Olíuvinnslan í landinu hefur eyðilagt lífsviðurværi heilu kynslóðana þar sem starfsemin mengar ár, vötn og jörð, jafnvel grunnþarfir einsog aðgangur að hreinu vatni er orðið nær ómögulegt útaf athafnafrelsi þessara stórfyrirtækja. Mannréttindabrot í Nígeríu eru mjög algeng, ekkert málfrelsi, ekkert skoðanafrelsi og bann á róttækum hópum eða jaðarfélögum, s.s. umhverfisverndarsinnar, mannréttindahópar eða kvenréttindahópar. Þetta hefur leitt til þess að erfitt er að fá almennilegar upplýsingar frá landinu þar sem stjórnvöld og stórfyrirtæki í raun stjórna öllum fréttaflutningi.

Zimbabve

Í suðurhluta Afríku, við landamæri Suður-Afríku, Botswana, Zambíu og Mósambík er lýðveldið Zimbabve. Ríkið hét áður Ródesía í höfuðið á breska heimsvaldasinnanum og landkönnuðinum Cecil Rhodes. Á árunum 1896-97 var Zimbabve orðin að breskri nýlendu, en þarna var að finna verðmæta málma og steintegundir.

Síðla hluta sjöunda áratugarins á síðustu öld byrjuðu andspyrnuhópar að herja á hvíta bændur, og í kjölfar sjálfstæði Mozambík árið 1975 efldist andspyrnuhreyfingar til muna með viðstöðulausum árásum á breta, átökin mögnuðust og borgarastyrjöld skall á. Samið var við þrjá helstu leiðtoga andspyrnuhreyfingarnar árið 1978, og bretar leyfðu ríkisstjórninni að vera leidd af Abel Muzorewa biskupi. Þetta var tilraun til að friðþæga íbúa Zimbabve, þó að hann væri studdur af bresku og suður-afrísku stjórninni, þá átti hann né stjórnin ekki mikin stuðning hjá meirihluta íbúa landsins, einfaldlega sökum þess að biskupinn var eini svarti maðurinn í stjórn.

Ári seinna var byrjað að ræða um sjálfstæði ríkisins, og eftir samningaviðræður og stagl fékkst það árið 1980 og í febrúar sama ár voru haldnar frjálsar kosningar þar sem Afríski þjóðarflokkur Zimbabve (ZANU) með Robert Mugabe í broddi fylkingar vann með yfirgnæfandi meirihluta. Hann hóf samstarf við Afríska sambandsflokk Zimbabve (ZAPU) sem Joshua Nkomo leiddi.

En Mugabe gat ekki verið í samstarfi við Nkomo og var hann neyddur úr stjórn sem leiddi til beinna vopnaátaka milli ZANU og ZAPU. Þessi átök varð til þess að það upphófst þjóðarmorð á Ndebele-þjóðflokknum. Fimm árum síðar var samið um vopnahlé og ZAPU-flokkurinn sameinaðist föðurlandsdeild ZANU árið 1988.

Árið 1999 hóf Mugabe að reka alla hvíta landeigendur frá Zimbabve, þetta olli miklum deilum innan og utan ríkisins og vakti heimsathygli. En hvítir voru aðein 1% af þjóðinni en áttu 80% af bestu ræktanlegu jörðinni í Zimbabve. Þessar aðgerðir leiddu til en meiri örbirgðar og hungurs í landinu síðan þurrksins í suðurhluta Afríku 1992.

Samkvæmt sameinuðu þjóðunum eru 25% íbúa Zimbabve með eyðni eða HIV, sem er með því hæsta í heiminum, en að meðaltali eru 0.65% með eyðni eða HIV í hverju ríki fyrir sig. Mugabe hefur verið ásakaður um gróf mannréttindabrot og síendurtekin kosningasvindl, enda hefur hann ekki tapað kosningum síðan ríkið varð sjálfstætt og litlar líkur eru á að hann muni frá hverfa nema að blóðug bylting eigi sér stað.

Niðurlag

Vandamál Afríku felst aðallega í landamæralínum sem skissaðar voru upp af nýlenduþjóðum, og almenn vanvirðing vesturlandabúa gagnvart íbúum Afríku og það virðist sem mannkynbótastefna eða kynþáttahyggja og græðgi ráði hvað mest um örlög þessara álfu. Afskiptaleysi fjölmiðla og afskiptasemi alþjóðabanka og –lánastofnana hefur einnig átt töluverðan þátt í þeim hræðilegu hremmingum sem þessi lönd eru í. Fyrir rúmlega 30-40 árum var Afríka mun auðugri en suðaustur-Asía og töldu sérfræðingar þá að Afríka mundi eiga bjarta og ríkulega framtíð. Nú hefur þetta gjörsamlega snúist við og suðaustur-Asía er með hvað mesta hagvöxt nú í dag og er á góðri leið með því að ná ríkidæmi vesturlanda.

Þau átök sem geisa víðar um álfuna er bein afleiðing af nýlendustefnu Evrópu og einnig áhrif frá þeirri pólítískri refskák sem Bandaríkin og Sovétríkin spiluðu á Kaldastríðs-árunum, því í flest öllum tilfellum eru þarna einstaklingar og litlir hópar að kljást um völdin án þess að skeyta um íbúa viðkomandi ríkis, þetta er það sem stórveldin hafa kennt fólkinu; græðgi og skeytingarleysi. Í Afríku eru margar kynslóðir sem þekkja ekki annað en styrjaldir, átök, hungur, fátækt og vosbúð og það virðist ekki glitta í vonarneista um að friður gæti nást.

Heimildir:

http://www.globalissues.org/
http://en.wikipedia.org/
http://www.globalissues.org/Geopolitics/Africa/Intro.asp
http://en.wikipedia.org/wiki/Angola
http://en.wikipedia.org/wiki/Algeria
http://en.wikipedia.org/wiki/Burundi
http://www.globalissues.org/Geopolitics/Africa/DRC.asp
http://en.wikipedia.org/wiki/Republic_of_the_Congo
http://www.globalissues.org/Geopolitics/Africa/EthiopiaEritrea.asp
http://en.wikipedia.org/wiki/Ethiopia
http://en.wikipedia.org/wiki/Ivory_coast
http://mondediplo.com/2000/10/09abidjan
http://en.wikipedia.org/wiki/Zimbabwe


[1] Eða því sem kemst næst varanlegum friði því oft er ástandið í mörgum þessum ríkjum svo brigðult að það þarf bara lítinn neista til að sprengja púðurtunnuna
[2] Til sbr. er Ísland 103.000 ferkílómetrar
[3] [hlekkur]
[4] Mæli með lestur á þessum lista: [hlekkur]

fimmtudagur, desember 08, 2005

Mig dreymdi draum sem mun hugsanlega gleðja eitt hjarta sérstaklega

Kom heim einn daginn, þar sátu foreldrar mínir og mínar systur og horfðu á sjónvarpið í stofunni. Mér var svo litið í sófann og sá gamla, svarta, loðna blendinginn liggjandi í makindum. Minn svipur einkenndist af forviða. Sú yngsta tók eftir undrunarsvipnum og sagði mjög stóísk, með bros á vör "Já, hann er bara kominn aftur."

"Nú jæja, það er nú gott," sagði ég og klappaði Bangsa, sem mjálmaði lágt.

Ég var bara mjög ánægður með heimkomuna hans.

Þetta þótti mér afar þægilegur draumur.

Dórómei!

Á næstu dögum mun birtast hér úttekt í formi ritgerðar á átökum í ca. 10 ríkjum í Afríku sem ég er að vinna fyrir sögu, en það hefur samt verið í bígerð lengi að gera svona netta úttekt. Þær upplýsingar eru að mestu byggðar á upplýsingum frá Wikipedia og Global Issues, auk ýmissa annarra heimilda.

Stay tuned.

Arðrán og nýlendur

I.
Í kaflanum kemur fram að átaksinnar telja að Evrópa hafi notið góðs af arðráni nýlendnanna í þriðja heiminum.Á nýlendutímanum var Ísland hluti Danaveldis. Merkir það að við höfum verið í sömu sporum og nýlendur þriðja heimsins eða nutum við á einhvern hátt góðs af nýlendunum þar?

Í álfum einsog Afríka, Asía og Ameríka var og er töluvert af náttúrulegum auðlindum, má til að mynda nefna gas, olía, gull, demantar og aðrir verðmætir málmar sem nýlenduveldum var mjög í mál að sækjast í. Á Íslandi er vissulega auðlind: fiskur. Hvort að við vorum arðrænt af þessari auðlind er síðan annað mál en ég tel að svo hafi ekki verið. Það var ekki mikil ástæða fyrir því að vera nýlenda undir Danaveldi önnur en hégómi danskra stjórnvalda. Óbeint nutum við góðs af nýlendunum þegar Bretar og síðar Kanar komu og dældu fjármagni inní Ísland, fjármagn sem þeir höfðu grætt á arðráni í fyrrnefndum álfum.

II.
Sumir segja að áður fyrr hafi nýlendustefnan átt þátt í að stuðla að þróun í þriðja heiminum og að það sami gildi um auðhringi nú á dögum. Aðrir telja að þessi tvö fyrirbæri hafi hindrað og hindri enn þróun í þriðja heiminum. Takið saman rök fyrir báðum sjónarmiðum og takið rökstudda afstöðu til málsins.

Útbreiðsla hugmynda og menntun stuðlar að vissri framþróun ríkja og eflaust stuðluðu nýlenduveldin að lýðræðisþróun ýmissa ríkja. Auðhringir dæla nú fjármagni í ríkistjórnir í Suðri, þ.e.a.s. hluta af þeim arði sem auðhringir hafa af aðgangi jarðefnaeldsneyta og ýmsum málmanámum. En hvað hefur þetta áorkað? Í mörgum ríkjum hafa verið gegndarlausar borgarastyrjaldir, milliríkjadeilur, hryðjuverkaárásir og önnur átök, auk langtíma þurrki, hungursneyð, sjúkdómafaraldur. Fátækt er mikil og glæpatíðni (morð, nauðganir, þjófnaður o.fl.) helst í hendur við volæðið. Miðað við stærðargráðu af þessum hryllingi þá eru mætti réttilega kalla þá atburði sem eru að eiga sér stað í Afríku þriðja heimstyrjöldin, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að aðrar álfur hafa ekki dregist inní þessi átök þó að vissar stofnanir og fyrirtæki hafa gert það. Nýlenduveldin stuðluðu að þessari sérstöku lýðræðisþróun og auðhringir styðja við spillt lýðræði til þess eins að hafa greiðan aðgang að auðlindum. Hugmyndirnar, fjármagnir og menntunin hefur ekki breiðst lengra út en innan stjórnaráð ýmissa landa.

III.
Haraldur Ólafsson kristniboði sagði í Kirkjuritinu (3. hefti 1982): “Við erum arðræningjar og kúgarar, þriðji heimurinn er öreiginn.” Hvernig má rökstyðja þetta sjónarmið? Stenst rökstuðningurinn nákvæma skoðun?

Ef hann Haraldur meinar með orðinu “við” að við öll í hinum vestræna heimi erum arðræningjar og kúgarar þá hefur hann alveg rétt fyrir sér. Við styðjum beint og óbeint arðrán með því að kaupa vörur frá fyrirtækjum sem stunda arðránið og þar með styðja auðhringi til frekari arðrána og annara ámóta aðgerða. Þetta gerir okkur einnig að kúgurum því að mikið af þessum sömu fyrirtækjum eru með undirverktaka í suðaustur-Asíu, Afríku og víðar sem starfrækja þrælakistur þar sem börn allt niðrí fjögra ára gamalt vinnur næstum 14-16 tíma á dag án hlés eða klósettferða við að sauma skóna sem við göngum í, gera farsímana sem við tölum í og tína kaffibaunirnar sem við neytum og fá kannski sem samsvarar hundrað krónur á viku fyrir starfskilyrði sem varla er mönnum bjóðandi. Við erum kúgarar því við erum ekki að þrýsta á okkar ríki eða önnur sem hafa höld og tögl í efnahagskerfi heimsins og hafa hagkerfi þriðja heimsins undir sínum járnhæl.

[þetta er úr félagsfræðiverkefni, spurningarnar koma úr bókinni Ríkar þjóðir og snauðar, eftir Hannes Í. Ólafsson]

miðvikudagur, desember 07, 2005

Nokkrir punktar...

... svona bara rétt áður en ég fæ mér smók og leggst svo uppí rekkju til að lesa, þetta eru staðhæfingar og hálfkláraðar spurningar sem einkennast af skorti af sjálfstæðum vilja:

  1. Ég skráði mig á myspace fyrir mörgum mánuðum síðan... gerði lítið annað en að skrifa nafn mitt og skella inn mynd, en nú fyrir stuttu dútlaði ég mér við að telja upp hljómsveitir sem ég fíla... en í sannleika sagt þá nenni ég ekkert að eipa í myspace...en er þetta ðe sjiznitt?
  2. Mig hefur klæjað ískyggilega á bakinu nú undanfarið og ég tel að það megi rekja það til hins mikla makka sem hefur sprottið úr hársverðinum, ég hef í hyggju að klippa það af og ekki aðeins það, heldur raka það afar, afar stutt...?
  3. Ég var að spá að fara útí búð með fimmhundruðkall og kaupa mér líf, frétti að það væri á tilboði...ætti ég kannski frekar að fá mér bjór*?
*ummmm... djöfull væri gott að fá bjór núna, ég fæ vatn í munninn!

Jól

eftir Stein Steinarr

Sjá, ennþá rís stjarnan, sem brennur björtust og mildust
á bládjúpum miðsvetrarhimni hins snæþakta lands.
Sjá, ennþá nálgast sú hátíð, sem hjartanu er skyldust
og huggar með fagnaðarsöngvum hvert angur manns.

Og innan skamms byrjar kappát í koti og höllu,
og klukknahringing og messur og bænagjörð.
Það er kannski heimskast og andstyggilegast af öllu,
sem upp var fundið á þessari voluðu jörð.

Og ger þú nú snjallræði nokkurt, svo fólkið finni
í fordæmi þínu hyggin og slóttugan mann:
Með kurteisum svip skaltu kveikja í stofunni þinni,
og kauptu svo sóknarprestinn og éttu hann.

Nokkur verkefni

Á næstunni munu birtast nokkur verkefni sem ég hef verið að vinna í skólanum, sum eru betri en önnur og önnur eru frábærar en hinar. Ég ætla samt ekki að gera fólki þann skaða að fylla bloggið á einum degi af orðaflaumi, en frekar láta þetta seitlast inn á næstum dögum...

Rauðir rithöfundar

[Lokaverkefni í ísl503.Það hefði verið skemmtilegra að skella fleirum kommum í þennan fríða hóp, en ég læt þessa mannfjanda bara duga, en fékk þó 10 fyrir þetta]

Það er svo létt um logna eiða nú,
því ljónið geymir stundum sína bráð.
- En hver vill hjara á þeirri nýju náð
Til 1943?

-Frelsi, Jóhannes úr Kötlum, 1935

Inngangur

Það hefur verið erfitt að finna viðfangsefni fyrir þetta lokaverkefni. Máske má það vera þessi litla þörf að vera nett á skjön við alla aðra og auk þess að reyna á frumlegheitin með því að koma með áhugavert efni, auk þess er þessi vottur af uppreisnargirni sem virðist hrjá menn einsog mig sem hallast að stefnum sem ekki er stjórnvöldum þóknaleg.

Í þetta sinn komu frumlegheitin aftan að mér, einsog komið hefur fyrir áður, því eftir lestur á ýmsum heimildum byrjaði ég á verkefninu sem átti upprunalega að fjalla um meistara Þórberg Þórðarsson og nazistamálið árið 1934. Þegar ég hafði klárað rúmlega 2 síður og las það yfir kom í ljós að þetta tengdist lítið bókmenntum eða bókmenntastefnu, að undanskildum rithöfundinum sjálfum, honum Þórbergi.

En það var samt einn rauður þráður sem ég fann í heimildarvinnu minni sem leiddi til þriggja stórmerkilega höfunda sem höfðu gífurleg áhrif á samtíma- og framtíðarhöfunda með skrifum sínum. Þeir áttu það sameiginlegt að þeir gagnrýndu harkalega ýmislegt í samfélaginu og hið formfasta ljóðaform sem einkenndi íslenska skáldagerð og lögðu línurnar af nýjum stefnum á Íslandi sem þegar hafði náð einhverji fótfestu erlendis. Einnig lágu leiðir þeirra í sameiginlegan flokk og sameiginlega stefnu, þó skildust leiðir á einhverjum tímapunkti.

Halldór Kiljan Laxness, Steinn Steinarr og Þórbergur Þórðarsson eru dag þjóðþekktir rithöfundar og skáld. Þeir voru einnig byltingarmenn í stíl og formi ljóðlistar og skáldskap og áttu allstóran þátt í að breyta landslagi bókmennta hér á landi. En þeir voru einnig byltingarkenndir á annan hátt en ritlist, þeir hölluðust að kommúnisma, sósíalisma og að vissu leyti anarkisma og voru þar af leiðandi töluvert uppreisnagjarnir bæði er þeir voru ungir og aldnir, ollu fjaðrafoki í samfélaginu með hispursleysi sínu sem mátti lesa í ritum þeirra og stundum í verki og gátu komist í töluverðan vanda út af pólítískum skoðunum sínum.

Þannig að í þessu verkefni mun ég aðeins fara útí ævi, störf og skáldskap þessara höfunda og ætla ég mér að einskorða nokkurnvegin við tímabilið frá 1920-1960, frá því að Bréf til Láru kom út, þegar útgáfa á Rauðum Pennum hófst, er Rauður logi brann birtist, Atómstöðin olli deilum auk fleiri bókmennta og drepa aðeins niður á heimsóknir þeirra til Sovét-Rússlands. Það verður reynt að fara eins vítt og breitt í eins stuttu máli og hægt er.

Þórbergur Þórðarsson

Meistarinn sjálfur, Þórbergur Þórðarsson var sá fyrsti til að birta kvæði og gefa út ljóðabækur sem beinlínis gerðu grín að ljóðahefðinni og kom auk þess með módernískar pælingar, eða öllu heldur fútúrískar, en Þórbergur vissi ekki að sú stefna væri í bígerð í Ítalíu á næstum sama tíma og hann var að semja þessi ljóð. Hér er dæmi um nýjungagirni Þórbergs, síðasta erindið í kvæðabálknum “Fútúrískar kveldstemmingar”

Láttu geisa ljóða úr bási,
ljúfa barn í mannlífsskarni!
Spæjari!Varstu sprok að segja?
Sprungu lýs á rauðri tungu?
Glyserín er guðleg læna.
Gling-gling-gló! og hver á hróið?
Nybbari sæll og Nói skrubbur!
Nonsense, kaos, bhratar! monsieur!

Þetta ljóð var ort undir hrynhendum bragarhætti, eða liljulagi, og eflaust gert til að gera gys af hátíðleikanum. Kvæðabálkurinn birtist fyrst í Hvítum hröfnum sem kom út 1922, en hann hafði áður gefið út ljóðabækurnar Hálfir skósólar (1915) og Spaks manns spjarir (1917). Undarlegt kann það að virðast að Þórbergur hafi ort svona óhefðbundin ljóð, en það gæti verið að “[y]rkingar Þórbergs [voru] rökrétt aðferð skálds sem er sjálfstætt og uppreisnargjarnt í andanum og vill rísa gegn “stöðnuðum hugsanaformum og útslitnum málvenjum” í ljóðagerðinni[1].”

En Þórbergur hætti svo að yrkja og fór að einbeita sér að ritstörfum og í því ruddi hann brautina fyrir ævisagnaskrifum framtíðarinnar. Honum tókst að blanda saman persónulegu lífi við heimspeki, pólitík og skáldskap á snilldarlegan hátt sem leiddi til ritunar á bókum borð við Ofvitann, Íslenzkur aðall og Sálminn um blómið. Síðan þá hafa rit Þórbergs verið hópað sama í tvö ritgerðasöfn, kvæðasafninu Edda og smáævisögusafninu Í Suðursveit.

Sérstakir fangaskálar, eins konar bráðabirgðafangelsi, eru uppmubleruð með alls konar píningatækjum, svo sem stálsprotum, svipum, hlekkjum, böndum, kylfum, vatnsskjólum og laxerolíu.

Þetta er klausa úr víðfrægri grein Þórbergs Þórðarssonar[2], Kvalaþorsti Nazista, sem birt við lok ársins 1933 í Alþýðublaðinu. Í ársbyrjun 1934 birtust tveir pistlar í sitthvoru blaðinu, annar í Morgunblaðinu og sá seinni í Vísir. Í pistli Morgunblaðsins var skýrt tekið fram að Þórbergur væri “maður sem engin tæki mark á” en Þórbergi var ásakður um að spilla viðskiptasamningum milli Íslands og Þýskalands, sem má nú teljast einkennilegt ef hann væri “maður sem engin tæki mark á.”

Ræðismaður Þýskalands var mjög í mun að fá þennan mann kærðan. Málshöfðun var fyrirskipuð og hann átti að vera kærður fyrir landráð. Í þessu máli var dæmt og hann fundinn sekur og þurfti að borga sekt sem voru 100 krónur. Nú er ég ekki svo viss hvað gengið var á þessum tíma, en skilst mér á mínum heimildum að þetta gæti hafa hljóðað uppá rúmlega 40-50.000 krónur.

Rúmlega ári síðar var gefin út ritsafnið Rauðir pennar frá útgáfu Máls og menningar. Þar birtist kynning og yfirlit um efni líðandi stundar eftir Kristinn E. Andersen þar sem hann stiklaði einnig á sama efni og ofvitinn, í styttra máli þó, en sagði að “[o]fsóknir, fangelsanir, og einhverjar ægilegustu pyndingar, sem veraldarsagan kann að greina.”[3] Margt af því sem Þórbergur skrifaði var og hafði verið sagt í mörgum öðrum blöðum og tímaritum í Ameríku, Bretlandi og annarstaðar í Evrópu, að undanskildu Þýskalandi auðvitað.

Í einu af mörgum samtölum sem Matthías Johannessen hafði við Þórberg, spjölluðu þeir aðeins um blaðamennsku[4]. Líklegast er að skoðun Þórbergs á blaðamönnun má að einhverju leyti rekja til þeirra ummæla sem um hann var haft í níðskrifum Morgunblaðsins og Vísis þegar hann sagði við Matthías að “blaðamennskan hér á landi er aum, þessar óhefluðu pólítisku falsanir og ósannindi, hlutdrægni og þröngsýni.”

Í bókinni Moskvulínan er Arnór Hannibalsson mikið í mun að reyna á einhverskonar uppgjöri við kommagrýluna hér á Íslandi og gagnrýnir þjóðþekkta og yfirlýsta kommúnista, meðal annars Halldór Laxness og Þórberg fyrir að fara bara fögrum orðum um byltinguna, lífið og stjórnskipulagið í Rússlandi[5], meðan þeir gagnrýndu á sama tíma stjórnskipulagið hér á Íslandi, Bretlandi og Ameríku og spöruðu ekki gífuryrðin í þeim efnum. Það er vissulega einkennilegt að lesa hvað Þórbergur hafði að segja um einn frægasta einræðisherra 20. aldar, en hann segir að “Stalín var friðarsinni” en bætir við að “honum [hafi] orðið skyssur á.”[6] Hann gerðist í raun sekur um það sem hann ásakaði andstæðinga sína oft um. Hann laug.

Það var margt sem Þórbergur lét eftir sig sem grundvallaðist af vandaðri íhugun og nákvæmni, en hann lét sjálfur glepjast af áróðri Sóvetlýðveldisins og í þessum efnum lifði Þórbergur í “trú, en ekki skoðun[7] sem var eitthvað sem hann sjálfur hafði mikla óbeit á.

Halldór Kiljan Laxness

Það má ef til vill fullyrða að Halldór hafi verið fyrsti rithöfundurinn á landinu til að kynna nýjar bókmenntastefnur til Íslands. Hann hafði dvalist í langan tíman erlendis og kynnt sér samtímabókmenntir í ferðum sínum. Hann flutti inn til landsins stefnur einsog expressjónisma og súrélisma[8]. Glögglega má sjá að ljóðið Únglíngurinn í skóginum einkennist af súrélískri byggingu og innihaldi og hans fyrsta magnus opus, Vefarinn mikli frá Kasmír, er skrifað í expressjónískum stíl og ber vott af súréalísku formi, og að vissu leyti var sú bók uppgjör hans við ferðir hans erlendis og þegar hann var skírður inní kaþólsku kirkjuna.

En þó var hann ekki fyrsti Íslendingurinn til að brjóta upp ljóðahefðina, Jóhann Sigurjónsson er talin vera fyrsta móderníska skáldið með því að sleppa stuðlum, höfuðstöfum og rími og hafa óreglulegar ljóðalínur og Þórbergur Þórðarsson var búinn fá birt “Fútúrískar kveldstemmingar” og gefa út Hvíta hrafna, einsog áður hefur verið minnst á. En Halldór var vissulega sá fyrsti til að koma með nýjan vinkill á íslenskar bókmenntir með Vefarann.

Vefarinn var samt hans fyrsta og í raun eina bók í þessu formi, því fljótlega eftir komu sína til landsins þá henti hann kaþólskunni frá sér og fór að sökkva sig í kommúnísk fræði og rússnesku byltinguna, og gerðist ötull talsmaður nýrrar tímar. Bókmenntastefnan sem átti eftir að þróast úr þessari samsuðu var sósíal-realismi.

Sá sem er handgenginn íslenskum bókmenntum og hefur drukkið í sig anda þeirra, hann neitar ósjálfrátt að vera annarra manna handbendi, og hann mun ekki eiga hæfileika til að selja sig pólítiskum þrælahöldurum.[9]

Halldór Laxness var og hefur á undanförnum árum verið harðlega gagnrýndur fyrir þátt sinn í stuðningi Sovét-Rússlands og upphefja stjórnskipulagið á eitthvað æðra plan sem það var ekki á. Hann var “öflugasti áróðursmaður kommúnistaflokksins á Íslandi um þrjátíu ára skeið.”[10]

Sumir mundi afsaka háttalag Halldórs með því að segja að hann hafi látið glepjast af áróðrinum frá stjórnvöldum um að allt hafi verið í himnalagi og alþýðan hafi vissulega verið við stjórnvölina. Annað kom uppá teninginn. Hann viðurkenndi mjög seint á ævinni hvað var í raun að gerast í þessu landi í samtali við Matthías Johannessen. En hann vildi ekki sjá það eða trúa því að verið væri að flytja fólk í gúlagið eða drepa einstaklinga sem voru með skoðanir sem ekki voru Stalín þóknaleg. Hann, og vissulega fleiri, vonuðu að sósíalismi væri að breiðast útum hinn gjörvalla heim, og viðhéld gegndarlausum áróðri og útkoman var Atómstöðin árið 1948. Þetta varð mjög umdeild bók á sínum tíma og olli töluverðum deilum. Hún fjallaði á aðra röndina um ágang Bandaríkjana og gagnrýndi stefnu þeirra og á hina röndina var drepið niðrá dýrðarljómann sem kommúnisminn var.

En Halldór er samt ötullasti og víðlesnasti rithöfundur Íslands og það þýðir ekki að gera lítið úr hans þætti að upphefja íslenskar bókmenntir á nýtt og betra plan.

Steinn Steinarr

Ég heilsa´ yður, öreiga-æska,
með öreigans heróp á tungu.
Hjá yður fæddust þær viðkvæmu vonir,
sem vordagar lífs míns sungu.
Hjá yður er falinn sá eldur,
sem andann til starfsins vekur,
sem brýtur að lokum heimskunnar hlekki
Og harðstjórann burtu rekur.

Svo hljóma fyrsta erindið í kvæðinu Öreiga-æska og nokkuð augljóst er hvaðan innblásturinn er fenginn[11], en þó lýsti Steinn Steinarr því yfir í viðtali að hann hafi aldrei verið kommúnisti. En það er ekki óeðlilegt halda því fram að hann hafi verið töluvert rauður inn við beinið, samanber ofangreint kvæði hans úr Rauður logi brann sem kom út 1934, sama ár og hann var rekin úr Kommúnistaflokki Íslands.

Í Kvæðasafn og greinar sem kom út 1983 er að finna viðtal við Stein er birtist í Alþýðublaðinu 1956, greinin heitir Sovét-Rússland er vonandi ekki það, sem koma skal. Þar tjáir hann blaðamanni um að hann hafi ekki verið sérlega hrifinn af ferð sinni um Rússland og þetta var andsvar hans við lofsöngvum Jón Bjarnason sem höfðu birst í sama blaði. Hann sagði frá því sem hann sá og fannst og kallaði stjórnskipulagið “sósíalfasisma”.

Steinn var uppreisnamaður og líkaði alls ekki vel við ástandið í Rússlandi og missti síðan algjört álit á landinu þegar uppreisnin í Ungverjalandi var kveðið niður með vopnavaldi. Steinn var án efa einn af þeim fyrstu “rauðu skáldum” sem fordæmdi opinberlega aðgerðir Rússa. Annað er uppá teninginn með Þórberg Þórðarsson og Halldór Laxness.

Hann kom fyrst fram á sjónarsviðið sem fullmótað pólítískt skáld með bókinni sinni Rauður logi brann og olli formbyltingu í íslenskri ljóðagerð. Sjálfur sagði hann að hann hafi ekki byrjað að yrkja fyrren 1930, þegar “andinn kom alltí einu yfir mig.”[12] Kristján Karlsson segir í inngangi á Steinn Steinarri í kvæðasafni hans, að “Steinn skildi að háð og skop og níð fara að líkindum bezt í mjög sniðföst, langvöndu formi, með hvössum hornum ríms”, sem dæmi má nefna kvæðið Kommúnistaflokkur Íslands, In memoriam sem birtist í ljóðabókinni Spor í sandi sem kom út 1940, en Steinn var rekinn úr Kommúnistaflokk Íslands árið 1934:

Sic transit gloria mundi, mætti segja,
svo mjög breytt frá því, sem áður var.
Og einu sinni var hér frægur flokkur,
sem fólksins merki hreint og tigið bar.

Svo hættulegt var ekkert auð né valdi
og yfirdrottnan sérhvers glæframanns.
Svo dó hann hljóðalaust og allt í einu,
og enginn vissi banameinið hans.

En minning hans mun lifa ári og aldir,
þótt allt hans starf sé löngu fyrir bí.
Á gröf hins látnar blikar benzíntunna
frá British Petroleum Company

Honum var að vísu boðið að ganga í flokkinn stuttu seinna eftir brottrekstur, en Steinn var samkvæmur sjálfum sér og stoltur og sagði einfaldlega “Nei, takk!” og eftir það gekk hann ekki neinn flokk og við tók umbreyting frá eldheitum sósíalista í óflokksbundið og pólitískt viðrini. En þrátt fyrir það var hann kallaður kommúnisti af andstæðingum þanns flokks, en Steinn fannst að “í augum þeirra sjálfra var ég oftast hálfgerður nazisti”[13]

Hann hafði gífurleg áhrif á samtímaungskáld, einsog Jón Óskar, Jón úr Vör, Thor Vilhjálmsson og fleiri. Steinn og Jón úr Vör má telja sem brautryðjendur í atómskáldskap, þó var Steinn mjög hefðbundinn, sérstaklega þegar kom að níðkvæðum. En það var samt Tíminn og vatnið sem olli straumhvörfum. Þessi 18 erinda kvæðabálkur telst eflaust sem eitt mesta stórvirki í skáldskap, þó að margir hafa ekki náð að rýna í þær ljóðarúnir sem Steinn orti. En Tíminn og vatnið vekja upp svo margar kenndir og tilfinningar að það er í raun upplifun í sjálfu sér að lesa það upphátt. Eftir útgáfu Tímans og vatnið hætti Steinn nær alfarið að yrkja, allavega komu ekki fleiri ljóðabækur eftir hann eftir það.

Það kannast margir við Stein sem ráfandi rugludall í miðbæ Reykjavíkur. Hann var ekki beint útskúfaður úr þjóðfélaginu fyrir sínar skoðanir, kveðskap eða furðulegheit, eða svo segir hann sjálfur, heldur “að ég hafi fremur lítið sótt til þjóðfélagsins og þjóðfélagið vitanlega þaðan af minna til mín, - jæja, en við höfum alltaf verið dágóðir kunnigjar, þrátt fyrir það.”

Steinn var einn af þeim ungu draumóramönnum sem taldi að örlögin mundu bjóða honum uppá tækifæri til að láta ljós sitt skína, hann las Marx, gekk í Kommúnistaflokkinn og taldi sig vita, einsog margir aðrir, að Kommúnisminn væri hin eina og sanna rétt leið til að ná markmiði um betra þjóðfélag, betra líf og betra fólk og Sovetríkin væri hið fullkomna ríki, sannkölluð útópía. En þessar vonir urðu að litlu þegar hann heimsótti Rússland og urðu síðan engu í ljósi aðgerða Rússa gegn andspyrnu Ungverja árið 1956, og hann var eflaust enn reiður þegar hann sagði í viðtali við Morgunblaðið 1957:

Sumir halda því fram, að mér sé illa við Rússa, það er hverju orði sannara, ég hata þá og fyrirlít, þeir hafa svikið mig og alla menn, þeir hafa gert vonir okkar og fraum um betra og fegurra mannlíg að þátttöku í óafmáanlegum glæp. Hver sá kommúnisti, sem ekki þorir að viðurkenna þessa staðreynd fyrir sjálfum sér og öðrum, hlýtur að vera keyptur þræll, það er allt og sumt – og nú skulum við tala um eitthvað annað.

Niðurstaða

Þessir þrír risar í Íslenskri skálda- og bókmenntagerð hafa óneitanlega haft áhrif á núverandi, fyrrverandi og tilvonandi rithöfunda og skáld með orðum sínum og gjörðum. Vissulega hefur sú lesning haft áhrif á mig en þó er annað mál hvort að ég muni leggja þetta fyrir mig, þ.e. ritstörf.

Einn áhugaverðasti einstaklingurinn finnst mér vera Steinn Steinarr. Einsog ég drap á þá var hann mjög samkvæmur sjálfum sér, ólíkt Halldóri og Þórbergi, þegar kom að stjórnmálalegum skoðunum. Halldór og Þórbergur eiga það því miður sameiginlegt að hafa logið af alþjóð í sambandi við Rússland. En ég vill ekki taka sama pól í hæðina og Arnór Hannibalsson og halda því fram að þetta hafi eitthvað sérstaklega komið niður á þeim, því bókmenntaverking sem þeir skildu eftir er algjör fjársjóður.

Það er lítið annað sem ég get bætt við, nema að það mætti vera meira til um Stein Steinnarr, en það sem ég hef lesið mun hvetja mig til að kynna mér meira af ævistörfum og lífi hans.

Heimildaskrá:

Arnór Hannibalsson. 1999. Moskvulínan. Nýja bókafélagið. Reykjavík
Eysteinn Þorvaldsson. 1980. Atómskáldin: Aðdragandi og upphaf módernisma í íslenskri ljóðagerð. Hið Íslenska bókmenntafélag. Reykjavík
Heimir Pálsson. 2004. Sögur, ljóð og líf. Vaka-Helgafell. Reykjavík
Matthías Johannesson talar við Þórberg. 1959. Í kompaníi við allífið. Helgafell. Reykjavík
Rauðir pennar I, ritstjóri Kristin E. Andrésson. 1935. Bókaútgáfan Heimskringlan. Reykjavík
Steinn Steinarr. 1983. Kvæðasafna og greinar. Helgafell. Reykjavík
Þórbergur Þórðarsson. 1977. Ýmislegar ritgerðir, fyrra bindi. Mál og menning. Reykjvík



[1] Eysteinn Þorvalddson, 1980, s40

[2] Ýmislegar ritgerðir I, 184-188

[3] Rauðir pennar I, 1935, s22

[4] Matthías Johannessen, 1959, s56

[5] Arnór Hannibalsson, 1999, s309-313

[6] M.J, 1959, s14

[7] Ýmislegar ritgerðir I, s.190

[8] Eysteinn Þorvaldsson, 1980, s54

[9] Halldór Kiljan Laxness, 1942, s96

[10] Arnór Hannibalsson, 1999, s199

[11] Steinn Steinarr, 1983, s3

[12] Ibid, s348

[13] Ibid, s351

mánudagur, desember 05, 2005

Samskiptaörðugleikar

Oft finnst mér ég haga mér einsog fávita sem kann mig ekki. Að hugsun og tal er ekki nógu samræmd ...

... en ég tjáði við félaga minn um daginn að ég ætla að fara í bindindi, hætta neyslu á almennum og ólöglegum vímugjöfum, að undanskildu nikótíni og kaffi, sem mun vonandi standa aðeins lengur en í mánuð. Kláraði uppskeruna frá því í september núna um helgina, sem er vel. Þetta var ágætis helgi, en ég var fullur af kverkaskít allann sunnudaginn, sem var ekki þægilegt.

Og nú hefst vika eitt af bindindisátaki Dodda. Gangi mér vel.

fimmtudagur, desember 01, 2005

Þetta er tískutrend sem verður að ná fótfestu



Hver hefur ekki dreymt um þetta? Allavega stefni ég á þetta, enda lítur þetta út fyrir tótalí mega fashion statement sem fáir geta toppað.

mánudagur, nóvember 28, 2005

Oooooh!

Ég er næstum því að frussuskíta uppá bak í þessum skólamálum. En þessu fer nú senn að ljúka.

föstudagur, nóvember 25, 2005

Á hvað hlustar Doddi þessa dagana?

Ég er að eipa yfir meisturunum í Mastodon, það fer að líða að því að þessar tvær plötur, Remission og Leviathan, verða mest spiluðu þungarokksplöturnar mínar. Þó að ég sé ekki með víðfeðman metalsmekk einsog sumir félagar mínir, þá eru Isis, Mastodon, Nevermore, Sepultura, Slayer og Thought Industry í sérstöku uppáhaldi hjá mér. En kræst hvað Mastodon eru suddalega góðir, ég kemst varla yfir það og verður bara betra með hverri hlustun. Það band sem er að koma hvað sterkast inn þó er Nevermore, og ég þakka Berserknum ægilega vel fyrir þessa góðlátlegu gjöf sem Dead Heart, in a Dead World var og er.

Af því sem ég flokka einfaldlega sem rokk, þá er Arcade Fire, Blonde Redhead, Fugazi, King Crimson, Pink Floyd, Sonic Youth og Trans Am búið að vera mikið í heddfónunum og spíkerunum undanfarnar vikur. Nýlega hef ég byrjað að hlusta á Kyuss, Blues for the Red Sun, sem er ansi hreint góð plata. Vona að rokkAri (sons of the soil type "hyuk") sé ekki sár þó að ég hafi e.t.v. einhvern tímann fengið Kyuss plötu frá honum og fundist hún ekkert sérstaklega góð, en ég man bara ekkert eftir því.

Harðkjarninn er hægt og sígandi að leita sér leiðar inní mitt hugarfylgsni og The Dillinger Escape Plan er bandið sem er að leyfa því að seytla í gegn. Það er dágott harðkjarnasafn í tölvunni síðan telpurnar tvær voru hér og það er aldrei að vita að ég, saklausi sveitadrengurinn, leyfi því að hljóma meir og nauðga mínu sálartetri.

Tónlistinn úr Blade Runner eftir Vangelis hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér og ósjaldan sem ég winampa það. Af öðru rafrænu og semi-rafrænu má nefna Boards of Canada, Future Sound of London, Massive Attack, Plaid, Primal Scream, Squarepusher og Tortoise. Aphex Twin hefur ekki fengið að hljóma lengi, en það ætti að fara koma tími á það.

Bróðir minn, vestur-Íslendingurinn, Hálfdan bendi mér á norskt band er heitir Jaga Jazzist og ég leitaði af því og niðurhalaði með glæpatólinu DC++ plötuna A Livingroom Hush, og ég varð mjög hrifin. Progressive Jazz er þetta flokkað á Allmusic.com. En Medeski, Martin & Wood er eðall, og þó að sumir gætu orðið ósammála því, þá hef ég flokkað Frank Zappa og Tom Waits undir Jass&Blús, þó að þeir séu mun fjölbreyttari en það. Jaco Pastorius, Herbie Hancock og tvíeykið Stefan Pasborg&Luis Mockunas hafa aðeins verið spilaðir, en þeir síðasttöldu er acquired taste og ég er ekki enn komin á bragðið. Það kemur líka fyrir að Weather Report fái aðeins að hljóma.

Þetta er ca. Doddi í tónum. Ef þið hafið einhverjar ábendingar um hvað ég ætti að hlusta á eða hlusta meira á, ekki vera hrædd að benda mér á það.

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Hraunið yfir egóið mitt eða lofsyngið það

Jæja. Hér eru nokkrar spurningar fyrir áhangendur og aðdáendur mína:
  1. Hvernig hefur fólkið litist á raus mitt undanfarnar vikur, er þetta óttalegt bull?
  2. Ætti ég að halda áfram með Örlagaorðin?
  3. Finnst lesendum þægilegt eða óþægilegt að ég hafi engar krækjur eða heimildir í þessum eipum?
  4. Á ég að slaka á í langlokunum og skrifa meira um daglegt amstur?
  5. Er ég ekki frábær?
Muniði svo að það er OrðLeikur neðst á commenta-glugganum og ég hvet sem flesta til að láta ljós sitt skína.

Ófriðaseggir: Lítil aðvörun!

Margir Íslendingar sem aðhyllast stefnu sem er stjórnvöldum ekki þóknaleg telja sig geta sloppið alfarið við athæfi sem tíðkast erlendis, svo sem í Sádi-Arabíu eða Bandalag Norður-Ameríku. Hér eiga róttæklingar máske von á nokkrum skrámum, þessvegna aðeins andað að sér táragasi og ef til vill fengið fægða kylfu í höfuðuð, með öðrum orðum, að hér ekki sé mikil hætta á handahófskenndum handtökum, dularfullum hvörfum, ofstopafullum aðgerðum þrælshunda valdstjórnarinnar eða vafasömum dauðdögum hér á okkar ástsæla og kæra fróni, bara furðuleg mannshvörf á borð við Gvend og Geira.

Nú er ég ekki vanur að fullyrða, hvað þá að koma af stað sögusögnum eða, gvuðforðimérfráþví, fara með gífuryrði, en slæmir hlutir hafa gerst. Ekki er langt síðan að hópur útlendinga voru handteknir og vísað úr landi fyrir það eitt að nýta sér málfrelsi og skoðanafrelsi sem við vesturlandabúar stærum okkur af (fyrir utan Bandalag Norður-Ameríku, að sjálfsögðu og að vissu leyti Stóra-Bretland einnig) og híum að þessum villimönnum langt eða stutt í austri. Einnig var hálfáttræður háskólaprófessor hrint af vel dressuðum þræli með mikilmennskubrjálæði, við frekar friðsamlega mótmæli útaf fyrrgreindum aðgerðum lögreglunnar á hendur þessara útlendinga, með þeim afleiðingum að höfuðið á honum rakst utan í tröppu og hann rotaðist. Einnig var mér tjáð frá traustum heimildum að leiksoppar svokallaðra lög og reglu neituðu að hjálpa honum, eflaust uppteknir að hafa hemil á þessum brjálæðingum, um 20 talsins. Og fyrir þá sem ekki eru kunnugir um smá nútímaíslendingasögu, þá bendi ég lesendum á dagsetninguna 31. mars 1949, á þeim tíma henti skemmtileg saga, en önnur saga er einnig áhugaverð.

Laugardagskvöldið 14. mars 1942 voru tveir kunningjar á leið inná Laufskála við Engjaveg. Þetta voru Gunnar Einarsson vélfræðingur og Magnús Einarsson, verksmiðjustjóri. Þegar þeir keyrðu eftir Hálogalandi voru þeir stöðvaðir af amerískum varðmanni og vildi hann fá að vita hvert ferðinni var haldið. Sögðu þeir einsog var hvert þeir voru á leiðinni og héldu svo áfram. Ekki var bíllinn kominn langt þegar skotið var á eftir bílnum og byssukúla hitti Gunnar í hnakkann. Vitaskuld stöðvaði Magnús bílinn samstundis og stökk skelkaður út og sá að hermenn komu hlaupandi á móti honum. Gunnar var fluttur á Laugarnesspítala og andaðist klukkan 3 að nóttu. Hann skildi eftir sig eiginkonu, Þóra Borg leikkona.

Ekki veit ég hvað stóð varðmanninum til að skjóta á saklausa borgara, ef til vill var hann taugatrekktur eða var bara að fíflast með byssuna eða fannst eitthvað dularfullt við ferðalag þessara félaga svona seint eða að þarna hafi orðið samskipaörðugleikar og félagarnir höfðu misskilið orð varðmannsins um að ´bíða´ fyrir að ´halda áfram´, ekki þori ég nú að fullyrða, þó skal ég ýja eilítið. Einsog allir sem lesið hafa góðar goðsagnir frá þessu tímabili, þá er ein sagan sem fjallar um Kommagrýluna er lötraði nær óhindrað um vesturlönd... gæti verið að skessan sú arna hafi nartað í varðmanninn þegar hann var á sínum heimaslóðum mörgum árum áður og hann hafi fundið lyktina af henni í bílnum þetta kvöld? Veit ekki. Þetta er bara áhugaverð saga.

Þannig lýkur orðum Örlagana í bili. Takk fyrir og góðar stundir.

mánudagur, nóvember 21, 2005

Freistingin orðin að veruleika

Jæja, fyrir nokkru orti ég lítið og léttvægt ljóð er hét Freistingar í tilefni þess að systir mín knáa, hún Ingibjörg stórmeistaradömpsterdævari, hafði orð við mig hvort að ég hefði áhuga á að kíkja með henni, Alexöndru, Ægi og Agli (máske fleiri) og rúnta með Good Clean Fun og Dead After School í Bretlandinu, þ.e. að túra/grúppíast. Ég kváði henni að ég hefði töluverðan áhuga á svoleiðis gjörningi og taldi líkurnar vera töluverðar á að ég mundi bara hreinlega koma. Líkurnar eru nú ekki lengur töluverðar heldur eru líkurnar algjörar þar sem flugmiði hefur verið keyptur og ég mun fara með heimalingunum snemma dags þann 25. janúar og koma til baka seinnipart 30. sama mánuð. En sumir (eða sumAri) velta ef til vill vöngum yfir ástæðu þess sem liggur að baki ákvarðanatöku sem þessari, að hanga með einhverjum óhljóðaböndum, óeirðaseggjum og vandræðagemlingjum. Af hverju? Svo ég leggi sálsjúkum einstaklingum orð í munn. Svarið er einfalt:

Af því bara - þetta virtist vera bara svo freistandi.

föstudagur, nóvember 18, 2005

Síðnútímahyggja

Allir hafa rétt fyrir sér þar af leiðir er allt rétt sem gert er. QED!

Pómó, fo´ the homies inda hood!

Fjölhyggja

Allir hafa rétt á skoðunum þar af leiðir að allar skoðanir eru réttar. QED.

Fjölhyggja, you gotsa lovitt homy!

Tímabundið afeip

Áður en maður eipar gjörsamlega á yfirlýsingum og gífuryrðum og fæli mína dyggu lesendur frá eða valdi þeim óþarfa áhyggjum yfir geðheilsu minni, þá ætla ég að brjóta blað og tjá aðeins um mín skólamál. Ég hef aldrei nokkurntímann gert það áður. Aldrei, aldrei.

Verkefni sem ég þarf að ljúka:
  • Ísl503 - Ákvað að rita um ca. 10 ára tímabil sem ég hugsa að hafi haft töluverð áhrif á rithöfunda hér á Íslandi þó sérstaklega einn atburður er tengist einu hugðarefni mínu nústundis. Þetta eru árin 1934-1944. Það sem mun vera í sviðsljósinu er meistari Þórbergur og pistill sem hann reit er hét "Kvalarþorsti Nazista" sem hann var kærður, dæmdur og sektaður fyrir. Pælinginn er sú að athuga hvort að þetta hafi haft áhrif á rithöfunda Íslands og hvort að þetta hafi "gleymst" þegar stríðið hófst. Mér finnst þetta vera fullstórt á að líta.
  • Ísl613 - Skrifa bókmenntaritgerð um Samkvæmisleiki eftir Braga Ólafsson
  • Sag313 - Tvö verkefni sem þarf að ljúka, eitt um Palestínu/Ísrael og hitt um samtímaatburði. Ritgerð um efni af eigin vali, hugsanlega að ég taki átök í Afríku undanfarin 30-40 ár.
  • Fél313 - Ritgerð um þróunarhjálp og -samvinnu Íslands.
  • Ens703 - Samanburður á The Great Escape og The Bridge Over the River Kwai. Klára að lesa Streetcar Named Desire og gera persónusamanburð. Útdráttur úr smásögu.
Síðan þarf maður að taka sig á í þýsku og hugsanlega segja sig úr stærfræði þar sem mér er ekkert að ganga sérlega vel.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Órökstuddar yfirlýsingar og eintómar yfirlýsingar og fleiri yfirlýsingar með smá vott af samsæri auk smá smjörslettu af gífuryrðum

Ekki er verður það í fyrsta sinn sem þessi spurning kemur fram og eflaust ekki í síðasta sinn, efalaust mun þessi spurning verða endurtekinn áfram næstu fimm árin, næstu tíu árin, þess vegna næstu tuttugu árin þar til einhver tekur sig til og sleppir því að svara með meinfýsni og útúrsnúningum eða á fræðilegum nótunum með ýmsum tilvitnunum eða er bara alveg sama hvort eð er, enda er sinnuleysi, kjaftæði og tepruskapur stór partur af þessarri spurningu sem hefur án nokkurs vafa oft borið á góma hjá ótöldum þjóðbálkum, þjóðum og þjóðfélögum í gegnum söguna, sem líta í kringum sig og sjá að eitthvað verulega mikið er að en enginn virðist gera neitt til að láta hryllingnum linna eða sporna við frekari ósóma og offorsi valdhafa, sama hvaða nafni þeir bera. Spurninginn er einhvern megin á þessa leið, gæti verið orðuð mun betur:

Hvað þarf að gerast svo fólkið rísi upp gegn því augljósa óréttlæti sem sama fólkið lætur viðgangast?

Þetta er ekkert spurning sem mun verða tilnefnd til friðarverðlaun Nóbels. Þetta er ekkert endilega spurning sem aðilar verða varir við. En það má íhuga þetta aðeins, með smá furðulegum vangaveltum og útúrdúrum, spekúleringum og pælingum, kaldhæðni og meinfýsni, ef til vill að maður verður ekkert laus við smá fræðilegar nótur en reyni samt að halda tilvitnunum í lágmarki. Í stuttu máli sagt, þá verður þessu svarað með sama sinnuleysinu og kjaftæðinu, auk tepruskapsins sem fylgir hvoru tveggja.

Það er Ameríkani sem hefur nú verið dauður í meira en áratug. Þessi maður var mjög fyndinn, án efa einn fyndnasti maður fyrr og síðar. Hann var ekki bara fyndinn því hann fyllti uppí dagskrána með dæmigerða risastóra, fjólubláa æðaþrútna typpa-brandara. Hann var fyndinn því hann sagði satt. Ekki niðursuðu Seinfeld-sannleika á borð við ömurlegheit sem er líkt eftirfarandi: "Matur á spítala/flugvél/Bretlandi er svo vondur að ég gubba oft uppí ömmu mína af tilhugsunni" eða "Negrar!? Fjúkk, hvað þeir eru svartir!" jafnvel gullmolinn "Einu sinni var kall og það uxu á honum brjóst!" Nei! Hann stakk á samfélagskýlin, sparkaði í pung þjóðarstoltsins og hæddist að dæmigerðum samlanda sínum. Hann lét mann líða nett illa, hann bendi á almenna hræsni og ásakaði fólkið fyrir aumingjaskap. Sá ljóðræni fúkyrðaflaumur sem spratt frá barka þessa merka manns stakk mann svo og kitlaði hláturtaugarnar að það jaðraði á við skoplegan dauðdaga. Þessi maður var Bill Hicks. Alvöru Amerísk Hetja.

Í dag ættu flest allir sem kunna að meta góða hluti að hlusta á efnið frá honum sem tekið var upp á árunum 1989-93 og heyr! Það hefur ekkert breyst. Jú, kannski getur maður skipt út nöfn á ýmsum poppstjörnum og sjónvarpsþáttum hér og þar, s.s. Survivor í staðinn fyrir American Gladiators, Eminem í staðinn fyrir Vanilla Ice, Michael Bolton í staðinn fyrir, eeh, Michael Bolton. Svona litlir hlutir sem þarf bara aðeins að Wikipediast um til að vita um hvað hann er að tala (L.A. óeirðirnar - Parísar óeirðirnar), annars á það sem hann sagði þá alveg óskaplega vel við í dag. Því það er einn hlutur sem ég efast oft um hvort ég eigi að hlæja að eða vera reiður yfir. George Bush og Írakstríðið.

Þegar ég hlustaði á hann nú fyrir stuttu þá laust það einsog elding í mig: Það hefur lítið sem ekkert breyst í næstum tuttugu ár. Fyrir utan tvo hluti, hvað kjaftæðið hefur farið hækkandi og viðkvæmnin farið lækkandi. Það er hægt að fleyga í andlitið á okkur hálfdauðu fóstri og við mundum varla kippa okkur upp við það, hausinn á söngvaranum í uppáhaldshljómsveitinni þinni gæti sprungið fyrirvaralaust á tónleikum og fólk mundi ekki fella tár, stormsveitir kenndir við lávarðinn í himnaríkjum gætu valsað um bæjarfélög skerandi eyru, varir og augnlok af fólki sem neitar að ganga í liðs til þeirra, rænt börnum og nauðgað þeim þar til þau deyja kvalarfullum dauða eða neytt þau til þess að drepa vini og ættingja og við mundum bara malda í móinn og skipta um stöð þar sem verið væri að sýna skaðbrennda sandnegra, limlesta blámenn og afmyndaða grjóna vera dansa í nýjasta myndbandi Britney Spears þar sem hún situr nakinn á kolli, með gaddavír í buddunni og blæðandi gyllinæð að auglýsa Persíkóla. Okkur væri eflaust alveg skítsama. Ef til vill munu einhverjir verða gáttaðir á viðbjóðnum sem fyrir þeim blasir og heimta úrbætur. En eftir að þeir og fleiri storma um borgargötur og mótmæla mun mótlætið minnka töluvert eftir að andlitin á viðkomandi mótþróaseggjum fá mjög náið stefnumót við svarta og gljáfægða lurka, bein brotna og það verður grátur og gnístann tanna þar til að sama fólkið skiptir um sjónvarpsstöð nokkrum dögum seinna enn með tárin í augunum og múraður kjafturinn eftir friðsamlegar og jafnframt löglegar lögregluaðgerðir.

Það hefur lítið breyst. Kúgunin er orðinn augljósari. En pottlokið sem ríkir og "voldugir" aumingjar hafa haldið við suðupottinn þessi tuttugu ár (eða miklu lengur) er orðið töluvert gamalt, og sökum ætandi áhrif frá hamslausum ós í þá er byrjað að á sjá og lítil ryðgöt byrjað að myndast á auðvaldsjárninu. Reiðinn kraumar og vellur uppúr þessum myndlíkingarpotti sem birtist í formi skyndilegra og beinna aðgerða almennings sem enn hafa ekki verið stofnanavædd.

Næstum allt er orðið ýmist orðið stofnanavætt eða hefur breyst í söluvöru. En samt eru menn sem þykjast ráða og aðrar undirtyllur í þartilgerðum stjórnaráðum að rífast um eintóman tittlingaskít, oftar en ekki í þeim tilgangi að afvegaleiða það alvarlega, meðan þeir sem oftast hafa falið sig bakvið tjöldin og togað í spottana fá að valsa um óáreittir.

En svarið við spurningunni er: Ég veit það ekki. Það eru ógeðslegir atburðir að gerast í dag, athæfi sem eru keimlík undanfara seinni heimstyrjaldarinnar og það er eflaust ekki langt þangað til að átökin sem eiga sér stað í Afríku munu fara stigvaxandi, átökin sem eiga sér stað í mið-Austurlöndum verði ofbeldisfyllri, óánægjan sem er kraumandi í almenningi á vesturlöndum verði augljósari og þessir þrír þættir munu hugsanlega hafa samverkandi áhrif. Þá má allt eins búast við því að sagan mun sannarlega endurtaka sig meðan Rússneskir glæpamenn hugsa sér gott til glóðarinnar því að heróínsalan hjá þeim mun bara aukast og Kína mun verða næsta heimsveldið og væntanlega mun ferlið byrja á ný þar til að orkulindir munu þrjóta og kjarnaoddar fara að þjóta. Halelúja moðerfokker!