þriðjudagur, janúar 20, 2004

Demonic Males / Skaðræðis-karlmenn
eftir: Richard Wrangham og Dale Peterson

Lauk lestri á einni áhugaverðustu bók sem ég hef lesið í langan tíma. Þessi bók fer ansi víða í sínum rannsóknum og athugunum, það er drepið á ýmsum kenningum er varða innræti mannsins, þó aðallega karlmannsins. Til að mynda, af hverju eru karlmenn svona fúsir til að fara í stríð? Hvað fær karlmenn til að drepa, nauðga, ræna og rupla? Af hverju eru karlmenn gjarnari á að nota ofbeldi og árásarhneigð til að útkljá flest öll vandamál? Það gæti verið ýmsar ástæður, en ein ástæða sem gefinn er upp í bókinni er trúlegri en önnur: Stolt og hroki. Kynlíf og fjölgun.

Höfundar bókarinnar reyna að finna samsvarandi atferli og hegðun hjá skyldasta prímata mannsins, simpansanum í Zaire og nálægum stöðum. Einnig leggja þeir í það að rannsaka tiltörulega nýuppgvötaðan prímata, sem kvíslaðist frá simpansnum fyrir rúmlega 2 milljónum ára, hinn friðsama dvergsimpansa eða, einsog frumbyggjar og innfæddir í Zaire kalla apana, bonobos. Munurinn á þessum tveimur prímötum felst sérstaklega í því að simpansar lifa samkvæmt reglum föðurveldisins, en bonobos lifa samkvæmt reglum móðurveldisins. Föðurveldið er litað af gegndarlausu ofbeldi og ýmsum árásarhneigð, á meðan móðurveldið er friðsælt og mikið er af kynsvalli.

Simpansar voru taldir vera nokkuð friðsamar skepnur af þeim vísindamönnum sem höfðu fylgst lítillega með þeim á 19. öld og uppað seinni hluta 20. aldar, eða nánar tiltekið 1972 á svæði þarsem Jane Goodall dýralífsfræðingur, árið 1964, hafði lifað í tjaldi inní skógi í kringum samfélag simpansa, þarsem hún fylgdist með líferni, hátterni, hegðun og atferli simpansa. Hún gaf þeim banana og aðra ávexti til að ginna þá til sín, svo hún gæti skissað af þeim myndir, og athugað þá í nálægð. Þetta voru rúmlega 20 simpansar sem lifðu í einu samfélagi. Nokkrum árum seinna byrjuðu aðrir líffræðingar að fylgjast með sama samfélagi, en þá hafði þetta eina samfélag tvístrast í tvö, Khabala í norðri, sem voru 8 stykki og Khumana í suðri, sem voru 7. Hópur af fimm simpönsum, fjórum karldýrum og einu kvendýri frá Khabala, fór inná yfirráðasvæði Khumana-simpansa. Þeir leituðu af tilvonandi fórnarlambi, sem þeir fundu. Einn simpansi, að nafni Goti, að borða ávexti langt frá sínum hópi. Khabala-árásarhópurinn réðust grimmilega á Goti, bitu, börðu og spörkuðu, hoppuðu ofaná honum og enduðu á því að kasta grjóthnullungi í höfuðið. Að árásinni loknri flúðu Khabala-hópurinn inná sitt yfiráðasvæði, og skildu Goti eftir í blóði sínu. Goti var en á lífi er skilið var við hann og lifði í örfáa daga, hann hvarf svo og er talið afar líklegt að hann hafi látist. Atburðurinn sem átti sér stað í þessu simpansa-samfélagi átti sér enga hliðstæðu í dýraríkinu, nema hjá sjálfum manninum, þetta var skyndiárás á annað samfélag. Svona árásir voru tíðar af Khabala, og í lokin var búið að myrða alla karlkyns-meðlimi Khumana-samfélagsins. Khabala eignuðu sér landsvæði Khumana, ásamt eftirlifandi kvenndýrum, og stækkuðu sitt yfirráðasvæði.

Þessi atburður og fleiri eru taldir upp í þessarri stórgóðu bók, hegðun aðra prímata, órangútan, górillur og bavíana, eru rannsakaðir. Prímata-hegðun er síðan skoðuð og athuguð útfrá hegðun frumbyggja í Suður-Ameríku, Pólemísiu, Indónesíu og Ástralíu. Það er margt sem þessir hópar eiga sameiginlegt, skyndiárásir, nauðganir, morð, barnamorð og heimilisofbeldi. Einnig er reynt að svara afar erfiðum spurningum, sem dæmi: Af hverju laðast (sumar/margar?)konur að ofbeldisfullum karlmönnum? Af hverju eru konur fúsar í að verja ofbeldisfullan karlmann, sem lemur hana og nauðgar? Í báðum tilvikum er það útaf öryggi. Nokkur dæmi og nokkuð sannfærandi rök eru gefin upp.

Karlkyns-górillur nota afar einkennilega og óhugnalega aðferð til að ná sér í maka. Górillu-hópur er myndaður af 1-3 karlkyns-górillum, eða silfubaka, og allt uppað 8 kvendýrum. Silfurabakar skipta mökum á milli sín, og ólíkt simpönsum, eru engar valdaráns-tilraunir, þannig að górillur eru frekar friðsælar skepnur. En górilla sem ekki er hluti af þessum hópi, í raun utangarðs-górilla, á það til að gera skyndiárásir á þennan hóp, en hann er oftar en ekki hrakinn burt af verndurunum, silfurbökunum. En þegar górillan tekst innrásina á hópinn, þá reynir hann að hrifsa górillu-unga frá kvendýri, sem hann flýr með, og drepur. Kvenkyns-górillan lítur á þetta sem "mökunar-aðferð", og tekur upp samband við górillunna sem myrti ungann hennar. Einkennileg hegðun? Það fer eftir því hvernig litið er á. Ef silfurbakinn í hópnum getur ekki varið ungann sinn, þá ríkir öryggisleysi, þannig að kvendýrið flýr til barnamorðingjans, því hann er það hugrakkur að hafa þor og getu til að ráðast á stóran hóp, ræna ungabarni og flúið, þannig að sú górilla getur skapað öryggi, útaf þessu sérstæða hugrekki.

Fullorðnir karlkyns-órangútar koma í tveimur gerðum, stór og lítil. Stór órangútan er leiðtoginn í öllum tilfellum, og kvenkynið laðast eingöngu að stórum órangútum, þannig að það er sama sem enginn von fyrir þá litlu að geta náð sér í maka. En litlir karlkyns-órangútar eru á stærð við kvenkynið, og getur þ.a.l. flúið frá árásargjörnum órangúta af stærri gerðinni, þar sem þeir stóru eru mjög silalegir og hægfara, en þetta gefur þeim einnig annan kost. Þeir eiga auðveldlega með að elta upp kvendýrið og þröngva því til samræðis, og er þetta oftast eina leiðin hjá þeim til að fjölga sér og stækka kynstofn sinn. Sú vafasama athöfn leiðir til spurninguna er nauðgun eðlileg þróun eða öllu heldur hneigð til að viðhalda stofninum?

Það er svo margt sem kemur fram í þessarri bráðgóðu bók. En bókinn staðfestir þá kenningu, sem kom fram í skáldsögunni 1984, er varðar völd. Völd eru eingöngu til þess að fá völd. Þessi þrá fyrir völd stafar af stolti og hroka um það hver sé bestur og mestur. Þetta eru frumhvöt sem einkennir, sér í lagi, bæði karlkyns apa og mannskepnur.

Undantekninginn frá þessum árásarhvötum eru hinir friðsælu bonobos, en sá sem hefur völdin hjá þeim stofni er kvendýrið, og ólíkt simpönsum, órangútum, górillum og mönnunum, þá lifir þessi nákomni ættingji okkar í friði og stóískri ró, og stjórnast að mestu af vinsemd og losta. Það er enginn deila um yfiráðasvæði milli mismunandi bonobos-samfélagshópa. Þó að ofbeldi hefur auðvitað gert vart við sig í sumum hópum, hefur það aldrei leitt til dauða, ólíkt fyrrtöldum öpum og mannskepnum. Oftast þegar tveir mismunandi hópar af bonobos hittast á förnum vegi, þá fer einn apinn af annahvorum hópnum,oftast kvendýr,sem fer yfir í hinn og byrjar á kynlífsathöfn með öðrum apa, oftast af sama kyni. Hjá báðum kynunum af bonobos skiptir það litlu máli hvort stundað séu samkynhneigðar eða gagnkynhneigðar samfarir, enda hafa þessir apar mikið gaman af kynhvötini, byrja oftast afar ung að fikra sig áfram í kynlífinu.

En, það er ekki hægt að gefa þessarri bók góð skil í þessu litla innleggi, ég get eingöngu mælt eindregið með þessarri bók. Þetta er skemmtileg, áhugaverð og rosalega vel skrifuð bók. Hún skilar efninu vel frá sér, auðlæs og varðar engu um hvort þú sér fagmaður eða áhugamaður um atferlis- og frumsálfræði, stjórnmál, frumhvatir og kenndir, heimspeki, trú, frumbyggja eða simpansa, því hvort áhugi er á einu eða öllu fyrrtöldu þá efast ég ekki um að þú, lesandi góður, munt hafa gaman af af þessarri bók.

Engin ummæli: