sunnudagur, júlí 31, 2005

Án titils

Var að fletta í gegnum gamlar færslur og lesa það sem ég hafði einu sinni að segja. Skondið.

Skrifaði talsvert um fíkniefni og bækur.

Talandi um bækur, þá tók ég upp eina gamla góða sem ég hafði ekki lesið í áraraðir. The Colour of Magic eftir Terry Pratchett. Man í gamla daga þá las ég eiginlega ekkert annað en Terry Pratchett og Douglas Adams. Síðan bættist Robert Rankin við þessa tvo höfunda. En þetta hefur nú breyst í seinni tíð.

föstudagur, júlí 29, 2005

Síminn seldur

Halldór Ásgrímsson finnst þetta vera mjög jákvætt fyrir ríkissjóðinn. Vá. Maðurinn er snillingur, hvað annað er það en jákvætt þegar það bætist við skyndilegur gróði í sjóðinn? Síðan verður farið á fyllerí. Daginn eftir verður velt því fyrir hvað hafi orðið af öllum þessum pengingi.

Geir H. Haarde einnig ánægður, auðvitað. Ríkisóstjórnin hafa rætt saman hvernig skipta megi upp ránsfengnum sem nemur um 73 milljarða íslenskra króna, tilboðið var 66.7 milljarðir, en við bætast aukaálögsgjöld, stimpilgjöld og stimpilstimpilgjöld, eða eitthvað.

Lifa í draumórum að þetta eigi eftir að bjarga öllu er viðkemur efnahagsástandi Íslands. Gott, gott. Mun þetta vera notað til að greiða næstum 300 milljarða króna erlenda skuldir sem ríkisóstjórn undir forystu Davíð "Kjarna" Oddssons (nú undir strengjabrúðuna Halldóri "Skítur"Ásgrímssyni) kom okkur í?

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Helgi Seljan...

... er með hreint magnaðann pistill sem hægt er að nálgast á heimasíðu Ögmunds Jónassonar.

Svo skal enginn illa upplýstur hálfviti reyna halda því fram að þessi virkjun og þetta álver eigi eftir að gera austfirðingum eitthvað sérstaklega gott.

Hvað var þetta aftur kallað? Kárahnjúkavandinn?

Villuráfandi bloggarasauðir

Af hverju þurfa sumir bloggarar alltaf að taka það fram að þeir verði "að blogga meira" eða minnast á það hvað "það langt er langt síðan að maður bloggaði síðast" eða hreinlega hætti að blogga því "maður hefur ekkert til að blogga um". Hvað er málið? Það þarf ekki að koma með afsökunarbeiðni á bloggleysi eða bloggleti. Bara að blogga like crazy. Þetta hefur andlega hreinsandi áhrif. Ekki þýðir heldur að velta sér uppúr því hvort að "einhver nenni að lesa bloggið mitt" því það skiptir engu máli, bloggið er hugsað fyrst og fremst fyrir bloggarann, og þeir sem vita af bloggsíðunni hafa oft glettilega gaman að lesa einhverja vitleysu. Fyrst og fremst er bara halda blogginu lifandi, og það þarf ekki að koma með einhverjar svakalegar langlokur. Ein vinsælasta bloggsíða í netheiminum gengur akkúrat út á að vera hversdagsleg og skemmtilega leiðinleg. Dæmi um innlegg gæti verið á þessa leið:
 • Burstaði í mér tennurnar með bleikum tannbursta, og hrækti síðan í vaskinn. Fór síðan uppí rúm með tannkremsbragð í munninum.
 • Klæddi mig í sandala. Fyrst fór ég í hægri, síðan í vinstri. En gleymdi veskinu mínu. Fór þá úr sandölunum, tók fyrst þann vinstri síðan þann hægri. Er svo mikill rebell.
 • Tók geisladisk uppúr hulstri í dag með það í huga að hlusta á hann. Síðan hringdi síminn. Þannig að ég gekk frá disknum á sinn stað og svaraði í símann. Talaði í nokkrar mínútur og lagði símann frá mér að samtali loknu.
En í guðana bænum ekki byrja á því að segja eitthvað í þessa áttina:
 • Sei, sei já, bara langt síðan maður bloggaði síðast. Sei, sei.
 • Maður verður að blogga aðeins meira.
 • Hó hömm, bloggitíbloggblogg.
 • Bloggið bara, já. Hmm. Blogg.
 • Alveg mánuður síðan ég bloggaði.
 • Hér kemur eitt blogg í viðbót.
Persónulega missi ég allan áhuga á því sem viðkomandi hefur að segja ef hann er enn að velta sér uppúr þeirri "nýlundu" að geta skrifað skoðanir sínar á netið. Þetta er álíka ef Halldór Laxness hefði byrjað á öllum sínum bókum með:
 • Hér er en ein bókin...
 • Ætla að skrifa bók hérna...
 • Langt síðan ég hef skrifað bók...
 • Veit ekki hvort einhver nennir að lesa bækurnar mínar, en hér kemur samt smá bók...
Þetta er bara eitthvað svo fráhrindandi.

Það finnst mér allavega.

Skipulag grasrótahópa

Vésteinn, smábarnaæta og frjálslyndur marxisti, veltir vöngum yfir áhrifaleysi almennra mótmæla, til að mynda mótmæli Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði. Telur hann að það þurfi að koma til aukinnar skipulagninar, eða strategíu, milli mótmælenda- og grasrótarhópa svo að mótmælin auk sjónarmiða geta komist alminilega til skila. Til þess þurfi þessir hópar að tala meira saman, svona for starters.

En það þarf aðeins meira til og við hugmyndir Vésteins vil ég bæta við örfáar, mér og öðrum til hugleiðingar:
 • Einsog hann benti eilítið á þá þarf aukin samskipti við verkalýðsfélög. Það er ekkert jafn ömurlegt og fylgjast með fólki kvarta sig sáran yfir síðustu kjarasamningum eða framtaksleysi verkalýðsfélaga og annað tuð þegar viðkomandi aðili, sem væntanlega er skráður í viðkomandi verkalýðsfélag komi ekki nálægt kjarasamningum, viðræðum eða fundum félagsins.
 • Fylgjast, þó ekki væri nema örlítið, með alþingi og reyna vera í beinum samskiptum við þingmenn og ráðherra, t.a.m. bréfaskrifum, mano y mano eða símasambandi. Ekki skiptir máli þótt þú hafir ekki kosið mannfjandann, það er um að gera að spurja hann/hana spurningu og fá viðbrögð (ég bendi á hlekkjalistann hér til hliðar, neðarlega eru hlekkir á þá þingmenn sem blogga, sumir blogga meira en aðrir og aðrir blogga ekki neitt).
Ekki er maður að segja að þetta sé nauðsynlegt, en þetta væri kannski æskilegt upp á það að vita hvert maður á snúa sér ef maður ætlar að koma einhverjum málefni á framfæri, hvort sem það er í formi fyrirspurnar, mótmæla eða beinum aðgerðum.

"... að berjast með orðum og rökum"

Hnykkir ritsjóri Morgunblaðsins í miðopnu blaðsins í dag, en þar fjallar hann um þessa vandræðapésa uppá hálendinu sem raska eignir og eyðileggja hluti. Ekki viss um hvorn hópinn þetta á betur við, en hann átti náttúrulega við mótmælendur. Segjir svo að hann hafi meiri virðingu fyrir mótmælendum sem mótmæla framkvæmdum "með orðum og rökum."
En er ekki búið að mótmæla þessari virkjun með "orðum og rökum" alveg síðan það var ákveðið hvar ætti að virkja og hvenær og fyrir hvað. Það hafa komið út skýrslur, formleg og óformleg mótmæli, greinaskrif, rætt um þetta í ljósvakamiðlum. Alltaf skal það vera sama helvítis vitleysan í dæmigerðum Íslendingum sem fá andlegt flog ef eitthvað kemur upp sem stingur í stúf við það sem talið er eðlilegt. Einsog írafárið í kringum skyrslettuna. 6 milljón króna firringuna í hótelstjóranum. Nú síðast var framrúða bortin í vörubíl, spreyjað á skilti, gáma og hús við Kárahnjúkavirkjun. En óafturkræfanleg skemmdarverk gagnvart dýrum og náttúru, það skiptir engu máli. Einhver bíll, einhver steypuklumpur, einhver myndvarpi er meira virði en ósnortin náttúra, í sumum tilfellum getur það verið meira virði en mannslíf.
Þetta einkennilega ákall fyrir kurteisi af hálfu mótmælenda er þreytuleg og barnaleg, það er hvort eð er ekkert hlustað. En um leið og einhver minniháttar röskun verður þá eru þetta öfgar og mun snúa málstaðnum í andhverfu sína. En það er ekki fyrren smá obbi af öfgum slettist inní málstaðinn að fjölmiðlar vekja athygli á þessu. Það var ekki fyrren farið var að handjárna sig við vörubíla, veltast um verktakasvæðið og fremja smá óskunda að vakið var athygli á þessum tjaldbúðum. Umfjöllunin fyrst var smánarleg:
"[hæðnistón]Örfáar mótmælendahræður við Kárahnjúka, hí, hí. Klæðið ykkur vel, aumingjar! Hí, hí! Eitt tjald við Kárahnjúka! Hí, Hí! Djöfulsins fífl"

Farið þessi kurteisisbón til fjandans. Meiri spennu, fleiri aðgerðir og sykur í bensíntankana.

Ein spurning af mörgum

Í ljósi hryllilega og athygsliverða atburða í Bretlandi undanfarnar vikur, þá spyr ég þá sem ef til vill hafa svör eða vangaveltur um ástæðu þessa:
Af hverju er "múslímsk" hryðjuverkastarfsemi nær eingöngu bundin við Bretland af öllum þeim vestrænum þjóðum sem taka þátt í stríði við hryðjuverk?

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Úti er mótmæli?

Sei, sei. Ef eitthvað er að marka þessa frétt, þá verða enginn mótmæli við Kárahnjúka mikið lengur. Tjaldbúðarleyfið hefur verið afturkallað, þeim gefin örlítill frestur til að hypja sig og fleiri lögreglumenn eru að bætast í hópinn. En það mun auðvitað ekki hindra dygga umhverfisverndarsinna til að mótmæla áfram.En sagt er að mótmælendur hafi ráðist á lögreglunna. Varið sig er kannski líklegra. En nú stendur steinn í steini. Lögreglumenn frá Egilstöðum sem hafa hlustað á hatramma samræður bæjarbúa um þessa "helvítis mótmælendur!" hafa örugglega komið pirraðir að vinnusvæðinu og gefið sér fyrirframgefnar forsendur að þetta væri ekki "alvöru" fólk, og er augljóslega að reyna hafa lífsviðurværi af heimafólkinu með því að reyna stöðva verkefnið sem gæti "bjargað" efnahagi Austurlands... eða álíka. Af hverju fer það ekki bara aftur til Rússlands?!

Ann Coulter

Hef verið að eyða smá tíma í að lesa um þessa mögnuðu, hrokafullu, öfgafullu hægrisinnuðu dræsu. Það er magnað hvað þessi manneskja, hámenntuð og þá væntanlega nokk gáfuð getur verið mikill hálfviti.

Amerískur Talíbani er réttnefni, en þeir eru fleiri. Hún virðist ekki gera sér grein fyrir því hvað hún líkist fólkinu sem hún úthúðar mest, þ.e. öfgafullir bókstafstrúar múslímar eða svokallaða íslamista. Hún er kvenna-, homma-, umhverfis- og demókratahatari, er auk þess kynþáttahyggjusinni. Hlynnt auknum tilburðum í átt að fasisma og McCarthyisma.

Lesið og lærið um þessa stórbrotnu og sorglegu konu og það efni sem hún reitar, bara svona til að gera betur grein fyrir því hverskonar skoðanahópa ber að forðast og helst lækka raustina í.

Ástæða þess að ég bendi á hana er því hún er að hafa talsverð áhrif á skoðanamyndum íhaldsamra kana.

Öryggið

Dökkhærður maður á þrítugs aldri með ljósbrúna hörund gengur útúr blokk, klæddur í þykkri dúnúlpu, enda finnst honum vera kalt svona norðarlega á baugi. Hann hefur svartan bakpoka. Hann tekur strætó niðrí bæ sem tekur um fimm mínútur. Hann stígur útúr strætó og lítur í kringum sig, það er ágætis veður. Hann lötrar áleiðis á áfangastað, þar til hann heyrir að einhverjir eru að kalla á hann. Hann nær ekki alveg hvað þeir segja, snýr sér við og sér að þetta eru þrír gaurar í gallabuxum, peysu og jakka og virðast vera með skotvopn, þeir eru að hlaupa í áttina að honum. Upp koma slæmar minningar og miklar áhyggjur um atburði sem áttu sér stað í hans heimalandi. Auðvitað sprettur hann af stað til að sleppa undan þessum ókunnugu einstaklingum. Hann er hræddur. Þeir nálgast hann og tækla hann niður. Frumeðlið og adrenalínið hafa tekið yfir alla skynsemi, hann streitist á móti. Slæmar minningar. Sem skyndilega slökkna eftir fimm háværa hvelli.

Já. Við erum svo sannarlega örugg.

mánudagur, júlí 25, 2005

Örlítið um Íslenska Nýíhaldsemi

Það er óneitanlega gott að búa á Íslandi. Þetta jaðrar á við klisju en er að mínum hógværa dómi alveg dagsatt. En þessi litla klisja á ekki við alla Íslendinga er finna ekki vott af sannleiksgildi í þessari tuggu og finnast ekkert gott að búa hér og það má vera af ýmsum ástæðum sem óþarfi er að telja upp nú. En þrátt fyrir það að mér finnist gott að búa hér þýðir ekki endilega að ég sé sérstaklega heimakær og hvað þá sáttur! Því miðað við þær dularfullar athafnir og hegðun ýmissa háttsettra einstaklinga og tilburði í átt að nýíhaldisma og augljósum fasisma þá eru talsverðar líkur á því að maður taki sínar föggur og flytji héðan burt áður en stormsveitirnar byrja að valsa um götur landsins með sjálfvirkar hríðskotabyssur lúberjandi á þeim er dirfast að formæla das Reich.

Það er skrítið þegar maður gerir sér betur og betur grein fyrir því að eitthvað meira en lítið er ! En sökum þess að búið er að halda manni hálfdormandi með ýmsum heilaþvotti, þá á maður bágt með að ota sínum tota að einhverri einni uppsprettu, einhverja eina orsök. Gæti ekki bara verið að það séu margar orsakir fyrir þessari þróun frá sykursæta, herlausa, friðsama og yndislega eyríkis að litla, dúllulega og obboslega fína lögregluríkinu með ódýra orku og nóg af gjöfulli landi fyrir stóriðju og mengun? Veit það ekki, en eitthvað er að og ég ætla að reyna í framtíðinni að aftra mig frá því að skella skuldina eingöngu á Bandaríkin.

Já, ég er orðinn töluvert þreyttur á "skellum skuldinni á Bandaríkin!"-útskýringuna þegar eitthvað bjátar á í heiminum í dag. Annaðhvort eru Bandaríkjamenn að "gera of mikið" eða "of lítið" eða "ekki neitt" til að kljást við öll heimsins vandamál, bæði raunveruleg og ímynduð. Ég mundi samt kjósa síðasta valmöguleikann, þeir ættu helst ekki neitt vera að kljást við öll heimsins vandamál en frekar þess í stað einbeita sér að vandamálunum sem liggja heima fyrir, fátækt, hungur, miskipting auðs, spilling, bókstafstrú og svo framvegis.

Neo-Consveratism eða Nýíhaldismi
Ég vill taka það fram að ég nota orðið Nýíhaldismi í ljósi þessi að flest allt sem hefur endað á "-isma" eða "-isti" er í augum vissra aðila illt og djöfullegt. Sem dæmi; Kommúnismi, Anarkismi, Marxismi og ekki má gleyma Fasisma og Nasisma. Þannig að ég er bara að nota sama meðalið. Alternativið er nýíhaldsinni, sem ég mun einnig nota.

Hvað er nýíhaldismi? Þetta dregið af orðinu Neo-Conservatism (einnig kallað Neo-Cons) og er talið að hafi sprottið af fullum krafti í forsetatíð Ronald Reagans og nú aftur hjá núverandi forseta Bandaríkjana, George Walker Bush. Þessi stefna felst í því að viðhalda vissu valdi hjá útvöldum ættum og einstaklingum inní tilteknu ríki, berjast fyrir frjálsum viðskiptum og hafa afar aggresíva utanríkistefnu, þó sér í lagi gegn Miðausturlöndum að undanskildu ríki Ísraelsmanna. Á tímum kalda stríðsins var utanríkistefna nýíhaldsinna að mestu andkommúnískur áróður og Rússahatur. Þessi stefna einkennist af afar, afar valkvæmri hugsun og ekki er óeðlilegt að kristnir bókstafstrúarmenn og zíonistar aðhyllast þessa pólítíska skoðun. Stundum er gripið til póst-móderníska útskýringa, einsog t.d. að svara á afar einkennilegan hátt, jafnvel þannig að það komi bara spurningunni ekkert við.

Sumum ku finnast það frábært og afar hentugt að skipta skoðunum og heiminum upp í svart og hvítt, gott og illt, rétt og rangt, salt og pipar. Þetta einfaldar hlutina. Farið er eftir gullna boðorði 14. aldar heimspekings er kallast Rakhnífur Occams: Einfaldasta skýringin er líklega sú rétta. En þegar skýringarnar eru orðnar merkilega barnalegar og bera með sér ævintýrakenndan blæ, þá má leita af aðeins flóknari útskýringum og jarðbundnum. Ekki sakar að lesa sig um.

En á þessum stórbrotnu, undarlegu og stórmerkilegum tímum þurfum við að fá allt í niðursuðudósaútgáfum og slagorðum sem okkur er skammtað af mönnum með silfurskeið, t.a.m. Björn Bjarnason sem er án efa okkar mætasti nýíhaldsmaður og auk hans má nefna Sigurð Kára Kristjánsson, Halldór Ásgrímsson og auðvitað hinn kostulegi Hannes Hólmsteinn Gissurason. Egill "Silfur" Helgason er einnig nokkuð hrifin af þessari hugmyndafræði. Fleiri eru eflaust hægt að tína til.

Voru prúðmannlegu íslensku Nýíhaldssinnar skipta mannkynsögunni upp í tvo einkennilega sagnfræðilega búta sem eru einhvern megin á þessa leið: eftir að Bandaríkin sigruðu Kommúnisman og eftir að bandóðir barbarabar rændu fjórum flugvélum og réðust á "boðbera frelsis og lýðræðis", áðurnefnd Bandaríkin. Þeir telja einnig að Bandaríkin séu óskeikul í orðum og gjörðum. Að allir leiðtogar Bandaríkjana eru hreint út sagt frábærir. Og allt sem Bandaríkjamenn meira og minna gera er bara óviðjafnalegt, rétt einsog okkar ástsæla Leoncie.

Samkvæmt söguskoðun þessara aðila, eða allavega það sem ég hef skilið af orðum þeirra og skrifum undanfarið, þá var allt frábært frá árinu 1991 til ársins 2001. Semsagt að allur heimurinn átti gróskumikið og hamingjusamt tímabil sem stóð nákvæmlega í áratug (eflaust Davíð Oddssyni að þakka). En allt í einu spratt upp hið illa. Það byrjaði að birtast fólk sem dýrkaði dauðann meira en lífið sjálft og ákváðu í illgirni sinni að murka vit og von úr saklausum borgurum og vinnandi mönnum með allskyns vélabrögðum. Eða allavega því eigum við að trúa og ekkert svo ólíklegt að imbakassafíklar gleypi þetta hrátt í þessari gullfiskaöld sem við lifum í. En það er samt sem áður eitthvað afar barnalegt við þessa grátbroslegu samantekt mína.

Bahrain, Egyptaland, Tyrkland, Íran (Persía), Írak, Ísrael, Jórdanía, Kúveit, Líbanon, Óman, Qatar, Sádí, Sýrland, Sameinuðu Furstadæmin, Jemen, og Palestínsku svæðin sem er Vesturbakkin og Gaza-ströndin urðu ekki til árið 2001, og svei mér þá ef það var ekki gerð innrás í Írak á undan 11. september 2001, nánar tiltekið 1991 og það var einnig gert undir afar vafasömum formerkjum. Ekki man ég eftir neinum brennandi turnum í New York í sögubókunum um það, en talað var um nýfædd börn á fæðingardeildum sem íraskir hermenn áttu hafa tekið og hent í gólfið sem nægilega góða ástæðu til að verja Kúveit frá ósýnilegum her.

Sumir nýíhaldssinnar vilja nú að við gleymum öllu sem gerðist fyrir 11. september 2001. Eða einsog Björn og Egill hafa verið nokk ötullir við að ítreka, ráðist var á Afganistan og Írak eftir 11. september, ekki fyrir. Nautz, hvur fjandinn. You could have fooled me. En með þessu eru þeir að reyna segja að þetta "vestræna hatur" og "árásir á vestræn gildi" hafa ætíð verið viðloðandi við hugsunarhátt serkana í mið-austri frá örófi alda og það sé bara skrifað í Kóranin að Múslímar eigi að hata, en ekki elska einsog okkar "vestrænu gildi" kenna vorum saklausu lömbum. Annað sérstakt við þessa einkennilegu söguskýringu er að þetta snýst ekki um trúabrögð, allavega ekki af okkar vestrænu hálfu, þessir sömu menn sem reyna að réttlæta veru kristinna afturhaldssinna, halda því sömuleiðis fram að þetta snúist um trúarbrögð hjá þessum bandóðu múslímum eða íslamistum. Íslamistar, þetta hljómar kunnuglega. Skella -isma á eitthvað og þá er það næstum átómatískt orðið illt og djöfullegt.

En Íslamistar, skilst mér á hinum heilanum mínum, er ekki svo ósvipað Nýíhaldismum. Þ.e. að blanda saman trú og pólítik, sem eru nú bara ein eldfimustu umræðuefni sem hægt er að stikla á. Og þegar þessu er blandað saman þá verður þetta væntanlega að einhverjum mólótov-kokteili... en mér finnst nokkuð augljóst hver grýtti kokteilinum fyrst. Byrjar á N.

sunnudagur, júlí 24, 2005

Valdið

Jóhannes Björn Lúðvíksson, sá mæti maður er ritaði bækurnar Falið vald, Falið vald eiturlyfjakolkrabbans og Skákað í skjóli Hitlers , er með allgóða úttekt á helsta vandamáli heimsins, sannkallaða katastrófíu.

Þetta eru pistlar í fjórum hlutum:

Endalok olíaldar 1 - 2 - 3 - 4

fimmtudagur, júlí 21, 2005

"Hamingjan er einsog hafið"

Sagði alvarlega heilabiluð kona við mig á deildinni sem ég vinn á.

Mér fannst þetta vera það besta sem ég hafði heyrt í langan tíma.

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Íslenskir Mótmælendur

Arna Ösp Magnúsardóttir, hinn alræmdi skyrslettuhryðjuverkamaður, var handtekinn í Tel Aviv er hún var tiltölulega nýlent. Var í haldi í nær 30 tíma og fékk 10 tíma yfirheyrslu þar sem hún var eflaust ásökuð um hryðjuverkastarfsemi og andgyðingaáróðri, ekki efast ég um að líkingu við Nazista hefði læðst þarna inní líka. Arna þessi hefur áður farið til Palestínu í sjálfboðavinnu, og mér skilst á þessum mæta manni að þetta sé orðin hálfgerð rútína hjá Ísraelsku öryggislögreglunni að handtaka sjálfboðaliða sem hafa komið áður til Palestínu. Það er enginn silkihanskameðferð á þessum stórhættulegu sjálfboðaliðum/hryðjuverkamönnum.

18 erlendir mótmælendur á miðhálendinu, nánar tiltekið við Kárahnjúka, datt það snjallræði í hug að hlekkja sig fasta við og standa fyrir þungavinnuvélum í þeim tilgangi að stöðva umferð að stíflunni. Einn bílstjórinn brást ansi hart við er hann ætlaði bara að bruna af stað með einn mótmælandann áfastann við trukkin en var, sem betur fer, stoppaður áður en illa fór. Auðvitað var kallað á lögregluna til að hafa hemil á þessum hryðjuverkamönnum, ef til vill var íhugað að kalla út þjóðvarðaliðið. 13 voru handteknir. Impregilo ætla að sjá til hvort að þeir kæri fyrir vinnutapið! DÁGSH (Dett á gólfið skellihlæjandi)! Einsog þessi virkjun sé á áætlun. En hvað ætli verði gert? Verður þeim vísað úr landi? Enn fyndara væri nú ef þau fengju nú öll sömu meðferð og Paul nokkur Gill, atvinnumótmælandi og málaliði skv. ástæðum einkennilegu gæsluvarðhaldsúrskurði og hjákátlegum fréttaflutningi íslenskra fjölmiðla sem löptu þetta upp einsog kettlingar undir kúaspena, og þau sett í farbann í nokkur ár.

Ríkistjórn : Já, það verður að vara þessa erlendu atvinnumótmælendur við og þeir verða að vita það að þeir eru ekki velkomnir á vora íslensku fósturjörð. Harðari refsilöggjöf! 16 ára hámarksrefsirammi fyrir óspektir. Vopnaðir lögreglumenn!

Það vill nefnilega svo heppilega til að Paul og Arna, ásamt Ólafi Páli Sigurðssyni slettu saman skyrinu og ein fyndasta fréttin er tengist þessum stærsta glæp í sögu Íslands er án efa þessi hér. Talandi um græðgi! Talandi um firru! Talandi um hálfvita! En þessari bótakröfu var felld niður, jafnvel þó hún hafi verið lækkuð um tæpan helming, held að þeir sem dæmdu höfðu eflaust brosað útí eitt er þeir sáu þessa upphæð.

Vona samt að tjaldbúðirnar munu skapa visst fordæmi fyrir aðgerðum og almennilegum mótmælum. En sömuleiðis vil ég minna fólk á þessi prýðisgóða grein eftir kommann og mannætuna Véstein og einnig benda á að aðgerðir og mótmæli eru töluvert þekkt í sögu Íslendinga, en af einhverjum ástæðum, sem má máski rekja til kreddu og karps milli einstaklinga sem túlkuðu Marx og aðra byltingarsinna á ýmsa lund, og upp úr 1983, skýt ég á, þá hafi þetta hljóðlega dáið án þess að nokkur tæki eftir. Að vísu eru endurlífgunartilraunir hafnar og hafa staðið síðan um 1997 eða þar um kring.

Við þetta má bæta að tveir breskir mótmælendur eru nú á leiðinni til mín og hef ég og mæ hómís veitt þeim pólítiskt hæli hér á heimilinu. Hlakka til að sjá þá.

Innri gelgjan blómstrar

Ó mæ gad, ó mæ gad, ó mæ gad. Skomm, dízus. Þeta verðr ýktzó mega!

föstudagur, júlí 15, 2005

Söguskýring

Já, Sverrir Jakobsson, ekki verður skafið af ritsnilli hans, að undanskildu smá ritvillu sem er ekkert að eyðileggja greinina.

Tvær yndislegar systur

Hvernig get ég hælt þær stöllurnar án þess að það komi út einsog ein væmnisslikja af hóli og prísi? Maður gæti svosem byrjað á því að segja hvað þær báðar eru frábærar í alla staði, stórkostlegar í háttalagi og ótrúlegar í sóðaskap. Meiriháttar í klæðaburði, með yndislegan tónlistarsmekk, vaka alveg mergjaðslega seint á nóttunni, hanga allsvakalega vel á netinu. Ekki sé minnst á hvernig þessar elskur taka allri gagnrýni með jafnaðargeði og ásökunartón auk þess er þau fara svo í dísæta varnarstellingu ef maður minnist á eitthvað sem betur má fara, sem gleður mig óspart. Það hríslast um mig sælutilfinning yfir þeirra frjóa ímyndunarafli, háfleyga húmor og hinn kyngimögnuðu frekjuköst sem rignir yfir mann einsog ilmandi rósablöð á fögrum sumardegi rétt eftir þumuveðri þegar allt er svo tært. Þær bæta og kæta þann ógnandi drunga sem einstaka sinnum rennur yfir mann þegar þær borða nammið mitt, éta matinn minn og drekka bjórinn minn. Er hægt að biðja um meira?

Ó, hvílík gjöf fyrir mannkyn að þær séu til!
Þessi konungsborna hjálp og vor kvenkyns verndari.
Ó, hvað heimurinn er heppin að þær tvær séu hér!
Fyrir þær mundi hinn friðsami þrumuguð fórna sér á altari.

10.09.01

Þegar allt var í glimrandi góðu lagi og börnin sungu "tralalalí"
Ég gat ekki lesið nema örfáar línur af skoðun Björns Bjarnasonar um atburði 7. júlí sl. í London og hugsað með sjálfum mér "Djöfulsins fífl er þessi maður! Þetta jaðrar á við mongólíta, það á ekki að hleypa hálfvita nálægt lyklaborði!" Maðurinn telur að það er ekkert samhengi milli innrásina í Írak og vaxandi andúð gegn Vesturlöndum, vestrænum hugmyndum um lýðræði, mannréttindi, verslun og hvaðeina og þess að einhverjir einstaklingar, hugsanlega breskir múslímar, sprengdu lestir og rútu í miðborg London. Hann átelur að þessi árás hefði getað átt sér stað þótt að ekki hafi verið ráðist á Írak og hernumið. Hann telur það réttlætanlegt að ráðist hafi verið á Írak í ljósi atburðana 11. september 2001.
Vá. Minnir mig á þessi rök "það er ekkert samhengi milli þess að eiga byssu og skjóta mann og eiga enga byssu og skjóta ekki mann." Hvernig stendur á þessari vaxandi andúð? Hmm... ahh! Annað hvort er það skortur á trú eða bókstafstrú. Hlýtur að vera.
Hann segjir:

Og hvað sem líður átökum í Írak er ekkert, sem réttlætir, að ráðist sé á friðsama borgara í lestum eða strætisvögnum á leið til vinnu sinnar í London eða annars staðar.

Nú! Bíddu, er ekki stríð í gangi? Er ekki "stríð" gegn hryðjuverkum? Ekki man ég eftir því að hryðjuverk lúti undir einhverjum sérstökum alþjóðareglum hvar stríðsvæðið er, hvað þá stríð ef útí það er farið, allavega eru alþjóðalög og -reglur virtar að vettugi.
Hryðjuverkaárásir, einsog okkur mölbúun og almúganum hefur verið talið trú um getur gerst hvar sem er, hvenær sem er. Verið hrædd alltaf. Það er auðveldlega hægt að réttlæta þetta hryðjuverk og lýðræðishjólin einsog við þekkjum þau nota þetta sem góða smurningu til að réttlæta innrás í annað land, svo sem Íran, Sýrland eða Lýbíu. Björn ætti að gera sér grein fyrir því sem fyrst að hinn dansandi api í BNA er búinn að lýsa yfir stríði gegn öflum sem enginn sér og enginn sér fyrir endann á.
Eru bara til friðsamir borgarar á vesturlöndum? Er maðurinn hálfviti? Man ekki til þess að vesturveldin hafi keypt einkaréttin á "friðsömum borgara" eða hvað? Eru friðsamir borgarar nær óþekkt hugtak í Írak eða Palestínu? Voru semsagt ekki til friðsamir borgarar í Fallujah? Voru íbúar í Fallujah allir hluti af andspyrnuhreyfingu Íraks? Hryðjuverkamenn, hver einn og einasti án efa, samkvæmt hugarheimi Björns.
Maðurinn er bona fide hálfviti. En þetta segi ég bara því ég hata hann.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Eitt skref í meðalmennsku

Var á næturvakt í nótt, horfði á Life and Death of Peter Sellers, sem er ágætis mynd um breska stórleikarann Peter Sellers (duh!) og síðan tók við Assault on Precinct 13, sem er lauslega byggð á samnefndri mynd eftir John Carpenter frá 1976, hún var einnig ágætis ræma.

En þegar síðastalda myndin var rúmlega hálfnuð þá fer einn skjólstæðingur á stjá og samstarfskonan mín fer og vitjar viðkomandi skjólstæðing. Í eirðarleysi mínu fer ég að bora í eyrað, því það hefur alltaf eitthvað angrað mig í eyranu, nánar tiltekið eyrnamergur. Ég skrepp aðeins fram og fer inní baðherbergi í leit af eyrnapinnum. Sem ég finn. Ég tek eitt stykki og treð því í eyrað og nudda vel á þeim stað sem angrar mig mest, þegar ég tek pinnan út þá sé ég á honum afar óaðlaðandi, illa lyktandi og nokkuð stóra drullu á bómullinum (bómlinum:), en einkennilegt að beygja þetta orð). Sá litur sem ég hef vanist af eyrnamerg er oftast nett dökkgulur með smá brúnum keim, en liturinn sem ég sá var ansi brúnn og dökkur, lyktin var einsog af sokki sem maður hefur gengið í fimm daga. Þetta fannst mér ekki eðlilegt. Ég vætti annan endan af eyrnapinnanum og nuddaði því inní eyrað, svona í von um að geta losnað við eyrnamerginn betur. Rúmlega níu illa lyktandi og ljótum eyrnapinnum seinna þá finn ég fyrir einhverju töluvert stóru í eyranu, annað en endann af eyrnapinna og hvað gerist? Jú, útúr eyranu dettur þessi svakalegi eyrnamergshnullungur. Aldrei nokkurn tímann hef ég séð jafn stóran eyrnamerg, hvað þá jafn ógeðslegan vessa, eða konsentreitaður vessi, koma útúr þessu tiltekna opi! Til að gefa mínum dyggu lesendum viðmiðun af þeim viðbjóði sem ég varð, sökum undrun, að halda aðeins á í lófanum, þá var þetta ekki svo ólíkt músaskít bæði í stærð, áferð og lit. En viðbjóðurinn breytist snögglega í létti eftir ég henti óskapnaðinum í ruslið. Þessi tiltekni léttir var ekki svo ósvipaður þeirri tilfinningu sem maður fær eftir afar góðar hægðir. Það er að segja hægðir sem maður hefur óafvitandi eða viljandi safnað í kannski fimm daga. Mér leið bara nokkuð vel því þessi horbjóður, eða öllu heldur mergbjóður, hafði angrað mig í ansi langan tíma, en þangað til núna þá hafði ég aldrei getað losað mig við þetta og ég hafði (og hef) í hyggju að kíkja til læknis og biðja um að skoða aðeins inní eyrað. En svona vinna krafðist þolinmæði og þrautsegju, og hún var þess virði.

föstudagur, júlí 08, 2005

Það sem skekur Babýlondon er...

...heppileg hryðjuverk.

Árið 2001 á ellefta degi í septembermánuði var ein stærsta árás gerð á Bandaríska grund síðan Pearl Harbour. "Dísus kræst," sagði maður forviða er maður horfði ´læv´ á herlegheitin "hvað er í gangi?"

Síðar kemur í ljós að eitthvað meira en lítið var að þessari árás og margt benti til þess að Ríkisósómastjórn Bandaríkjana hafði haft einhverja skítuga putta í þessari ófyrirleitnu aðgerð, enda var þessi árás nokkuð heppileg. Vinsældir eins óvinsælasta stjórnmálamanns síðan Hitler var og hét, George Walker Bush, fóru frá því vera kúkur yfir í að vera vel lyktandi viðrekstur. Einnig gerði þetta kleift að gera allann almenning að hugsanlegum hryðjuverka- og glæpamönnum. Farið var í heilagt stríð við Mið-austurlönd, að undanskildu Palestínu þar sem búið er að "frelsa" Jerúsalem. Einnig var komið á fót svokölluðu sífelldu stríði, í viðbót við nær þriggja áratuga stríð við vímuefnaneytendur og kaffibónda. Lýðræði, öryggi og frelsi fór neðarlega á forgangslista allra helstu stjórnmálamanna í hinum vestræna heimi en græðgi og gróðarhyggja hélt velli, einsog hún hefur gert undanfarin fimmhundruð ár eða svo.

Valkvæm samkennd, vestræn samúð

Það er alveg hreint magnað hvað fólk getur eipað yfir þessum hryðjuverkum. Vissulega er þetta dágóður fréttamatur, auðvitað. En þessi tvö sístríð, "Stríð gegn hryðjuverkum" og "Stríð gegn eiturlyfjum" hefur murkað líf og lífsviðurværi milljóna manna á þeim magra þriðja heimshesti sem við vestrænu íbúar ríðum og hýðum. Ekki er það mikið í fréttum. Talandi um fréttir þá var ein setning sem mér fannst sláandi í Fréttablaðinu í dag (8.7.05 b.11) sem var einnig fyrirsögn greinarinnar "Gangverk kapítalismans verður ekki stöðvuð." En þetta gangverk er akkúrat það sem viðheldur þessari hræðslu, ógn og hryðjuverk sem við síðan nærumst á einsog fíkill með heróín þegar rætt er um það í fjölmiðlum. Síðustu fimm árin hafa um 5000-6000 manns dáið útaf hryðjuverkaárás, flest öll af vestrænum uppruna. Eru fleiri en ég sem sjá þennan mun? Milljónir, tug milljónir jafnvel hundruð milljónir sem eiga afar, afar sárt um að binda á móti rúmlega 11.000 einstaklingum sem eru tengdir þeim aðilum sem hafa fallið frá í fyrrgreindum hryðjuverkaárásum. Þetta er ekki tilraun til að vera kaldrifjaður, þetta er bara pæling.

Það má vera að þetta sé ekki Kalt stríð, en þeir alþjóðlegu atburðir sem eru í gangi bera smá keim af þeirri takmörkuðu vitneskju sem ég hef um Kalda stríðið, nema nú er verið að berjast gegn ósýnilegum óvin sem hefur aðeins hræðslu og hryðjuverk að leiðarljósi. Þetta lyktar allt svo einkennilega.

mánudagur, júlí 04, 2005

Feddlerí!

Núna lauk Humarhátíðinni á Hornafirði, og maður varð afar drukkinn.

Já, aldeilis.