þriðjudagur, mars 23, 2004

MÝRIN

Hér er en ein ritgerðin, og er hún um bækur Arnalds Indriðasonar, allar nema ein. Tek fram að í sjálfri ritgerðinni gerðist ég svo svakalega sniðugur að setja inn æsifréttaskot sem voru á víð og dreif í textaboxum, en sleppi því hér:
MÝRIN
og aðrar bækur Arnalds Indriðasonar

Yfirlit
1. Inngangsorð
2. Höfundurinn
3. Bækurnar
3.1. Bettý (2003)
3.2. Röddin (2002)
3.3. Grafarþögn (2001)
3.4. Napóleonsskjölin (1999)
3.5. Dauðarósir (1998)
3.6. Synir duftsins (1997)
4. Mýrin (2000)
4.1. Söguþráður
4.2. Sögusvið
4.3. Persónur
5. Lokaorð
6. Heimildir

1. Inngangsorð
Allar bækur eftir Arnald Indriðason flokkast undir reyfarasögur eða spennu- og glæpasögur. Viss ádeila er í flest öllum bókunum, ásamt ýmsum samsæriskenningum sem margar hverjar eru byggðar á íslenskum gróusögum. Arnaldur hefur þó vara á í byrjun bókarinnar, einsog flestir höfundar, og segir að “saga þessi sé uppspuni höfundar”. En stundum kemur upp sú tilfinning að hann sé óþarflega nálægt sannleikanum, sem í sjálfu sér kemur sér ekki illa. Enda ættu bækur í mörgum tilfellum að vekja upp umræður.
Eftir þessi inngangsorð mun ég rita eilítið um höfundinn. Síðan skrifa ég um þær bækur sem ég hef lesið en síðasta bókin sem ég mun skrifa um verður Mýrin, þar sem ég valdi hana sem kjörbók.
Ég tók mig til og las allar bækurnar hans, nema eina, á rúmlega tveim vikum, en það hafði verið ætlunin síðan fyrir jól að lesa Mýrina sem ég keypti á bókamarkaðinum í gamla bókasafninu hér Hornafirði. Eina bókin sem ég hef ekki lesið er Grafarþögn, en ég hef verið að bíða eftir henni núna í næstum eina og hálfa viku, og það vekur furðu hvað fólk er lengi að lesa. Vona að lesandi hafi gagn og gaman af þeim örfáu línum sem ég hef ritað hér. Tek einnig fram að hætta er á að ég muni spilla söguþræðinum fyrir lesendu í einhverjum af þessum bókum, en virðulegur lesandi verður að taka sjálfur ábyrgð á lestri þessum og afsala ég hér með ábyrgð á innihaldi bókmenntaritgerðar þessari.
2. Höfundur
Arnaldur Indriðason er fæddur árið 1961, þann 28. janúar í Reykjavík. Foreldrar hans eru Þórunn Ólöf Friðriksdóttir og Indriði G. Þorsteinsson, rithöfundur, þannig að sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. Indriði skrifaði m.a. Land og Synir og Sjötíu og Níu af Stöðinni.
Arnaldur varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1981, með B.A. í sagnfræði frá Háskóla Íslands sem hann lauk 1996. Vann lítillega sem blaðamaður við Morgunblaðið frá 1981-1982, var síðan ráðin við kvikmyndaskrif og síðar kvikmyndagagnrýnandi frá 1986-2001.
Hann hefur skrifað sjö bækur, skrifaði einnig einn kafla í bókinni Leyndardómar Reykjavíkur 2000, þar sem nokkrir íslenskir rithöfundar skrifuðu einn kafla hver, má þar nefna Stella Blómkvist, Viktor Arnar Ingólfsson, Árni Þórarinsson og fleiri.
Einnig hefur hann unnið útvarpsleikrit úr þremur bókum, sem flutt voru í Ríkisútvarpinu á árunum 1999-2001. Hann hefur líka hlotið styrk frá Kvikmyndasjóði Íslands fyrir handritagerð upp úr bókunum Dauðarósir og Napóleonsskjölin, einnig er verið að kvikmynda Mýrina í leikstjórn Baltasars Kormáks.
Norrænu glæpasagnaverðlaunin, Glerlykilinn, hlaut hann fyrir Mýrina árið 2002 og Grafarþögn ári síðar. Skáldsögur hans hafa verið þýddar á Dönsku, Norsku, Finnsku, Sænsku, Hollensku og Þýsku, og hafa bækurnar hans fengið mjög góðar viðtökur þó einkum í Þýskalandi þar sem bækur hans hafa selst í hundruðum þúsunda eintaka.
Arnaldur býr í Reykjavík ásamt konu sinni, Önnu Fjeldsted, og þremur börnum.
3. Bækurnar
Útgefnar bækur eftir Arnald Indriðason eru sjö talsins, auk Leyndardóma Reykjavíkur 2000 sem gefin var út á vegum Hins íslenska glæpafélags, sem er félag áhugamanna og rithöfunda um glæpasögur. Ég mun taka hverja og eina og lýsa söguþræðinum stuttlega, hverjar aðalpersónurnar eru og hver ádeilan er. Að lokum mun ég taka Mýrina, og mun fara nánar útí hana en hinar sex.
3.1. Bettý (2003)
Bettý fjallar um ungan lögfræðing sem segir frá sögunni í fyrstu persónu. Maður fær ekki að vita nein deili, á þessari manneskju, annað en að þessi einstaklingur sé lögfræðingur og sé ástfangin af Bettý.
Sagan byrjar á því að lögfræðingurinn er í haldi lögreglunnar grunaður um einhvern hræðilegan verknað, en ferðast síðan frá nútíð í fortíð þar sem sögupersónan reynir að gera hreint fyrir sínum dyrum og byrjar á þeim atburði þegar Bettý birtist fyrst. Þá er lögfræðingurinn ungi að halda fyrirlestur í Háskólabíói um kvótaeign og sjávarútveg, að loknum fyrirlestrinum kemur ung kona og kynnir sig fyrir lögfræðingnum. Hún heitir Bettý. Bettý segir að manninum hennar bráðvanti lögfræðing með góða sjávarútvegs-, kvóta- og enskukunnáttu og spyr hvort lögfræðingurinn hafi áhuga á starfinu.
Í þessari kynningu hef ég reynt að segja eins lítið og mögulegt er, því söguþráðurinn og sögufléttan í bókinni er, og held ég sé óhætt að segja, meistaralega vel gerð. Ólíkt öðrum bókum Arnaldar þá fann ég ekki vott fyrir ádeilu í þessari bók, en aftur á móti á málshátturinn “Flagð er undir fögru skinni” við þessa bók. Ég mæli eindregið með lestri á þessari stórgóðu bók.
3.2. Röddin (2002)
Dyravörður klæddur eins og jólasveinn finnst myrtur í kjallarakompu á frægu hóteli í Reykjavík á háannatíma rétt fyrir jól. Hann finnst með buxurnar niðrum sig og smokk á typpinu. Hann hafði verið stunginn margsinnis, reynt að verja sig, en verið síðan drepinn með stungusári í hjartað.
Erlendur Sveinsson og Sigurður Óli sjá um málið að vanda. Þetta er fimmta glæpasagan þar sem þeir félagar vinna saman. Erlendur er samt aðalsöguhetjan. Þetta mál, einsog öll hin, tekur hann afar nærri sér. Hann fær sér herbergi á hótelinu útaf ástæðu sem honum er ókunn, kannski til að fá öðruvísi einveru frá einverunni í íbúðinni, kannski til að vera nálægt morðstaðnum, eða kannski til að rifja upp óþægilega og kvalarfulla æskuminningu, hvort sem það er, þá eru það þunkir þankar.
Eva Lind, dóttir Erlends, er hætt öllu dópruglinu sem hún hefur verið í undanfarin ár og vill kynnast föður sínum betur. Sambandið þeirra batnar í bókinni. Erlendur kynnist konu á meðan rannsókn stenudr. Hún er meinatæknir á fertugsaldri, hún sýnir takmarkaðan áhuga til að byrja með, en sambandið þróast eilítið. Erlendur segjir henni frá atviki sem hann hefur ekki sagt neinum nema dóttur sinni er tengist barnæskunni.
Elínborg, ein af lögreglukonunum rifjar upp rannsókn, útaf réttarhöldum sem standa yfir föður sem talin er hafa ráðist á 8 ára son sinn og skilið hann eftir heima nær dauða en lífi og reynt að kenna einhverjum grunnskólakrökkum um verknaðinn.
Sagan er mest öll sögð á þessu fræga, ónefna, hóteli í Reykjavík. Er nokkuð augljóst, fyrir þá sem vita, að hugmyndin er kominn frá breska höfundinum Agöthu Christie, en hún lét margar sögurnar sínar gerast á einhverjum einum tilteknum stað (Murder on the Orient Express, Evil under the Sun o.fl.).
Æskuminningar, æskudraumar, einelti, börn, barnamisnotkun og þegar foreldrar yfirfæra drauma sína yfir á börnin sín er umræðan og ádeilan í bókinni.
3.3.Grafarþögn (2001)
Þetta er eina bókin sem ég hef ekki lesið og þar af leiðandi veit minnst um. Ég veit að hún hlaut Glerlykilinn 2003 og hefur verið þýdd yfir á þýsku.
3.4. Napeleónskjölin (1999)
Bókin byrjar í fortíðinni, nánar tiltekið 1945 er flugvél nauðlendir á Vatnajökli. Það er stormur og blindbylur. Einhver persóna úr flugvélinni leggur af stað frá vélinni í gegnum bylinn. Tveir bændur á býli rétt sunnan við jökulinn verða vitni að slysinu. Nokkru síðar er hjálparleiðangur á vegum bandaríska hersins sendur til að finna flugvélina. Miller höfuðsmaður leiðir hópinn. Síðan er ferðast til nútíðar, nánar tiltekið árið 1999.
Ung kona að nafni Kristín , lögfræðingur er vinnur hjá Utanríkismálaráðuneytinu, sér um ýmis mál er varða innflutning og útflutning til og frá Íslandi, fær undarlegt símtal frá bróður sínum Elías. Elías er á Vatnajökli ásamt Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur (FR). Hann og vinur hans Jóhann fengu leyfi frá liðstjóra FR til að prófa nýju snjósleðana. Í þessari afdrifaríku ferð sér hann hundruð hermanna vera stússast við einhverja flugvél, Elías hringir í systur sína og segir henni frá, síðan eru þeir teknir höndum og meðan símtalinu stendur. Þeir eru pyntaðir, þeim er hótað, og Elías fylgist með liðstjóra Bandaríska hermannanna, Ratoff, stinga bæði augun úr Jóhanni. Þeim er síðan hent ofaní jökulgjótu. Elías er enn á lífi en Jóhann er dauður.
Þessi bók er dæmigerður þriller, eftir atburðinn á jöklinum hefst ansi spennandi atburðarás þar sem Kristín reynir að finna útúr þessu samtali. Hún er elt af tveimur liðsmönnum Delta-sveitarinnar, fær aðstoð frá fyrrverandi kærastanum sínum Steve, sem er hermaður á Vellinum, og þau grafast fyrir um einhverja gamla flugvél á Vatnajöklinum og leynilegan leiðangur á sama stað.
Viðvera og tilgangur her BNA, leynilegar aðgerðir í seinni heimstyrjöldinni þar sem rætt var um samstarf bandamanna og nasista um innrás inní Rússland og að vissu leyti hvað Bandaríska ríkistjórnin sé tilbúinn að ganga langt í ósvífni og valdníðslu er umræðan og ádeilan í þessari bók.
Kvikmyndahandrit hefur verið unnið uppúr bókinni af sjálfum rithöfundinum, ekki er búið að ákveða hvenær handritið verður kvikmyndað.
3.5. Dauðarósir (1998)
Lík ungrar konu finnst við leiði Jóns Sigurðssonar í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu. Erlendur Sveinsson og Sigurður Óli eru fengnir til að rannsaka málið.
Þessi bók er í sérstöku uppáhaldi hjá mér, því fléttan og sú samsæriskenning sem kemur fram er afar trúverðug svo ekki sé minna sagt.
Persónurnar sem koma þarna fram er sumir hverjir holdgervingar einhvers tiltekins fyrirbæris. Við höfum Herbert Rothstein, sem heitir í raun Herbert Baldvinsson, hann er fíkniefnainnflytjandi, melludólgur og veruleikafirrtur glæpamaður, hann er holdgervingur undirheima Reykjavíkur sem býr í flottri villu með tvo bíla og telur sig vera Kana og lifir samkvæmt því. Kalmann er ósvífni viðskiptamaðurinn sem svífst einskis til að fá aðeins meiri auð í veldið, verktakastarfsemi, verslanir, sjávarútvegur og kvótabrask, auk kúgunar og annarra glæpsamlega hegðun þá er hann holdgervingur kapítalismans, þó sérstaklega í ljós þess hvernig endalok hans verða.
Morðmálið teygir anga sína til Ísafjarðar, til undirheima Reykjavíkur. Kaup á kvótum á Vestfjörðum, íbúðarbyggingar og verktakastarfsemi virðist að líkindum hafa sett þennan ógnvænlega atburð af stað.
Kvótabrask og fólksflutningur frá Vestfjörðum, fíklar, mellur, dólgar og öfuguggar, fíkniefna- og almenn -viðskipti og hvernig það hefur áhrif á Ísland og íbúa þess, er umræðan og ádeilan í bókinni.
Kvikmyndahandrit hefur verið unnið úr bókinni, en hvorki er byrjað né búið að ákveða hvenær á að kvikmynda handritið.
3.6. Synir duftsins (1997)
Þetta er fyrsta bók Arnalds sem gefin var út 1997 og naut hún nokkurra vinsælda. Synir duftsins gerði einnig öðrum reyndum og óreyndum íslenskum rithöfundum ljóst að hægt væri að gera nokkuð vel útpældan reyfara með fínni sögufléttu og vel skrifuðum persónum. Geðsjúklingur hoppar útúr glugga á sjöttu hæð á geðspítala og á sama tíma er gamall kennari úr Víðidalsskóla bundinn við stól og brenndur ásamt heimili og innbúi. Geðsjúklingurinn heitir Daníel og framdi sjálfsmorðið þegar bróðir hans Pálmi kom í heimsókn, kennarinn hét Halldór og kenndi Daníel í Víðidalsskóla 1967. Erlendur Sveinsson og Sigurður Óli rannsaka málið fyrir hönd Ríkislögregluembættisins, en Pálmi snuðrar einnig útaf torkennilegum skilaboðum sem bróðir hans sagði honum rétt áður en hann stökk. Einnig koma fram tengingar milli Daníels og kennarans auk undarlegum dauðaslysum, mannshvörfum og sjálfsmorðum á bekkjarbræðrum, jafnöldrum og vinum Daníels sem voru með honum í tossabekknum 6.L í Víðidalsskóla árið 1967.
Framför í vísindum, orsök og afleiðing, ólöglegar og ósiðferðilegar rannsóknir á börnum er umræðan og ádeilan í þessari bók.
4. Mýrin (2000)
Mýrin hlaut norrænu bókmenntaverðlaunin "Glerlykilinn" sem besta norræna spennusagan árið 2002 . Mýrin hefur verið þýdd yfir á dönsku, finnsku, sænsku, norsku, hollensku og þýsku. Baltasar Kormákur, leikari og leikstjóri, hefur verið fenginn til að kvikmynda bókina og má búast við henni á næstu árum.
Þetta er eflaust frægasta skáldsaga Arnalds og með þeim betri bókum sem ég hef lesið.
4.1. Söguþráður
Roskinn maður á sjötugsaldri finnst látinn í kjallaraíbúð sinni á Norðurmýri. Hann finnst liggjandi á grúfu, með brotna hauskúpu. Stór og sterkbyggðu öskubakki liggur á borðinu útataður í blóði. Hann var greinilega myrtur.
Erlendur Sveinsson og Sigurður Óli eru fengnir til að rannsaka málið. Maðurinn heitir Holberg og var góðkunningi lögreglunnar, hann hefur setið inni fyrir smávægilega glæpi, svosem þjófnað, líkamsárás og hraðakstur. Þegar þeir gramsa betur í íbúðinni hans, finna þeir gamla ljósmynd af legsteini sem er merktur með kvenmannsnafni. Auður.
Rannsókn á nafninu leiðir til þess að þessi einstaklingur hafði eingöngu komist í kast við lögin fyrir smáhluti, því hann hafði aldrei setið inni fyrir sína svívirðilegustu glæpi, en hann var forhertur nauðgari. Bakgrunnur Holbergs er athugaður betur og kemur í ljós að hann var í tygjum við tvo einstaklinga, Grétar, sem hvar þjóðhátíðarhelgina 1974 og Elliða, stórglæpa- og misyndismaður. Þeir höfðu ferðast mikið útum landið.
Einkalíf Erlends blandast inní málið, þegar dóttir hans, Eva Lind biður hann um greiða, að finna vinkonu sína sem lét sig hverfa úr brúðkaupsveislunni sinni, auk þess tilkynnir Eva Lind honum Erlendi í fíkniefnavímu að hún sé ólétt. Hann reynir, einsog svo oft áður, að reyna koma einhverju vit í kollinum á henni og benda henni á skaðsemi fíkniefna á fóstur. En í þrjósku sinni, sem hún fær eflaust frá föður sínum, heldur hún áfram, sníkir pening og lætur sig hverfa.
Erlendur athugar málið fyrir dóttur sína, ferðast til Garðabæjar og talar við foreldra stelpunnar, síðan til Kópavogs og talar við brúðgumann. Hinn nýbakaði eiginmaður virðist ekki vita hvað hafði ollið því að brúðurin lét sig hverfa svona stuttu eftir brúðkaupið, og skilur ekki af hverju allir halda að þetta sé honum að kenna. Erlendur kemst lítið sem ekkert áleiðis með þetta, en gerir sitt besta.
Rannsóknin á ljósmyndinni sem fannst í íbúð Holbergs, sýnir að Auður þessi fæddist 1964 og dó fjögurra ára gömul, móðir hennar hét Kolbrún, sem svipti sig lífi 1971, þremur árum eftir dauða dóttur sinnar. Þessi uppgötun rekur málið til Keflavíkur, þar sem Kolbrún og Auður bjuggu. Erlendur reynir að ná tali af systur Kolbrúnar, Elín, sem neitar að ræða við hann, útaf því að hún hefur óbeit á lögreglumönnum, ”Eftir allt sem þið gerðuð henni!” (bls. 52).
Erlendur snýr sér þá að fyrrverandi lögreglumanni sem sá um málið 1963, Rúnar. Rúnar þess er kominn hátt uppí áttræðisaldurinn, en í staðinn fyrir aldraðan og veiklulega mann, sér Erlendur viðurstyggilegan viðbjóð sem hefði átt að vera rekinn úr lögreglunni með skömm fyrir löngu. Rúnar hafði gert lítið úr nauðgunarkæru Kolbrúnar og flæmdi hana burt af lögreglustöðinni á sínum tíma. Erlendur spyr hann hvort hann hafi þekkt Holberg. Að lokum samtalsins við Rúnar, fer hann aftur til Elínar og reynir að tala við hana, hún þrætir en. Erlendi tekst samt að sannfæra hana. Elín segir frá systur sinni, hvað hún var feiminn og viðkvæm, einnig að Holberg hafði nauðgað henni tvisvar sinnum.
4.2. Sögusvið
Sagan gerist að mestu leyti á höfuðborgarsvæðinu; Reykjavík, Kópavogur og Garðabær. Þetta tiltekna morðmál teygir líka anga sína til Keflavíkur og Húsavíkur.
Það góða við nær allar bækurnar hans er að Reykjavík er ekki eina sögusviðið, en því miður er Reykjavík miðpunkturinn í öllum sögunum hans. T.a.m. í Napóleonsskjölunum ferðast söguhetjan um Miðnesheiði, Höfn, Vatnajökul, Mexíkó og Suður-Ameríku. Stór kafli í Dauðarósum gerist á Vestfjörðum, Synir Duftsins fer til Hvolsvallar. Bettý til norðurlands. Eina saga sem gerist eingöngu í Reykjavík, í einu húsnæði, er hið fræga ónefnda hótel í Röddinni.
4.3. Persónur
Erlendur Sveinsson, er aðalsöguhetjan í öllum glæpasögum Arnalds; Dauðarósir, Mýrin, Grafarþögn, Röddin, einnig glittir í hann, en er ekki nefndur á nafn, í Napóleonsskjölunum og Bettý, en lýsinginn á honum, útlit og hegðun, er nákvæmlega einsog maður þekkir hann úr Mýrinni, Dauðarósum og Röddinni. Arnaldur ætti ekki að vera smeykur við að nefna Erlend í öðrum bókum þó hann sé ekki aðalsögupersónan. Erlendur kemur fyrst fram í Synir Duftsins ásamt Sigurði Óla félaga sínum. En hann er ekki aðalsöguhetjan í þeirri bók. Arnaldur gerði Pálma að söguhetjunni í Syni Duftsins.
Erlendur er fullkomin íslensk noir-sögupersóna, hann er fimmtugur reykingamaður, sterklega byggður, með stóra hnefa. Hann er ómenntaður en með gífurlega lögreglu-reynslu að baki sér, hann gengur í rykfrakka og með hatt, hann er kreddufastur þjóðernissinni, með ótrúlega ályktunarhæfni, tilfinningalega lokaður, skynsamur, athugull, töffari. Hann kemur sér oftast strax að efninu, hann reiðist mjög fljótt, greinir lygi um leið hún kemur í ljós, þykir vænt um þá sem eru honum næst, þó hann vilji sjaldan sýna né viðurkenna það. Einrænn, ófélagslyndur, veikur fyrir pelanum. Hefur dálæti á íslenskum skáldskap, þjóðlegum fróðleik og hrakningasögum. Þunglyndur og þrjóskur. En það sem skiptir mest máli, og það sem gerir Erlend að spennandi söguhetju er, að hann er trúverðugur, honum er vel lýst og hann fær auk þess allar bestu línurnar.
Hann er fráskilinn, skildi við konu sína Halldóru Guðmundsdóttir árið 1977, stuttu eftir að sonur þeirra, Sindri Snær, fæddist. Þau áttu fyrir eina dóttur, Eva Lind, sem fæddist 1976. Í Synir duftsins eru krökkunum hans lýst sem vandræðagemsum. Eva Lind er fíkniefnaneytandi og stundar vændi, Sindri Snær er alkohólisti og ræfill, sem fer á meðferðarheimili til að gista. Eva Lind reynir að kynnast pabba sínum í nokkrum bókum. Í Mýrinni reynir hún að hætta öllu rugli, og það er ekki fyrr en í Röddinni þar sem hún nær einhverju sambandi við föður sinn. Þetta er frekar stirt samband á milli þeirra í byrjun, en það batnar alltaf og batnar með hverri bók. Persónan, Erlendur, hefur mótast alveg gífurlega vel, og verður líka betri og betri með hverri bók. Maður fær meira innsæi og veit meira um einkalífið hans.
Sigurður Óli, er félagi Erlends. Hann er hámenntaður, útskrifaðist úr stjórnmálafræði í Háskólanum, fór til BNA til að stunda nám á glæpafræði sem hann lauk með láði. Hann er snyrtipinni, gengur í nýjustu tískufötunum, opin, nútímalegur, uppalegur, hamingjusamlega giftur Bergþóru , sem hann kynntist í Dauðarósum. En hún var sjónarvotturinn sem koma að líkinu í kirkjugarðinum. Sigurður Óli er í raun algjör andstæða Erlends. En þeir vinna vel saman og koma ágætlega saman líka, þó að það komi kaflar og tímar þar sem þeir þola ekki hvorn annan. En er það ekki sannur vinskapur?
Marion Briem er fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður og lærifaðir Erlends. Þegar Marion verður var við fréttir í útvarpi, sjónvarpi eða dagblöðum varðandi undarlegan glæp, til að mynda morð, þá hringir hann oftast í Erlend til að ausa úr sínum viskubrunni ef Erlendur hefur áhuga á. Hann kemur stundum til hjálpar í sumum sögum með viðeigandi vísbendingu.
Síðan eru það nokkrir lögreglumenn, tæknideild, meinafræðingar og fleiri, sem sjaldan eru nefndir á nafn. Undantekningin er Elínborg sem er oftast í teyminu þeirra Erlends og Sigurðs, en þó fær maður lítið sem ekkert að vita um hana. Þorkell er annar sem kemur eilítið fram, og einsog með Elínborg, þá eru sama sem engar gagnlegar upplýsingar um hann. Ég tel þetta vera dálítinn galla, fyrir utan að vera lesa um morðmál, þá blandast einkalíf ýmissa persóna, þó sér í lagi Erlends, inní sögufléttuna. Elínborg hefur komið fram í öllum sögunum með Erlendi og Sigurð Óla, og það litla sem maður veit er að hún bakar og eldar vel og tekur öll barnaníðingsmál inná sig.
Við höfum síðan nokkur illmenni. Holberg, hefur verið drepinn, en Erlendur og Sigurður Óli senda tölvuna hans til tæknideildar lögreglunnar, þar sem þeir finna allskonar klám, frá eðlilegu ólistrænu kynlífi milli tveggja fullorðna einstaklinga til sódómískra níðingsháttar á litlu börnum. Einnig kemur hann kemur fram í leifturminninga-köflum. Honum líka lýst af Elínu, systur Kolbrúnar, sem óbermi og viðbjóði. Við kynnumst gömlum vin Holbergs sem dúsir á Litla-Hrauni, Elliði, sadisti, níðingur og glæpamaður, situr inni fyrir stórfellda líkamsárás. Við fáum lýsingu á Grétari, sem er horfinn, einsog jörðin hafi gleypt hann árið 1974, og þrátt fyrir mikla leit hefur hann en ekki fundist, er hann talinn hafa flúið land eða verið myrtur. Við höfum fyrrverandi lögreglumannsóbermið Rúnar sem lítillækkaði Kolbrúnu og hafði meiri áhuga á rifnu nærbuxunum hennar, sem var hennar eina sönnunargagn um að nauðgun hefði átt sér stað, en hann hafði á sjálfum glæpnum.
Persónurnar í bókunum er margar hverjar vel heppnaðar, vel skrifaðar, trúverðugar og áhugaverðar. Arnaldi hefur tekist afar vel til að skapa persónur sem hægt er samsvara sig við á einhvern hátt, í gegnum sjálfan sig eða einhvern sem maður þekkir.
5. Lokaorð
Sögurnar í bókunum eru úthugsaðar, vel skrifaðar, í mörgum tilfellum, trúverðugar og söguflétturnar koma oft á óvart. Honum hefur tekist að skapa trúverðugar aðstæður, komið með atburði sem samsvarar sig í íslenskum raunveruleika og hefur náð að lífga uppá spennusagna-markaðinn á Íslandi og gert almenningi og rithöfundum, reyndum jafnt sem upprennandi, ljóst fyrir því að Ísland getur verið spennandi viðfangsefni fyrir reyfarasögur.
Morðmál eru afar fágæt hér á landi, einsog kemur ósjaldan fram í bókunum, þá eru íslensk morðmál subbuleg, nær oftast framin af gáleysi eða ölæði og alltaf er nóg af vitnum, þar af leiðandi eru þau auðveld viðfangsefni fyrir lögregluna til að kljást við. En stundum spretta upp mál sem eru afar grunsamleg og virðist af öllum líkindum vera framinn af yfirlögðu ráði, einsog líkfundurinn á Neskaupstað fyrr á árinu. En Arnaldur Indriðason fékk eflaust bestu gagnrýni á meðan rannsókn málsins stóð sem hæst, en þessu einkennilega máli var líkt við “eitthvað úr spennusögum Arnaldar Indriðasons.” Enda höfðu öll mál fyrir 1997 verið líkt við eitthvað úr spennumyndum Hollywoods eða glæpasögu Agöthu Christie.
Óhætt er að mæla með lestri á bókum Arnalds, enda, einsog ég hef komist að orði, er hér á ferðinni afar beittur og góður penni, með afar gott og frjótt ímyndunarafl. Honum hefur tekist, sem fáum öðrum íslenskum rithöfundum hefur tekist, er að gera góðar spennusögur sem nær alfarið gerist á Íslandi með afar vel heppnuðum árangri.
Þetta hefur bara verið sérdeilis skemmtilegt verkefni sem lífgaði uppá þann litla áhuga sem ég hafði á þessum höfundi og hef ég ekki séð eftir öllum þeim lestri undanfarnar þrjár vikur. Vona að lesandi hafi skemmt sér vel og vona einnig að ég hafi ekki skemmt áhuga á bókum Arnalds Indriðasonar.

Takk fyrir

6. Heimildir
1. Arnaldur Indriðason. 1997. Synir duftsins. Vaka-Helgafell, Reykjavík.
2. Arnaldur Indriðason. 1998. Dauðarósir. Vaka-Helgafell, Reykjavík.
3. Arnaldur Indriðason. 1999. Napoleónsskjölin. Vaka-Helgafell, Reykjavík.
4. Arnaldur Indriðason. 2000. Mýrin. Vaka-Helgafell, Reykjavík.
5. Arnaldur Indriðason. 2002. Röddin. Vaka-Helgafell, Reykjavík.
6. Arnaldur Indriðason. 2003. Bettý. Vaka-Helgafell, Reykjavík.
7. Borgarbókasafn. 2003. Valflokkur “Arnaldur Indriðason”, ábm.: Kristín Viðarsdóttir. Vefslóð:
http://www.borgarbokasafn.is/bokmenntavefurinn.nsf/pages/index.html