þriðjudagur, mars 30, 2004

Til Reykjavíkur mun leið mín liggja,
og líklegast mun ég á frjádag fara.
Í forlátum bíl ég far mun þiggja,
að lokum helgidags sú ferð mun vara.

Er ´etta ekki flott hjá mér? Fjórar línur og ágætis rím,
held meira segja að ég hafi náð stuðlum og höfuðstöfum rétt.
þessi hluti er samt ekki nógu góður, en sú næsta verður ansi nett.

Annars held ég að skilaboðin séu nokkuð skýr,
að ég sé á leið í syndabælið Sódóma,
þarsem Satan og hans hyski býr,
ala fólk á fíkn, fordóma og hórdóma!

Já, maður verður að æfa sig í þessu... er það algild regla að stuðlar mega bara vera tveir í einni línu og höfuðstafur einn í næstu línu.

þriðjudagur, mars 23, 2004

MÝRIN

Hér er en ein ritgerðin, og er hún um bækur Arnalds Indriðasonar, allar nema ein. Tek fram að í sjálfri ritgerðinni gerðist ég svo svakalega sniðugur að setja inn æsifréttaskot sem voru á víð og dreif í textaboxum, en sleppi því hér:
MÝRIN
og aðrar bækur Arnalds Indriðasonar

Yfirlit
1. Inngangsorð
2. Höfundurinn
3. Bækurnar
3.1. Bettý (2003)
3.2. Röddin (2002)
3.3. Grafarþögn (2001)
3.4. Napóleonsskjölin (1999)
3.5. Dauðarósir (1998)
3.6. Synir duftsins (1997)
4. Mýrin (2000)
4.1. Söguþráður
4.2. Sögusvið
4.3. Persónur
5. Lokaorð
6. Heimildir

1. Inngangsorð
Allar bækur eftir Arnald Indriðason flokkast undir reyfarasögur eða spennu- og glæpasögur. Viss ádeila er í flest öllum bókunum, ásamt ýmsum samsæriskenningum sem margar hverjar eru byggðar á íslenskum gróusögum. Arnaldur hefur þó vara á í byrjun bókarinnar, einsog flestir höfundar, og segir að “saga þessi sé uppspuni höfundar”. En stundum kemur upp sú tilfinning að hann sé óþarflega nálægt sannleikanum, sem í sjálfu sér kemur sér ekki illa. Enda ættu bækur í mörgum tilfellum að vekja upp umræður.
Eftir þessi inngangsorð mun ég rita eilítið um höfundinn. Síðan skrifa ég um þær bækur sem ég hef lesið en síðasta bókin sem ég mun skrifa um verður Mýrin, þar sem ég valdi hana sem kjörbók.
Ég tók mig til og las allar bækurnar hans, nema eina, á rúmlega tveim vikum, en það hafði verið ætlunin síðan fyrir jól að lesa Mýrina sem ég keypti á bókamarkaðinum í gamla bókasafninu hér Hornafirði. Eina bókin sem ég hef ekki lesið er Grafarþögn, en ég hef verið að bíða eftir henni núna í næstum eina og hálfa viku, og það vekur furðu hvað fólk er lengi að lesa. Vona að lesandi hafi gagn og gaman af þeim örfáu línum sem ég hef ritað hér. Tek einnig fram að hætta er á að ég muni spilla söguþræðinum fyrir lesendu í einhverjum af þessum bókum, en virðulegur lesandi verður að taka sjálfur ábyrgð á lestri þessum og afsala ég hér með ábyrgð á innihaldi bókmenntaritgerðar þessari.
2. Höfundur
Arnaldur Indriðason er fæddur árið 1961, þann 28. janúar í Reykjavík. Foreldrar hans eru Þórunn Ólöf Friðriksdóttir og Indriði G. Þorsteinsson, rithöfundur, þannig að sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. Indriði skrifaði m.a. Land og Synir og Sjötíu og Níu af Stöðinni.
Arnaldur varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1981, með B.A. í sagnfræði frá Háskóla Íslands sem hann lauk 1996. Vann lítillega sem blaðamaður við Morgunblaðið frá 1981-1982, var síðan ráðin við kvikmyndaskrif og síðar kvikmyndagagnrýnandi frá 1986-2001.
Hann hefur skrifað sjö bækur, skrifaði einnig einn kafla í bókinni Leyndardómar Reykjavíkur 2000, þar sem nokkrir íslenskir rithöfundar skrifuðu einn kafla hver, má þar nefna Stella Blómkvist, Viktor Arnar Ingólfsson, Árni Þórarinsson og fleiri.
Einnig hefur hann unnið útvarpsleikrit úr þremur bókum, sem flutt voru í Ríkisútvarpinu á árunum 1999-2001. Hann hefur líka hlotið styrk frá Kvikmyndasjóði Íslands fyrir handritagerð upp úr bókunum Dauðarósir og Napóleonsskjölin, einnig er verið að kvikmynda Mýrina í leikstjórn Baltasars Kormáks.
Norrænu glæpasagnaverðlaunin, Glerlykilinn, hlaut hann fyrir Mýrina árið 2002 og Grafarþögn ári síðar. Skáldsögur hans hafa verið þýddar á Dönsku, Norsku, Finnsku, Sænsku, Hollensku og Þýsku, og hafa bækurnar hans fengið mjög góðar viðtökur þó einkum í Þýskalandi þar sem bækur hans hafa selst í hundruðum þúsunda eintaka.
Arnaldur býr í Reykjavík ásamt konu sinni, Önnu Fjeldsted, og þremur börnum.
3. Bækurnar
Útgefnar bækur eftir Arnald Indriðason eru sjö talsins, auk Leyndardóma Reykjavíkur 2000 sem gefin var út á vegum Hins íslenska glæpafélags, sem er félag áhugamanna og rithöfunda um glæpasögur. Ég mun taka hverja og eina og lýsa söguþræðinum stuttlega, hverjar aðalpersónurnar eru og hver ádeilan er. Að lokum mun ég taka Mýrina, og mun fara nánar útí hana en hinar sex.
3.1. Bettý (2003)
Bettý fjallar um ungan lögfræðing sem segir frá sögunni í fyrstu persónu. Maður fær ekki að vita nein deili, á þessari manneskju, annað en að þessi einstaklingur sé lögfræðingur og sé ástfangin af Bettý.
Sagan byrjar á því að lögfræðingurinn er í haldi lögreglunnar grunaður um einhvern hræðilegan verknað, en ferðast síðan frá nútíð í fortíð þar sem sögupersónan reynir að gera hreint fyrir sínum dyrum og byrjar á þeim atburði þegar Bettý birtist fyrst. Þá er lögfræðingurinn ungi að halda fyrirlestur í Háskólabíói um kvótaeign og sjávarútveg, að loknum fyrirlestrinum kemur ung kona og kynnir sig fyrir lögfræðingnum. Hún heitir Bettý. Bettý segir að manninum hennar bráðvanti lögfræðing með góða sjávarútvegs-, kvóta- og enskukunnáttu og spyr hvort lögfræðingurinn hafi áhuga á starfinu.
Í þessari kynningu hef ég reynt að segja eins lítið og mögulegt er, því söguþráðurinn og sögufléttan í bókinni er, og held ég sé óhætt að segja, meistaralega vel gerð. Ólíkt öðrum bókum Arnaldar þá fann ég ekki vott fyrir ádeilu í þessari bók, en aftur á móti á málshátturinn “Flagð er undir fögru skinni” við þessa bók. Ég mæli eindregið með lestri á þessari stórgóðu bók.
3.2. Röddin (2002)
Dyravörður klæddur eins og jólasveinn finnst myrtur í kjallarakompu á frægu hóteli í Reykjavík á háannatíma rétt fyrir jól. Hann finnst með buxurnar niðrum sig og smokk á typpinu. Hann hafði verið stunginn margsinnis, reynt að verja sig, en verið síðan drepinn með stungusári í hjartað.
Erlendur Sveinsson og Sigurður Óli sjá um málið að vanda. Þetta er fimmta glæpasagan þar sem þeir félagar vinna saman. Erlendur er samt aðalsöguhetjan. Þetta mál, einsog öll hin, tekur hann afar nærri sér. Hann fær sér herbergi á hótelinu útaf ástæðu sem honum er ókunn, kannski til að fá öðruvísi einveru frá einverunni í íbúðinni, kannski til að vera nálægt morðstaðnum, eða kannski til að rifja upp óþægilega og kvalarfulla æskuminningu, hvort sem það er, þá eru það þunkir þankar.
Eva Lind, dóttir Erlends, er hætt öllu dópruglinu sem hún hefur verið í undanfarin ár og vill kynnast föður sínum betur. Sambandið þeirra batnar í bókinni. Erlendur kynnist konu á meðan rannsókn stenudr. Hún er meinatæknir á fertugsaldri, hún sýnir takmarkaðan áhuga til að byrja með, en sambandið þróast eilítið. Erlendur segjir henni frá atviki sem hann hefur ekki sagt neinum nema dóttur sinni er tengist barnæskunni.
Elínborg, ein af lögreglukonunum rifjar upp rannsókn, útaf réttarhöldum sem standa yfir föður sem talin er hafa ráðist á 8 ára son sinn og skilið hann eftir heima nær dauða en lífi og reynt að kenna einhverjum grunnskólakrökkum um verknaðinn.
Sagan er mest öll sögð á þessu fræga, ónefna, hóteli í Reykjavík. Er nokkuð augljóst, fyrir þá sem vita, að hugmyndin er kominn frá breska höfundinum Agöthu Christie, en hún lét margar sögurnar sínar gerast á einhverjum einum tilteknum stað (Murder on the Orient Express, Evil under the Sun o.fl.).
Æskuminningar, æskudraumar, einelti, börn, barnamisnotkun og þegar foreldrar yfirfæra drauma sína yfir á börnin sín er umræðan og ádeilan í bókinni.
3.3.Grafarþögn (2001)
Þetta er eina bókin sem ég hef ekki lesið og þar af leiðandi veit minnst um. Ég veit að hún hlaut Glerlykilinn 2003 og hefur verið þýdd yfir á þýsku.
3.4. Napeleónskjölin (1999)
Bókin byrjar í fortíðinni, nánar tiltekið 1945 er flugvél nauðlendir á Vatnajökli. Það er stormur og blindbylur. Einhver persóna úr flugvélinni leggur af stað frá vélinni í gegnum bylinn. Tveir bændur á býli rétt sunnan við jökulinn verða vitni að slysinu. Nokkru síðar er hjálparleiðangur á vegum bandaríska hersins sendur til að finna flugvélina. Miller höfuðsmaður leiðir hópinn. Síðan er ferðast til nútíðar, nánar tiltekið árið 1999.
Ung kona að nafni Kristín , lögfræðingur er vinnur hjá Utanríkismálaráðuneytinu, sér um ýmis mál er varða innflutning og útflutning til og frá Íslandi, fær undarlegt símtal frá bróður sínum Elías. Elías er á Vatnajökli ásamt Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur (FR). Hann og vinur hans Jóhann fengu leyfi frá liðstjóra FR til að prófa nýju snjósleðana. Í þessari afdrifaríku ferð sér hann hundruð hermanna vera stússast við einhverja flugvél, Elías hringir í systur sína og segir henni frá, síðan eru þeir teknir höndum og meðan símtalinu stendur. Þeir eru pyntaðir, þeim er hótað, og Elías fylgist með liðstjóra Bandaríska hermannanna, Ratoff, stinga bæði augun úr Jóhanni. Þeim er síðan hent ofaní jökulgjótu. Elías er enn á lífi en Jóhann er dauður.
Þessi bók er dæmigerður þriller, eftir atburðinn á jöklinum hefst ansi spennandi atburðarás þar sem Kristín reynir að finna útúr þessu samtali. Hún er elt af tveimur liðsmönnum Delta-sveitarinnar, fær aðstoð frá fyrrverandi kærastanum sínum Steve, sem er hermaður á Vellinum, og þau grafast fyrir um einhverja gamla flugvél á Vatnajöklinum og leynilegan leiðangur á sama stað.
Viðvera og tilgangur her BNA, leynilegar aðgerðir í seinni heimstyrjöldinni þar sem rætt var um samstarf bandamanna og nasista um innrás inní Rússland og að vissu leyti hvað Bandaríska ríkistjórnin sé tilbúinn að ganga langt í ósvífni og valdníðslu er umræðan og ádeilan í þessari bók.
Kvikmyndahandrit hefur verið unnið uppúr bókinni af sjálfum rithöfundinum, ekki er búið að ákveða hvenær handritið verður kvikmyndað.
3.5. Dauðarósir (1998)
Lík ungrar konu finnst við leiði Jóns Sigurðssonar í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu. Erlendur Sveinsson og Sigurður Óli eru fengnir til að rannsaka málið.
Þessi bók er í sérstöku uppáhaldi hjá mér, því fléttan og sú samsæriskenning sem kemur fram er afar trúverðug svo ekki sé minna sagt.
Persónurnar sem koma þarna fram er sumir hverjir holdgervingar einhvers tiltekins fyrirbæris. Við höfum Herbert Rothstein, sem heitir í raun Herbert Baldvinsson, hann er fíkniefnainnflytjandi, melludólgur og veruleikafirrtur glæpamaður, hann er holdgervingur undirheima Reykjavíkur sem býr í flottri villu með tvo bíla og telur sig vera Kana og lifir samkvæmt því. Kalmann er ósvífni viðskiptamaðurinn sem svífst einskis til að fá aðeins meiri auð í veldið, verktakastarfsemi, verslanir, sjávarútvegur og kvótabrask, auk kúgunar og annarra glæpsamlega hegðun þá er hann holdgervingur kapítalismans, þó sérstaklega í ljós þess hvernig endalok hans verða.
Morðmálið teygir anga sína til Ísafjarðar, til undirheima Reykjavíkur. Kaup á kvótum á Vestfjörðum, íbúðarbyggingar og verktakastarfsemi virðist að líkindum hafa sett þennan ógnvænlega atburð af stað.
Kvótabrask og fólksflutningur frá Vestfjörðum, fíklar, mellur, dólgar og öfuguggar, fíkniefna- og almenn -viðskipti og hvernig það hefur áhrif á Ísland og íbúa þess, er umræðan og ádeilan í bókinni.
Kvikmyndahandrit hefur verið unnið úr bókinni, en hvorki er byrjað né búið að ákveða hvenær á að kvikmynda handritið.
3.6. Synir duftsins (1997)
Þetta er fyrsta bók Arnalds sem gefin var út 1997 og naut hún nokkurra vinsælda. Synir duftsins gerði einnig öðrum reyndum og óreyndum íslenskum rithöfundum ljóst að hægt væri að gera nokkuð vel útpældan reyfara með fínni sögufléttu og vel skrifuðum persónum. Geðsjúklingur hoppar útúr glugga á sjöttu hæð á geðspítala og á sama tíma er gamall kennari úr Víðidalsskóla bundinn við stól og brenndur ásamt heimili og innbúi. Geðsjúklingurinn heitir Daníel og framdi sjálfsmorðið þegar bróðir hans Pálmi kom í heimsókn, kennarinn hét Halldór og kenndi Daníel í Víðidalsskóla 1967. Erlendur Sveinsson og Sigurður Óli rannsaka málið fyrir hönd Ríkislögregluembættisins, en Pálmi snuðrar einnig útaf torkennilegum skilaboðum sem bróðir hans sagði honum rétt áður en hann stökk. Einnig koma fram tengingar milli Daníels og kennarans auk undarlegum dauðaslysum, mannshvörfum og sjálfsmorðum á bekkjarbræðrum, jafnöldrum og vinum Daníels sem voru með honum í tossabekknum 6.L í Víðidalsskóla árið 1967.
Framför í vísindum, orsök og afleiðing, ólöglegar og ósiðferðilegar rannsóknir á börnum er umræðan og ádeilan í þessari bók.
4. Mýrin (2000)
Mýrin hlaut norrænu bókmenntaverðlaunin "Glerlykilinn" sem besta norræna spennusagan árið 2002 . Mýrin hefur verið þýdd yfir á dönsku, finnsku, sænsku, norsku, hollensku og þýsku. Baltasar Kormákur, leikari og leikstjóri, hefur verið fenginn til að kvikmynda bókina og má búast við henni á næstu árum.
Þetta er eflaust frægasta skáldsaga Arnalds og með þeim betri bókum sem ég hef lesið.
4.1. Söguþráður
Roskinn maður á sjötugsaldri finnst látinn í kjallaraíbúð sinni á Norðurmýri. Hann finnst liggjandi á grúfu, með brotna hauskúpu. Stór og sterkbyggðu öskubakki liggur á borðinu útataður í blóði. Hann var greinilega myrtur.
Erlendur Sveinsson og Sigurður Óli eru fengnir til að rannsaka málið. Maðurinn heitir Holberg og var góðkunningi lögreglunnar, hann hefur setið inni fyrir smávægilega glæpi, svosem þjófnað, líkamsárás og hraðakstur. Þegar þeir gramsa betur í íbúðinni hans, finna þeir gamla ljósmynd af legsteini sem er merktur með kvenmannsnafni. Auður.
Rannsókn á nafninu leiðir til þess að þessi einstaklingur hafði eingöngu komist í kast við lögin fyrir smáhluti, því hann hafði aldrei setið inni fyrir sína svívirðilegustu glæpi, en hann var forhertur nauðgari. Bakgrunnur Holbergs er athugaður betur og kemur í ljós að hann var í tygjum við tvo einstaklinga, Grétar, sem hvar þjóðhátíðarhelgina 1974 og Elliða, stórglæpa- og misyndismaður. Þeir höfðu ferðast mikið útum landið.
Einkalíf Erlends blandast inní málið, þegar dóttir hans, Eva Lind biður hann um greiða, að finna vinkonu sína sem lét sig hverfa úr brúðkaupsveislunni sinni, auk þess tilkynnir Eva Lind honum Erlendi í fíkniefnavímu að hún sé ólétt. Hann reynir, einsog svo oft áður, að reyna koma einhverju vit í kollinum á henni og benda henni á skaðsemi fíkniefna á fóstur. En í þrjósku sinni, sem hún fær eflaust frá föður sínum, heldur hún áfram, sníkir pening og lætur sig hverfa.
Erlendur athugar málið fyrir dóttur sína, ferðast til Garðabæjar og talar við foreldra stelpunnar, síðan til Kópavogs og talar við brúðgumann. Hinn nýbakaði eiginmaður virðist ekki vita hvað hafði ollið því að brúðurin lét sig hverfa svona stuttu eftir brúðkaupið, og skilur ekki af hverju allir halda að þetta sé honum að kenna. Erlendur kemst lítið sem ekkert áleiðis með þetta, en gerir sitt besta.
Rannsóknin á ljósmyndinni sem fannst í íbúð Holbergs, sýnir að Auður þessi fæddist 1964 og dó fjögurra ára gömul, móðir hennar hét Kolbrún, sem svipti sig lífi 1971, þremur árum eftir dauða dóttur sinnar. Þessi uppgötun rekur málið til Keflavíkur, þar sem Kolbrún og Auður bjuggu. Erlendur reynir að ná tali af systur Kolbrúnar, Elín, sem neitar að ræða við hann, útaf því að hún hefur óbeit á lögreglumönnum, ”Eftir allt sem þið gerðuð henni!” (bls. 52).
Erlendur snýr sér þá að fyrrverandi lögreglumanni sem sá um málið 1963, Rúnar. Rúnar þess er kominn hátt uppí áttræðisaldurinn, en í staðinn fyrir aldraðan og veiklulega mann, sér Erlendur viðurstyggilegan viðbjóð sem hefði átt að vera rekinn úr lögreglunni með skömm fyrir löngu. Rúnar hafði gert lítið úr nauðgunarkæru Kolbrúnar og flæmdi hana burt af lögreglustöðinni á sínum tíma. Erlendur spyr hann hvort hann hafi þekkt Holberg. Að lokum samtalsins við Rúnar, fer hann aftur til Elínar og reynir að tala við hana, hún þrætir en. Erlendi tekst samt að sannfæra hana. Elín segir frá systur sinni, hvað hún var feiminn og viðkvæm, einnig að Holberg hafði nauðgað henni tvisvar sinnum.
4.2. Sögusvið
Sagan gerist að mestu leyti á höfuðborgarsvæðinu; Reykjavík, Kópavogur og Garðabær. Þetta tiltekna morðmál teygir líka anga sína til Keflavíkur og Húsavíkur.
Það góða við nær allar bækurnar hans er að Reykjavík er ekki eina sögusviðið, en því miður er Reykjavík miðpunkturinn í öllum sögunum hans. T.a.m. í Napóleonsskjölunum ferðast söguhetjan um Miðnesheiði, Höfn, Vatnajökul, Mexíkó og Suður-Ameríku. Stór kafli í Dauðarósum gerist á Vestfjörðum, Synir Duftsins fer til Hvolsvallar. Bettý til norðurlands. Eina saga sem gerist eingöngu í Reykjavík, í einu húsnæði, er hið fræga ónefnda hótel í Röddinni.
4.3. Persónur
Erlendur Sveinsson, er aðalsöguhetjan í öllum glæpasögum Arnalds; Dauðarósir, Mýrin, Grafarþögn, Röddin, einnig glittir í hann, en er ekki nefndur á nafn, í Napóleonsskjölunum og Bettý, en lýsinginn á honum, útlit og hegðun, er nákvæmlega einsog maður þekkir hann úr Mýrinni, Dauðarósum og Röddinni. Arnaldur ætti ekki að vera smeykur við að nefna Erlend í öðrum bókum þó hann sé ekki aðalsögupersónan. Erlendur kemur fyrst fram í Synir Duftsins ásamt Sigurði Óla félaga sínum. En hann er ekki aðalsöguhetjan í þeirri bók. Arnaldur gerði Pálma að söguhetjunni í Syni Duftsins.
Erlendur er fullkomin íslensk noir-sögupersóna, hann er fimmtugur reykingamaður, sterklega byggður, með stóra hnefa. Hann er ómenntaður en með gífurlega lögreglu-reynslu að baki sér, hann gengur í rykfrakka og með hatt, hann er kreddufastur þjóðernissinni, með ótrúlega ályktunarhæfni, tilfinningalega lokaður, skynsamur, athugull, töffari. Hann kemur sér oftast strax að efninu, hann reiðist mjög fljótt, greinir lygi um leið hún kemur í ljós, þykir vænt um þá sem eru honum næst, þó hann vilji sjaldan sýna né viðurkenna það. Einrænn, ófélagslyndur, veikur fyrir pelanum. Hefur dálæti á íslenskum skáldskap, þjóðlegum fróðleik og hrakningasögum. Þunglyndur og þrjóskur. En það sem skiptir mest máli, og það sem gerir Erlend að spennandi söguhetju er, að hann er trúverðugur, honum er vel lýst og hann fær auk þess allar bestu línurnar.
Hann er fráskilinn, skildi við konu sína Halldóru Guðmundsdóttir árið 1977, stuttu eftir að sonur þeirra, Sindri Snær, fæddist. Þau áttu fyrir eina dóttur, Eva Lind, sem fæddist 1976. Í Synir duftsins eru krökkunum hans lýst sem vandræðagemsum. Eva Lind er fíkniefnaneytandi og stundar vændi, Sindri Snær er alkohólisti og ræfill, sem fer á meðferðarheimili til að gista. Eva Lind reynir að kynnast pabba sínum í nokkrum bókum. Í Mýrinni reynir hún að hætta öllu rugli, og það er ekki fyrr en í Röddinni þar sem hún nær einhverju sambandi við föður sinn. Þetta er frekar stirt samband á milli þeirra í byrjun, en það batnar alltaf og batnar með hverri bók. Persónan, Erlendur, hefur mótast alveg gífurlega vel, og verður líka betri og betri með hverri bók. Maður fær meira innsæi og veit meira um einkalífið hans.
Sigurður Óli, er félagi Erlends. Hann er hámenntaður, útskrifaðist úr stjórnmálafræði í Háskólanum, fór til BNA til að stunda nám á glæpafræði sem hann lauk með láði. Hann er snyrtipinni, gengur í nýjustu tískufötunum, opin, nútímalegur, uppalegur, hamingjusamlega giftur Bergþóru , sem hann kynntist í Dauðarósum. En hún var sjónarvotturinn sem koma að líkinu í kirkjugarðinum. Sigurður Óli er í raun algjör andstæða Erlends. En þeir vinna vel saman og koma ágætlega saman líka, þó að það komi kaflar og tímar þar sem þeir þola ekki hvorn annan. En er það ekki sannur vinskapur?
Marion Briem er fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður og lærifaðir Erlends. Þegar Marion verður var við fréttir í útvarpi, sjónvarpi eða dagblöðum varðandi undarlegan glæp, til að mynda morð, þá hringir hann oftast í Erlend til að ausa úr sínum viskubrunni ef Erlendur hefur áhuga á. Hann kemur stundum til hjálpar í sumum sögum með viðeigandi vísbendingu.
Síðan eru það nokkrir lögreglumenn, tæknideild, meinafræðingar og fleiri, sem sjaldan eru nefndir á nafn. Undantekningin er Elínborg sem er oftast í teyminu þeirra Erlends og Sigurðs, en þó fær maður lítið sem ekkert að vita um hana. Þorkell er annar sem kemur eilítið fram, og einsog með Elínborg, þá eru sama sem engar gagnlegar upplýsingar um hann. Ég tel þetta vera dálítinn galla, fyrir utan að vera lesa um morðmál, þá blandast einkalíf ýmissa persóna, þó sér í lagi Erlends, inní sögufléttuna. Elínborg hefur komið fram í öllum sögunum með Erlendi og Sigurð Óla, og það litla sem maður veit er að hún bakar og eldar vel og tekur öll barnaníðingsmál inná sig.
Við höfum síðan nokkur illmenni. Holberg, hefur verið drepinn, en Erlendur og Sigurður Óli senda tölvuna hans til tæknideildar lögreglunnar, þar sem þeir finna allskonar klám, frá eðlilegu ólistrænu kynlífi milli tveggja fullorðna einstaklinga til sódómískra níðingsháttar á litlu börnum. Einnig kemur hann kemur fram í leifturminninga-köflum. Honum líka lýst af Elínu, systur Kolbrúnar, sem óbermi og viðbjóði. Við kynnumst gömlum vin Holbergs sem dúsir á Litla-Hrauni, Elliði, sadisti, níðingur og glæpamaður, situr inni fyrir stórfellda líkamsárás. Við fáum lýsingu á Grétari, sem er horfinn, einsog jörðin hafi gleypt hann árið 1974, og þrátt fyrir mikla leit hefur hann en ekki fundist, er hann talinn hafa flúið land eða verið myrtur. Við höfum fyrrverandi lögreglumannsóbermið Rúnar sem lítillækkaði Kolbrúnu og hafði meiri áhuga á rifnu nærbuxunum hennar, sem var hennar eina sönnunargagn um að nauðgun hefði átt sér stað, en hann hafði á sjálfum glæpnum.
Persónurnar í bókunum er margar hverjar vel heppnaðar, vel skrifaðar, trúverðugar og áhugaverðar. Arnaldi hefur tekist afar vel til að skapa persónur sem hægt er samsvara sig við á einhvern hátt, í gegnum sjálfan sig eða einhvern sem maður þekkir.
5. Lokaorð
Sögurnar í bókunum eru úthugsaðar, vel skrifaðar, í mörgum tilfellum, trúverðugar og söguflétturnar koma oft á óvart. Honum hefur tekist að skapa trúverðugar aðstæður, komið með atburði sem samsvarar sig í íslenskum raunveruleika og hefur náð að lífga uppá spennusagna-markaðinn á Íslandi og gert almenningi og rithöfundum, reyndum jafnt sem upprennandi, ljóst fyrir því að Ísland getur verið spennandi viðfangsefni fyrir reyfarasögur.
Morðmál eru afar fágæt hér á landi, einsog kemur ósjaldan fram í bókunum, þá eru íslensk morðmál subbuleg, nær oftast framin af gáleysi eða ölæði og alltaf er nóg af vitnum, þar af leiðandi eru þau auðveld viðfangsefni fyrir lögregluna til að kljást við. En stundum spretta upp mál sem eru afar grunsamleg og virðist af öllum líkindum vera framinn af yfirlögðu ráði, einsog líkfundurinn á Neskaupstað fyrr á árinu. En Arnaldur Indriðason fékk eflaust bestu gagnrýni á meðan rannsókn málsins stóð sem hæst, en þessu einkennilega máli var líkt við “eitthvað úr spennusögum Arnaldar Indriðasons.” Enda höfðu öll mál fyrir 1997 verið líkt við eitthvað úr spennumyndum Hollywoods eða glæpasögu Agöthu Christie.
Óhætt er að mæla með lestri á bókum Arnalds, enda, einsog ég hef komist að orði, er hér á ferðinni afar beittur og góður penni, með afar gott og frjótt ímyndunarafl. Honum hefur tekist, sem fáum öðrum íslenskum rithöfundum hefur tekist, er að gera góðar spennusögur sem nær alfarið gerist á Íslandi með afar vel heppnuðum árangri.
Þetta hefur bara verið sérdeilis skemmtilegt verkefni sem lífgaði uppá þann litla áhuga sem ég hafði á þessum höfundi og hef ég ekki séð eftir öllum þeim lestri undanfarnar þrjár vikur. Vona að lesandi hafi skemmt sér vel og vona einnig að ég hafi ekki skemmt áhuga á bókum Arnalds Indriðasonar.

Takk fyrir

6. Heimildir
1. Arnaldur Indriðason. 1997. Synir duftsins. Vaka-Helgafell, Reykjavík.
2. Arnaldur Indriðason. 1998. Dauðarósir. Vaka-Helgafell, Reykjavík.
3. Arnaldur Indriðason. 1999. Napoleónsskjölin. Vaka-Helgafell, Reykjavík.
4. Arnaldur Indriðason. 2000. Mýrin. Vaka-Helgafell, Reykjavík.
5. Arnaldur Indriðason. 2002. Röddin. Vaka-Helgafell, Reykjavík.
6. Arnaldur Indriðason. 2003. Bettý. Vaka-Helgafell, Reykjavík.
7. Borgarbókasafn. 2003. Valflokkur “Arnaldur Indriðason”, ábm.: Kristín Viðarsdóttir. Vefslóð:
http://www.borgarbokasafn.is/bokmenntavefurinn.nsf/pages/index.html

Bækur
Undir Oki Siðmenningar eftir Sigmund Freud
Bláa Bókin eftir Ludwig Wittgenstein

Auk þess tók ég bækur er fjalla um miðtaugakerfið og fíkniefni, líf- og líffærafræði. Er einnig með bók sem heitir "Fötlun og Samfélag" sem ég hef aðeins gluggað í. Las einni lítin kafla sem fjallar um fötlun fyrr á öldum, og það er hreint út sagt ótrúlegt hvað hvíti maðurinn er mikið óbermi.

Kína á öldum áður, og ef til vill ennþá dag í dag, báru mikla virðingu fyrir þroskaheftum, lömuðum, blindum, heyrnalausum, daufdumbum einstaklingum rétt einsog þeir báru mikla virðingu fyrir hvor öðrum. Kínverjar komu fram við fatlað fólk einsog þeir komu fram við eðlilegt fólk og þetta var almenn skynsemi. Hvað gerir hvíti maðurinn á meginlandi evrópu og víðar? Jú, sendu "fávitana" í fávitaskipin, bátar sem sigldu um heimshöfin stútfullt af fötluðu fólki, fötluð börn voru borin út, hent út í á, drepin. Meðferð á geðsjúkum var köld sturta og barsmíðar í margar aldir. Hér er kenning:
"Það er í eðli hvíta mannsins að flokka "æðri" frá "óæðri" og vanvirða alla í kringum sig"
Ég fékk athugasemd, einsog svo oft áður, frá góðum vini mínum um að, svo maður lengi orðalagið; "Hættu að planta öllum þessum löngu línum hérna í eina dagsetningnu, bíða svo í eina til tvær vikur, jafnvel lengur, og planta síðan einhverju aftur, það bara gengur ekki, fjandinn hafi það! Skrifaðu allavega einu sinni á dag, þó það væri ekki nema annan hvern dag! Dísus kræst, djöfull klæðiru þig asnalega líka, þú átt að vera í rifnum gallabuxum, það er kúl, einsog ég!" En síðasta línan er meira það sem ég held að hann sé að segja við bróðir sinn núna. En að öðru leyti er ég alveg sammála honum.

En málið er einfaldlega það, að ég sækist ekkert mikið eftir því að fara í tölvuna, eða að fara á netið, ég er ekki lengur sá tölvunörd sem ég eitt sinn var. Ég nota tölvuna nær eingöngu til að skrifa ritgerðir, kannski einhverjar hugleiðingar sem ég sjaldan klára, leita af einhverjum upplýsingum, og ef ég vill spila tölvuleiki, þá fer í PS2. Kannski að sú staðreynd að ég á ekki tölvu hafi gert mig að tækni-einbúa sem les bara bækur.

föstudagur, mars 12, 2004

Hér er heimildaritgerð um Kvísker sem ég skrifaði fyrir ÍSL203, fyrir þá sem hafa gaman af:
Kvísker: Náttúra og Byggð
• Inngangur
• Um Kvísker og Öræfasveit
• Náttúran á Kvísker
• Byggð og búskapur á Kvísker
• Fjölskylda Björns Pálssonar
• Lokaorð
• Heimildaskrá

Inngangur
Kvísker hefur oft verið ofarlega á baugi hjá mér. Ég man eftir mér þar er ég var 11 ára í berjamó með fjölskyldunni um hásumar, man að veðrið var æðislegt og náttúran í kring gullfalleg, ég man eftir rafmagnsbílnum úr trefjaplasti, man eftir þeim tækjum og tólum sem þeir notuðu til að mæla mismunandi veðráttu og rigningu. En ég hef ekki farið til Kvískerja síðan, og það eru liðin næstum 13 ár.
Kvísker eru nú aðallega þekkt fyrir fræðimennsku Kvískerja-bræðra, þá Sigurð, Helga og Hálfdán Björnsyni, en þó hafa margir spakir menn búið á Kvískerjum á undan þeim.
Ég byrjaði, því miður, allseint að afla mér heimilda og upplýsinga um Kvísker, og það hefði geta komið sér til að góðs að fara þangað og eflaust hefði maður getir drukkið úr viskubrunni þeirra bræðra. Ég hafði ætlað mér að fara til Kvískerja, en sökum anna og annarra ófyrirsjáanlega atburða hefur mér ekki tekist það ætlunarverk. En ég mun láta verða af því í náinni framtíð.
Þessi ritgerð er byggð á þeim heimildum sem ég fann um Kvísker og reyni ég að setja þetta fram á skipulegan hátt.

Um Kvísker og Öræfasveit
Kvísker er austasti bærinn í Öræfum og er afar tignarlegur og fallegur staður. Bærinn stendur undir Bæjarskeri, og við Bæjarsker er stöðuvatn er heitir Stöðuvatn. Norður af Kvískerjum má sjá Breiðamerkurfjall og vesturmeginn má sjá Hvannadalshnúk, en Öræfajökull gnæfir yfir býlið í öllu sínu veldi. Austan við Kvísker er Breiðamerkur-sandur, en næsti bær er Hnappavellir er liggur u.þ.b 13 km vestan við Kvísker, en næsti bær til austurs eru Reynivellir og 28 km er á milli.
Öræfasveit hefur gjarnan verið kallað “Sveitin milli sanda”, því sveitin er aðskilin af Skeiðarársandi og Breiðamerkursandi. Byggðin í Öræfum hefur átt erfitt uppdráttar sökum náttúruhamfara, t.a.m. jökulhlaup og þó sérstaklega eldgos úr Öræfajökli, sem lagði byggðina í eyði árið 1362.
En mannsandinn er þrjóskur, og byrjað var að byggja í Öræfunum aftur upp undir 16. öld, og hefur byggð haldist þarna meira og minna síðan. Á Kvískerjum hefur byggð haldist nær órofin í 180 ár, en íbúar hafa flæmst þaðan sökum náttúruaðstæðna, og var skilgreint sem eyðibýli í byrjun og lok 18. aldar, en margar fjölskyldur hafa búið þar síðan. Meira um það seinna.

Náttúran á Kvískerjum
Náttúruaðstæður hafa gjörbreyst á Kvískerjum á undanförnum 100 árum. Má það rekja til hopandi skriðjökla, sem olli því að áin Hrútá færðist í betri farveg, en hafði gjarnan flæmst yfir akra og tún, og eyðilagt uppskerur og, einsog áður segir, flæmt burt íbúa Kvískers öldum áður til nærliggjandi sveita.
Á Kvískerjum er gróður- og dýralíf frekar fjölbreytt. Af gróðrinum má nefna að þar finnst plantan glitrós, og er talið að þetta sé eini staðurinn á landinu þar sem sú planta vex og er nú friðlýst svæði. Einnig má nefna sjöstjörnu, klettaburkna, svartburkna, auk þess hafa Kvískerjabræður tekið þátt í að finna og skrá hátt uppí 300 aðrar plöntur og tré, meðtalið 12 undafífla.
Á Kvískerjalandi má finna þrjú mikil og margbrotin gljúfur er heita Vattárgljúfur, Hellisgil og Múlagljúfur. Vestast er Vattárgljúfur og er allmikið af fossum. Gljúfur þetta er einfaldlega nefnt Gljúfur hjá sveitungum. Það þrengist og dýpkast þegar innan dregur og er sá staður nefndur Þrengsli. Vestan við Gljúfur er Vatnafjallamosar og Vatnafjallaegg er liggur að Kvíárjökli, þar er mikið af líparíti, er Sveinn Pálsson minntist á að hafa fundið í ferðasögu sinni:
“Svört hrafntinna, en ólík hinni venjulegu í því, að hún virðist vera alsett litlum örðum í sárið og neistar mjög við stál. […] steinar af þessu tagi finnast auk þess á víð og dreif í fjöllunum kringum Kvísker”
-Ferðasaga Sveins Pálsonar, blaðsíða 279

Smá spotta frá Kvískerjum er Hellisgil, þröngt er við mynnið en breikkar síðan þegar lengra er komið, og er fagurt þar um að líta. Foss lokar leiðinni inn eftir gilinu, en við Þrengslin má greina Stafn og Urðargil. Morsurák er sunnan megin við gilið, er þar hellir sem nafnið Hellisgil er komið af. Austan við brún gilsins eru Hnausar, en vestan við er fjallið Hnúta.
Norðvestur af Kvískerjum er Múlagljúfur, fellur þar er foss í ánni Múlakvísl, sem steypist úr Rótarfjallsgili og sameinast Hrútá. Sunnan við Múlagljúfur er hægt að sjá fornar jökulöldur er kallast Bringur og einnig skógivaxnar torfur og blágrýtismelar.
Í kringum Kvísker er margt hægt að sjá og skoða, og er þessi bær algjör paradís fyrir bæði upprennandi jafnt sem lærða náttúrufræðinga, grasafræðinga og líffræðinga, sem vilja læra meira um líf, gróður og náttúru Íslands.
Sveinn Pálsson, læknir, sem ég minntist aðeins á, ferðaðist mikið um landið. Hann tjaldaði á túninu á Kvískerjum 9. og 10. ágúst, 1793 og lagði svo af stað upp Öræfajökul til að staðfesta hugmynd sína um að hægt væri að komast yfir jökulinn frá Kvískerjum. En Sveinn gekk Öræfajökull norður á miðjan Vatnajökull og í þessarri ferð varð Sveini ljóst um eðli skriðjöklana. Þó svo að fræðimennskan á Kvískerjum hafi ekki verið fræg fyrr en á 20. öld, þá á hún sér nokkuð langa forsögu.

Byggð og búskapur á Kvískerjum
Það eru líkur á því að byggð hafi verið á sömu jörð og Kvísker stendur nú á þriðju öld eftir kristsburð, en er það óstaðfest. Jarðbergskvikur sem grafnar voru upp á vegum Þjóðminjasafnsins segja að það sé hugsanlegt. Annars er staðfest að byggð hafi verið á Kvískerjum 1343, en í fyrstu ritaðu heimildinni um Kvísker er að finna í öðru bindi Fornbréfasafns frá sama ári, en þar segir “ Í Kvískerja land skóg í milli Kambskarðs og Vattarár slíkur sem hann er.” En það líður langur tími þartil ritað er um jörðina aftur.
Árið 1522 er þess getið að Teitur einn Þorleifsson eignast staðinn, en hann er ei lengi í hans eigu því hann selur jörðina til Skálholtsstól árið 1525 þann 26. júlí, en hefur á þessum þremur árum gert jörðina vænlegri til gróðurs og akuryrkju. Ekki er jörðin lengi í eigu Skáltholtstóls, því sama ár selur Ögmundur biskup Kvísker, ásamt Hofi og Breiðármörk, til Ásgríms Ásgrímssonar, með því skilyrði að Ögmundur eignast þau tré sem eru hærri en fjórir metrar.
Það er sagt síðan að árið 1661 var jörðin í eigu Brynjólfs Sveinssonar biskup. En ábúandinn var Guðmundur Eggertson, og hafði búið þarna í tæp 17 ár. Húsin þarna er víst eitthvað lítil, en það sjást nú í dag einhverjar tætlur af þeim mannvirkjum sem voru þarna.
Í byrjun 18. aldar, 1701, býr Stefán Sigurðarsson á Kvískerjum, og er lítið vitað um búskap en meira um ættina. Hann dó nokkrum árum seinna, en ekkjan hans bjó þarna áfram. Niðjar Stefáns halda áfram búskap þarna í einhvern tíma. Sonarsonur hans, Þorsteinn Sigurðarsson að nafni, fluttist frá Hnappavöllum og settist að Kvískerjum 1777, eftir að hafa keypt alla jörðina. Hann giftist ekkju einni, er átti tvo drengi fyrir, en hún dó fljótlega sökum barnsfara. Þorsteinn giftist aftur, heimasætu frá Kálfafelli að nafni Guðrún Vigfúsdóttir, þau eignuðust sjö börn. Þau eignuðust Svínafell og fluttust þangað 1791.
Kvísker fellur í eyði. Sveini Pálsson finnst það miður hvað jörðin er ekki nýtt, því þegar hann kemur þarna að í leiðangri sínum, ritar hann í bókina sína þetta:
“ […] og einnig kringum Kvísker voru þau mestu kynstur af krækiberjum, sem ég hef séð til þessa. Kvísker eru nýlega komin í eyði, en gætu vel framfleytt lítilli fjölskyldu. Þar er jafnvel dálítið skógarkjarr til eldiviðar, en ekki á öðrum bæjum í Öræfum nema á Skaftafelli.”
-Ferðasaga Sveins Pálssonar, blaðsíða 278

En árið 1796 er nýtt fólk komið í Kvísker, Þorsteinn Þórðarson frá Hofi og kona hans Guðrún, en þau fengu jörðina leigða hjá Þorsteini Sigurðssyni, en Guðrún var gift Ófeigi, bróðir Þorsteins. En þau bjuggu þarna til 1802.
Sonur Þorsteins Sigurðarsonar, Vigfús, flytur í bæinn sama ár, ásamt konu sinni Vilborgu Árnadóttur frá Svínafelli. Þau búa þarna í eitt ár.
Hjón frá Lækjarhúsum í Hofi, þau Jón Eiríksson og Ingibjörg Þorvarðardóttir búa þarna frá 1805-1811. Árið 1812 taka við ung hjón með eitt barn Eiríkur Bjarnason og Guðný Einarsóttir, en voru þarna mjög stutt, því Eiríkur féll niður Ingólfshöfða sama ár. Páll Jónsson og Rannveig Þorláksdóttir flytja inn þetta ár og eru þar til 1817. Árið 1818 tekur Bjarni Þorsteinssonar við búinu og býr þar til dauðadags 1848. Hann giftist Krístínu sem bjó þarna áfram með börnunum, en árið 1860 gekk mjög mannskæð sótt yfir sveitina og dó Kristín og börnin hennar þrjú úr smitandi lungnabólgu.
Vorið 1863 fluttu inn hjón, Sigurður Ingimundarsson og Guðrún Pálsdóttir frá Hnappavöllum, með fimm börn; Helga, Páll, Guðrún eldri, Guðrún yngri, og Guðný. Guðrún Bjarnardóttir, dóttir hennar Kristín og Kjartan Þorláksson, 19 ára uppeldi-sonur hennar, voru á Kvískerjum fyrir. 1870 andaðist Guðrún Bjarnadóttir, og ánafnaði hún jörðina til Sigurðar.
Sigurður þessi var nokkuð liðtækur í sýslunni, og afrek hans voru þó nokkur sem gagnaðist sýslunni mjög. Hann var t.a.m sendur, ásamt einum öðrum, að semja við Johnsen kaupmann um að koma á Papós, sem varð til mikilla hagsbóta. Alls-herjar-landsfundur var haldinn á Þingvöllum vorið 1873, og áttu tveir menn að koma úr hverri sýslu. Sigurður var kosinn ásamt Jóni Jónsyni frá Hólum. Samkvæmt fundar-gerð frá fundinum, var Sigurður nokkuð óhræddur að taka til máls og segja það sem honum fannst ábótavant.
Hann ferðaðist til Rangárvalla, eftir stutta viðkomu í Reykjavík, þar sem hann skoðaði kornmyllu sem knúinn var af bæjarlæknum, einnig skoðaði hann vatnsveitur á engjum. Seinna þegar hann kom aftur til Kvískerja, byggði hann myllu eftir fyrir-myndinni sem hann sá á Rangárvöllum. Þetta var hið mesta furðuverk, en það leið ekki á löngu fyrr en vatnskúnar myllur voru komnar á hvern bæ í sýslunni.
Einnig var hann ötull baráttumaður fyrir stofnun félagskaps sveitunga sem væri til hagsbóta við búskapinn. Það dróst til ársins 1883 þegar Búnaðarfélag Öræfinga var stofnað. Þó að Sigurður hafði unnið mest að þessu félagi, þá var sr. Sveinn Eiríksson ráðin sem fyrsti formaður.
Sigurður var valin sem sýslunefndsmaður, og síðan varð hann hreppstjóri frá 1881 til dauðdags 5. nóv 1891.
Guðrún eldri, dóttir Sigurðar, giftist Páli Jónssyni frá Svínafelli, skömmu fyrir dauða Guðrúnar konu Sigurðar 1877, en hún lést 57 ára gömul.
Frá 1891 til 1900 bjuggu þar nokkrar mismundandi fjölskyldur og hver bjó þar í skamman tíma. Árið 1901 flutti að Kvískerjum ungur maður, 22 ára gamall, Björn Pálsson að nafni, sonur Guðrúnar eldri Sigurðardóttur frá Kvískerjum og Páli Jónssyni frá Svínafelli. Með honum voru systur hans, Guðrún, Ljótunn og Sigríður, sem allar voru yngri en hann.

Fjölskylda Björns Pálssonar
Björn og Þrúður giftust 1905 og bjuggu þau á Kvískerjum til dauðadags. Þau eignuðust níu börn, er fæddust á árunum 1906-1927 og heita Flosi, Ari, Guðrún eldri, Guðrún yngri, Páll, Sigurður, Ingimundur, Helgi og Hálfdan. Á lífi eru Sigurður, Helgi og Hálfdán og hafa þeir búið á Kvískerjum alla sína ævi.
Björn, eins og afi hans Sigurður, var mjög liðtækur í sveitinni. Það kom mjög oft í hlut Kvískerjabænda að fylgja mönnum austur fyrir Jökulsá. Dálítill styrkur var gefinn sökum þess, vegna póstferða Eyjólfs á Reynivöllum. Birni var falið að fara með póstinn líka ef Jökulsá var ekki fær. Tvisvar kom það fyrir í tíð Björns að skip strandaði rétt hjá Kvískerjum, og má segja að það var mikið happ fyrir sjómennina að byggð var á Kvískerjum.
Björn fékk magasár um 1915, var ráðlagt að hann þyrfti að fara í uppskurð til Reykjavíkur, hann fór seinnipart sumars sama ár. Þar var hann rannsakaður, og talið var að lækna mætti magasárið með meðulum, og þurfti því ekki að fara í uppskurð. Á Suðurlandi sá hann hvernig kerrur voru notaðar, og hugsaði sér að hægt væri að nota þær líka í Öræfasveitinni. Er hann kom aftur heim til Kvískerja, fékk hann öxul, kerruhjól og aktygju, og smíðaði heygrind á hjólin, faðir hans hafði keypt kassakerru 1905, og Björn tók þá kerru og útfærði eftir sínum hentugleika. Þar var hann kominn með tvær heygrindur, sem hann notaði til að flytja hey. Óneitanlega vakti þetta mikla athygli hjá sveitungum, er komu til að skoða þessi furðuverk. Björn bætti við sig þremur kerrum í viðbót, og ekki leið á löngu þartil að allir bændur í Öræfunum voru komnir með kerrur.
Björn var nokkuð mörg ár í sveitastjórn, og var einnig oddviti frá 1907 til 1910, en baðst undan sökum langra vegalengdar milli annarra hreppsnefndarmanna. Björn var ansi fróður maður, hafði t.a.m. unnið aðeins hjá sr Ólafi Magnússyni, sem kenndi honum á kvöldin reikning, réttritun og dönsku, sem kom sér mun betur en launin. Hann tók þátt í Ungmennafélag, sem stofnað var 1911, og hann hjálpaði við að safna fjármunum til að byggja hús undir félagið. Hann skráði sig og sína tvo syni í lestrarfélag þar í sveit.
Rafstöð var sett upp á Kvískerjum 1927, sem var nægilega öflug fyrir þennan litla bæ. Rafstöðin var endurbætt 1955 af Kvískerjabræðrum. 1942 var keyptur vörubíll, og 4 árum seinna var keyptur herbíll með drif á öllum hjólum. Má með sanni segja að þessi fjölskylda hafi verið afar tæknilega sinnuð.
Vorið 1953 gekk slæm inflúensa um sveitina, og Björn andaðist 14 maí. Þrúður bjó áfram með börnunum sínum, þar til hún andaðist 5. febrúar 1968.

Kvísker er án efa þekktust fyrir vísindastarf Kvískerjabræðra. Eins og áður segir, eru þrjú af þeim níu systkinum enn á lífi; Sigurður, Helgi og Hálfdan. Þeir eru ötulir náttúrufræðingar, líffræðingar, sagnfræðingar, jöklafræðingar, lífræðingar, í tveimur orðum: Sjálfmenntaðir “Háfræðingar”
Þeir hafa skrifað mikið af greinum sem birst hafa í ýmsum vísinda- og fræðiblöðum bæði hérlendis og erlendis, þeir hafa hjálpað fjöldanum öllum af innlendum og erlendum vísindamönnum að rata um Öræfin, fjöllinn og jökulinn. Þeir hafa rannsakað og skrásett fjöldann allan af plöntum, fuglum, skordýrum og öðrum kvikindum, innlendum eða sem hafa flæmst hingað frá fjarlægum löndum sökum óveðurs.
Hálfdan er allþekktur náttúru- og líffræðingur, hann á yfir 200 flugutegundir af 300 tegundum sem til eru á landinu, 160 af 180 bjöllutegundum og allar fiðrildategundir nema eina af þeim 82 sem til eru. Hann hefur hjálpað til við að finna og skrásetja þær 343 fuglategundir sem til eru á landinu, og hefur komið sér upp ágætis skógarjaðri við Kvísker til að “veiða” fuglana. Þeir eru allir bræðurnir mjög fróðir, hver á sínu sviði, og frægir eru þeir fyrir framlag þeirra til náttúrfræði fyrst og fremst, en þó er dæmi um frægðarsögu sem tengist vísindum á engan hátt.
Sigurður varð fyrst allþekktur árið 1936. En síðla dags þann 7. nóvember, voru hann og Gunnar Þorsteinson frá Hofi að leita að kindum á fjallshlíð Breiðamerkurfjall, en urðu fyrir því óhappi að snjóflóð féll á þá. Gunnar kastaðist frá, og lenti ekki undir, en Sigurður hrapaði niður hlíðina og lenti alla leið niður undir jökulröndina. Gunnar leitaði að Sigurði, en án árangurs. Hann fór til Kvískerja til að fá hjálp. Slysstaðurinn var 3-4 tíma gangur frá bænum og þegar að slysstaðnum var komið, var kominn myrkur og þurfti þá að bíða með leitina til morguns. Það töldu flestir að Sigurður hefði ekki komist lífs af.
En að morgni var leitinni haldið áfram , en grípum aðeins í það sem Sigurður sjálfur sagði í bók Ómars Ragnarsonar "Fólk og firnindi - stiklað á skaftinu":
“Ég var alltaf að synga, söng mest sálma en ýmis góð kvæði flutu þó með. Ég bjóst við því að klukkan myndi vera tíu til ellefu og var að syngja "Lofið vor drottin". Ég var einmitt að hugsa um að nú myndu leitarmennirnir vera að koma er ég heyrði nafn mitt verað en heyrði þó ekki svo greinilega að ég væri viss um þða. Rétt á eftir heyrði ég að kallað var sterkum rómi: "Siggi!" Ég þekkti að það var Palli bróðir minn sem kallaði og ég kallaði strax: "Já!", "Þú ert þá lifandi," kallaði Palli. "Já og meira að segja ómeiddur" svaraði ég”
- Fólk og firnindi – Stiklað á skaftinu, blaðsíða 222

En hann fannst, sem betur fer, eftir að hafa verið fastur í 28 metra djúpri gjá inni undir jöklinum í nær sólarhring.
Þeir bræðurnir hafa ánafnað Háskóla Íslands hluta í Kvískerjalandi er þeir falla frá, og umræður hafa verið að koma þarna upp jöklasetri í einhverri óskilgreindri framtíð. Þeir nota ennþá tímann til rannsóknastarfa og athugana, þó svo þeir séu komnir ára sinna.

Lokaorð
Falleg og heillandi náttúra, löng og merkileg saga, ásamt framlagi Kvískerja til tækniframfara í Öræfum, Íslenskra vísinda og auknum áhuga á náttúru landsins gerir Kvísker að einum merkilegasta stað á landinu, vonast höfundur að þessi staður mun eigi gleymast í framtíðini, og vona að það rætist úr þessu jökla- og fræðisetri sem Háskólinn hefur lofað.
Ég hef ákveðið að fara drífa mig og skoða staðinn áður en árið er liðið og vona að mínar minningar frá æsku hafa ekki logið að mér um hina stórbrotnu náttúrufegurð sem ég man eftir.
Guðný Hafdís Svavarsdóttir, móðir mín, bókasafnsfræðingur og mikill spekingur, fór yfir og prófarkalas þessa ritgerð.

Takk fyrir.

Heimildaskrá
Kvískerjabók. 1998 Ritstjóri Gísli Sverrir Árnason. Styrktarsjóður Menningarsjóðs. Sýslusafn Austur-Skaftafellssýslu, Höfn.
Ferðabók Sveins Pálssonar (rituð 1791-1797). 1965 Þýðing og ritstjórn Jón Eyþórsson, Pálma Hannessoni og Steindór Steindórsson. Snælandsútgáfan, Reykjavík.
Ómar Ragnarsson. 1994. Fólk og Firnindi: Stiklað á Skaftinu. Fróði, Reykjavík.
Hjörleifur Guttormsson. 1993. Árbók 1993. Við rætur Vatnajökuls. Byggðir, fjöll og skriðjöklar. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
Hlutir til að gera - - -

1. Drífa af skólan - læra hjúkrun áður en það verður of dýrt og of seint.
2. Lesa meira um hámark olíu.
3. Lesa meira um næstum allt gagnlegt.
4. Finna ásamt öðrum góðum mönnum góða gróðurjörð, nálægt hreinni vatnsuppsprettu, helst tjörn, við ströndina, þarsem er lítil snjóflóðahætta og stofna sjálfbæra kommúnu.
5. Undirbúa sig fyrir heimsendi.

Skyldulesning fyrir alla, þótt þetta sé aðallega beint að könum, en fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir svoleiðis þá er hér Skyldulesning fyrir þá sem búa í Bretlandi
og einnig er hér Skyldulesning almennt, og jú, hér eru meiri Skyldulesning svona til vonar og vara ef viðkomandi er ekki alveg viss hvað ég er að meina. En fyrir þá sem ekki kunna ensku, þá er Vísindavefurinn með ágætar greinar hér, hér og einnig má lesa þetta hér, en að vísu vilja þessir vísindamenn hjá háskólanum vera bjartsýnir og eru ekkert að hafa áhyggjur af endalokum heimsins.

En klukkur klingja og bjöllur hringja og þetta minnir mig á lítið lag:
Mig hlakkar svo til

fimmtudagur, mars 11, 2004

Fyrir utan röflið...

Er þessa stundina að sökkva mér í bækur Arnaldar Indriðasonar, og það má kannski rekja mína blogg-leti til þess að einhverju leyti (annars er ég bara svo latur). En frá því 4. mars hef ég lesið Mýrin, Bettý, Dauðarósir, Napóleonskjölin og er í þann mund að klára Röddin, og þá á ég bara eftir Synir Duftsins og Grafarþögn.

Ég verð nú bara að játa, nema að lesandi hefur þegar kannski verið var við, að Arnaldur þessi Indriðason er afar, afar góður rithöfundur. Það er varla hægt að leggja þessar fjandans bækur frá sér.

Einnig tek ég fram að í ÍSL203 var maður beðinn að velja einhverja kjörbók og skrifa bókmenntaritgerð. Ég hafði keypt mér Mýrina einhvern tímann fyrir jól á síðasta ári og það hafði verið áætlun mín að lesa hana, ergo valdi ég Mýrina sem kjörbók... en ég hef svo háfleygar hugmyndir, og einnig hef ég gaman af bókunum hans, að ég er pæla í að skrifa um þær allar að einhverju leyti. En maður sér til...

Annars eru komnar fleiri bækur í lesningu : Bláa Bókin eftir Ludwig Wittgenstein - Uppruni Mannkyns eftir Michael H. Day - Fötlun og Samfélag eftir Margrét Margeirsdóttir - Öld Öfgana eftir Eric Hobsbawm

Þetta háttalag minnir mig á einstaklega litríkan, minnugan og einkennilega skemmtilegan karakter í frekar lélegum hjólastól og hefur aðsetur í, tja, ætli það sé ekki bara frægasta geðsjúkrahús á landinu.

All hail Ward XIV! All hail Hannes Hafsteinn, enda myndarlegur maður, hmmm, myndarlegur... já. Halló, halló
Ég þoli ekki þegar maður hefur ekkert að segja. Ekkert. Nákvæmlega ekki neitt merkilegt sem maður hefur að segja. Ég hef enga skoðun til að tjá mig um þessa stundina. Ekkert athugavert álit um eitthvað tiltekið málefni. Ekkert sem hefur komið mér á óvart á förnum vegi.

Ekkert. Ekki neitt.

Einhver skoðun á fíkniefnamálum? Ekkert sérstaklega nýtt sem ekki hefur áður komið fram hjá mér og öðrum sem eru hlynntir upptöku á opninskáa og óhlutdræga umræðu um endurbætur á fíkniefnalöggjöfinni. Hvað kemur það fólki við hvað maður gerir í sínu einkalífi, svo fremi sem maður sé ekki ógn við samfélagið? Er það ógn við samfélagið, virkilega, að vera heima hjá sér eða öðrum, reykja kannabis, borða pitsu og horfa á vídeó? Er það ekki í raun gott fyrir efnahaginn, og þar af leiðandi gott fyrir samfélagið? Felst mikil ógn við því að skynsamir einstaklingar, sem eru fræddir og upplýstir um skaðsemi vímuefna, neyti alsælu einn föstudaginn og/eða laugardaginn og skemmti sér? Er mikil ógn við friðsama einstaklinga að lifa í sínum veruleika í tæpa tíu tíma eftir að hafa neytt ofskynjunarsveppi? Svo fremi sem þeir viti hvað þeir eru að gera. Aðilar sem ákveða að neyta vímugjafa eru undantekningalaust allsgáðir þegar sú ákvörðun er tekinn. Allsgáður og upplýstur. Auk þess eru nær allir þessir aðilar í vinnu. Það er firra að alhæfa útfrá einstökum frávikum sem hneigast að glæpum og neyta fíkniefnis. Það er ástæða afhverju fólk fer í rán og þjófnað - því það á ekki pening. Af hverju á það ekki pening? Því þau fá ekki atvinnu, atvinnuleysisbætur, fjárhagslega aðstoð eða aðrar úrbætur, þeir eru þegar stimplaðir glæpamenn útaf neyslunni. Það var logið að mér að hass væri slæmt. Það er rugl. Það er ekkert slæmt. En það þýðir ekki heldur að ég sé að hvetja til neyslu á kannabis.

Réttindi samkynhneigðra? Mega þau gifta sig, ættleiða og/eða eignast börn? Er það ekki bara almenn skoðun hjá fólki að samkynhneigðir eiga að njóta þau sjálfsögðu mannréttindi sem gilda um gagnkynhneigt fólk. Í raun, hvað í andskotanum kemur mér það við hvort að tvær manneskjur sem elska hvort annað afar heitt gifta sig til að staðfesta ástarsamband og traust gagnvart hvort öðru. Þetta er svo sjálfsagt að maður furðar sig á þessarri umræði. Til dæmi þessi að þetta sé "gegn guði"-umræðunni einsog einhver almáttugt fyrirbæri komi þessu máli eitthvað við. Ætlar einhver að reyna ljúga upp að mér að samkynhneigðir einstaklingar eru verri manneskjur því þau aðhyllast sama kyn. Þá eru Íslendingar undir-manneskjur (sub-human), annars flokks borgarar, því þau aðhyllast í flestum tilfellum Íslendinga. Gyðingar eru undir-manneskjur því þeir aðhyllast asnalega trú sem ég er ósammála um réttmæti og tilgang. Blökkumenn (negroid) eru undir-manneskjur því þeir eru með meiri melanín-forða í húðinni en fölmenn (caucasian). Öfugmæli og rangfærsla. Kjaftæði og bull.

Hvað með þau sjálfsögðu mannréttindi fyrir fólk er þjáist? Af ýmislegum sjúkdómum, andlegum og líkamlegum (innvortis/útvortis). Ef þú brotnar á einhverjum líkamshluta, þá er alveg sjálfsagt að þú verður settur undir læknishendur og fáir viðeigandi aðhlynningu. En hvað með fólk sem brotnar niður? Fær kvíðaköst, ofsóknarbrjálæði, þunglyndi og fleiri geðkvilla, Hvað með fólk sem hneigist að ofneyslu á áfengi, vímugjöfum og öðrum neysluvörum, þetta fólk á rétt á aðstoð. Auðvitað. En samt virðist að fólk sem með andlega sjúkdóma og sjúklega fýsn er minna metið en annað fólk, og í of mörgum tilfellum falla þessi mál til dóms- og kirkju-málaráðuneytinu. Furðulegt í ljósi þess að þetta er heilbrigðisvandamál.

Aðskilnaður ríkis og kirkju, hví ætti ég að halda trúmálum uppi með mínum peningum, ef eitthvað er, þá ætti sá hluti sem ég neita að borga í Mótmælendatrúnna, skipta jafnt á milli allra annara trúariðkana á landinu.

Hvað með að endurlífga lagabókstafinn dauða; þjóðaratkvæðagreiðsla, það gæti verið ein rétt leið til að fá fólk að trúa á réttmæti og gagnsemi "lýðræðis" að leyfa lýðnum að ráða eilítið, ekki eingöngu að leyfa lýðnum að fá smá vald á fjögurra ára fresti, í kjánalegum kosningum þarsem litið er á auðan seðill sem ógilda atkvæðagreiðslu, en ekki stjórnmálaskoðun.

Það sem ergir mig meira en að hafa ekkert nýtt að segja, er að ég get í flest öllum tilvikum ekkert gert annað en að tala um hlutina. Það ergir mig hvað við erum flest öll svo afar fús um að ræða um kosti og galla, en sér í lagi er meira rætt um gallana, og einnig hvað erum afar viljug til að gera nákvæmlega ekkert til að bæta þessi mál. Maður telur sig trú um það, að það er allavega fyrsta skrefið er að ræða um hlutina, en sjaldan eða aldrei verður maður var við næsta skref, að framkvæma hlutina. Virðist oftast vera að fleiri og fleiri löggjafir og reglugerðir eru settar og samþykktar til að ríghalda í nákvæmlega sama afturhaldsfarið.
"End of the industrial age" er afar ofarlega á baugi hjá mér, og ætti að vera algjört forgangsatriði fyrir alvöru raunsæismenn einsog mig.
Slökum á, slöppum af, róum okkur niður, hættum að tala með rassinum, tjóðrið alla ónytjunga sem telja sig vita betur, því þeir vita ekki rassgat... ég viðurkenni það hér með og nú, að ég tel mig ekki vita allt, en ég veit hverju ég trúi, og ég trúi því að sá iðnvæddi heimur sem við þekkjum mun líða undir lok á okkar lífstíð, ég trúi því að meiri hluti hins iðnvædda vestræna heims mun ekki vita hvaðan á sig stóð veðrið þegar það gerist. Enda ekki furða, því fólk er enn þann dag í dag að rífast útaf eignarhaldi, ríkidæmi og réttindum, óafvitandi að ekkert að þessu mun skipta neinu máli eftir 20 ár. Sem betur fer.

Um leið þegar ég verð handviss um að þetta mun gerast, því ég leyfi mér að halda það, einhverstaðar lengst innst inni (rétt fyrir neðan óskhyggju-hvelsins), að sú staðhæfing "fólk er fífl" sé ekki sönn, þegar ég er viss um að olían mun klárast, heimurinn einsog við þekkjum hann hér og nú mun líða undir lok, þegar ég er viss, þá mun ég taka upp níhilisma, enda mun það ekki skipta neinu fjandans máli hvað ég mun gera, það mun ekki hafa neinar afleiðingar, aðrar en þær að hraða eilítið á þessum endalokum.

Fæ mér svaka mikið lán sem ég mun borga á ca. 50-60 ár eða svo, og ferðast um heiminn með plat-peninga, svona einsog flest allir aðrir viðksipta- og stjórnmálamenn gera í dag, ýti undir óróa, öngþveiti, uppreisn og byltingu og hef það næs. Enda mun það ekki skipta neinu máli.

Persónulega, hlakkar afar mikið í mér þegar olían verður loksins búinn. Þá geta aðilar, einsog ég, verið loksins frjáls frá oki kerfisins, enda mun kerfið leysast upp, frjáls undan oki auðvalds og kúgunar, því auður mun ekki skipta neinu máli og síðan munu margir öskra "told you so! fuckers!" Eiginlega er ég ekkert á móti smá kjarnorkustyrjöld, nægilega öflug til að útrýma 50-60% af mannkyninu og nógu lítil til að eyðileggja ekki jörðina of mikið. Mig hlakkar til þegar þetta gerist. Upplausn, vargöld, skálmöld og skeggöld - fólk mun vera stráfellt.

Mig hlakkar ægilega mikið til.

Mig hlakkar til iðnarar-endaloksins. Því fyrst þá mun spádómur Marx koma í ljós, sem mig minnir að hafi farið einhvern meginn á þessa leið "Kapítalisminn á eftir að verða sjálfu sér að falli" enda verður hægt að rekja endalok hins iðnvædda heims til ofstopafullar græðgi og arðráns, sem varð þess valdandi að skapa lifibrauð sem mannskepnan hefur aðeins haft tæp 120 ár til að venjast, ætli það mun þá ekki taka önnur 120 ár til að venjast hinu ljúfa einföldu lífi...

Bölsýnisspá? ónei. Raunsæ spá.
Eru alhæfingar hættuleg fyrirbrigði? Maður dæmir allt og alla útaf/útfrá einu fráviki og þar af leiðandi gerir lítið viðkomandi, lítið úr málstað viðkomandi eða gerir lítið sem ekkert til að kynna sér aðstæður viðkomandi - en er hægt eitthvað að marka sumar alhæfingar?

Þetta eru litlar hugleiðingar um alhæfingar og má einnig taka það fram að þessi upptaldi listi er engann veginn tæmandi.

Nokkur dæmi um dæmigerða og marklausa klisju:
Nokkrir gyðingar eru með stórt nef, ergo allir gyðingar eru með stórt nef.
Nokkrir blökkumenn eru með stóran besefa, ergo allir blökkumenn eru með stóran besefa.
Nokkrir karlmenn níðast á konum sínum, ergo allir karlar níðast á konum sínum.
Nokkrir unglingar drekka alkahól, neyta vímuefni og eru með vandamál, ergo allir unglingar eru vandamál.

Nokkur dæmi um hryðjuverkamenn og/eða frelsihreyfingar:
Nokkrir bókstafstrúar múslímar í Palestínu sprengja sig í loft upp í mannkvoðu einhverstaðar í Ísrael með reglulegu millibili í nefni frelsis og sjálfstæðis. Allir íbúar Palestínu eru hryðjuverkamenn.
Nokkrir ETA-aðilar frá Baska sem gleymt hafa upprunalegu markmiði frelsishreyfingunnar er Franco vildi að allir í konungsríkinu Spáni töluðu eitt tungumál fyrir tæpum 70 árum, sprengja bíl í Madrid í nafni frelsis og sjálfstæðis. Allir íbúar Baska eru hryðjuverkamenn.
Nokkrir skæruliðar frá Tjséteníu skapa hættu í óperuhúsi í Moskvu með því að taka hundruði manna í gíslingu í nafni frelsis og sjálfstæðis. Allir íbúar Tsjéteníu eru hryðjuverkamenn.
Nokkrir IRA-liðar í Írlandi skjóta fólk og sprengja í nafni frelsi og sjálfstæðis. Allir Írar eru hryðjuverkamenn.

Nokkur dæmi um glæpamenn:
Nokkrir aðilar er neyta fíkniefnis á borð við kannabis eða sveppi, brjótast inn eða ræna banka til að fá peninga fyrir meiri og sterkari fíkniefni á borð við amfetamín og morfín eða til að borga upp háa fíkniefnaskuld. Allir fíkniefnaneytendur eru glæpamenn.
Nokkrir mótmælendur brjóta rúður, velta bílum og fremja skemmdarverk á þekktum fyrirtækjum á borð við Nike og McDonalds. Allir mótmælendur eru glæpamenn.
Nokkrir friðarsinnar kasta og fleygja skyri, eggjum og kökum í þekkta leiðtoga til að vekja athygli á einhverju tilteknu máli. Allir friðarsinnar eru glæpamenn.
Nokkrir aðilar ausa svívirðingum og meiðyrðum yfir lands- eða heimsþekktu fólki í skjóli nafnleyndar á netinu á ýmsum þekktum og óþekktum spjallsvæðum og umræðuvefum. Allir netverjar eru glæpamenn.

Nokkur dæmi um mismunandi þjóðflokka:
Þjóðflokkur í Afríku leggur mannaket sér í munn. Allir Afríkubúar eru mannætur.
Þjóðflokkur í suður-Ameríku kunna ekki á síma. Allir í Suður-Ameríku kunna ekki á síma.
Þjóðir í þriðja heiminum kunna flest öll ekki að lesa, skrifa, reikna eða teikna. Allir í þriðja heiminum eru gagnslausir og vitlausir.
Þjóðflokkur af innfæddum Ameríkönum réðust á hvítt fólk. Allir innfæddir Ameríkanar ráðast á hvítt fólk.

Nokkur dæmi um veruleikafirringu:
Nokkrir stjórnmálamenn telja sig vera með eina rétta málstaðinn og hinn eina sanna skoðun sem allir ættu að hneigast að. Allir stjórnmálamenn eru veruleikafirrtir.
Nokkrir embættismenn telja það hafa fordæmisgildandi áhrif að refsa manni harkalega sama hversu glæpurinn er lítill. Allir embættismenn eru veruleikafirrtir.
Nokkrir forsetar ljúga vísvitandi að þjóð sinni og telja almenning trú um það að sú aðgerð eða ákvörðun sem hann segjir muni koma sér vel fyrir alla, mun bara koma sér vel fyrir afar lítinn og afmarkaðan hóp. Allir forsetar eru veruleikafirrtir.
Nokkrir framkvæmdastjórar er stjórna stórum fyrirtækjum er sérhæfir sig í merkjavörum og matvælaiðnaði, telja sjálfum sér og öðrum trú um það að í fyrsta lagi að dýr hafa ekki tilfinningar né skoðanir, auk þess eru dýr óæðri en við mannskepnur, auk þess að enginn sjúkdómahætta er yfirvofandi þó svo að ali-dýr sé troðið í afar litlar einingar þarsem dýrin geta ekki hreyft sig eða lifað eðlilegu dýralífi og í öðru lagi að barnaþrælkun, þrælakistur, mannréttindi og hættuleg vinnuumhverfi koma þeim lítið sem ekkert við, því þeir bjóða verktökum í fjarlægum verksmiðjum að skapa vöru, sem gæti ollið sjúkdómum, dauða eða einhverskonar slysahættu, sem hönnuð er af viðkomandi fyrirtækjum, þannig að ábyrgð starfsmanna er í höndum framkvæmdaðilum verksmiðjunar. Allir framkvæmdastjórar eru veruleikafirrtir.

Einnig er hægt að alhæfa frá þínum ættingjum og yfirfæra það á þig sem einstaklinginn sem er tengdur þinni ætt með blóði, þannig að ef langa-langa-afi þinn myrti mann einu sinni, þá mun það gera þig að siðblindum morðingja sem er ekki treystandi með plasthníf, jafnvel þó að þú kunnir að vera friðarsinni sem ekki gerir flugu mein, þá er samt hægt að alhæfa að allir þínir ættingjar eru morðingjar. Eða að langa-langa-afi þinn var afar góður og blíður sem ausaði milljónum ofaná milljónir í munaðarleysingjahæli, þá mun það gera þig að afar blíðum og góðum manni, þrátt fyrir það að þú kunnir að vera nirfill og barnaníðingur.

Alhæfingar... skaðvaldur eða lífsnauðsynlegur hluti af siðmenningu?

þriðjudagur, mars 02, 2004

Það var opinn vika í skólanum í síðustu viku, ég tók engan þátt í því, fyrir utan eitt. Var beðinn um að skrifa lítinn pistill fyrir eilítið skólabréf sem nefnist Fjálgur. Að vísu var eitthvað skorið burt til að koma því betur fyrir, en ei ætla ég að kvarta yfir því. Hvað haldiði, hér er það:

Ótrúlegt, en skiptir þetta okkur einhverju máli?
Beðinn um að skrifa nokkrar nettar línur um ýmislegt sem mér gæti mögulega dottið í hug. Málið er bara að ég er gjarnan róttækur í málefnum. Ég hefði til að mynda viljað opna umræðu um opnari umræðu um fíkniefni, en ég býst við að því yrði illa tekið sökum kreddufestu og íhaldsemi. Ef til vill hefði ég viljað ræða eitthvað um tengingu auðs og fátækts, t.am. því meira sem sumir græða, því fátækari verða aðrir. En þetta er Sjálfstæðisbær og “fátækt er ekki til hér á landi” samkvæmt speki formanni Daós. Allir eru “ánægðir”, “glaðir” og “ríkir” samkvæmt ýmsum friðþægjandi erlendum könnunum. Hvað með aðskilnað ríkis og kirkju? Trúfrelsi hefur verið hér á landi síðan 1874, en af einhverjum óskiljanlegum og afturhaldsömum ástæðum þá er Lútherkirkjan ríkiskirkjan. Hvað með að tala smá um stjórnmál, hmmm? Hvernig lýst lesendum á það? Hvaða bull, kosningarnar eru löngu búnar, við höfum fengið nóg af slagorðum og innihaldslausu röfli frá fólki sem sækist eftir völdum, við fáum okkar stjórmála-skammt í Spaugstofunni. Þvílíkur heiður að við getum fengið að setja kross á blað á fjögra ára fresti, á þessum tímum framfara og hraða. Ég las einhverstaðar í sögubókunum að við fengum einusinni að halda þjóðaratkvæðagreiðslu á árunum 1904-1944. Þvílíkur léttir að hafa ábyrgðafullt fólk í ríkistjórn, sem getur hugsað fyrir okkur. Kannski bara að maður að kíki á Kaffihornið og drekki sínum áhyggjum í létt*bjór frá Viking og innbyrði eitthvað skaðlegt sem ríkir fær stóran hagnað af.

*”létt” er nú bara þarna svo að foreldrarnir verða ekki æfir og halda að hér sé óbein auglýsing á ferðinni.

Einnig var eitthvað rætt um það að halda þessum litla skólabréfi áfram, var hugmyndinn sú að reyna koma með eitt blað einu sinni á viku eða aðra hverja viku.


Snilldar fokking síða:

WIKIPEDIA, the free encyclopædia

Snilld, snilld, snilld!
Er að vinna í því að gera afar langan hlekkjalista, er nefnilega að færa allt úr Favorites sem ég hef sankað að mér... úff.
Tónlist
Keypti mér einn disk, Talkie Walkie með Air. Ágætis franskt melódískt popp, sungið á ensku með afar frönskum hreim, t.a.m. "Sjerrí blossum gurl" sem þýðir "Cherry blossom girl." Er mikill aðdáandi af Air, hefur verið lengi á döfinni að versla mér aftur þá diska sem ég átti, Moon Safari, The Virgin Suicides, áður en þeir týndust það örlagaríka ár 2000. Eiginlega síðan 2000 hef ég ekki keypt mér diska af neinu ráði. Síðasti diskurinn sem ég keypti var með Outkast, af einhverjum ástæðum, því ég aðhylltist þessu eina skemmtilega lagi sem spilað var á mörgum útvarpstöðum er heitir "Hey-Ya" - finnst það bara vera ágætis gripur, en hlusta ekkert mikið á hann því ég er ennþá undrandi yfir því að ég hafi keypt hann. Ohwell.

Frá Pixies og Primus til Sepultura og Slayer til Air og Aphex Twin, og margt annað þar inná milli sem ég nenni ekki að telja upp. En mín skoðun, tel það vera mikil íhaldsemi og meira að segja afturhaldsemi að halda sér við eina tegund af tónlistarstefnu.
Bækur í lesningu
Er byrjaður að lesa The Source eftir James A. Michener. Það er heljarins verk, sem spanar tæp 8000 ár. Fyrsti kaflinn lýsir fornleifafræðingi er kemur til Ísrael/Palestínu árið 1964 að skoða stað er kallast Makor og er kallað The Source, Uppsprettan. Næsti kafli fjallar um fornan mann árið ca. 8000 f.kr., er lifir afar einföldu lífi í helli nálægt þessum stað, Makor. Hann verður fyrir þeirri reynslu að konan hans, sem ættbálkurinn rændi frá öðrum ættbálki, ákveðu að byggja hús. Hugmynd sem honum líst engan veginn á, enda afar kært um þennan helli sem hann býr í... lengra er ég ekki kominn.

Er alveg að klára Democracy eftir Dorothy Pickles frá 1970. Í fyrri kafla er saga lýðræðis rakinn, frá tímum Aþenu til okkar tíma og í seinni kafla er útskýrt hvernig nútíma-lýðræði virkar í sumum löndum, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Holland og Sviss er aðallega notað sem dæmi, en einnig er talin upp nokkur Afríku-ríki sem eru nýbúinn að "öðlast" lýðræði. En lýðræði virkar ekki nema það sé hefð fyrir því, þannig að það er, væntanlega, þjóðernisbundið hvernig lýðræði virkar hjá hverri þjóð. Tveggja-flokka kerfi, margra-flokka kerfi og eins-flokkskerfi eru lýst og hvernig þau virka. Þetta er, að mér finnst, nokkuð hlutlaus bók og frekar auðveld í lesningu, en hún er samt dulitíð outdated.

Er að lesa The Hobbit eftir J.R.R. Tolkien, í annað sinn á tiltörulega stuttum tíma, en hafði þó lesið hana einu sinni áður er ég var 13 ára. Skemmtilegt ævintýri fyrir börn á öllum aldri. En The Hobbit fjallar um Hobbitan Bilbó Baggins og ævintýri hans með Gandalf, Thorin, Balin, Bofur, Bimbur, Oin, Gloin, Dori, Nori, Ori, Dwalin, Balin, Fili og Kili. Ferð þeirra allra um Miðgarð, til Einmana Fjallsins þarsem drekinn Smaug sefur á fjársóði föður Thorins Oakenshield. Þetta er hressandi lesning. Einnig er þetta skyldulesning í ensku 203, en það sakar ekki.

Empire eftir Antonio Negri og Michael Hardt er á "hold" - en sú bók verður ekki auðveld. Grunar að verið sé að tala um síð-marxisma og hið leynilega Veldi sem hinn almenni almúgamaður veit lítið sem ekkert um. Ætli maður verði ekki að stúdera marxisma betur áður en lengra er haldið, enda er þessi bók skrifuð sérstaklega fyrir menntamenn á borð við Véve.

Bækur sem bíða eftir lesningu eru The Collapse of Chaos, eftir Ian Stewart og Jack Cohen, The World as Will and Representation (vol. II, en er ekki með vol. I) eftir Arthur Schopenhauer, What is to be Done eftir Lenin, The Pearl eftir John Steinbeck... síðan mun maður eflaust finna einhverjar áhugaverðar bækur á netinu.

Mark Twain

Las sögu eftir þennan bandaríska rithöfund, er ber titilinn "Bréf frá Jörðu." Í þeirri bók eru nokkrar greinar og plat-ævisögur. Til að mynda í fyrsta kafla, er heitir "Bréf frá Jörðu" setur Mark Twain sjálfan sig í hlutverk Satans, er ferðast til jarðar og er hálfgerður mann- og félagsfræðingur, er undrast þessa einkennilegu Guðstrú er mennirnir aðhyllast og hvað einkennilegur og illur þessi guð er og hversu gífurlega frábrugðinn guðinn er frá Guðinum sem Satan þekkir. Er þessi saga byggð á bréfum sem Satan sendir erkienglunum Mikael og Gabríel. Dagbók Metúsalem er "þýdd" og endursögð, en Metúsalem þessi er 600 ára gamall sonar-sonar-sonar-sonar-o.s.frv.-sonur Adams, fyrsta jarðarbúann.

Þessi bók er aðallega bölsýni á mannkynið "Hvað við erum virkilega mikil flón" og ádeila á kristna trú. Ágætis bók og mæli ég með lestur á henni. Ætli maður drífi sig ekki í að lesa eitthvað meira eftir hann Mark Twain.