miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Frásögu færandi?

Eins og ég minntist á fyrir stuttu, þá skrapp ég til suðvesturhluta landsins nánar tiltekið í stærsta dreifða þéttbýli landsins (þ.e. Höfuðborgarsvæðið, en þó aðallega Reykjavík fyrir þá sem ekki fatta) í rúmlega þrennum tilgangi:
  1. Fara á tónleika með Sonic Youth.
  2. Neyta vímugjafa á borð við áfengi (að mestu bjór) og kannabis.
  3. Bera augum og hlýða á hjal þeirra vini og kunningja ásamt að veita þeim kjörið tækifæri að bera mig augum og hlýða á mitt hjal.
Fyrir það fyrsta voru tónleikarnir með Sonic Youth þriðjudaginn 16. ágúst hrein unun og algjört eyrnakonfekt, ei sakaði að fá að sjá með eigin augum hvernig þessi goð og gyðja líta út í lifandi lífi. Djöfull óskaplega er Thurston Moore hávaxinn og Kim Gordon er milf. Ballið byrjaði með Brúðarbandinu sem tóku nokkrar syrpur og óskuðu eftir meiri sleik hjá áhorfendum og tónlistarunnendum, ekki veit ég hvort einhver eða einhverjir voru að ósk þeirra pjatla, en ég skemmti mér ágætlega yfir sæta og stutta tónlistarspilaríi stúlkukindana. En menn voru samt fljótir að ókyrrast er þau stigu af sviðinu og beðið var með eftirvæntingu og kökk í hálsinum eftir því að Sonic Youth stigu á sviðið, sem þau og gerðu við mikin fögnuð skarans í salnum. Við tók þetta þétta tveggja tíma prógram sem liðu því miður alltof fljót og endaði á óhljóðavörumerki meðlimana þar sem Moore, Gordon, Ranaldo og O´Rourke byrjuðu að fróa hljóðfærunum með þar tilgerðum bakflæðismagnarahávaða meðan Shelley barði rólega húðir þar til hann gafst upp á að reyna halda einhverju samhengi í þessari organdi óhljóðaorgíu og eipaði með kjuðana. Mín eyru þrútnuðu og gátu ei umborið þessi óguðlegu læti þannig að ég steig út fyrir til að ná andanum, brosa breitt og þakka forsjárhyggju minni að kaupa miðana í Maí. Fyrir utan hvað þetta var ótrúlega góð keyrsla hjá Sonic Youth, en þau spiluðu aðallega lög af nýjustu plötunum, Sonic Nurse og Murray Street (en lagavalið náði alla leið til plötunnar Sister frá 1987) þá var stemmingin á NASA hreint mögnuð, það er alveg ótrúlegt hvað Íslenskir tónlistaráhugamenn eru kurteisir og Sonic Youth spiluðu einmitt með hópnum ef svo má segja. Ótrúlega góðir tónleikar með ótrúlega góðri hljómsveit. Bjórinn kom þarna mikið við sögu, en það skemmdi ekki unaðinn.

Í þessari ferð minni gisti ég hjá góðkunningjum mínum Óskari og Guðrúnu, að vísu var Gunna að mestu vant við látinn við masters-ritgerðina og þegar hún var heima þá var ég úti að sprella. T.a.m. sprellaði ég með Vésteini og Bessa ásamt öðrum góðkunningjum (þekktum og óþekktum) í vesturbænum og bjór kom þar eitthvað við sögu. Ég sprellaði t.d. á Classic Rock sem staðsett er á Ármúla 5 (í sama húsnæði og Gigtarfélag Íslands heldur sig) þar sem nokkrir gamlir og nýjir vinir héngu (að undanskildum Vésteini og Ragnari en þeir fóru að vinna). Bjór kom þar töluvert til sögu. En þetta var víst eftirpartí fyrir Alice Cooper-tónleikana (sem ég mætti ekki á sökum skorts á áhuga), en þar var á boðstólnum tvær hljómsveitir sem ætluðu að reyna slökkva þorstann í rokkþyrstum Alice Cooper-aðdáendum. Sú fyrsta var Truckload of Steel, sem mér fannst alls ekki góð, eiginlega var þetta bara ein sú ömurlegasta þungarrokkklisjutónlist sem ég hef heyrt. Eftir þessa hörmungar tóna stigu á þetta litla svið goðin í Sólstöfum er tóku þrjú lög sem öll voru meira en 10 mínútur á lengd og það verður að segjast að Sólstafir eru alveg hreint ótrúlegt band. Þvílík gargandi snilld. Á meðan spilun stóð kom bjór nokkuð við sögu í viðbót.

Engin ummæli: