miðvikudagur, maí 11, 2005

Séríslenskir menningarkimar

Til hvers í andskotanum?

Ég man er ég heyrði orðið "hnakki" fyrst og í hvaða sambandi það var notað. Notað yfir einstaklinga sem fara í ljós, keyra um á bílum sem þeir hafa ekki efni á og hlusta á FM957 og útaf því eru þeir einnig kallaðir "fm-hnakkar." Mér fannst þetta fyndið og eflaust átti þetta bara að vera fyndið, og átti ekkert að ganga lengra en það. En nú er þetta menningarkimi sem hefur myndast hér á Íslandi út frá athöfnum og útliti. Þetta hefur einnig gengið lengra, allavega eru einhverjir vita vonlausir fréttamenn sem eru nú að reyna hólfa niður einhverja vinahópa eða einstaklinga sem virðast hafa sameiginlegt útlit, stunda einhverja vissa staði í miðbæ Reykjavíkur eða hlusta á einhverja vissa tónlist eða bara eitthvað sem virðist vera séreinkenni vissra hópa sem á næstu árum má kalla þjóðfélagshópa eða menningarkima.

Treflar t.a.m. er andsvar "hnakkana." Einhver hjá kallarnir.is tók sig til og skrifaði pistill um þetta sem birtist á vísir.is og DV. Treflar eru samkvæmt skilgreiningunni algjör andstæða hnakkana, fölir, eiga ekki bíl eða ljótan sem þeir hafa e.t.v. rétt efni á og hlusta á X-ið eða Rás 1. Eða einsog þessi tiltekni kall er kallar sig Egill Gilznegger sagði:
Skjannahvítir – illa klipptir – vaxnir eins og Montgomery Burns – ganga í prjónafötum (þeim finnst meira að segja ullarnærföt töff) - yfirleitt með bauga – svipuð tannhirða og Austin Powers og flestir skelfilega andfúlir – ganga í gúmmítúttum – oftar en ekki nefmæltir – illa rakaðir (yfirleitt með hýjung og þeim finnst það fokking geðveikt) – hoknir með innfallinn brjóstkassa – reyna bara oftast að vera illa til hafðir því þeim finnst það vera flottast: "Það er bara ég skilurru, ég er bara ég."
Þessi grein er að vísu grín, einsog nýyrðið "(FM)hnakki." En hefur því miður undið upp á sig og nú er verið að bauna að okkur allskonar "þjóðfélagshópum" einsog "úlpurnar", "fína liðið", "hverfisgæjarnir" og eitthvað álíka.

Til hvers?

Ég man eftir að einhver sagði mér eftirfarandi "Ég þekki nokkra hnakka og þeir eru bara ágætir!" Mér fannst það skondið. Því þetta er nú orðið álíka vanhugsað og að segja "Ég þekki nokkra homma og þeir eru bara ágætir!" eða "Ég á marga svarta vini!" Nú er orðið altílæ að dæma fólk út frá útliti og gott betur en það, nú getum við gert upp skoðanir hjá fólki sem klæðist á vissan hátt, gengur á vissan hátt, hvort það noti CK eða DieselPlus-rakspíra eða ekki, við höfum fengið blessun frá þeim málsmetandi mönnum sem halda sig í flúorlýstum skrifstofum eða stúdióum, reita eða tala um þessa"furðulegu þróun." Köllum þá "málaranna" enda hafa þeir alltaf eitthvað til málana að leggja.

"Sjáðu þennan, hann er í þykkri úlpu. Dæmigerð úlpa. Þetta er klassískt dæmi af einstaklingi sem mótmælir þegar hann getur, hann hatar stefnu stjórnvalda í Emeríku, þolir ekki Davíð né Halldór og hlustar á Sigur Rós. Er eflaust mjög óhamingjusamur og þunglyndur!"

"Líttu þennan, hann er ljósbrúnn og lyktar vel. Dæmigerður hnakki. Hann hefur ekkert vit á stjórnmálum, varðar ekkert um það sem Davíð og Halldór gera og hlustar á Scooter. Er eflaust mjög hamingjusamur því hann er svo einfaldur!"

"Heyrirðu í útvarpinu, hann er að tala um hluti, hlustum á hann því hann er málari!"


Nú þurfum við ekkert að kynnast fólki lengur! Er þetta ekki frábært? Við þurfum ekkert að vita um allt þetta fólk. Nú er orðið auðveldara að afskrifa fólk og allt það sem það segjir og gerir, einsog þessir: Menningarsnobbhænsi, stjórnvaldsbröltarar, auðvaldshyggjurottur og málarar. Enda getum við hæglega sagt "Ekki taka mark á honum, hann er dæmigerður [skjóttu inn skilgreiningu hér]"

Og, það sem verra er, nú þarf fólk ekkert að hafa fyrir því að vera einstaklingur hann getur nú tilheyrt einhverjum hópi og úr mörgu er að velja!

Vill einhver vera anarkibóhedónisti? Sorrí, þetta er eins manns klúbbur.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

en afhverju eru engar kvennstaðalímyndir? eins og hnakki, trefill og úlpa. Það er bara til gelgja og allt annað eru bara skrítnar stelpur?
...ég er anarkibóhedonisti

Nafnlaus sagði...

ég er rokksósíalistaferðaheilbrigðismillistéttarstóuauðnuleysingi

Doddi sagði...

En það er ekki jafn þjált og gott einsog anarkóbóhedónisti.

Doddi sagði...

Máski auðnuburgeisinisti?

Nafnlaus sagði...

Þetta eru merkilega flokkanir