föstudagur, mars 18, 2005

Ég er hættulegur glæpamaður

Og við má bæta að ég er einnig viljalaust verkfæri stórhættulegra eiturlyfja sem mun gera mig að ofbeldisfullum geðsjúklingi og raðnauðgara með meiru. Af hverju?

Því ég hef neytt kannabis.

Þróttleysi neytandans
Mér finnst að það ætti að rífa upp eina gamla umræðu aftur með látum. Ég skil nokkurn vegin af hverju þessi umræða lognaðist útaf á sínum tíma, í fyrsta lagi voru aðstandendur cannab.is tvístígandi í þessari umræðu að mér fannst, heldur óviss hvort þau ættu að þora að taka þetta alla leið og í öðru lagi var alveg heiftarleg og ómálefnaleg gagnrýni gagnvart þessari umræðu útaf fordómum og tepruskap, efast ekki um að löggæsluhvolpunum hafi verið síðan sigað á þetta saklausa fólk um leið og það hafði kjark til að sýna á sér andlitið. Í raun veit ég ekkert hvað varð um bæði cannab.is, SEK og glæpamanninn Móra, en að vísu er til heimasíðar er heitir María Jóna, Ólafur Skorrdal reifar reglulega á blogginu sínu, en ötullasti málflutningurinn í sambandi við vafasama vímugjafa er án efa Guðmundur Sigurfreyr.

Hinn dæmigerði kannabis-neytandi, samkvæmt hinum dæmigerða "saklausa" vesturlandsbúa sem "aðeins fær sér eitt eða tvö rauðvínsglas á ári" og "fer með bænir sínar á hverju kvöldi", er viðbjóðslegur fíkill og skúrkur sem er annars flokks borgari og varla það, á auk þess skilið langan fangelsisdóm fyrir sína ólöglega neyslu. Þetta fólk er oftast illa lyktandi, sinnulaust um sitt útlit og umhverfi, sína vini og sína nánustu, atvinnulaust, glápir á sjónvarpið alla daga og tekur síðan sitt eigið líf um leið og þau fá ekki skammtinn sinn af hassinu. Þetta er hinn klassíski hasshaus. Allir sem reykja hass verða umsvifalaust dópistar og dusilmenni sem brjótast inní bíla og stela geislaspilurum, nauðga 9 ára telpum á björtum sunnudegi fyrir framan foreldrana sem horfa gáttuð á og þora ei að gera neitt enda aldrei að vita hvað hasshausin tekur upp á næst. Kannski nauðgar hann hundinum líka?

En hvað með þá sem taka spítt í nefið? Þau ráðast öll á saklausa vegfarendur með exi og hamri. Þau ræna líka geislaspilurum úr bílum. Kókfíklar? Þeir eiga það til að drepa fyrrum konu sína og fleygja henni í hraungjótu að loknum misþyrmingum, ekki sakar að þeir gera þetta oftast fyrir framan börnin sín. En sýruhausar? Allir inná Klepp að "éta loðnu" og verða þar til frambúðar. En þessir sem drekka áfengi? Nú, þeir sitja oft í faðmi fjölskyldunnar að spila lúdó og hlæja hátt og dátt yfir þeirri ómældri hamingju og gleði að þeir eru að minnsta kosti ekki að brjóta lögin einsog hinar ólánsömu sálir sem ekki geta sætt sig við spíra og skorpulifur.

Þessi ofangreind lýsing, sem kryddað er með nokkrum algengum fréttaskotum liðinna tíma, er ekki óalgengt að heyra frá fólki sem hefur verið innrætt þessi lýsing alveg frá barnaskóla eða gagnfræðiskóla þar sem "opin" og "gagnrýnin" umræða á sér stað um vafasama vímugjafa einsog hass eða heróín, enda enginn greinarmunur á hassi eða heróíni, bæði stórhættuleg eiturlyf sem geta látið mann framkvæma hina ótrúlegustu hluti, einsog að hlusta á tónlist (úúú!) eða horfa á bíó (aaa!) eða sitja í sófanum og slaka á (NEI!). En skondið er það að ef það er vímugjafinn sem "lætur" mann framkvæma þessa hluti, af hverju er þá neytandanum refsað? Ef viðkomandi hefur ekki stjórn á sjálfum sér við þessar gjörðir, einsog til dæmis að éta flatböku með kryddpylsu eða spila tölvuleiki, hvaða réttlæti er þá að refsa einstaklingum? Er hann ekki sjúkur útaf utanaðkomandi orsakavaldi? Svona einsog, ég veit ekki, alkahólistar eða offitusjúklingar? Ekki sektum við spikhlunki fyrir að skella í sig enn einum hamborgaranum? Ef til vill er undantekning sú ef hann er að hindra röðina í McCrap.

En það er ekkert skrýtið að sumir einfaldlega draga sig úr umræðunni þegar rökin sem þau fá á móti er "Nei, við tölum ekki um þetta" eða "það er ekkert mark á þér takandi, þú ert dópisti." Svona næstum svipað og boxari hættir í bardaganum þegar mótherjinn sparkar í punginn á honum.

Það er nauðsynlegt að við hugsum fyrir þig
"Þeir segja að við höfum vit til að velja þá, en höfum ekki vit fyrir okkur sjálf" sungu Fræbblarnir í hinu stórgóða lagi Bjór um ´81.
Hví öll þessi hræðslutaktík? Kannanir í sambandi við neyslu (eða einsog það er orðað af hálvitum, misnotkun) vafasama vímugjafa hefur ætíð sýnt það að meirihluti neytenda hefur fullkomna stjórn á neyslunni sinni og er, þó erfitt sé fyrir suma að ímynda sér það, venjulegt fólk. Venjulegt fólk!?! Gæti einhver þröngsýnn þverhaus hrópað upp fyrir sig. Þetta er ekki venjulegt fólk, þetta eru lögbrjótar, glæponar, dópistaaumingjar og ættu að skella þeim öllum inn tafarlaust! Fleiri fangelsi, harðari refsingar, reddum þessu með því að afnema bann við dauðarefsingar á Íslandi! Drepa, drepa, refsa, refsa!

Í þessarri afar vísindalegri og greinargóðri úttekt um hættur hamp-neyslu er talað um það að
Ungt fólk gæti orðið kvíðafullt og þunglynt. Af hverju kannabisneytendur eiga meira í hættu að vera kvíðafullt og þunglynt er ekki vitað.
(Lausleg þýðing)

Það gæti verið að ég sé að skjóta útí loftið hérna, en gæti ástæðan verið að þetta sé bannað með lögum og þú eigir í hættu að verða refsað eða sektað fyrir það að neyta kannabis, maður er nokkuð áhyggjulaus þegar maður drekkur bjór, en þegar maður keyrir á 70 km innanbæjar þar sem leyfilegur hámarkshraði er 45, þá er maður nett kvíðinn yfir því að lögreglan leynist á horninu. Eða, þetta er einnig annað skot útí loftið, gæti verið að þessi rannsókn hafi verið framkvæmt með a priori niðurstöðu? Ansi oft sem það gerist. Einnig að þessi rannsókn hafi verið unnin með það markmið í huga að láta kannabis líta illa út, týna til tölur þarna, henda þessum upplýsingum út, og jafnvel staðhæfa að þú eigir í hættu að fá geðklofa eingöngu útaf neyslu á kannabis.

En kannabis og geðklofi. Kommon. Ég get altént jafn auðveldlega sagt að það sé all svakaleg tenging á svona könnunum og geðklofa. Fjandinn, þú gætir verið úti í sólskinsblíðu að tygggja jórturgúmmí og alltí einu byrjaði að sjá ósýnilega bleika einhyrninga og rödd sem segjir að "Ég er Guð, gerðu það sem ég segji þér." get ég ekki þá sagt með nokkru vissu að sólin hafi orsakað geðklofan? Eða að efni í gúmmíinu hafi orsakað geðklofann? Geðklofi er afar sjaldgæfur sjúkdómur, rúmlega 1% af þjóðinni þjáist hugsanlega af geðklofa, eða einsog segjir á Netdoktor.is (leturbreytingar mínar)
Orsakirnar eru óþekktar. Þó er enginn vafi á því að erfðafræðilegir þættir ráða þar miklu um. Heildarlíkurnar á því að geðklofi komi fram á ævi hvers einstaklings eru u.þ.b. 1%. Ef afi eða amma manns er með sjúkdóminn aukast líkurnar í 3%. Líkurnar eru u.þ.b. 10% ef annar foreldra er með sjúkdóminn. Líkurnar aukast í u.þ.b. 40% ef báðir foreldrar hafa hann.
Um 15% þjóðarinnar hefur einhvern tímann prófað kannabis (en þó aldrei verið kannað, en þessi tala er byggð á könnun sem gerð var í BNA). Sem þýðir að þá ætti geðklofi að vera mun algengari en hann er. En vissulega má ég ekki vera svo barnalegur og afskrifa þessar rannsóknir með því að segja að hér sé enginn hætta á ferð, kannabis gæti orsakað að geðklofi geri vart við sig ef þú ert í þeim áhættuhópi sem nefnd er hér fyrir ofan. En samt sem áður eru þetta eingöngu vangaveltur, kenningar, "ef til vill"-pælingar. Öllu fylgir einhver viss áhætta, en er það ekki samt sem áður undir sjálfum einstaklingnum komið hvað viðkomandi vill og ekki vill.

Af hverju förum við ekki eftir þessari reglu:
Veldu jafnan þá athöfn sem hefur í för með sér meiri hamingju eða dregur meir úr böli þeirra sem ákvörðunin varðar en aðrar athafnir sem þú átt kost á.
-John Stuart Mill (1806-1873)

Er ekki skárra í samfélagi manna að sem flestir, helst allir, eru ánægðir. Ekki sumir, ekki nokkrir tækifærissinnar sem geta unað gott við sitt eftir að hafa lagt enn eitt lífið í rúst með því að styðja fangelsun fyrir jafn smávægilegan hlut og neysla á vímugjöfum almennt er. Eða þessari:
Breyttu einungis eftir þeirri lífsreglu sem þú vilt að verði að almennu lögmáli.
-Immanuel Kant (1724 –1804)

Segjum sem svo að bróðir þinn, systir, faðir, móðir, afi eða amma, lendi í þeirri klemmu að ánetjast morfínplástrum eftir erfiða aðgerð, varla viltu fangelsa þau, sekta þau? Er ekki skárra að hjálpa þeim. Hvað ef þau reykja öll maríjúana aðra hverja helgi, en á annað borð fara í skóla, fara í vinnu, taka til, elda mat og njóta lífsins, mundirðu hringja í lögregluna? Er þetta alltof persónuleg spurning sem kemur kannski málinu ekkert við? Skylirðislausa skylduboðið snýst um manninn, um einstaklinginn:
Hvað kemur þér það við hvað ég geri í mínu einkalífi? Og fyrir þá sem eru í einhverri siðferðislegri klemmu við að svara þessarri spurningu, leyf mér að svara henni fyrir ykkur, það kemur ykkur bara ekkert við hvað ég geri, hvað ég les, hvað ég horfi á, hvað ég drekk, hvað ég reyki eða neyti, svo fremi sem ég skaða ekki aðra manneskju!
-Bill Hicks (1961-1994)

Ef einstaklingar hafa áhuga á meiri fræðslu þá bendi ég á Wikipedia, New Scientist og Guðmund Sigurfrey.

Engin ummæli: