þriðjudagur, janúar 24, 2006

Fyrir stuttu og í senn

Mér var hent í Þorrablótsnefnd Hornfirðinga á síðasta ári. Í því felst að setja upp skemmtidagskrá, lítið gamanleikverk sem drepið er á því helsta sem aðeins hreinræktaðir Hornfirðingar sem lesa Eystrahorn fatta, einnig að gera salinn, í þessu tilviki íþróttarsal, tilbúin til skemmtanahalds og sitthvað fleira. Ég var, ásamt því að sprella, gefið það hlutverk að vera veislustjóri ásamt einum kvenmanni. Þorrablót Hafnarbúa 2006 tókst með eindæmum vel.

Skólamálin ganga lala.

Er á leiðinni suður (vestur fyrir fullkomnunaráráttusinna) til Reykjvíkur núna á eftir og svo verður flogið til Englands í fyrramálið.

Birtist pistill eftir mig á Vantrú, sem er ögn endurbætt útgáfa af síðasta innleggi. Pistillinn heitir Trúarjátning trúleysingjans.

föstudagur, janúar 20, 2006

Trúarjátning

Ég var skírður í Hafnarkirkju þegar ég var vanviti árið 1979. Ég man ekki hvað átti sér stað í leikskóla. Ég gerði heimaverkefni mín í kristinfræði er ég var óþroskaður hálfviti í barnaskóla og litaði myndir af goðsögu sem kallaður er Jesús Kristur Jósepsson. Ég fékk gefins Nýja testamentið er ég var 12 ára. Ég gerði tilraun til að lesa það rit. Ég fór í fermingarfræðslu og var látinn lesa valda kafla úr Nýja testamentinu þegar ég var á frekar viðkvæmum aldri. Ég var fermdur í Hafnarkirkju sem átti að vera einhverskonar bullsáttmáli milli mín og Gvuðs um að staðfesta skírn mína. Ég var þrettán ára og sjö mánaða. Ég á afmæli 25. september. Þessir atburðir eru merkingarlausir fyrir mér.
Ég fór að velta þessari hálf-kristilegu uppeldissögu fyrir mér og finnst það athyglisvert að enginn önnur lífsskoðun var á boðstólnum í bænum sem ég ólst upp í. Ég man ekki eftir því að rætt var um Búddisma, Hindúisma, Bahaísma og hvað þá skeptismisma, efahyggju, guðleysi né trúleysi í barna- eða gagnfræðiskóla nema sem einhverjar undirmálsgreinar, varla það.
Í þessu litla bæjarfélagi var einhvernmeginn búist við því að allir mundu trúa á eitthvað Kristskjaftæði. Ég lít á þetta tiltekna kristilega sinnuleysi sem hreina blessun, ef mér leyfist að nota það orð, og einnig stend í þakkarskuld fyrir það að foreldrar mínir ólu mig alls ekki upp undir guðsótta og kristna siðnum, hvað þá kristnum gildum eða venjum.
En samt sú "kennsla" eða kristilega ítroðsla sem ég varð fyrir, sérstaklega í barnaskólanum, gerði það að verkum að mér fannst yfirnáttúran og hið ótrúlega ekki vera svo ólíklegur veruleiki; hugsanaflutningur, örlög, jólasveinar, geimverur, anda, drauga, grýlur, álfar, tröll, guðir og aðrar forynjur, þetta var allt "til". Enda hafði mér verið sagt það af eldri mönnum og þegar ég var lítill þá var fullorðið fólk miklu gáfaðri en ég. Nú, þegar ég er að endurrifja gamlar minningar, veit ég að þetta fólk voru bara trúgjarnir bjánar og kjánaprik.
Þó ég hafi fermst, get ég ekki sagt að það hafi sérstaklega verið til að taka við hinu tvíeggja kærleiksboðskap Jesú Krist, heldur útaf því að "allir aðrir voru að gera þetta." Ekki beint hópþrýstingur, ekki beint hefð, frekar blanda af hvoru tveggja.
Ég var skráður í þjóðkirkjuna heillengi og það er ekkert svo rosalega langt síðan að ég skráði mig úr henni, og það er heldur ekki svo langt síðan að ég náði að losa mig algjörlega undan þeirri hugsanavillu að einhverskonar yfirnáttúra og ótrúlegheit sé til, þó það sé ekki nema bara smá vottur, oggupínupons, nanódropar af hinu fjarstæðukennda. Og þvílíkt fargan! Og þvílíkt kjaftæði!
Ég trúi ekki á þríeinan Gvuð, ég trúi ekkert á neinn andskotans Jesús Krist, tólf lærisveina, krossfestingu, upprisu né endurkomu. Ég trúi ekki að einhver 2000 ára gömul þverstæðukennd, kreddufull, hrottaleg bókarskrudda sem notuð hefur verið sem afsökun fyrir ógeðslegum ódæðisverkum innihaldi svörin við öllum lífsins gátum. Ég trúi þessu ekki, því þetta er kjaftæði. Ég viðurkenni það, og þetta er mín trúarjátning, að ég trúði þessu að hluta til, einu sinni. En það var ekki mér að kenna, heldur þeim sem sáðu þennan óskunda í minn óþroskaða svampheila, en sem betur fer varð ekki varanlegur heilaskaði af.

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Furðulegt

Það var að renna upp fyrir mér að ég er alls ekki í neinu sambandi við bekkjarsystkin mín, en þetta virkar báðar leiðir og mér er svosem slétt sama.

Naflaskoðun #2

Það sem hrjáir mig í sambandi við nám er alvarlegur athyglisbrestur. Þessi tiltekni athyglisbrestur, það má jafnvel kalla það leti, er ekki óyfirstíganlegur en hann er óþolandi. Til að mynda akkúrat þessa stundina ætti ég frekar að reyna að ná upp töpuðum tíma og vinna í verkefni sem þarf að skila í dag. Ég byrjaði á því fyrir rúmum tveimur og hálfum tíma síðan, en sá tími hefur að mestu farið í að lesa um kvikmyndir og kvikmyndagagnrýni auk þess að vafra aðeins á vefsvæði ótengt þessu tiltekna verkefni. En þetta er ekki eina vandamálið, onei.

Ég ætlaði og ætla mér að einbeita mér meira að náminu en ég gerði síðustu önn, en hef spreðað dýrmætum tíma í að glápa á ágætis kvikmyndir og hanga í tilgangslausum tölvuleikjum auk annara dægrastyttinga, svosem að innbyrða ágætis magn af bjór og önnur skyld og óskyld efni. Ég lofaði sjálfum mér (uppí ermina?) að slökkva aðeins á þessum brennandi áhugamálum til þess að einbeita mér að skólanum, en ég fæ mig ekki til þess sökum þess hvað ég hef brennandi áhuga á þessum þáttum, þó verð ég að vinna bót á þessu máli og, einsog ég hef áður sagt, reyna að sökkva mér í þau viðfangsefni sem bíða mín og hætta þessu viðstöðulausa vafstri. Tónlist, kvikmyndir og tölvuleikir eru ágætis afþreying og afþreying er lykilorðið, ég ætti ekki að gera það að aðalatriði. Aðalatriðið næstu fjóra mánuðina, eða rúmlega það, á, skal og mun vera lestur og lærdómur og ekkert helvítis kjaftæði, nema þegar tími og tóm gefst til.

Hvað er það sem ég ætla mér að gera?
  1. Klára stúdent, helst árið 2007
  2. Ef liður eitt gengur eftir mun ég vinna örlítið og safna pening frá árunum 2007-2008, og svo;
  3. Skrá mig í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands ellegar Akureyri
Áætlun b felst í því að ef hjúkkunámið mun ekki ganga sem skyldi þá skrái ég mig á sjúkraliðabraut, sem ætti ekki að taka of langann tíma sökum þess að ég mun verða útskrifaður stúdent.

Áætlun c mun eflaust felast í því að gefa allt nám upp á bátinn og fara bara vinna og reyna njóta lífsins þegar tími gefst.

mánudagur, janúar 16, 2006

Næturvaktarhryllingur

[Þessi færsla hefur verið eydd sökum þess hvað þetta er lítill bær og hér gætu leynst viðkvæmar sálir. Gæti haft áhrif á atvinnu mína ef ég held henni.]

föstudagur, janúar 13, 2006

Bloggbloggbloggetíblogg

Jájá. Það fer senn að líða að einhverju innantómu röfli og yfirlýsingum sem mun vega nanódropa í þessum endalausa hafsjó af pómóskoðanaskiptum. Haldið ykkur fast og verjið kynfærin, þetta verður algjör örbomba... segi það og stafa: o r b o b b a!

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Finndu villurnar

Það eru fimm villur á myndinni fyrir neðan, reyndu nú að finna þær. Marvísleg og ótrúleg verðlaun í boði fyrir einstakling með athyglisgáfuna í lagi!

sunnudagur, janúar 01, 2006

Draumar og veruleikar

Mig langar til þess að gera svo margt á komandi ári og árum. Þegar maður lítur til baka þá finnst mér ég ekki hafa afrekað mikið, þó sérstaklega ef tekið er tillit til þess hvað mig hefur langað til að gera, sem er ansi margt. Frá því ég var strákpjakkur hef ég haft stóra drauma, einsog hver annar strákpjakkur og stelpupjatla og því miður lifði ég í draumaheimi um langa stund að hlutirnir mundu bara gerast einsog hendi væri veifað, án þess að ég hefði nokkuð fyrir því. Sem betur fer er það liðin tíð, en of mikill tími fór samt til einskis.

Til að mynda hef ég mikið verið að hugleiða það að skreppa í tónskólann hér á Höfn og skrá mig í nám, læra á eitthvað hljóðfæri. Gítar var apparat sem ég eitt sinn hafði mikinn áhuga á, en það hljóðfæri sem ég hef augastað á nú er píanó. Einnig hefur mig gjarnan langað til að fara í söngnám, leiklistarnám, myndlistarnám og fleira listtengd, svo sem ýmis ritnám, t.a.m. skáldskap. En, einsog ein góð klisja segir, betra er seint en aldrei.

Skáldskapur, það er eitthvað sem ég hefur verið ofarlega á baugi í mínum hugarfylgsnum í þónokkurn tíma. Það er þessi litli draumur að skrifa bók eða eitthvað frumlegt. Hvað er það sem hefur hindrað mig í að leggja þetta fyrir mig? Náttúrulega ég sjálfur, sem felst í hugsunarhætti, eða –villu, að það hefur allt verið skrifað sem hægt er að skrifa um, það hefur allt verið gert sem hægt er að gera. Þetta er nátengd þeirri grillu sem framkvæmdastjóri einkaleyfisstofnunar í Bandaríkjunum við byrjun tuttugustu aldar hafði, er hann sagði af sér, að það væri tilgangslaust að vinna í þessari stofnun því að “allt hefur verið fundið upp.”

En annað sem hefur einnig hindrað mig er það sem ég hef talið vera skortur á hugmyndaflugi, en það er í raun ekki vandamálið, ég get verið, og er, mjög hugmyndaríkur, það jaðrar jafnvel við að vera frumlegur. Þó er málið í raun ekki heldur það. Vandamálið felst aðallega í því að koma hugmyndunum í prent, að festa það á blað.

Ég hef oft byrjað að reita eitthvað, eina línu eða smá málsgrein, en því miður þá þjáist ég af heiftarlegri sjálfsgagnrýni þegar kemur að skáldagáfu, gæti farið svo að bókagagnrýni mundi henta mér betur. Í stuttu máli finnst mér það sem ég skrifa vera asnalegt og stundum get ég ómögulega ekki skrifað meira sökum þess hvað mér finnst móðurmálið vera heftandi, eða orðalagið vera óskaplega kljént og kjánalegt, jafnvel lóbótameraður api gæti gert betur.

En það er líka rangt, því íslenskan er mjög skemmtilegt tungumál. Eitt helsta meðalið sem ég hef við þessu tiltekna vandamáli er lestur á innlendum bókum, taka mér hlé frá erlendum bókalestri og frekar einbeita mér að því íslenska, jafnvel að gerast svo sniðugur að skrifa niður athyglisverð orð og orðasambönd, lesa málsháttabækur og ritgerðir um setningafræði eftir Þórberg Þórðarsson svo eitthvað sé nefnt. Lesa, nema og læra.

Þetta felst samt ekki bara í að lesa endalaust um hvernig eigi að gera þetta, að framkvæma er afar stór þáttur í þessu, vitaskuld. Ef maður ætlar sér eitthvað þá þýðir ekkert að lifa í skýjunum og að elding muni lausta í höfuðið með þeim afleiðingum að, voíla og prestó, hér er kominn bók. Það mun felast í að skrifa allann andskotann, örsögur, smásögur, ljóð, kafla í hugsanlegri bók, karakterar, söguþráð eða bara hvaða hugmynd sem mögulega mundi vera gott efni í sögu. Æfa sig er númer eitt, II og 3

Þó er meira, það felst í hinni sálrænni starfsemi er kallast sjálfsagi. Hvað tel ég vera góða byrjun að temja mig til að skrifa eitthvað? Hætta að spila tölvuleiki, glápa á vídjó og sjónvarp gæti verið ágætis byrjun, þess vegna setja eitthvað tiltekið takmark eða tímabil sem gæti aðstoðað mig við að láta þetta verða að veruleika.
Í náinni framtíð mun ég skella upp nýrri vefbók sem mun innihalda eitthvað drasl.

I´ll keep me posted.

Af öðru tilefni

Gleðilegt nýtt ár motherfuckers!