föstudagur, janúar 23, 2004

Mitt litla líf á Hornafirði: Kafli II

M βίος
Ég er búinn að koma mér upp þrjú heimili, það er náttúrulega heimilið á Smárabrautinni, síðan er það Kaffihornið og að lokum er það Nýheimar. Þessa staði stunda ég mest.

Nýheimar er alveg gífurlega sniðug miðstöð, þar er framhaldskólinn, bókasafnið, lesstofa með tilheyrandi aðgang að tölvum og rólegheitum, kaffitería, útibú Háskóla Íslands og að auki er hér starfrækt frumkvöðlasetur fyrir frumkvöðla á öllum aldri með góðar hugmyndir. Þetta er Academia í forn-grísku meiningunni. Það sem afturá móti vantar eru fleiri nemendur í skólann, fleiri kennara og þar af leiðandi fleiri námsbrautir, auk þess að efla kvöldskólann eilítið og hafa fleiri námskeið í boði. En þetta er nú nýstofnað og tekur smá tíma að byggja þetta upp og efla. Möguleikarnir eru ansi margir, en sú brýnasta nauðsyn sem vantar uppá svo að þetta verði öflug Academia er fjármagn, og því miður er lítið af því í þessum bæ.

Kaffihornið er kaffihús, veitingastaður og bar. Einnig tekur lókal bandið Parket uppá því að spila þarna nokkur vel valinn lög á ýmsum tímum í skiptum fyrir bjór. Kaffihornið er best lýst sem hugmyndinn af viðarhúsinu uppí Alpafjöllum þar sem maður drekkur Swiss Miss og dembir sér á skíði. En ég fer gjarnan þangað með tösku af bókum, panta mér bjór eða kaffi og les eitthvað skemmtilegt.

Það er nú óþarfi að lýsa heimilinu sjálfu, þar les ég, sef ég og ét ég, einsog flest allir aðrir.

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Hann er nú afkastamikill hann Vésteinn. Vona að hann fari eftir mínum ráðum.
Merkilegt með fréttablöð og verkalýðsfélög. Það er öskrað mannréttindabrot, þruma einsog heiðskýru lofti, "hvaðan kom þetta?", "þetta gengur ekki!" og fleiri slagorð þegar herinn ætlar að segja upp 100-200 manns bara sisona og uppúr þurru, og "er þetta ómöguleg vinnubrögð" bæta gjarnan við "að þetta sé ólíðandi", því þetta fólk á "erfitt með að finna sér vinnu á skömmum tíma". En þegar ríkið leggur tillögu um að segja upp 200+ manns hjá Landspítalanum, heyrist varla múkk. Einsog þetta fólk, sem flest allt er ófaglært, á eitthvað auðveldara með því að fá vinnu annarstaðar í heilbrigðisgeiranum. Nú eða þegar Íslensk Erfðagreining gerði það sama, ekki tíst.

þriðjudagur, janúar 20, 2004

Ætti maður að bæta inn tveimur eða fleirum fídusum? Teljara og gestabók? Hvernig lýst gestum á það?
Demonic Males / Skaðræðis-karlmenn
eftir: Richard Wrangham og Dale Peterson

Lauk lestri á einni áhugaverðustu bók sem ég hef lesið í langan tíma. Þessi bók fer ansi víða í sínum rannsóknum og athugunum, það er drepið á ýmsum kenningum er varða innræti mannsins, þó aðallega karlmannsins. Til að mynda, af hverju eru karlmenn svona fúsir til að fara í stríð? Hvað fær karlmenn til að drepa, nauðga, ræna og rupla? Af hverju eru karlmenn gjarnari á að nota ofbeldi og árásarhneigð til að útkljá flest öll vandamál? Það gæti verið ýmsar ástæður, en ein ástæða sem gefinn er upp í bókinni er trúlegri en önnur: Stolt og hroki. Kynlíf og fjölgun.

Höfundar bókarinnar reyna að finna samsvarandi atferli og hegðun hjá skyldasta prímata mannsins, simpansanum í Zaire og nálægum stöðum. Einnig leggja þeir í það að rannsaka tiltörulega nýuppgvötaðan prímata, sem kvíslaðist frá simpansnum fyrir rúmlega 2 milljónum ára, hinn friðsama dvergsimpansa eða, einsog frumbyggjar og innfæddir í Zaire kalla apana, bonobos. Munurinn á þessum tveimur prímötum felst sérstaklega í því að simpansar lifa samkvæmt reglum föðurveldisins, en bonobos lifa samkvæmt reglum móðurveldisins. Föðurveldið er litað af gegndarlausu ofbeldi og ýmsum árásarhneigð, á meðan móðurveldið er friðsælt og mikið er af kynsvalli.

Simpansar voru taldir vera nokkuð friðsamar skepnur af þeim vísindamönnum sem höfðu fylgst lítillega með þeim á 19. öld og uppað seinni hluta 20. aldar, eða nánar tiltekið 1972 á svæði þarsem Jane Goodall dýralífsfræðingur, árið 1964, hafði lifað í tjaldi inní skógi í kringum samfélag simpansa, þarsem hún fylgdist með líferni, hátterni, hegðun og atferli simpansa. Hún gaf þeim banana og aðra ávexti til að ginna þá til sín, svo hún gæti skissað af þeim myndir, og athugað þá í nálægð. Þetta voru rúmlega 20 simpansar sem lifðu í einu samfélagi. Nokkrum árum seinna byrjuðu aðrir líffræðingar að fylgjast með sama samfélagi, en þá hafði þetta eina samfélag tvístrast í tvö, Khabala í norðri, sem voru 8 stykki og Khumana í suðri, sem voru 7. Hópur af fimm simpönsum, fjórum karldýrum og einu kvendýri frá Khabala, fór inná yfirráðasvæði Khumana-simpansa. Þeir leituðu af tilvonandi fórnarlambi, sem þeir fundu. Einn simpansi, að nafni Goti, að borða ávexti langt frá sínum hópi. Khabala-árásarhópurinn réðust grimmilega á Goti, bitu, börðu og spörkuðu, hoppuðu ofaná honum og enduðu á því að kasta grjóthnullungi í höfuðið. Að árásinni loknri flúðu Khabala-hópurinn inná sitt yfiráðasvæði, og skildu Goti eftir í blóði sínu. Goti var en á lífi er skilið var við hann og lifði í örfáa daga, hann hvarf svo og er talið afar líklegt að hann hafi látist. Atburðurinn sem átti sér stað í þessu simpansa-samfélagi átti sér enga hliðstæðu í dýraríkinu, nema hjá sjálfum manninum, þetta var skyndiárás á annað samfélag. Svona árásir voru tíðar af Khabala, og í lokin var búið að myrða alla karlkyns-meðlimi Khumana-samfélagsins. Khabala eignuðu sér landsvæði Khumana, ásamt eftirlifandi kvenndýrum, og stækkuðu sitt yfirráðasvæði.

Þessi atburður og fleiri eru taldir upp í þessarri stórgóðu bók, hegðun aðra prímata, órangútan, górillur og bavíana, eru rannsakaðir. Prímata-hegðun er síðan skoðuð og athuguð útfrá hegðun frumbyggja í Suður-Ameríku, Pólemísiu, Indónesíu og Ástralíu. Það er margt sem þessir hópar eiga sameiginlegt, skyndiárásir, nauðganir, morð, barnamorð og heimilisofbeldi. Einnig er reynt að svara afar erfiðum spurningum, sem dæmi: Af hverju laðast (sumar/margar?)konur að ofbeldisfullum karlmönnum? Af hverju eru konur fúsar í að verja ofbeldisfullan karlmann, sem lemur hana og nauðgar? Í báðum tilvikum er það útaf öryggi. Nokkur dæmi og nokkuð sannfærandi rök eru gefin upp.

Karlkyns-górillur nota afar einkennilega og óhugnalega aðferð til að ná sér í maka. Górillu-hópur er myndaður af 1-3 karlkyns-górillum, eða silfubaka, og allt uppað 8 kvendýrum. Silfurabakar skipta mökum á milli sín, og ólíkt simpönsum, eru engar valdaráns-tilraunir, þannig að górillur eru frekar friðsælar skepnur. En górilla sem ekki er hluti af þessum hópi, í raun utangarðs-górilla, á það til að gera skyndiárásir á þennan hóp, en hann er oftar en ekki hrakinn burt af verndurunum, silfurbökunum. En þegar górillan tekst innrásina á hópinn, þá reynir hann að hrifsa górillu-unga frá kvendýri, sem hann flýr með, og drepur. Kvenkyns-górillan lítur á þetta sem "mökunar-aðferð", og tekur upp samband við górillunna sem myrti ungann hennar. Einkennileg hegðun? Það fer eftir því hvernig litið er á. Ef silfurbakinn í hópnum getur ekki varið ungann sinn, þá ríkir öryggisleysi, þannig að kvendýrið flýr til barnamorðingjans, því hann er það hugrakkur að hafa þor og getu til að ráðast á stóran hóp, ræna ungabarni og flúið, þannig að sú górilla getur skapað öryggi, útaf þessu sérstæða hugrekki.

Fullorðnir karlkyns-órangútar koma í tveimur gerðum, stór og lítil. Stór órangútan er leiðtoginn í öllum tilfellum, og kvenkynið laðast eingöngu að stórum órangútum, þannig að það er sama sem enginn von fyrir þá litlu að geta náð sér í maka. En litlir karlkyns-órangútar eru á stærð við kvenkynið, og getur þ.a.l. flúið frá árásargjörnum órangúta af stærri gerðinni, þar sem þeir stóru eru mjög silalegir og hægfara, en þetta gefur þeim einnig annan kost. Þeir eiga auðveldlega með að elta upp kvendýrið og þröngva því til samræðis, og er þetta oftast eina leiðin hjá þeim til að fjölga sér og stækka kynstofn sinn. Sú vafasama athöfn leiðir til spurninguna er nauðgun eðlileg þróun eða öllu heldur hneigð til að viðhalda stofninum?

Það er svo margt sem kemur fram í þessarri bráðgóðu bók. En bókinn staðfestir þá kenningu, sem kom fram í skáldsögunni 1984, er varðar völd. Völd eru eingöngu til þess að fá völd. Þessi þrá fyrir völd stafar af stolti og hroka um það hver sé bestur og mestur. Þetta eru frumhvöt sem einkennir, sér í lagi, bæði karlkyns apa og mannskepnur.

Undantekninginn frá þessum árásarhvötum eru hinir friðsælu bonobos, en sá sem hefur völdin hjá þeim stofni er kvendýrið, og ólíkt simpönsum, órangútum, górillum og mönnunum, þá lifir þessi nákomni ættingji okkar í friði og stóískri ró, og stjórnast að mestu af vinsemd og losta. Það er enginn deila um yfiráðasvæði milli mismunandi bonobos-samfélagshópa. Þó að ofbeldi hefur auðvitað gert vart við sig í sumum hópum, hefur það aldrei leitt til dauða, ólíkt fyrrtöldum öpum og mannskepnum. Oftast þegar tveir mismunandi hópar af bonobos hittast á förnum vegi, þá fer einn apinn af annahvorum hópnum,oftast kvendýr,sem fer yfir í hinn og byrjar á kynlífsathöfn með öðrum apa, oftast af sama kyni. Hjá báðum kynunum af bonobos skiptir það litlu máli hvort stundað séu samkynhneigðar eða gagnkynhneigðar samfarir, enda hafa þessir apar mikið gaman af kynhvötini, byrja oftast afar ung að fikra sig áfram í kynlífinu.

En, það er ekki hægt að gefa þessarri bók góð skil í þessu litla innleggi, ég get eingöngu mælt eindregið með þessarri bók. Þetta er skemmtileg, áhugaverð og rosalega vel skrifuð bók. Hún skilar efninu vel frá sér, auðlæs og varðar engu um hvort þú sér fagmaður eða áhugamaður um atferlis- og frumsálfræði, stjórnmál, frumhvatir og kenndir, heimspeki, trú, frumbyggja eða simpansa, því hvort áhugi er á einu eða öllu fyrrtöldu þá efast ég ekki um að þú, lesandi góður, munt hafa gaman af af þessarri bók.

mánudagur, janúar 19, 2004

Af einhverjum skringilegum ástæðum geta íslendingar er búsettir eru erlendis ekki skoða síðuna mína. Þetta hefur valdið mér miklu mindboggle, og hef velt því fyrir mér hvernig stendur á þessu.

Þetta gæti verið útaf hinni nýtilkomnri "Drug-War" klukku eða þessu java-script drasli neðst.

Fyrir þá íslendinga er búa erlendis og sjá loksins þessi skilaboð, endilega kommentið á það...
Ég er núna byrjaður að vinna við málefni fatlaðra og einnig búinn að skrá mig í tvo áfanga í Framhaldskóla Austur Skaftafellssýslu, sem ku vera Íslenska og Enska 203. Það er ánægjulegt að vera sestur á skólabekk aftur.

Það kemur mér líka skemmtilega á óvart hvað viðhorfið gagnvart náminu hefur breyst. Ég er einn af þremur "eldri" nemendum í Ísl og Ens, og þessi klukkutími líður einsog hálftími, einu sinni þessi tími leið einsog tveir tímar... enda grútleiddist maður í skóla, og hafði engan áhuga á því að vera þarna o.s.frv., það kannast nú flestir við þetta.

En þetta er ágætt.

Ég fer síðan skila inn einhverjum pistlum, greinum og ritgerðum innan tíðar, ég bara nenni því ekki einsog er.
Mig langar gjarnan til að uppfæra þessa síðu oftar en ég get. En það verður að bíða til ögn betri tíma.

mánudagur, janúar 12, 2004

Ég hef ákveðið að fara á Glastonbury-hátíðina. Það verður gaman, og mun hafa skemmtileg og skynvíkkandi áhrif.

miðvikudagur, janúar 07, 2004

Ýktar fréttir: Ofbeldisfulli smábærinn Hornafjörður DAUÐANS!
"Veittust að lögreglu
20-30 ungmenni réðust með kjafti og klóm að lögreglunni á Höfn í Hornafirði á aðfaranótt þriðja dags jóla og hlutu lögreglumennirnir smávægileg meiðsli af því er fram kom í útvarpsfréttum.
Um 100 gestir voru á dansleik í Sindrabæ og var aldurstakmarkið 16 ár..."

Er ég var að líta yfir bloggsíðu bróður míns, þá sá ég þessa frétt. Ekki er getið hvaðan hún er tekinn, væntanlega af mbl.is - skiptir engu máli, því þessi frétt er algjört bull frá upphafi til enda. Í fyrsta lagi voru ekki 100 gestir á dansleik Sindrabæ, einfaldlega útaf því að það var einhver kúka-hljómsveit frá Sauðarkróki sem hét "eitthvað" auk þess að það kostaði 2000 krónur inn og enginn unglingur með viti hefði borgað sig inn, einnig að flest öllum var bara hent út áður en ballið byrjaði, í öðru lagi, þessi fjöldi sem veittist að lögreglunni, þessir 20-30, var samtals fjöldinn sem var á ballinu og í þriðja og síðasta lagi voru eingöngu fjórir drukknir unglingar sem veittust að lögreglunni. Þetta minnir mig á gíslatöku-fréttina, sem var einnig svakalega ýkt og vel krydduð af ýmsum nýjungum, það vantaði bara að þessi "mannræningji" hefði verið Osama Bin Laden.

En ef það eru ekki almennilegar líkamsmeiðingar, aflimanir og blóðsúthellingar einhverja helgi eða hátíð á Hornafirði, þá er það ekki frétt... nema það sé hægt að spinna einhverja hryllingsögu inní atburðinn.

Djöfulsins bull.
Kíkið neðst á hlekkjahlutann, þetta er brill!
Hvað verður langt í krakkið?
forvarnarsmugan er kallast endurlögleiðing kannabis

Umræðan um ofbeldið í undirheimum Íslands rís upp aftur og aftur, einsog afar hæg alda. Þessi umræða virðist alltaf spretta upp á fullu tungli, og má þá tala um tunglsýki fréttamanna um ofbeldi undirheima. Áróður frá innheimtumönnum Intrundirheima Injustitia um þær afleiðingar sem fylgir því að borga ekki skuldinna sína á réttum tíma, hræðsluáróður fréttamanna um þær afleiðingar er fylgir því að neyta fíkniefnis og síðan kemur róandi og slævandi tal háttsettra lögreglumanna um að ofbeldið er ekkert jafnslæmt og það virðist líta út á blöðum og skjám fréttamiðla og á sjúkraskrám bráðamóttu landspítalans, en ofbeldið er samt til staðars.
Ein helsta fjármögnunarleið þá framtaksömu viðskiptamanna er stunda fíkniefnabransann er kannabis, og besta leiðin til að kippa undan þeim fótunum er að lögleiða kannabis. Þar af leiðandi munu þessir viðskiptamenn koma uppá yfirborðið með þá tekjur sem þeir hafa haft af ólöglegum viðskiptum og koma á fót kaffihús eða álíka starfsemi og borga skatta til ríkisins, þar af leiðandi munu þessir milljarðir sem hverfa í neðanjarðarstarfsemi koma aftur uppá yfirborðið, og lögleg viðskipti munu eiga sér stað. Vandamálið er fylgir handrukkun og ofbeldi mun hverfa, það er að segja ef ofbeldið er það sem fólk hefur mestar áhyggjur yfir. Þetta er mjög einföld jafna og mjög einföld útkoma.
Auðvitað mun kannabisnotkun verða meiri, auðvitað mun fólk prófa og auðvitað verður neysla á kannabis-efnum augljósari, en ef það er tekið mið af Hollensku tilraunini, þá mun það standa í mesta lagi ár til tvö ár ekki lengur. Hollenskir unglingar eru ólíklegri til að reykja kannabis en Franskir, Breskir eða jafnvel Íslenskir unglingar! Það er meiri kannabis-neysla í þeim löndum sem þetta er bannað, en í þeim sem er búið að lögleiða eða afglæpa eign og neyslu kannabis, t.d. Kanada, Belgía og náttúrulega Holland.

Það eru fleiri fíklar í Bandaríkjunum en í Hollandi, ásamt því að meðalaldur fíkla í BNA er mun lægri en í Hollandi. Meðalaldur fíkla í BNA er rúmlega 20 ára, og talið er að ca. 2% af þjóðinni er háð sterkum fíkniefnum á borð við krakk, heróín og kókaín, en meðaldur er 44 ára í Hollandi, og aðeins 0,2% eru fíklar.
Það er pólítisk ákvörðun er fylgir því að framfylgja banni og hertum reglum gagnvart kannabis í BNA, pólítísk er hún að því leytinu til að það megi ekki sýna neina linkind gagnvart fíkniefnum af hvaða tagi sem er. En það kemur niðrá það að næstum því þriðji hver Kani er líklegur glæpamaður, því samkvæmt könnun er gerð var í BNA sögðu rúmlega 70 milljón manns að hafa einhvern tímann prófað kannabis. Fólk getur verið dæmt í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa í fórum sínum sem nemur 0,3 grömm af maríjúana, jafnvel geta sumir átt von á að fá dauðadóm fyrir aðeins meira magn.Í BNA eru rúmlega 200.000 manns dæmdir í fangelsi árlega fyrir eign eða neyslu kannabis. En auðvitað eru sumir sem sleppa betur en aðrir, þá á ég við syni og dætur stjórnmálamanna eða ríkisbubba, sem geta sloppið með asnalega lága sekt og meðferð í 3 mánuði, og jú, jafnvel þurft að vinna einhverja samfélagsþjónustu.

En ef fólk og þjóð vill hindra það að almenn glæpastarfsemi eða gengi á borð við Hell´s Angels, mun ekki festa sig í sessi hér á landi, þá tel er nú skömminni skárra að lögleiða helvítið eða í það minnsta afglæpa eign og neyslu á minniháttar magni af kannabis, en að skapa glæpamenn útaf smáræði sem kannabisneysla er, og að auki bjóða hættunni heim með þeim óbeinum skilaboðum til vissra glæpaklíka um að hér sé hægt að græða. Því þeir munu haga sér einsog dæmigerðir óforbetranlegir löglegir viðskiptajöfrar og reyna troða sínum vörum á borð við alsælu, amfetamín, kókaín, heróín, ópíum og morfín inná frekar friðsælt fólk sem lætur sér það nægja að reykja kannabis.
Hver veit, kannski ef núverandi stjórnmálamenn neita að "sýna linkind gagnvart hverskonar fíkniefnum" áfram, þá verður kannski á boðstólnum krakk fyrir alla krakka (sem í 95% tilvikum gerir mann háðan, á móti kannski 0,5% tilvikum kannabisneyslu en það er ekki staðfest af neinum vísindalegum könnunum), sem skiptir kannski stjórnmálamönnum litlu máli það sem þeir telja sig trú um að það sín börn eru vel uppalin og neyta ekki fíkniefnis...
Við erum svo hrædd um að lenda í fangelsi, að vera refsað, sektað, kært, eiga í hættu að vera útskúfaður, úthúðaður aumingji og ræfill ef við gerum eitthvað róttækt.

En hvað geta 64 einstaklingar á þingi gert á móti ca. 140.000 vinnandi manns? Af þessum vinnandi mönnum eru hvað? 1400 lögreglumenn? Hvað geta þeir gert gagnvart 126.000 vinnandi manns? Af þessum 126.000 hversu mikið hefur nægileg kjör til að fara til Mallorca 3-4 sinnum á ári? 100? 1000? 10000? Ekki held ég þeir er flokkast undir þá feitu og sáttu aristókrata og smáborgara eru fleiri en þeir sem gætu hæglega kallast vesælir og ósáttir öreigar, bóndar, verkamenn.

Hvað þarf að gera svo að rúmlega 120.000 þúsund manns einfaldlega hætti að vinna? Eitt stórt allsherjar verkfall? Þarf eitthvað blað, málgagn líkt og Fréttablaðið að koma fram, dreift frítt á öll heimili?
"Dark have been my dreams of late" svo maður vitni í Þjóðan, konung Róhans.

Ég er búinn að fara sofa núna undanfarna daga milli klukkan 10 og 12, og ég hef sofið í tæpa 2-3 tíma í senn, stundum skemur og stundum lengur, fer eftir því hvort ég get sofnað aftur, sem er afar sjaldan. Hvort þetta tengist stöðu jarðar gagnvart tunglinu veit ég ekkert um, gæti svosem vel verið.
En tilvitnunin efst er ekki gerð af ástæðulausu, því mig hefur dreymt gífurlega undarlega drauma. Hvort það tengist því sem ég er að lesa er afar líklegt. Það er nefnilega einn draumur sem ég man sérstaklega vel eftir, því ég velti honum fyrir mér. En smá forsaga:
Ég er með rúmlega fimm bækur í lesningu - Don´t read this book if you´re stupid eftir Tibor Fischer - Empire eftir Michael Hardt og Antonio Negri - Democracy eftir Dorothy Pickles - Figments of Reality eftir Ian Stewart og Jack Cohen svo loks bók er ber titilinn Demonic Males eftir Richard Wrangham og Dale Peterson, en sá undarlegi draumur ber dám af þeirri bók.
Í Demonic Males er reynt finna út tengingu árásarhneigðs manns og prímata, þó aðalega simpansa sem eru, erfðafræðilega séð, skyldastir manninum. Það er semsagt verið spyrja þá spurningu "Er stríð (ofbeldi, árásir, bardagar os.frv.) nauðsynleg hluti fyrir þróun mannsins?" Var það semsagt milliflokka(tribes)-deilur er ollu því að heilarnir á okkur stækkuðu fyrir rúmlega 150.000-200.000 árum síðan. Ég er nú ekki kominn langt inní bókina til að svara því strax, en bókin er nokkuð auðveld lesning og hver sá sem skilur ensku getur lesið og kannski haft gaman af.
Anyways - bókin byrjar á því að lýsa hræðilegum atburðum í Búrúndi, en deilur stóðu á milli Hútsa og Tútsa frá 1972 til ársins 1996 (standa örugglega enn, en bókinn er gefin út 1996). Í einu orði sagt: slátrun. Tútsar eru sem nemur 15% af fólksfjölda í Búrúndi, og árið 1972 drápu þeir alla leiðtoga Hútsa og náðu völdum yfir landinu, Tútsar héldu völdum þar til ársins 1993, en þá var ákveðið að kukla í lýðræðinu. Fyrsti lýðræðislegi forsetin var kosinn það ár, og það var Hútsi. 23. október sama ár keyrðu Tútsar skriðdreka inní forsetahöllina og stungu forsetan til bana, ef vandamálið milli þessarra þjóðflokka var alvarlegt fyrir, þá var þetta einsog að hella olíu, bensín, brennistein, salt og kvikasilfur í opið sár á siðblindum og brjáluðum fjöldamorðingja, því Hútsar og Tútsar byrjuðu að eipa. Ásamt forsetanum, var helmingur ríkistjórnarinnar drepnir, Hútsar drápu síðan 68 af stjórnmálamönnum Tútsa og nokkra frjálslynda Hútsa. Atvinnumálaráðherra var skorinn í þrjá bita og notaður sem vegartálmi. En þetta var ekki einu sinni byrjunin, því þjóðarhreinsanir áttu sér stað stuttu eftir, og talið er að meira en hálf milljón manna voru slátraðir. Tíu þúsund lík runnu eftir ánni Kagamara og enduðu í Viktoríuvatni í Úganda. Einn bóndi er bjó þar nálægt var fenginn til að draga líkin úr vatninu og hann segjir frá einu fórnarlambi, öllu heldur fórnarlömbum, sem er honum afar minnistætt, og ekki er það af ástæðulausu:
" Einu sinni skolaðist kona uppá ströndina, og það voru fimm börn bundin við hana, eitt á hvorri hendi, eitt á hvorum fót og eitt á bakinu" og svo segjir hann "hún var ekki með nein sár..."
Frá þjóðarhreinsunum í simpansa. Árið 1974 átti afar sérstæður atburður sér stað, sem enginn dýrfræðingur eða lífræðingur hafði verið vitni af áður. En nokkrir líffræðingar urðu vitni af því er fimm simpansar, sem komu frá flokki er vísindamennirnir kölluðu Kasekela, réðust á einn simpansa af öðrum flokki er kallaðist Kahama. Þessir fimm simpansar höfðu yfirgefið sitt svæði og, í raun, ráðist inná Kahama-svæðið. Simpansar eru hjarðdýr og stofna flokka sem ná upp að 20 í fjölda. Kasekela-flokkurinn voru 8 talsins, og Kahama voru 7, og þetta gerðist á stað sem Jane Goodall hélt sig við að rannsaka apa, talið var upp að þessu að simpansar væru afar friðsamar skepnur. Þessi árás var grimmileg, allir fimm simpansanir réðust á þennan eina varnalausa apa, hoppuðu á honum, brutu löpp og handlegg, bitu af honum húð og hár, klóruðu hann, börðu hann og enduðu síðan á því að kasta grjóthnullungi í hausinn á honum. Að þessu loknu hurfu þessir fimm aftur á yfirráðasvæði sitt. Þetta var örugglega ekki í fyrsta eða hvað þá síðasta sinn sem svona atburðir gerðust. En það endar á því að Kasekela-flokkurinn upprætir Kahama-flokkinn og fá 2 kvenkyns-simpansa og stærra yfirráðasvæði að launum. Upp að þessu var talið að eina skepnan sem ræðst á sitt eigið kyn væri mannskepnan, að maðurinn væri sá eini sem dræpi sitt kyn af ástæðu, t.d. fyrir meira landsvæði.

Draumurinn minn
Þessi draumur var furðulegur. Hann byrjaði á því að ég var að vinna í stórmarkaði, sem líktist meira bardagasvæði en verslun, innkaupa-vagnar og körfur lágu einsog hráviði útum allt, verslunarfólk að hlaupa um til að forðast viðskiptavini, og þessir viðskiptavinir höguðu sér einsog barbarar, versluðu einsog heimsendir væri í nánd. En, samkvæmt draumnum, þá var þetta ósköp eðlilegur vinnudagur. Ég var með það spennandi starf að taka ónýta innkaupavagna og körfur og laga það... síðan fer draumurinn yfir til Mið-austurlanda, nánar tiltekið til Palestínu. Það fylgdist ég með gömlum friðsömum arabahippa sem sat á hól að reykja risastóra jónu í eyðimerkurdal, hann gerði ekki mikið annað en að reykja og brosa, þartil að fimm brjálaðir semítar hoppuðu yfir hólinn og réðust á hann með vélbyssum, þeir skutu og skutu en hittu aldrei, því arabahippin var ansi frár á fæti. En þetta endaði ekki vel fyrir hippan, því hann var tekinn og limlestur, og ekkert aðferðin var ekki ólík þeirri lýsingu á aðferð simpansana. Þessir semítar hoppuðu á honum, börðu hausnum á klett, brutu öll bein - drápu hann á afar ógeðfelldan hátt. En það endaði ekki þar, einn semítinn tók uppá því að bíta í kálfan hægri fót á hippanum, hann beit og beit, beit í gegn og reif af honum löppina - síðan endaði draumurinn á því að ég sá afar frjálslega vaxna konu labba á strönd eða eyðimörk, í áttina að sólinni. Hægri fóturinn á henni var afmyndaður. Þar með lauk draumnum.

En þetta er ekki eini, hvað þá síðasti skrýtni draumurinn minn, því núna í næstum 5-6 daga í röð hefur mig dreymt afar furðulega drauma, þessi stendur bara uppúr.

laugardagur, janúar 03, 2004

Og vel á minnst, gleðilegt nýtt ár!
Á liðnu ári hef ég lesið, að mér finnst, gífurlegt magn af bókum og þetta ár verður ekki öðruvísi þegar kemur að bókavali. Frá heimspeki til stjórnmála, aktívisma til samsæris , um kynþáttahyggju til kvennréttindabaráttu þá hef ég lesið afar viðtækt efni er tengist mannskepnunni og hugleiðingar ýmissa viti borna manna á einu ári. Ég tel það vera afar vel af sér vikið.
Noam Chomsky, Naomi Klein, Eric Schlosser, Ian Stewart, Sigmund Freud, John Stuart Mills, Plato, Aristotles, Friedrich Nietczhe, Karl Marx, Friedrich Engels, Jóhann M. Hauksson, Jóhannes Björn, Carl Jung, Guðmundur Hálfdanarsson, Maó Tse-tung, Gregory Palast og fleiri fræðimenn; sálfræðingar, heimspekingar, stjórnmálamenn, fréttamenn og rithöfundar, auk ýmissa kennslubóka um sálfræði, félagsfræði og tungumál, hef ég flett í gegn, lesið, lært og haft gaman af.
Einsog ég minntist á áðan, þá verður þetta ár ekkert öðruvísi, þvert á móti. Ég stefni á að lesa Hegel, Schopenhauer, Kant, Lenín, Stalín og fleiri, auk þess að grúska meira í Freud, Stewart, Chomsky, Marx, Jóhannes Björn, Guðmund Hálfdanarsson og aðra óupptalda rithöfunda sem ég hef lesið áður en vill lesa meira eftir, auk annarra fræðimanna sem verða á mínum vegi, sem ég finn á bókasafninu eða einhver góður maður mælir með.
En ég verð samt að skella inn einhverjum skáldsögum þarna líka, fyrir utan mína reglulegu höfunda þá Terry Pratchett, Robert Rankin, Carl Hiaasen þá hef ég í hyggju að henda inn klassík einsog Charles Dickens, Mark Twain, Grimm-bræður, Hans Christian Andersen, Jonathan Swift og fleiri góða kalla. Einnig hef ég haft ansi lengi í hyggju að lesa hann Philip K. Dick. En nýr höfundur hefur bæst við er heitir Tibor Fischer, en ég er einmitt með eina bók eftir hann í lesningu er ber titilinn "The Thougt Gang" sem er afar skemmtileg og vel skrifuð bók. Síðan er maður einnig með Empire eftir Michael Hardt og Antonio Negri, sem verður ekki auðveldur lestur.

Já það er aldeilis gaman að lesa bækur. Hef planað það ansi lengi að skera niður sjónvarps- og vídeógláp og einnig leikjatölvuspilun. En þessir hlutir, þessir stafrænu hlutir hafa sömu áhrif og hin verstu fíkniefni. PS2 er heróínið mitt. Sjónvarp er morfínið. Vídeó, einsog bíó, er algjört ópíum. En bækur... það er einsog afar gott kannabis, og fátt slær út gott kannabis.
Ofgnótt af upplýsingum:
hugleiðingar og gróf samantekt yfir upplýsingaofflæðinu

Það er til alveg gífurlegt magn af upplýsingum. Frá skáldskap til fróðleiks, um einstaklinga og hópa, um lífræði og siðfræði, ævintýri og vísindi, auk öllu öðru sem fyrirfinnst innámilli þessarra viðfangsefna. Blaðsíðurnar sem hafa verið prentaðar, í gegnum tíman mundi eflaust nægja til að hylja jörðina nokkrum sinnum. Sigmund Freud skildi eftir sig 14.000 síður af sálfræðikenningum, J.R.R Tolkien skildi eftir sig nær 6000 síður af skáldskap og fróðleik, Arthur Schopenhauer með 5000 síður af heimspeki, Noam Chomsky hefur skrifað og gefið út hátt uppí 20-30 rit, auk fjöldan allan af ritgerðum, greinum, ræðum og pistlum, við höfum fræðimenn og höfunda sem skrifa í Encyclopedia Britannica, sem núorðið er nær 30 bindi af fróðleik um allt milli himins og jarðar, hver bók er rúmlega 1200 síður að lengd og hefur verið gefin út nær samfellt í næstum 200 ár og þetta er langt frá því að vera obbin af þeim rithöfundum og fræðimönnum sem skilið hafa eftir sig stórkostlegan bókmenntaarf fyrir mannkynið til að glugga í. En það er ekki nóg.
Auk bóka höfum við ljósmynda- og kvikmyndatækni (sellólas) sem í flestum tilfellum innihalda það sama og bækur, þó ekki jafn ítarlegar og sumar 300-400 síður af upplýsingum og fróðleik. En samt eru margir einstaklingar og fyrirtæki sem framleiða myndir sem er ýmist skáldskapur eða fróðleikur. Skáldskapur á borð við Citizen Kane, Easy Rider og Star Wars, auk þess að blanda saman bókmenntir og sellúlós með To Kill a Mockingbird, Silence of the Lambs, Patriot Games, og nú síðast með meistaraverkinu Hringadróttinssögu. En einstaklingarnir í Hollywood eru ekki þeir einu sem gera kvikmyndir. National Geographic eru samtök sem auk þess að gefa út mánaðarlegt tímarit um vísindi, dýr og alþjóð, gefa þeir einnig út kvikmyndir. Frá NG eru til kvikmyndir sem fjalla um fyrri og seinni heimstyrjöldina, eldgos í Hawaí og á Íslandi, um tígrisdýr og snjóbirni, skoðunarferð um Titanic og Bismarck og líf og lífskilyrði í Alaska. Þrátt fyrir þann hafsjó af upplýsingum sem fyrirfinnst, prentað á annaðhvort pappír eða sellólas, þá virðist það ekki heldur vera nóg.
En ef það er ekki nóg þá höfum við aðra sellólas-kvoðu er kallast á frummálinu "compact disk(CD)" og "digital video disc(DVD)", á íslensku er það geisladiskur og stafrænn kvikmyndadiskur. Á CD er nú aðallega að finna tónlist eða öllu heldur tónlistarkvísla, frá klassík til þungarokks, diskó og popp, barok og progrock. En við höfum líka lesið efni eftir fyrrtalda höfunda (Freud, Tolkien, Schopenhauer, Chomsky), auk gaman- og deiglumál með Bill Hicks, Eddie Murphy, Eddie Izzard o.fl. DVD gerir kvikmyndamönnum kleift að þjappa rúmlegta tífalt meiri myndefni og upplýsingum en á venjulegri VHS-kassettu, og hafa margir nýtt sér það. Með því tildæmis að endurútgefa klassísk bresk gamanefni einsog fyrsta serían af Black Adder sem komst fyrir á 3 spólur, kemst nú fyrir á einum disk eða öll Monty Python-serían sem gæti hæglega komist fyrir á 4-5 diskum. Einnig hafa listamenn á borð Peter Jackson nýtt sér þessa tækni til að gefa út sína útgáfu af Hringadróttinssögu í svotilkallaðri "Sérstakri útgáfu" á fjórum diskum, með aukaefni sem sýnir gerð myndarinnar og fleira. Aðrir kvikmyndagerðamenn nýta þetta tækifæri einnig með því að gefa út myndir, með klipptum atriðum, mistökum og ýmsum fídusum. En samt sem áður, þrátt fyrir þessa ofgnótt af miðlum sem hægt er hlaða á með ýmsum upplýsingum virðist það ekki vera nóg. En einn upplýsinga-miðill er eftir.
Einsog alþjóð veit þá eru upplýsingar ekki eingöngu fastar við blað eða sellólas, því nú er hægt að nálgast bókstafina á stafrænun skjá sem er beint fyrir framan nefið á þér, og þú getur líka nálgast alla aðra miðla á internetinu. Þú getur eflaust fundið allar ofantaldar bækur, kvikmyndir og tónlist einhverstaðar á veraldarvefnum, eða eitthvað líkt því. Margir einstaklingar hafa einnig gefið sér tíma til að endurita ýmsar bækur og ritgerðir á tölvuna sína og gefa það út (ólöglega) á netinu, þannig að þú ættir að geta niðurhalað bókinni Hringadróttinssögu ásamt kvikmyndinni á sama stað.
Auk þess að lesa upplýsingar getur þú einnig tjáð þig um ýmislegt, einsog málefni líðandi stundar og þannig bætt við fróðleik í þessu upplýsinga-"tsunami" sem er internetið. Við, þessir skrifandi og lesandi viti bornu menn, elskum að tjá okkur um eitthvað, allra helst á prent svo að núverandi og komandi kynslóðir geta lesið hvað við erum skörp og vitræn. Á internetinu höfum við, fyrir utan almennar vefsíður, meðal annars vefrit (ezines), umræðuvefi(forums), spjallsíður(irc, messanger), vefbækur(blog), fréttasíður og netleikir. Af öllum skemmtilegum tólum og fídusum sem innbyggt er í Windowsið, Línuxinn eða Macann höfum við undratólið "copy/paste" afrita/líma. Að taka upplýsingar af einni vefsíðu og setja það á aðra.
Upplýsingar á netinu er opið fyrir öllum þeim sem hafa aðgang að tölvu, hvort sem það er heima hjá sér, í vinnunni eða á netkaffihúsum. Sumar tölvuverslanir og bankar bjóða líka uppá smávægilegan netaðgang, viðskiptatengt í flestum tilvikum. Í Japan og víðar er verið að fara koma upp almenningsveftölvum, rétt einsog almenningssímar. Það er hægt að fá aðgang að netinu næstum því útum allan heim. En vefurinn hefur verið skilgreindur af sumum sem samhliða heimur okkar heims, enda finnst allt þar sem hægt er að finna hér. Matvöru-, bóka- og leikfangaverslanir, trygginastofnanir, netbankar,skólar (fjarnám), ásamt að nokkur tugi milljón ný störf hafa opnast sökum tilkomu netsins.
En fyrrgreind upptalning er ekki það eina sem finnst á netinu, því nær helmingurinn af öllum heimasíðum á netinu er talið vera erótík og þó aðallega klám, auk kennsluvefi hvernig á að gera sprengjuvesti, rækta vímugjafa á borð við kannabis o.fl og sökum þess hafa margar stofnanir, eða deildir innan vissra stofnana verið komnar á fót, er gróflega gæti verið kallað "veflöggæsla" sem fylgjast með því hvað fólk skrifar og er að aðhafast á alnetinu.
Okkur talið trú um það að þetta sé gert fyrir okkar bestu, auðvitað, rétt einsog venjuleg löggæsla sem keyrir eða gengur um göturnar og gefur þá tilfinningu að við erum í góðum höndum. En löggan, því miður, hefur slæmt óorð á sér, upp hefur komist spilling innan sumra deildra lögreglunnar, valdaníðsla og skýrslufals hjá vissum lögreglumönnum, mannorð lögreglunnar er í henglum sökum miður vitra einstaklinga og það mun taka ansi drjúgan tíma að reyna bæta það upp. Þannig þessi nýja deild löggæslunar verður vekja traust hjá almenningi.
Í fréttum er þessi veflöggsælu-starfsemi sögð vinna aðallega við það að hindra myndun eða uppræta barnaklámshringi. Óneitanlega er mikið af sjúkum einstaklingum í heiminum, en manni grunar að vissar löggæslur séu, segjum bara, óbeint að hvetja til lögbrota, með því til dæmis að bæta við þá flóru af klámsíðum með plat-barnaklámsíðum. Og á platbarnaklámspjallsíðum eru 41 árs gamlir karlmenn að þykjast vera 11 ára gamlir strákar að tæla, ég meina, tala við aðra 41 árs gamla karlmenn sem eru að leika út vissar kynlífsfantasíur rétt eftir að hann er búinn að svæfa 11 ára gamlan son sinn.
En af klámskvíslunum er hægt að finna afar litríka flóru af kynlífsfantasíum og athyglisverðum hneigðum (og bældum minningum), fyrir utan gagn-, sam- og tvíkynhneigð klám, barna- og dýraklám, þá höfum við fótaklám, myndavél sem er fest við fótinn á konu, helst rétt fyrir ofan ökklan, meðan hún labbar. Tréklám, myndir af (nöktum) trjám og nakið fólk að snerta tré. Ödipusklám, "móðir" og "sonur" að gera það. "Faðir" og "dóttir", "Móðir" og "dóttir, "Faðir" og "sonur" eða öll í einu samheldnu fjölskyldufaðmlagi. Gamalt fólk, þroskaheft fólk, feitt fólk, ljótt fólk. Líkamsvessaklám, fólk að míga og skíta á hvort annað, drekkandi sína eða aðra líkamsvessa. Sadó masó, dóminerandi, (leiknar) nauðganir og fleiri ofbeldisfullar hneigðir og hvatir. Mig grunar að ég sé ekki einu sinni búinn að telja upp helminginn af þessarri afar athyglisverðu nautnum sem við hin viti bornu menn höfum svo lúmskt gaman af, annaðhvort til að fróa okkur yfir eða blöskra yfir ósómanum.
En allt þetta klám er ekki það eina sem vissar löggæslur fylgjast með, onei. Það sama gildir um alla er ræða í sakleysi um ýmisleg viðkvæm málefni svosum stjórnmál, mótmæli, byltingu. Það er sagt að vissar löggæslur hafi verið að hlera rúmlega 20 milljón símanúmer, eða fleiri, á árinu 1974 og sú tala fór hækkandi frá ári til árs. Sagt er að CIA hafi þróað hlerunarbúnað sem gerir þeim kleift að hlera næstum hvaða símanúmer sem er ef viss stikkorð koma fram í símatali, svosem "Hitler", "Bin Laden", "Terrorism", "Bombing", "Weapons of Mass Destruction" svo einhver "hættuleg" orð eru tekin sem dæmi. En hvort eitthvað af þessu sé virkilega satt, þori ég ekki að fullyrða, þetta gæti allt verið raus frá samsærisjúkum einstaklingi sem þjáist af ofsóknarkennd af hæsta stigi. En ég fyllyrði samt að símahlerunir hafa verið grimmilega stundaðar og það hefur leitt til ýmissa ótrúlegra atburða hjá saklausu fólki; handtöku, mannorðsmissi, skjótt atvinnuleysi, útskúfun og sjálfsmorð, allt útaf einhverju sem þessi vissi einstaklingur sagði í hálfkæringi við annan einstaklinginn hinum meginn á línunni.
Fjöldi fólks hefur aðgang að netinu, það er talið að rúmlega 20 prósent af mannkyninu hefur aðgang að netinu, það er næstum því einn og hálfur milljarður af einstaklingum, einn og hálfur milljarður af hugsanlegum glæpamönnum. Það telst nær öruggt að allir tjá sig eitthvað á netinu, þó það sé ekki nema einu sinni en það þýðir það að þessi einstaklingur er þá kominn á skrá einhverstaðar í heiminum með einhverjar upplýsingar sem gætu ef til vill verið viðkvæmar einhverjum valdamiklum manni útí bæ, sem kannski gæti leitt til mannorðsmissi og handtöku. Ég, fyrir mitt leyti, efast ekki um ég sé kominn á skrá einhverstaðar fyrir eitthvað sem ég hugsanlega hef eða hef ekki gert, og hver veit, það gæti leitt til athyglisverða atburða.

Kannski að orðtiltækið "Því meira sem maður veit um heiminn, því minna skilur maður" eigi við okkur öll.
Það er nægjusamt af upplýsingum í þessum heimi, það er enginn vafi með það, vafinn er samt hvað á að gera við allar þessar upplýsingar? Við neytum þessara upplýsingar einsog hvaða neysluvöru sem til er og skerpum okkar vit, bætum á okkur fróðleik, en hvað svo? Við verðum alltaf vitrari og vitrari með hverri öld sem líður, en vandamálið að við vitum ekki hvað á að gera. Því vandamál síðustu aldar er ennþá vandamál í dag, og enginn siðmenntaður, hámenntaður viti borinn maður hefur komið með lausn á þeim vandamálum, hefur í raun bætt meira við þessi vandamál með allri sinni visku. Við höfum vitræn en tilgangslaus stríð gegn öllum andskotanum, við höfum djöfullega fátækt og hungursneyð sökum viturlegrar og tilgangslausra skerðingar á lífskjörum og markaðsvæðingu, og eitt mesta vandamálið, að það geta ekki allir lesið alla þessa helvítis visku sem fólk hefur skrifað í gegnum tímann sökum skort á menntun, meira en helmingur mannkyns getur ekki lesið eða skrifað. Hvað eigum við að gera í því? Nú hvað annað getum við gert en að skrifa um það og blöskra yfir getuleysi mannsins, homo impotent sapien, hinn viti borni getulausi maður, með fullt af upplýsingum um hvernig hugsanlegt væri hægt að leysa öll heimsins vandamál, en við einbeitum okkur svo mikið að ósómanum að við gleymum að framkvæma lausnina. Tölum og tölum en gerum ekki neitt.