mánudagur, mars 28, 2005

Trú hvað?

Allt það góða sem til er í heiminum er tilkomið útaf kristinni trú. Ei skiptir máli hvar þú leitar. Sjá, Afríka er í góðum kristilegum málum, þar er afar hæg og kvalarfullt þjóðarmorð sem er tilkomið af kristinni trú og þeirri góðu trú að smokkar og aðrar getnaðarvarnir eru af hinu illa. Sjá, innrásinn í Írak er af hinu góða því hún var ákveðin af góðum kristnum mönnum, ei þarf að rétta fram hina kinnina til andstæðingsins, í þessu tiltekna málefni gildir auga fyrir auga, tönn fyrir tönn... einsog í í hinu sannkristna og góða Bandaríska ríki Texas. Sjá, það kalvíníska siðferði í auðmálum er gott og kristilegt "hver fyrir sig og ég í fyrirúmi."

Að öllu gamni sleppt, af hverju eru kristintrúaðir að reyna eigna sér allt það sem er gott í þessum heimi, það er að eigna því kristinni trú. Sópa að sér öllu góðu en gleyma öllu hinu. Til að mynda hinum myrku öldum; krossfarirnar, galdrabrennurnar, gyðingahatrið, ofsóknirnar, réttarannsóknarnefndinn. Síðan framhaldið af því, nýlenduhyggjan og allt sem því fylgdi; hinn guðdómlegi réttur hvíta mannsins að "siðmennta" svarta dýrið, taka yfir lönd með nákvæmlega sama vopnið, slátra "öðruvísi" fólki og leggja heilu þjóðirnar í rúst því þessar þjóðir trúðu ekki á þrískiptan, alvitran og -máttugan gvuð. Sjá, er maður lítur á þennan lista þá eru nákvæmlega sömu atburðirnir að eiga sér stað í dag. En er það ekki þá útaf kristinni trú? Nei, sko aldeilis ekki, það segja kristnir í það minnsta, því kristið fólk er gott fólk.

Auðvitað eru aðrir þættir sem blandast þarna inní þessum málum á borð við eyðni í Afríku og hervald í Írak, einsog péningar, en kristni virðist samt vera dálítið furðulega stór aukaleikari í þessum "veraldlegu" málum. En eigum við ekki að leggja þetta bara í hendur gvuðsa gamla? Nei, það er ekki hægt, því þetta hugtak er einfaldlega ekki til. En hvað annað er betri sökudólgur en gvuð, það sem ekki er hægt að kæra hann? Allar ákvarðanir varðandi marga merkilega og mikilvæga hluti er teknar með það í hliðsjóni að viðkomandi hafi talað beint við eitthvað gvuða-hugtak, þar með hefur viðkomandi gjörsamlega firrt sig ábyrgð.

Ég tel mig skilja aðeins betur hvað Marx gamli var að meina.

sunnudagur, mars 27, 2005

Stafræn fíkn

Hef ég einhvern tímann minnst á það hvað ég elska kvikmyndir? Tölvuleiki? Sjónvarp? Tónlist? Internetið? Það gæti verið, en ég ætla bara að undirstrika það hér með. Ég elska þetta allt, ég dýrka þetta, get varla án þess verið.

Einu sinni fyrir mörgum mánuðum ætlaði ég mér að minnka allt stafrænt gláp og fikt og frekar einbeita mér að "veraldlegum" eða "raunverulegum" hlutum, einsog lestur góðra bóka (sem ég neita ekki að ég elska líka), myndlist og djúpstæðan þankagang um vandamál og lausnir við hin mestu heimspekilegu og félagslegu vandamál.

Vissulega minnkaði ég sjónvarpsglápið og tölvuleikjakuklið. Útkoman var sú að ég horfi minna á sjónvarp, fer ekki mikið á vídeóleiguna nú, en það virðist vera að ég spila samt meira af tölvuleikjum og hangi meira á netinu en ég ætlaði mér í fyrstu. Maður grunar alveg hvernig á þessu stendur, þetta kallast á ensku escapism en á íslensku veruleikaflótti, að fara á vit ævintýra og tómstunda.

Þessi hneigð getur verið dálítið til trafala, því mig langar gjarnan til að gera eitthvað annað, einsog til dæmi að fara á hestbak, ganga um holt og hæðir eða læra á píanó. Ég hvet sjálfan mig stundum til að láta vaða bara, drífa í þessu, hirngja nokkur símtöl og skella mig bara í þetta, fokkitt maður. Maður steitir hnefa í átt að himninum "Já, fjandinn hafi það, þetta ætla ég að gera og ekkert búllsjitt," síðan sest maður aftur á skrifstofustólin snýr sér í hálfhring og legg hendur á lyklaborð og mús "þegar ég er búinn að klára þetta borð/lesa þennan pistill/athuga þetta/skoða hitt."

Nú fyrir stutt bendi góður vinur minn á heimasíðu er kallast Film Threat, sem er (einsog nafnið gefur til kynna) síða um kvikmyndir sem innihalda góða gagnrýni frá afar skemmtilegum gagnrýnendum, auk afar skemmtilegra greinar um hitt og þetta er kemur frá Hollywood eða öðrum kvikmyndaparadísum eða um kvikmyndaklisjur einsog hetjur. Sem sagt heimasíða sem er haldinn út af kvikmyndanötturum fyrir kvikmyndanöttara (einsog mig). Þessa síðu var ég að skoða í nær tvo eða þrjá tíma. Það rann síðan upp stafrænn ljómi frá skjánum og ég lýstist allur upp og hugsaði "Fokk, hvernig get ég hangið á þessari síðu svona..." byrja ég og bæti síðan við í hvelli",hey þetta lítur út fyrir að vera merkilegt."

En það sem maður er að reyna segja er að mig vantar einhverja aðra útrás, eitthvað sem ég gæti mögulega haft meira gaman af en að hanga í tölvunni alla liðlanga daga. Til að mynda hefur sú hugmynd að fara á hestbak verið lengi í kollinum á mér, því það virðist bara vera svo áhugavert og skemmtilegt. Við má bæta að það gæti komið sér vel þegar þetta gerist.

föstudagur, mars 25, 2005

Leyndarmál, leynimakk og einsdæmi

Rosalega er mikið um pukur og hvísl hér í okkar litla þjóðfélagi. Held að Íslendingar ættu að vera fljótir að fyrirbyggja allan miskilning hjá útlendingum um að hér þekkja allir alla og vita allt um allt sem gerist hér, því það er einfaldlega rangt.

Við vissum ekki af því að við studdum innrásina inni Írak á sínum tíma, að vér Íslendingar værum allt í einu herská þjóð. Við höfðum ekkert um útlendingafrumvarpið að segja eða setja útá, sem gerði okkur með einu pennastriki að hálfgerðum rasistum. Við fáum ekki að hindra stórfyrirtæki og auðvaldshyggjurottur eyðileggja okkar næstum því hreinu og ósnertu náttúru, sem sýnir í raun hvað við erum sinnulaus. Ei ráðum við því heldur í hvað peningarnir okkar fara. Við fáum ekki að sjá neinar skýrslu um hugsanlega hryðjuverkaárás á okkar friðsamlega land. Ekki voum við spurð hvort við vildum gera Símann að einkafyrirtæki, hvað þá bankana. Sjaldan fréttum við af því að vita gagnslausir framkvæmdastjórar lífeyrisjóða fá tug milljón króna starfslokasamning fyrren hann er rekinn og fær sinn tug milljón króna starfslokasamning. Við fáum sjaldan sem ekkert að vita hvaða ákvarðanir æðstu ráðamenn þjóðarinnar eru að taka á degi hverjum í okkar nafni, hvað þá borgarstjórar, bæjarstórar, forstjórar, framkvæmdastjórar, kvótakóngar og hluthafar. Það muna eflaust fáir eftir því þegar Davíð Kjarnaoddsson ætlaði sér sko aldeilis ekki að bjóða sig fram sem formann, hvað þá forsætisráðherra á sínum tíma, en gerði það samt.

Og það besta við þetta allt, okkur er alveg skítsama hvort eð er. Þetta er bara efniviður í menningarlegt kaffihúsaröfl og undirstrikum þar með okkar afkipta- og sinnuleysi. Enda kemur oft í ljós í reykmettuðu umhverfi með smá keim af mokka að það vita flest allir um þetta allt saman (sérlega heppilegt að minnast á það eftir að atburðirnir hafa átt sér stað), gott dæmi er: Olíusamráðið. Það vissu hreinlega allir af þessu og okkur var alveg skítsama, það er ekki fyrr en einhver stofnun á vegum ríkisins gerir athugasemd í formi skýrslu og himinháar en snarminnkandi sekt. Þá verðum við reið.Vissulega eru til nokkur dæmi þar sem okkur er gjörsamlega er nóg boðið. T.a.m. þegar ráðherrar og þingmenn klöppuðu sér á bakið með því að gefa sér launahækkun þrisvar sinnum á tiltörulega stuttum tíma, því var mótmælt. Fjölmiðlafrumvarpið er gott dæmi um það hvað við erum oft dregin á asnaeyrum, enda var útlendingafrumvarpið samþykkt á sama tíma, en sýndi samt einhverja samstöðu þjóðarinnar að "nú væri fulllangt gengið". Írakstríðið varð að bíða útaf kosningum. Bobby Fischer er allt annar handleggur.

Einsdæmi er síðan orð sem er ofnotað hér á landi. Það er einsdæmi að þetta og þetta hefur gerst. Einsdæmi, aldrei átt sér stað fyrr en nú. Einsdæmi að einhver kona út í bæ, sem er einnig starfandi borgarstjóri, bjóði sig fram á Alþingi og það þrátt fyrir að margir borgarstjórar ónefnds flokks hafa setið á þingi og jafnframt verið borgarstjórar í gegnum tíðina. Einsdæmi að hér eigi sér lýðræðislegar og málefnalegar umræður um réttmæti einhvers ónefnds og ótiltekna innrás. Einsdæmi hitt og einsdæmi þetta. Maður getur vitnað í sögubækurnar, eða annálana gömlu um það "einsdæmi" þegar lýðurinn verður fullþreyttur á ráðríki og ofstopa ráðamanna eða annara stjórnenda, t.a.m. þegar sýslumaður á vestfjörðum var tekin höndum saman og hálshöggvin af héraðsbúum einhverstaðar á Vesturlandi á 15. öld enda var maðurinn fífl. Eða þegar nemendur Lærða skólans hættu að mæta í skólann á 19. öld útaf því þeim var skyldað að ganga í félag sem meinaði þeim um þær lífsins nautnir að drekka úr sér vitið og stofnuðu í kjölfarið félag sem þeir máttu drekka úr sér vitið.

Það er ekkert einsdæmi að við mölbúar verðum þreyttir á kjaftæði þeirra sem telja sig vita betur hvað við viljum í raun og veru. En það hlýtur að teljast einsdæmi að við leyfum þeim að gera það hvort sem er, enda er okkur svo sannarlega skítfokkingsama.

föstudagur, mars 18, 2005

Ég er hættulegur glæpamaður

Og við má bæta að ég er einnig viljalaust verkfæri stórhættulegra eiturlyfja sem mun gera mig að ofbeldisfullum geðsjúklingi og raðnauðgara með meiru. Af hverju?

Því ég hef neytt kannabis.

Þróttleysi neytandans
Mér finnst að það ætti að rífa upp eina gamla umræðu aftur með látum. Ég skil nokkurn vegin af hverju þessi umræða lognaðist útaf á sínum tíma, í fyrsta lagi voru aðstandendur cannab.is tvístígandi í þessari umræðu að mér fannst, heldur óviss hvort þau ættu að þora að taka þetta alla leið og í öðru lagi var alveg heiftarleg og ómálefnaleg gagnrýni gagnvart þessari umræðu útaf fordómum og tepruskap, efast ekki um að löggæsluhvolpunum hafi verið síðan sigað á þetta saklausa fólk um leið og það hafði kjark til að sýna á sér andlitið. Í raun veit ég ekkert hvað varð um bæði cannab.is, SEK og glæpamanninn Móra, en að vísu er til heimasíðar er heitir María Jóna, Ólafur Skorrdal reifar reglulega á blogginu sínu, en ötullasti málflutningurinn í sambandi við vafasama vímugjafa er án efa Guðmundur Sigurfreyr.

Hinn dæmigerði kannabis-neytandi, samkvæmt hinum dæmigerða "saklausa" vesturlandsbúa sem "aðeins fær sér eitt eða tvö rauðvínsglas á ári" og "fer með bænir sínar á hverju kvöldi", er viðbjóðslegur fíkill og skúrkur sem er annars flokks borgari og varla það, á auk þess skilið langan fangelsisdóm fyrir sína ólöglega neyslu. Þetta fólk er oftast illa lyktandi, sinnulaust um sitt útlit og umhverfi, sína vini og sína nánustu, atvinnulaust, glápir á sjónvarpið alla daga og tekur síðan sitt eigið líf um leið og þau fá ekki skammtinn sinn af hassinu. Þetta er hinn klassíski hasshaus. Allir sem reykja hass verða umsvifalaust dópistar og dusilmenni sem brjótast inní bíla og stela geislaspilurum, nauðga 9 ára telpum á björtum sunnudegi fyrir framan foreldrana sem horfa gáttuð á og þora ei að gera neitt enda aldrei að vita hvað hasshausin tekur upp á næst. Kannski nauðgar hann hundinum líka?

En hvað með þá sem taka spítt í nefið? Þau ráðast öll á saklausa vegfarendur með exi og hamri. Þau ræna líka geislaspilurum úr bílum. Kókfíklar? Þeir eiga það til að drepa fyrrum konu sína og fleygja henni í hraungjótu að loknum misþyrmingum, ekki sakar að þeir gera þetta oftast fyrir framan börnin sín. En sýruhausar? Allir inná Klepp að "éta loðnu" og verða þar til frambúðar. En þessir sem drekka áfengi? Nú, þeir sitja oft í faðmi fjölskyldunnar að spila lúdó og hlæja hátt og dátt yfir þeirri ómældri hamingju og gleði að þeir eru að minnsta kosti ekki að brjóta lögin einsog hinar ólánsömu sálir sem ekki geta sætt sig við spíra og skorpulifur.

Þessi ofangreind lýsing, sem kryddað er með nokkrum algengum fréttaskotum liðinna tíma, er ekki óalgengt að heyra frá fólki sem hefur verið innrætt þessi lýsing alveg frá barnaskóla eða gagnfræðiskóla þar sem "opin" og "gagnrýnin" umræða á sér stað um vafasama vímugjafa einsog hass eða heróín, enda enginn greinarmunur á hassi eða heróíni, bæði stórhættuleg eiturlyf sem geta látið mann framkvæma hina ótrúlegustu hluti, einsog að hlusta á tónlist (úúú!) eða horfa á bíó (aaa!) eða sitja í sófanum og slaka á (NEI!). En skondið er það að ef það er vímugjafinn sem "lætur" mann framkvæma þessa hluti, af hverju er þá neytandanum refsað? Ef viðkomandi hefur ekki stjórn á sjálfum sér við þessar gjörðir, einsog til dæmis að éta flatböku með kryddpylsu eða spila tölvuleiki, hvaða réttlæti er þá að refsa einstaklingum? Er hann ekki sjúkur útaf utanaðkomandi orsakavaldi? Svona einsog, ég veit ekki, alkahólistar eða offitusjúklingar? Ekki sektum við spikhlunki fyrir að skella í sig enn einum hamborgaranum? Ef til vill er undantekning sú ef hann er að hindra röðina í McCrap.

En það er ekkert skrýtið að sumir einfaldlega draga sig úr umræðunni þegar rökin sem þau fá á móti er "Nei, við tölum ekki um þetta" eða "það er ekkert mark á þér takandi, þú ert dópisti." Svona næstum svipað og boxari hættir í bardaganum þegar mótherjinn sparkar í punginn á honum.

Það er nauðsynlegt að við hugsum fyrir þig
"Þeir segja að við höfum vit til að velja þá, en höfum ekki vit fyrir okkur sjálf" sungu Fræbblarnir í hinu stórgóða lagi Bjór um ´81.
Hví öll þessi hræðslutaktík? Kannanir í sambandi við neyslu (eða einsog það er orðað af hálvitum, misnotkun) vafasama vímugjafa hefur ætíð sýnt það að meirihluti neytenda hefur fullkomna stjórn á neyslunni sinni og er, þó erfitt sé fyrir suma að ímynda sér það, venjulegt fólk. Venjulegt fólk!?! Gæti einhver þröngsýnn þverhaus hrópað upp fyrir sig. Þetta er ekki venjulegt fólk, þetta eru lögbrjótar, glæponar, dópistaaumingjar og ættu að skella þeim öllum inn tafarlaust! Fleiri fangelsi, harðari refsingar, reddum þessu með því að afnema bann við dauðarefsingar á Íslandi! Drepa, drepa, refsa, refsa!

Í þessarri afar vísindalegri og greinargóðri úttekt um hættur hamp-neyslu er talað um það að
Ungt fólk gæti orðið kvíðafullt og þunglynt. Af hverju kannabisneytendur eiga meira í hættu að vera kvíðafullt og þunglynt er ekki vitað.
(Lausleg þýðing)

Það gæti verið að ég sé að skjóta útí loftið hérna, en gæti ástæðan verið að þetta sé bannað með lögum og þú eigir í hættu að verða refsað eða sektað fyrir það að neyta kannabis, maður er nokkuð áhyggjulaus þegar maður drekkur bjór, en þegar maður keyrir á 70 km innanbæjar þar sem leyfilegur hámarkshraði er 45, þá er maður nett kvíðinn yfir því að lögreglan leynist á horninu. Eða, þetta er einnig annað skot útí loftið, gæti verið að þessi rannsókn hafi verið framkvæmt með a priori niðurstöðu? Ansi oft sem það gerist. Einnig að þessi rannsókn hafi verið unnin með það markmið í huga að láta kannabis líta illa út, týna til tölur þarna, henda þessum upplýsingum út, og jafnvel staðhæfa að þú eigir í hættu að fá geðklofa eingöngu útaf neyslu á kannabis.

En kannabis og geðklofi. Kommon. Ég get altént jafn auðveldlega sagt að það sé all svakaleg tenging á svona könnunum og geðklofa. Fjandinn, þú gætir verið úti í sólskinsblíðu að tygggja jórturgúmmí og alltí einu byrjaði að sjá ósýnilega bleika einhyrninga og rödd sem segjir að "Ég er Guð, gerðu það sem ég segji þér." get ég ekki þá sagt með nokkru vissu að sólin hafi orsakað geðklofan? Eða að efni í gúmmíinu hafi orsakað geðklofann? Geðklofi er afar sjaldgæfur sjúkdómur, rúmlega 1% af þjóðinni þjáist hugsanlega af geðklofa, eða einsog segjir á Netdoktor.is (leturbreytingar mínar)
Orsakirnar eru óþekktar. Þó er enginn vafi á því að erfðafræðilegir þættir ráða þar miklu um. Heildarlíkurnar á því að geðklofi komi fram á ævi hvers einstaklings eru u.þ.b. 1%. Ef afi eða amma manns er með sjúkdóminn aukast líkurnar í 3%. Líkurnar eru u.þ.b. 10% ef annar foreldra er með sjúkdóminn. Líkurnar aukast í u.þ.b. 40% ef báðir foreldrar hafa hann.
Um 15% þjóðarinnar hefur einhvern tímann prófað kannabis (en þó aldrei verið kannað, en þessi tala er byggð á könnun sem gerð var í BNA). Sem þýðir að þá ætti geðklofi að vera mun algengari en hann er. En vissulega má ég ekki vera svo barnalegur og afskrifa þessar rannsóknir með því að segja að hér sé enginn hætta á ferð, kannabis gæti orsakað að geðklofi geri vart við sig ef þú ert í þeim áhættuhópi sem nefnd er hér fyrir ofan. En samt sem áður eru þetta eingöngu vangaveltur, kenningar, "ef til vill"-pælingar. Öllu fylgir einhver viss áhætta, en er það ekki samt sem áður undir sjálfum einstaklingnum komið hvað viðkomandi vill og ekki vill.

Af hverju förum við ekki eftir þessari reglu:
Veldu jafnan þá athöfn sem hefur í för með sér meiri hamingju eða dregur meir úr böli þeirra sem ákvörðunin varðar en aðrar athafnir sem þú átt kost á.
-John Stuart Mill (1806-1873)

Er ekki skárra í samfélagi manna að sem flestir, helst allir, eru ánægðir. Ekki sumir, ekki nokkrir tækifærissinnar sem geta unað gott við sitt eftir að hafa lagt enn eitt lífið í rúst með því að styðja fangelsun fyrir jafn smávægilegan hlut og neysla á vímugjöfum almennt er. Eða þessari:
Breyttu einungis eftir þeirri lífsreglu sem þú vilt að verði að almennu lögmáli.
-Immanuel Kant (1724 –1804)

Segjum sem svo að bróðir þinn, systir, faðir, móðir, afi eða amma, lendi í þeirri klemmu að ánetjast morfínplástrum eftir erfiða aðgerð, varla viltu fangelsa þau, sekta þau? Er ekki skárra að hjálpa þeim. Hvað ef þau reykja öll maríjúana aðra hverja helgi, en á annað borð fara í skóla, fara í vinnu, taka til, elda mat og njóta lífsins, mundirðu hringja í lögregluna? Er þetta alltof persónuleg spurning sem kemur kannski málinu ekkert við? Skylirðislausa skylduboðið snýst um manninn, um einstaklinginn:
Hvað kemur þér það við hvað ég geri í mínu einkalífi? Og fyrir þá sem eru í einhverri siðferðislegri klemmu við að svara þessarri spurningu, leyf mér að svara henni fyrir ykkur, það kemur ykkur bara ekkert við hvað ég geri, hvað ég les, hvað ég horfi á, hvað ég drekk, hvað ég reyki eða neyti, svo fremi sem ég skaða ekki aðra manneskju!
-Bill Hicks (1961-1994)

Ef einstaklingar hafa áhuga á meiri fræðslu þá bendi ég á Wikipedia, New Scientist og Guðmund Sigurfrey.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Andlegt þróttleysi

Það er óþolandi staðreynd með sjálfan mig að þegar ég fæ einhverja hugmynd til að gera eitthvað af sjálfsdáðum að ég byrja af fullum krafti á einhverju, til dæmis að skrifa heilan hellin gum eitthvað tiltekið áhugamál, hugsa svo með sjálfum mér "aah, þetta var nú gott hjá mér að byrja á þessu, best að klára þetta seinna" síðan gerir maður ekki neitt.

En ég held að sú ótrúlega staðreynd með sjálfan mig að nú er ég búinn að halda lífi í þessarri vefbók í tæpt eitt og hálft ár, með einstaka innlegg. Máske vísir að því ég get byrjað á einhverju og haldið því áfram.

Einsog með skólaverkefni sem maður á að klára eftir einhvern tiltekin tíma og skila inn, maður hefur kannski 2-3 vikur til þess að vinna þetta, en maður vinnur í þessu einhverjum örfáum tímum áður en maður á að skila þessu. Maður verður kannski að ákveða eitthvað "deadline" á þau skrif sem maður hefur í hyggju.

fimmtudagur, mars 10, 2005

"Hvað segist?"

skilyrtar spurningar og skilyrt svör

Það er afar sjaldgæft að maður skrifi eitthvað um sjálfan sig, hvað ég hef verið að gera, hvað hefur drifið uppá mína daga, eitthvað spennandi? Eitthvað krassandi? Eitthvað yfirnáttúrulegt? Kraftaverk? Geimverur? Eitthvað?

"Hvað segirðu gott?" er afar klisjukennt og margtuggð og í hæsta lagi leiðinleg spurning, en maður finnur sig alltaf knúinn til að svara henni á sama veg, þ.e. á þann hátt sem hún var spurð, klisju- og formúlukennt þannig að maður bregði ekkert útaf vananum "Ég segi bara allt gott", það sama gildir um spurningarnar "Hvað er að frétta?", "Hvernig hefurður það?", "Hvað ertu búinn að vera gera?" og ekki skiptir máli hver er spurður, því svörin eru nær ætíð og ávallt á sama veg "Allt gott að frétta", "Hef það fínt", "Sosum ekki neitt" eða "Bara allt ágætt."

Í fyrra sló frændi minn mig út af laginu þegar hann spurði góðfúslega "Hvað væri að frétta?" og er ég svaraði "Allt ágætt" þá spurði hann á ný með alvarlegum tón og svip "Ertu viss um það?" Ég var dálítið vankaður útaf smá skralli kvöldið áður og þessi spurning kom mér alveg gífurlega á óvart, mér fannst einsog ég hafði gert eitthvað af mér "Er ég viss? Já, það held ég.. já, já!" En málið er að ég hafði eitthvað verið að hugsa um þessar klisjukenndu tilvsör við formúlukenndum spurningum fyrir einhverju síðan. Eitt sinn höfðu þessar spurningar merkingu og svörin voru væntanlega mun lengri.

Um daginn var ég spurður þessa spurningu "Hvað er að frétta?" og ég held að ég hafi svarað með spurningum "af mér? Hvaðan þá sérstaklega, skólanum eða vinnunni?" og bætt við um leið að í hvert sinn sem maður er spurður þessa eða sambærilega spurningu þá komi maður alltaf með sama eða sambærilegt svar í hvert einasta skipti, þessi spurning er merkingarlaus, en er samt góðfúsleg tilraun til að vekja upp einhverjar samræður. En þegar maður svarar þessarri spurningu á annan hátt en maður hefur áður gert þá virðist það geta haft það vald að slá fólk útaf laginu, en annars "er allt ágætt að frétta." En ég má ekki gleyma því að er viðkomandi spyrill að spurja bara útaf vananum og hefur engan áhuga að heyra neitt meira en "allt ágætt!" Og útlýsti síðan hvað ég væri að gera í skólanum og í vinnunni. En viðkomandi spyrli brá aðeins, en jafnaði sig fljótt.

En maður er aldrei með neitt annað svar tilbúið, maður er orðinn hálf-skilyrtur til að svara þessum spurningum ætíð á sama veg. Ætli maður verði ekki að reyna afskilyrða mann, og fara segja eitthvað í fréttum, segja fólki hvernig manni líður í raun og veru en ekki bara að maður hafi það "ágætt" því það er ekkert svar, það segir manni ekkert hvort manni líði vel, hvort maður sé ofsakátur, hvort maður sé sorgmæddur, hvort manni líði illa. Því oft svarar maður "ágætlega", "bara fínt", "vel" jafnvel þó maður er í svartasta þunglyndi. Þó það virðist vera asnalegt, þá er ef til vill skynsamlegra og skemmtilegra að koma með greinargott svar við þessum spurningum, um leið og maður gerir það þá fá þessar spurningar aðra merkingu, og kannski þykir fólki vænt um að heyra hvernig manni í raun og veru líði og hvað er í raun og veru að frétta, annað en "ekki neitt."

Við skulum athuga þetta með dæmi:
"Hvað er að frétta?"
"Ég er að fara taka þátt í uppfærslu á Jesus Christ Superstar, og mun túlka Pontíus Pílatus á eftirminnilegan hátt. Það verður frumsýnt 16. Apríl. Mér gengur bara nokkuð vel í skóla, en þarf samt að skipuleggja námið betur, en næ samt alveg að skila verkefnum og fá nokkuð góðar einkunnir. Búinn að bæta við mig eina vinnu enn, það er á hjúkrunarheimilinu að sjá um gamalt fólk, sumir hverjir með Alzheimer, og sú vinna hefur þann drífandi kraft, rétt einsog Kleppsvinnan hvatti mig til að fara í skóla, að klára skólann og fara í hjúkrunarfræði. Það gæti verið að maður taki þátt í uppsetningu á myndlistarsýningu í Apríl. Mér finnst vera nóg að gera einsog er, en ég er til í að bæta einhverju við. Hef snarminnkað Kaffihornsferðirnar, aðallega sökum fjárskorts. Einnig er sú hugmynd að hætta að reykja alltaf að vega þyngra og þyngra hjá mér. Ekki nema 25 ára og hef reykt í meira en áratug."


Þarna er komið greinargott svar, þarna er ég að koma með einhverja fréttir sem einhverjir hafa ef til vill aldrei heyrt. Það vill nefnilega stundum til ég tala við einstaklinga einsog það viti alveg um hvað ég er að tala, þ.e.a.s. að það hefur kannski lesið sömu bækurnar og ég, sömu fréttirnar og ég, sömu greinarnar og ég, veit alveg hvað ég er að gera útfrá þriðja aðila o.s.frv. Þetta er dálítið sjálfhverf hugsun viðurkenni ég, sem ég verð að hætta og þess í stað spurja viðkomandi hvort hann hafi lesið þetta og þetta, og þar af leiðandi láta umræðuna snúast um það eða eitthvað annað.

Önnur spurning, sem verður ef til vill snúið að svara án þess að upplýsa um of er:

"Hvernig líður þér?"
"Í stuttu máli þá líður mér svo sum ágætlega, en er dálítið kvíðafullur sem má held ég að öllu leyti rekja til fjárskorts. Maður er ekki að gera neitt spes til að betrumbæta andann og rækta mínar tilfinningar þannig séð, annað hvort vantar mig ást eða einfaldlega púntang. Ég er dálítið smeykur við dálítið einkennilegan vöxt á vinstri olnboganum á mér, ég vona bara að þetta sé ekki það sem mig grunar..."
Það er ekkert víst að viðkomandi vilji heyra allt mitt tilfinningaflæði eða allar mínar áhyggjur, en þó það er aldrei að vita. En það er allt gott að frétta og mér líður ágætlega. En tilgangurinn með þessu er einfaldlega að koma með hugmynd sem er í megindráttum beind að sjálfum mér, til þess að brjóta upp daginn.

Gruggugt..

"Something very fishy is going on, I just can´t seem to put my finger on it..."

Það er eitthvað afar gruggugt á seyði á Íslandi í dag og það er komið að því að kafa dýpra í það mál. Manni finnst einsog eitthvað sérstakt sé í undirbúningi, en ég bara veit ekki hvað. Dularfullar ákvarðanir eru teknar á æðstu stöðum og af pólítískum toga. Ráðning hæstaréttadómarana tvo til að mynda, sem báðir eru nokkuð tengdir einum ónefndum utanríkisráðherra, hið furðulega háttalag framsóknarkvenna í Kópavogi sem má ef til vill rekja til Magnúson-bræðra og nú ráðning fréttastjóra útvarps sem einnig er að einhverju leyti tengdur þessum fyrrnefndu bræðrum, hef ég heyrt.

Hvað er í gangi? Ég veit það ekki. Af hverju er þetta svona dularfullt? Því þetta og eflaust fleira (s.s. stuðningur við innrásina, Kárahnjúkaósóminn, stanslaust ráðherraklappábakið, vanvirðing gagnvart landsmönnum o.fl.) er eitthvað svo... uncanny. Á þetta að vera svona dularfullt? Tja, þetta gæti átt sér afar einfaldar og rökréttar skýringar, en það er bara svo mikill samsæriskeimur, illa lyktandi daunn af einhverju valdabrölti af þessu að maður kemst ekki hjá því að líta á þetta sem eitthvað misterí. Ber ég svona lítið traust til ráðandi afla í landinu? Vissulega.

Hef ég tíma til að reyna grúska í þessu máli og tengja punktana saman? Ja... nei, kannski... ég veit það ekki. Maður er með svo mikinn athyglisbrest að ég get oft ekki haldið mér við sama efnið í of langan tíma.