laugardagur, apríl 29, 2006

Fokkittífokkfokk!

Sé framá það að maí-mánuðurinn verður fjárhagslega fokkt öpp sökum þess að ég sótti um kreditkort í mars. Get ekki sagt að mig hlakki til að sjá yfirlitið eftir þennan mánuð. Þó hlakkar í manni sökum þriggja hluta. Að undanskildu bjórkreditsukki og eftirstandandi skuld á lókalnum sem ég verð aftur að borga í hollum, þ.e. að borga helminginn eða meira en helming nú og seinni hlutann í næsta mánuðu (plús aukalegt lókalkredit), þá mun ég fá í hendurnar (1) Dopethrone með Electric Wizard og (2) 10.000 Days með Tool.

(3) Síðan er ég eftir að versla mér flugmiða frá Íslandi til úglanda, nánar tiltekið til Danmörk og frá London til Íslands. Planið hjá mér í sumar, ágúst, verður á þessa leið : Ísland - Danmörk. Danmörk - Þýskaland. Þýskaland - Vattever. Vattever - Belgía. Belgía - Holland. Holland - Belgía. Belgía - Bretland. Bretland - Ísland. Þetta verður svakalega spennandi keppni. Er verið að tala um Evrópumótið í fótbolta? Nei, aldeilis ekki. Það er verið að tala um Evrópumótið Þórður.

föstudagur, apríl 28, 2006

Gleðilegt mahfakkings sumar!

Samkvæmt sögusögnum þá er sumarið komið. Hef að vísu ekki enn opnað líkkistulokið til að líta út, skilst að sólin fari ekki vel með húðina á vampírum einsog mér.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Oooohhh noooes!!!

Mér finnst ég vera að forheimskast. Mig vantar stimúleringu.

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Sönnun þess að yfirnáttúra er til!

Búinn að vera glugga í gegnum gamlar og nýjar greinar á vantrú, heilaspunanum og örvitanum. Örvitinn bendi á pistill Þorkels um drauma og yfirnáttúru, eða hið andlega, eða vattever. Þorkell sagði að þegar hann var lítill þá hafi hann fengið vitneskju úr draumi að manneskja mundi deyja.

Jæja.

Mig dreymdi einu sinni að ég væri að gera ljúffenga paprikusósu. Mig hefur samt ekki en dreymt á hvað ég ætlaði að nota þessa ljúffenga paprikusósu, en ég efast ekki um að ég muni finna eitthvað afar gott. En ég ætla að láta þennan draum rætast og gera ljúffenga paprikusósu, enda finnst mér paprikur afar góðar og ljúffengar. Spurning bara að prófa það á nautasnitsel? Nú eða piparsteik? Jafnvel á grísakótilettur? Er ekki viss, en það hlýtur að koma til mín í draumi sem verður væntanlega endanleg sönnun þess að hið andlega og ótrúlega sé til. Kannski Gvuð segi mér það?

Jeeves&Wooster

Hef verið að horfa á þessa glæsilegu þætti um "upper-class twit"-ið Wooster og úrræðagóða þjónin hans Jeeves. Hugh Laurie leikur Bertie Wooster og Stephen Fry leikur þjóninn. Þættirnir eru byggðir á sögum eftir P.G. Wodehouse. Þetta eru fjórar seríur og ég er kominn langleiðina með þá þriðju. Ég hef alveg hreint glettilega gaman af þessum þáttum. Þetta er ekki á hláturskala sem jaðrar við Monty Python, Father Ted, Black Books eða League of Gentlemen, en sögurnar, samtölin og persónurnar eru mjög skemmtilegar.

sunnudagur, apríl 23, 2006

Á hvað hlustar Doddi þessa dagana? (part II)

Það hafa ekki verið svakalegar hræringar í tónlistaráhlustun minni síðan ég reit um það síðast. Slayer, Mastodon og Nevermore standa uppúr og auðvitað Kyuss, en Blues for the Red Sun verður bara betri og betri með hverri hlustun.

Þó hafa bæst við nokkur bönd sem vert er að minnast á. Eftir tilmælum Ara, auk hljóðdæmis einn góðan veðurdag á Dillon, þá niðuhalaði ég nokkrar plötur með Entombed; Left Hand Path, Wolverine Blues, To Ride, Shoot Straight and Speak the Truth og Morning Star. Þær tvær síðastnefndu eru alveg hreint magnaðar, þó sér í lagi og sérstaklega Morning Star. Það er alveg hreint ótrúlega, æðisleg og kynngimögnuð plata.

Hef líka verið dálítill aðdáandi af Filter síðan bróðir minn leyfði mér að hlusta á Short Bus. Það er skemmst frá því að segja að ég væri einatt að hlusta á þá plötu er ég var að vinna í frystihúsinu er ég var tæplega 16 ára og lendi í slysi. Þannig er nú mál með vexti að ég var að vinna við að saga lúðu (haus, sporða og ugga) og þetta var voðalega circular motion vinna. Allt í einu þegar eitthvað lagið var að spila í vasadiskóinnu varð ég sveimhuga og vissi ekki af mér fyrren baugfingur á hægri hendi klemmdist við söginna og ég gaf frá mér tryllingslegt öskur. Síðan var farið á heilsugæslustöðinna og lagað skemmdirnar. Síðan var ég rekinn án þess að láta mig vita af því. Já, sællar minningar. Annars, niðurhalaði ég Amalgamut sem er fín plata.

Annar frækinn kappi, liðsmaður í metalcore-bandinu Finnegan, Andri nokkur Ákason, var mikið um að benda mér á plötuna Undoing Ruin með Darkest Hour. Sú plata vinnur á og er bara nokk góð. Söngstíllinn er ekki að fara jafnmikið í pirrurnar á mér og áður (sagði að söngvarinn syngi einsog hann sé að rembast við að skíta), en fer samt aðeins í mínar fínustu.

Alabama Thunderpussy er nafn sem vissir aðilar á Töflunni höfðu margt gott að segja um, og ég hef verið að leyfa Fulton Hill að leika um mitt eyra, fín plata þar á ferð. Einnig hef ég verið að prófa, einsog heróín, bönd á borð við Lamb of God, The Haunted, At the Gates og Amon Amarth og líst nokk vel á. Á dagskránni er að eigna mér plötu með Electric Wizard, þar sem maður hefur lesið afar, afar góða hluti um þá á allmusic.com og vitaskuld á Töflunni.

Keypti mér plötu um daginn með hljómsveit er heitir The Decemberist, platan heitir Castaways and Cutouts. Ljúf og melódísk kammerpopp tónlist. Keypti einnig, eitt sinn, Echoes með The Rapture og hún hefur ekkert gripið mig, einhver dúdd í Smekkleysu mælti eindregið með henni og hótaði mér að ef ég fílaði ekki þetta þá ætti ég bara að hlusta á Michael Bolton(!), svei. Síðan fór ég í bestu geisladiskabúðina (hans Valda) og keypti mér, held ég þriðja eintakið (hef nefnilega týnt hinum tveim), Now I Got Worry með Jon Spencer´s Blues Explosion (skilst mér að þeir kalli sig núna bara Blues Explosion), sem er yndisleg plata og ágætis "fuck off you scatmunching studio execs!" því hljóðið er svo skítugt og hrátt að það gerir plötuna enn betri.

Síðan hafa önnur bönd fengið að hljóma töluvert, en nenni ekki rita mikið um það, ekki útaf því að þetta eru léleg bönd, þvert á móti (þó eru sum betri en önnur), ég skrifa bara eitthvað um það seinna: Arcade Fire, Benni Hemm Hemm, Dead Kennedys, Fugazi, Genesis, Gentle Giant, Mogwai, Mono, Nine Inch Nails, Primal Scream, Primus, Shellac, Sonic Youth, Syd Barret, Tool, Tortoise, Trans Am, White Zombie, Yes og eitthvað fleira.

Í síðustu færslunni var mælt með og tjáð um eftirfarandi bönd og listamenn (í réttri röð):
 • White Stripes
 • Electric Six
 • The Rolling Stones
 • Ennio Morricone
 • Megasukk
 • Tom Waits
 • System of a Down
 • Nevermore
 • Blaze
 • Bruce Dickinson
 • David Bowie
 • Dag Nasty
 • Minor Threat
 • Good Clean Fun
 • Dead After School
 • Anathema
 • Katatonia
 • Porcupine Tree
 • Orange Goblin
 • Lamb of God
 • The Gathering
 • Captain Beyond
 • Pelican
 • Entombed
 • The Books
 • Penguin Cafe Orchestra
 • Thee Michelle Gun Elephant
Einsog gefur að skilja þá hef ég ekki náð að hlusta á helminginn þarna. Ég er með Bruce Dickinson plötuna Chemical Wedding, en hef ekki ennþá hlustað á hana (sorrí Ingvar :(). Af þessum lista hef ég hlustað á Tom Waits (í fjöldamörg ár), eilítið hlustað á Hús Datt með Megasukk, Mesmerize og Hypnotize með System of a Down, auðvitað Nevermore, David Bowie, Minor Threat. Of course my horse hef ég hlustað á Good Clean Fun og Dead After School, fór sérstaklega til Bretlands með systrum mínum og hinum úr "The Posi Youth Clean School Crew" eða hvað sem maður á kalla þetta lið (hvað með systrum mínum og félögum þeirra?). Anathema hef ég lítið hlustað á og sömuleiðis Lamb of God en Entombed hef ég hlustað mikið á.

Nú, þar sem ég er hlaðinn kreditkorti, þá eru líkur á að heimsóknir mínar á Amazon.com verða fleiri, í þeim sérstaka tilgangi að versla mér plötur.

laugardagur, apríl 22, 2006

Sukkmánuðurinn mikli

Ég, einsog svo margir aðrir, hef verið á töluverðu fyllerí undafarnar vikur. Kræst hvað maður hefur drukkið ótæpilegt magn af bjór og öðru áfengi. Þó hefur þetta ekki verið á hverjum degi, en það hefur verið drukkið nokk stíft.

Það versta er náttúrulega að vera svo fullur og beyglaður að maður man ekki eftir sér og framkvæmir heimskulega hluti. Til að mynda er alveg hreint óþolandi að fletta í símanum sínum og sjá að maður hefur verið að hringja út og suður án þess að muna eftir samtalinu. Síðan að banka uppá hjá einhverjum í ölæði haldandi vattðefokk eða álíka.

En ég held ég hætti þessu ekki fyrren ég verð handtekinn með lók uppí hundskjafti haldandi því fram að rakkinn var að reyna við mig.
Friday left me fumblin' with the blues
And it's hard to win when you always lose
Because the nightspots spend your spirit
Beat your head against the wall
Two dead ends and you've still got to choose

You know the bartenders
They all know my name
And they catch me when I'm pulling up lame
And I'm a pool-shooting-shimmy-shyster shaking my head
When I should be living clean instead

You know the ladies I've been seeing off and on
Well they spend your love and then they're gone
You can't be lovin' someone who is savage and cruel
Take your love and then they leave on out of town
No they do

Well now fallin' in love is such a breeze
But its standin' up that's so hard for me
I wanna squeeze you but I'm scared to death I'd break your back
You know your perfume
Well it won't let me be

Fumblin´ With The Blues, Tom Waits (1972)

föstudagur, apríl 21, 2006

Föstudagur fyrir fávita

Það eru einhverjir tónleikar í kvöld. Þar munu stíga á stokk tvær Hornfirskar hljómsveitir og ein Hafnfirsk (minnir mig, gætu svosem verið frá Saurbæ). Þær heita (respectively) Modis, Mute og We Made God.

Síðan verð ég að hafa fleiri línur í þessum færslum, það gengur ekki að koma með eitthvað asnalega stuttar færslur, það er bara asnalegt.

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Sumardagurinn fyrsti!

Furðulegt veðurfar í gærkvöldi, en það snjóaði. Síðan vaknar maður í dag um eitt-leytið og finnur fyrir hitastækjunni vera kæfa mann. Manni er litið út og það er bara sól og sumar. Vatt ðe fokk?

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Tilefnislaust tilefni

Af því að sumardagurinn fyrsti er á morgunn þá ætla ég að fagna þeim merku tímamótum með því að sitja á ölkrá og sumbla.

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Kárahnjúkalofgjörð sem farið hefur framhjá mér

Mig grunar að undanfarin þriðjudagskvöld hefur verið í sýningu sjónvarpsþáttasería til að lofa Kárahnjúkavirkjun í upphæðum. Hví grunar mig þetta? Því að í þessum orðum rituðum er fimmti þátturinn, af sex, í sýningu í ríkisjónvarpinu.

Þessi tiltekni ríkisáróður hefur gjörsamlega farið framhjá mér. Þátturinn byrjar á einhverju svakalegu dramatísku og klassískri tónlist sem ætti að fá suma til að leggja hægri hönd á hjarta og tilbiðja eitthvað land og einhvern gvuð, nú eða skjóta henni útí loftið í sirka 45° halla með beinan lófa og kalla með stolti og grátstafi í kverkunum "Ísland, best í heimi!"


Það er allt að gerast

Smábæjarmentalitat, ættflokkarígur, djúpstæð fjölskylduvandamál, költismi, mannshvörf og morð.

Haldið ykkur fast.

mánudagur, apríl 17, 2006

Stefnuskrá

 1. Ritað verður í þessa vefbók á hverjum degi, jafnvel oft á dag, í eins langan tíma og tími leyfir.
 2. Það má búast við frekari breytingum á útliti þar til ég (og hugsanlega aðrir) er orðinn sáttur.

17. apríl 2006, Höfn í Hornafirði
Þórður Ingvarsson
250979-5099

Viðauki: Útlitið á síðunni nú finnst mér vera asskoti gott.

Eirðalaus með eindæmum

Það gæti verið að jafnan meiri sól = meira seratónín + dópamín sé orsakavaldurinn í því að ég verð að fara meira út í göngu, fara í sund (aðallega heita pottin þó) og nýta mér afnot af þessum bíl með því að keyra útí sveit.

En eirðarleysið er svakalegt núna, þrátt fyrir að reyna fylla uppí eyðurnar með fyrrtöldum aðgerðum finn ég mig knúinn, svona svipað og áður, að finna mér eitthvað meira að gera. Þetta er ómögulegt.

sunnudagur, apríl 16, 2006

Aaaah....

...eitt í viðbót áður en ég hengi mig. En ég verð að lesa allt hitt draslið sem ég hef skrifað hér í rúmlega 2-3 ár. Maður svona bryjaði á því og það virtist vera smá áhugavert sjitt þarna sem ég man varla eftir, how about that?

Ég þoli ekki...

... þegar enginn tjáir sig á vefbókinni minni.

Ég verð alltaf svo einmana þegar ég lít yfir hugverk mín og verulega sorgmæddur þegar ég sé "o innlegg" undir einhverjum snilldarhugleiðingum.

Enn verra er þegar fólk tjáir sig en ótengt sjálfu efninu.

Hér er mynd af dauðum ketti svo þið skiljið almennilega hvað ég á við:

Sneið af lífi

Var í Reykjavík um daginn í einhverjum erindagjörðum. Einn góðan veðurdag, og það var góður veðurdagur, var ég á flækingi og ferðinni var heitið til félaga míns á Skólavörðustíg. Ég gekk frá Laugavegi og fór svo upp Vitastíg.

Frá horni Grettisstíg og Vitastíg arkar ungur maður um tvítugt og, merkilegt nokk, tekur stefnu að mér.

"Komdu sæll og blessaður. Afsakið ónæðið, en ég var að losna frá Litla-Hrauni fyrir þrem vikum og er að reyna halda mínu striki. En ég er ekki með neina vinnu og peningurinn minn er búinn. Og í staðinn fyrir að brjótast inní bíla eða eitthvað þá hef ég ákveðið að fara rónaleiðina og betla pening, vandamálið við þessa aðferð er að sumt fólk er hrætt við mig þegar ég nálgast það. En annars, geturðu nokkuð gefið mér einhvern pening?"

Ég var mjög undrandi. Nær orðlaus. En kinkaði kolli.

"Augnablik, ég skal bara athuga"

Ég gramsaði í buxnavasanum vitandi það að ég átti eitthvað klink. Dró upp þrjá skínandi gullpeninga merkt með vænum hundrað kalli og afhendi þessum unga manni það fjármagn.

"Þetta er ekkert rosalega mikið, en gjörðu svo vel," sagði ég hálf-afsakandi.

"Hva´? Þetta er nú þrjúhundruð kall," sagði hann kátur "það er nú töluvert fyrir mann einsog mig. Þakka þér kærlega fyrir."

Svo hélt hann sína leið.

Mér fannst þetta skondið á marga vegu. Skondið í ljósi þess að ég var nýbúinn að fara í hraðbankann og var því með 15.000 kjeddl í jakkavasanum. Skondið hvað hann var furðulega glaður. Og skondið að hann sagði að fólk hræddist hann þegar hann nálgaðist því ég var dáleiddur af honum. Þessi maður hafði furðulegustu augu, öllu heldur lithimnu, sem ég hef á ævinni séð. Sumir mundu segja tryllingsglampi, e.t.v. tengt ofskynjunarlyfjum eða hann sé með geðklofa, því augun minntu mig á eina manneskju á geðsjúkrahúsi sem ég vann á.

En með þessum stórfurðulegu augu, sjálfsöryggi, óaðfinnanlega framkoma, með því að koma sér beint að efninu og auk þess að vera nokkuð vel að máli farinn gat ég ekki annað gert en að veita þessum manni þessa smáaura fyrir hreint stórkostlegt sölutrikk.

Nú get ég haft asnalega löng nöfn á mínum hugleiðingum! Magnað sjitt!

Já, ég bara réði ekki við mig og breytti barasta helvítinu og hendi út hlekkjalistanum því hann var bara til trafala´ala Maddox. Vona að fólk móðgist ekki. Jú, jú, ég set ef til vill hlekkjalista þar sem ég hef hlekki á allt sem finnst á netinu.

Talandi um Maddox, þá er að fara koma út bók. Berið augum á koverið á væntanlegu riti sem ber hið karlmannlega nafni The Alphabet of Manliness.

laugardagur, apríl 15, 2006

Eirðarleysi #78

Ég er með bíl til afnota og í eirðaleysi mínu fór ég í bílinn og keyrði útí sveit og var ekki með neitt sérstakt takmark í huga og á leiðinni úr smábænum sá ég tvo ferðalanga með bakpoka og þar sem ég var einn í bílnum datt mér í hug að taka þá uppí og keyra þeim nokkurn vegin í áttina sem þeir voru að fara og ég stoppaði og ég opnaði skottið og þeir settu dótið sitt í skottið og þeir settust inní bílinn og ég spurði hvert þeir væru að fara og þeir vildu fara til Egilstaða og spurðu hvert ég væri að fara og ég sagði "ég keyra" og keyrði og fór með þá í átt til Djúpavogs og keyrði í gegnum göngin og keyrði yfir brýr og stoppaði á einhverjum hvíldarstað og sagði þeim að ég hafði bara verið að keyra í eirðarleysi og óskaði þeim góðs gengis og traffík og svona með gvuðsleyfi og keyrði aftur til baka og kom aftur heim.

Með blóðugar hendur.

Bad Boy Bubby

Verð að taka þá mynd í tveimur hollum.

Bubby er 35 ára gamall "mömmustrákur", þ.e.a.s. að móðir hans hefur haldið honum föngum í íbúðarholu ljúgandi að honum um að Jesúm Krizt fylgist með honum þegar hún fer út með gasgrímu haldandi því að honum að það sé eitrað loft fyrir utan íbúðina. En þarna er verið að fylgjast með örlagaríkum punkti í lífi Bubbys er hann öðlast sjálfsvitund.

Allt yfirbragð myndarinnar er afar finnskt, en myndin er áströlsk. Sú staðreynd fær mann leiðir ef til vill til þess að þessi tiltekna keðjuverkun fer í gang: "Aha, Ástralía, Mel Gibson, Mad Max" Og mér datt í hug að hér væri einhverskonar by-product af Mad Max á ferð; 90 mínútúr af því að fylgjast með manni sem væri andlega óheilbrigður sökum öfga-redneck-uppeldi með "grátur og gnístann tanna" og smá súrelískt slice of life í heimi eftir kjarnorkustyrjöld.

Allt gott og blessað þar til Bubby sleppur út... í 20. öldina. Horfi á seinni hlutann seinna.

fimmtudagur, apríl 13, 2006

Að lifa á brúninni...

Kannski maður ætti að sleppa af sér beislinu og breyta útlitinu á þessari vefbók og laga til í hlekkjalistananum. Já? Hví ekki það?

It´s that time of the year again

Tetrahydrocannabinoid-neysla hefur verið töluverð. Kvikmyndagláp er fylgikvilli þess og þær kvikmyndir sem ég hef verið að glápa á undanfarið eru:

 1. A History of Violence. Afpspyrnu góð stúdering á persónum og persónueinkenni eftir David Cronenberg. Hvað smá ofbeldi getur leitt til.
 2. Feralag keisaramörgæsana. Fullt af mörgæsum sem eru skemmtilega furðuleg dýr. Fín mynd.
 3. King Kong. Stór api, voða fjör.
 4. Harry Potter and the Goblet of Fire. Einsog hinar Harry Potter-myndirnar (og vissulega bækurnar líka) þá er þessi einsog hinar Harry Potter-myndirnar (og bækurnar líka) þar sem Harry Potter þarf að kljást við vonda kallinn Voldemort með göldrum. Fleiri tæknibrellur og eldri ungleikarar.
 5. The Wicker Man. Æðisleg kvikmynd frá 1973 sem skrifuð er af Anthony Shaffer sem einnig reit meistarastykkið Sleuth (sem gerð var að kvikmynd með Michael Caine og Laurence Olivier í aðalhlutverkunum). Að hluta til söngleikur, lögreglusaga og félagsfræðilegar vangaveltur þegar tvö ólík trúarbrögð kljást. Christpher Lee fer á kostum í þessu verki.
 6. North by Northwest. Hitchcock-klassi. Roger Thornhill, sem leikinn er af Cary Grant, er hafður að rangri sök og talin vera George Talbin, leyniþjónustumaður á vegum CIA og er rænt.

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Smábæjarmentalitet

Kannski þarf nokkrar vetfangskannanir svo að þetta standist vissar kröfur, en þó er maður nokkuð viss að þetta svokallaða séríslenska "smábæjarmentalitet" sé til. Þó þarf viðmiðanir og athuganir, helst þarf samanburðarrannsóknir á ýmsum stöðum. Náttúrulega í smábæjum, hugsanlega í rúmlega 12-16 löndum. Skipt niður eftir efnahagsástandi, staðsetningu, útflutning og innflutningi og öðrum þáttum frá báðum endum, s.s. viðmiðun við hið ríkasta og hið fátækasta.

Maður sér framá ótrúlegt samstarfsverkefni hjá Sameinuðu Þjóðunum. En samkvæmt mínum rannsóknum þá tel ég það mjög líklegt að orðrómurinn, um að hið svokallaða smábæjarmentalitet, er alveg eflaust til. Sömuleiðist minnimáttarstórborgarmentalitet, landsbyggðarsveitapakkmentalitet (sem svipar mjög til smábæjarmentalitet, en er aðeins öðruvísi), ofurmenntaða- ómenntaðmentalitet, vitaalltvitaneitthrokagikkabrickwallmentalitet og póstmódernísktplúróegócentrísktmentalitat.

Hér er smá úrdráttur úr mínum eigin persónulega hugsunarhætti undanfarið:

"Djöfull væri fínt að eiga eitt stykki bíl eða svo."
"Já, veðrið er aldeilis fínt núna."
"Seisei, það er sérdeilis."
"Nei! Obbosí! Ég er í nýjum skóm!"

Kannski er til eitthvað sértækt sálfræðilegt heiti yfir þessu, eitthvað í líkingu við centrified stupifying syndrome nema það mætti vera meira latínskt.

mánudagur, apríl 10, 2006

Stiklað yfir dagana

Fór á æðislega tónleika með dEUS 6. apríl sl. Þetta var ótrúlega, moðerfokking gaman.

Daginn eftir var ég heldur betur lúinn útaf taumlausri gleði kvöldið áður, en mætti þó, ekki beint galvaskur, en þó tiltölulega hress, á Vegamót þar sem setið var með snargeðveikum heiðingjum sem vilja aðeins meiða og skemma og er auk þess stórhættulegt afl í okkar saklausa þjóðfélagi sem hafa nær ótakmarkaðan aðgang að fjárhirslum ríkisins, sá hræðilegum fræjum í huga okkar óstálpaða krakkaorma í leik-, barna- og -gagnfræðiskóla, stundum slæðast þeir inní ganga mennta-, framhalds- og verzlunarskóla með sinn vafasama boðskap og hafa auk þess óheftan aðgang að öllum helstu fjölmiðlum landsins. Já, ég er að tala um nöttarana í Vantrú. Önnur helsta ógn lýðræðis á eftir H5N1 og Talibönunum. Þetta var sérdeilis skemmtilegt, en heldur þröngt um þing.

Restinn fór í stanslausa bjórdrykkju auk fylgikvilla í kjölfarið. Auk þess að sjá hina ágætu mynd V for Vendetta.

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Fernt

 1. Fór á bókasafnið og tók þar góða bók sem ég ætla að lesa aftur, Blekking&Þekking eftir Dr. Níels Dungal og,
 2. ég var að borga fyrir miða á Wacken Open-Air og,
 3. ég fer til Reykjavíkur snemma á fimmtudag;
 4. og fer á dEUS þann sama dag.

Þrálátir kækir

Ókei, ég er ekki stoltur af þessari játningu, en kommonn, það er ekki einsog fólk taki ekki eftir þessu, en ég bora í nefið. Ég er ekki að tala um einstaka nefboranir, ég er að tala um þrálátar, nærri því krónískar (er að reyna hafa hemill á þessu), boranir í nefið sem hefur leitt til þess að ég fái blóðnasir, en blóðnasirnar stafa af þessari nefborun og sú staðreynd að ég naga á mér neglurnar.

Tilefnið af þessu innleggi var akkúrar þetta tvennt, að bora í nefið með putta þar sem tannnagaskemmd nögl rekst í þunna húðina í nasaholunni. Ergo: Blóðnasir. Auk pappír til að stöðva flæðið.

Allt þetta blóð, úff, mig langar helst til að fróa mér.

(nei, þetta síðasta var nú smekklaust djók)

mánudagur, apríl 03, 2006

Fyndnir tímar

Blautur draumur herstöðvaandstæðinga er að rætast, sem er vel. Sama vælið byrjar að óma frá Suðurnesi þegar þessi umræða ber á góma, um atvinnumissi og gróðatap, sem er ekkert ósvipað ástandi sem hefur myndast annarstaðar á landinu, t.a.m. Vesturlandi og Austurlandi. En þar sem herinn er ekki að fara frá þessum svæðum þá er ekkert mark takandi á einhverjum villimönnum á Vesturlandi eða áariðlum á Austurhlutanum, enda býr siðað fólk á Suðurnesi. Skondið hvað það virðist vera merkilegra þegar hundruði manna eiga e.t.v. hættu á að missa vinnuna á einu bretti en þegar tugi manna eru sagt upp störfum, nokkrum sinnum, yfir lengra tímabil annarstaðar sem hefur síðan safnast uppí hundruði manna, þúsundi manna, sem hafa misst vinnu og viðurværi á Vesturlandi og Austurlandi. En það er alltílæ, álþingið reddar atvinnunni með umhverfisvænu álveri. Ekki vanþörf á meira áli til að smíða friðar- og frelsisflaugar.

Gaman er einnig að fylgjast með bensínverðssveiflunum. Á örstuttum tíma, á nokkra mánaða tímabili þá hefur 95 oktana bensínlítrinn farið frá 109.4 í 120.4 (sjitt gæti verið aðeins meira eða aðeins minna þegar þetta er ritað). Samsærisnöttarar gætu tengt þetta við dómsmál sem féll fyrir nokkru síðan þar sem olíufélög voru skyldug að borga nokkuð háar sektir, en það getur ekki verið, enda hafa þessi olíufélög ekki borgað neinar sektir. Var þetta dómsmál einhver fyrirsláttur?

Síðan renna inn skýrslur frá erlendum fræðimönnum, sem er náttúrulega ekkert mark á takandi, það sem þeir vita ekki hvernig Íslenska hag- eða varnarkerfið virkar og eru auk þess útlendingar sem gerir trúverðuleikann þeirra að engu. Skondið einnig þegar samskonar skýrslur og ábendingar koma frá innlendum fræðimönnum, þá er ekkert mark á þeim takandi þar sem þeir skilja ekki alminilega hvernig Íslenska hag- eða varnarkerfið virkar. Það er nefnilega svo yndislegt að það er ekki hægt að taka mark á neinum þegar kemur að innlendum vandamálum, því það skilur enginn alminilega hvernig þetta virkar alminilega.

Að Ísland sé eitt skuldugasta og ríkasta þriðja heims þróunarríki í heimi? Nei, nei. Þetta er bara tímabundið vandamál, látið markaðinn sjá um þetta. Markaðurinn mun redda þessu með auknum lántökum til að lána út til pöpulsins. Síðan er svo auðvelt að fá sér kredirkort ef allt rennur í þrot, bara taka upp símann og hringja.

Að Ísland stafi mikil hætta af alþjóðlegum hryðjuverkamönnum og kommúnistum? Já, já. Enda skiptir Ísland svo miklu máli á alþjóðavísu, þetta smáríki er með svo mikil ítök hjá sterkum og traustverðugum leiðtogum í BNA og Bretlandi að þessir vondu terróristar og annað vont fólk (anarkistar, kommúnistar, friðarsinnar og mótmælendur) líta eflaust á þennan vinskap með hornauga og hata auk þess frelsi og lýðræði.

Og Stefán Jón Hafsteinn vill gera Reykjavík að bestu borg í heimi. Stefán Jón, get a life.

laugardagur, apríl 01, 2006

1. apríl!

Já, seisei.