föstudagur, október 29, 2004

Um stöðugleika Halldórs, eilítið um kennaraverkfall, kryddað af samsæri

Hvað er stöðugleiki? Útskýringinn í Íslensku orðabókinni er stutt, en útskýrir ekki neitt, en þar segjir:
"Stöðugleiki kk - það að vera stöðugur"
-Íslenska orðabókin 2002, ritstjóri Mörður Árnason
En þetta orð er stöðugt notað af hinum stöðuga og staðfasta Halldóri Ásgrímssyni, Hornfirðingur og ríkisbubbi og auk þess að vera forsætisráðherra Íslands þá er hann líka afspyrnu leiðinlegur stjórnmálamaður. En fyrir síðustu kosningar 2003, þá sagði hann þetta aftur og aftur og aftur, að þetta orð, einsog orðið málefnalegur, missti alla sína merkingu"Það verður að ríkja hér stöðugleiki, annars fer allt til fjandans, kjósið mig, ég kann að brosa, og vel á minnst: stöðugleiki." er í megindráttum það sem hann sagði.
En hvað er stöðugleiki? Kíkjum á orðið stöðugur í orðabókina,en þar er heldur lengri útskýring en á fyrra orði:

"Stöðugur L 1 Sífelldur, samfelldur, óumbreytanlegur,
sem varir (lengi) -> stöðug ótíð / e-ð stendur á stöðugu
e-ð fer jafnan eins fram 2 Staðfastur, óhvikull, traustur
stöðugt AO - sífellt"
-Íslenska orðabókin 2002, ritstjóri Mörður Árnason
<>
Ókei, þar höfum við það. Er það gott fyrir stjórnmálamann að vera staðfastur? Vera með í sífellu sömu klisjurnar? Að hafa óumbreytanlegan persónuleika? Sem sagt standa fast á sínum skoðunum , aldrei að hvika frá, ef eitt er sagt þá er ekkert tekið til baka. Er það ekki bara þrjóska og barnaskapur? Hvernig á maðurinn að þroskast ef skoðanir mannsins breytast ekkert?

En stöðugleiki í þjóðfélagi býst ég við að eigi að þýða að allt er ei ókei. Takið eftir beinþýðingunni og jafnt sem orðaleiknum. Það er ekkert ókei í þessu landi. Óánægja og ójöfnuður er of algengt til að hér sé einhver fjandans stöðugleiki.

Tökum kennaradeiluna sem dæmi, í því máli ríkir enginn stöðugleiki, eru ekki einhver lög sem segja að krakkar á aldrinum 6-15 ára eiga að vera í skóla allavega 170 daga á ári? Jú, mikið rétt. Það versta við þetta verkfall er að það er einsog enginn, allavega mjög margir, bjuggust bara ekkert við því, þó sérstaklega ráðamenn. Jafnvel þó þetta hafi verið í uppsiglingu síðan í 5 vikna kennaraverkfallinu 1995 og eins dags verkfallinu árið, hvað, 2000 (?). Ójæja. En af hverju kemur þetta stjórnvöldum ekkert við? Þ.e. stjórnvöld, með hinum stöðuga Halldóri Ásgrímsyni í broddi fylkingar... "Við höfum ákveðið að sveitarfélögin eiga að sjá um þetta... útaf því... bara..." Gæti kannski verið að þessir róbótar sem sitja í ráðherrastól eiga enginn börn? Eða eru öll börninn kominn í framhaldskóla?

En síðan kemur á daginn að hann Dóri vill fá fund, pg hvað gerist á þessum fundi? Ekki neitt. Setjum upp leikþátt:

Deiluaðilar labba inní forsætisráðherraskrifstofuna, og sjá þar Dóra dóser í þægilegum stól.
"Hæ" segjir Dóri, og deilumenn kinka kolli og bjóða góðann daginn.
Deiluaðilar fá sér sæti fyrir framan skrifborð Dóra. Það líður og bíður.
"Jæja, hvað segjiði?" spyr Dóri varfærnislega.
"Við vorum kannski að vonast eftir því að þú mundir segja eitthvað?" spyr formaður Kennarafélagsins.
"Ha, ég?" spyr Dóri á móti "Nei, nei, viljiði kaffi og kleinur?"
Þeir jánka við því, og horfa á hvor aðra, yggla brúnum og gjóa augunum að Dóra.
"Viljiði sjá mig brosa?" spyr Dóri.

En, máski er önnur ástæða af hverju stjórnvöld vilja ekkert gera neitt í þessum málum. Hér er samsæri. Á næsta ári verða þeir sem eru 10. bekk komnir á vinnualdur, og einsog staðan er í dag, þá er skortur á vinnuafli í fiskvinnslu og öðrum ófaglærðum störfum. Stjórnvöld líta á þessa deilu sem algjört "ching, ching" því í fyrsta lagi eru þeir að spara tæplega 740.000.000 krónur á þeim fimm vikum sem hafa liðið, í öðru lagi geta þeir sparað, bæði fyrir sig og fiskvinnslufyrirtæki (takið eftir því að Halldór er kominn af fiskvinnslufyrirtækisættum) á því að flytja inn erlent vinnuafl. Útkoman? Hagræðing af hinni furðulegustu gerð.

Engin ummæli: