miðvikudagur, desember 07, 2005

Rauðir rithöfundar

[Lokaverkefni í ísl503.Það hefði verið skemmtilegra að skella fleirum kommum í þennan fríða hóp, en ég læt þessa mannfjanda bara duga, en fékk þó 10 fyrir þetta]

Það er svo létt um logna eiða nú,
því ljónið geymir stundum sína bráð.
- En hver vill hjara á þeirri nýju náð
Til 1943?

-Frelsi, Jóhannes úr Kötlum, 1935

Inngangur

Það hefur verið erfitt að finna viðfangsefni fyrir þetta lokaverkefni. Máske má það vera þessi litla þörf að vera nett á skjön við alla aðra og auk þess að reyna á frumlegheitin með því að koma með áhugavert efni, auk þess er þessi vottur af uppreisnargirni sem virðist hrjá menn einsog mig sem hallast að stefnum sem ekki er stjórnvöldum þóknaleg.

Í þetta sinn komu frumlegheitin aftan að mér, einsog komið hefur fyrir áður, því eftir lestur á ýmsum heimildum byrjaði ég á verkefninu sem átti upprunalega að fjalla um meistara Þórberg Þórðarsson og nazistamálið árið 1934. Þegar ég hafði klárað rúmlega 2 síður og las það yfir kom í ljós að þetta tengdist lítið bókmenntum eða bókmenntastefnu, að undanskildum rithöfundinum sjálfum, honum Þórbergi.

En það var samt einn rauður þráður sem ég fann í heimildarvinnu minni sem leiddi til þriggja stórmerkilega höfunda sem höfðu gífurleg áhrif á samtíma- og framtíðarhöfunda með skrifum sínum. Þeir áttu það sameiginlegt að þeir gagnrýndu harkalega ýmislegt í samfélaginu og hið formfasta ljóðaform sem einkenndi íslenska skáldagerð og lögðu línurnar af nýjum stefnum á Íslandi sem þegar hafði náð einhverji fótfestu erlendis. Einnig lágu leiðir þeirra í sameiginlegan flokk og sameiginlega stefnu, þó skildust leiðir á einhverjum tímapunkti.

Halldór Kiljan Laxness, Steinn Steinarr og Þórbergur Þórðarsson eru dag þjóðþekktir rithöfundar og skáld. Þeir voru einnig byltingarmenn í stíl og formi ljóðlistar og skáldskap og áttu allstóran þátt í að breyta landslagi bókmennta hér á landi. En þeir voru einnig byltingarkenndir á annan hátt en ritlist, þeir hölluðust að kommúnisma, sósíalisma og að vissu leyti anarkisma og voru þar af leiðandi töluvert uppreisnagjarnir bæði er þeir voru ungir og aldnir, ollu fjaðrafoki í samfélaginu með hispursleysi sínu sem mátti lesa í ritum þeirra og stundum í verki og gátu komist í töluverðan vanda út af pólítískum skoðunum sínum.

Þannig að í þessu verkefni mun ég aðeins fara útí ævi, störf og skáldskap þessara höfunda og ætla ég mér að einskorða nokkurnvegin við tímabilið frá 1920-1960, frá því að Bréf til Láru kom út, þegar útgáfa á Rauðum Pennum hófst, er Rauður logi brann birtist, Atómstöðin olli deilum auk fleiri bókmennta og drepa aðeins niður á heimsóknir þeirra til Sovét-Rússlands. Það verður reynt að fara eins vítt og breitt í eins stuttu máli og hægt er.

Þórbergur Þórðarsson

Meistarinn sjálfur, Þórbergur Þórðarsson var sá fyrsti til að birta kvæði og gefa út ljóðabækur sem beinlínis gerðu grín að ljóðahefðinni og kom auk þess með módernískar pælingar, eða öllu heldur fútúrískar, en Þórbergur vissi ekki að sú stefna væri í bígerð í Ítalíu á næstum sama tíma og hann var að semja þessi ljóð. Hér er dæmi um nýjungagirni Þórbergs, síðasta erindið í kvæðabálknum “Fútúrískar kveldstemmingar”

Láttu geisa ljóða úr bási,
ljúfa barn í mannlífsskarni!
Spæjari!Varstu sprok að segja?
Sprungu lýs á rauðri tungu?
Glyserín er guðleg læna.
Gling-gling-gló! og hver á hróið?
Nybbari sæll og Nói skrubbur!
Nonsense, kaos, bhratar! monsieur!

Þetta ljóð var ort undir hrynhendum bragarhætti, eða liljulagi, og eflaust gert til að gera gys af hátíðleikanum. Kvæðabálkurinn birtist fyrst í Hvítum hröfnum sem kom út 1922, en hann hafði áður gefið út ljóðabækurnar Hálfir skósólar (1915) og Spaks manns spjarir (1917). Undarlegt kann það að virðast að Þórbergur hafi ort svona óhefðbundin ljóð, en það gæti verið að “[y]rkingar Þórbergs [voru] rökrétt aðferð skálds sem er sjálfstætt og uppreisnargjarnt í andanum og vill rísa gegn “stöðnuðum hugsanaformum og útslitnum málvenjum” í ljóðagerðinni[1].”

En Þórbergur hætti svo að yrkja og fór að einbeita sér að ritstörfum og í því ruddi hann brautina fyrir ævisagnaskrifum framtíðarinnar. Honum tókst að blanda saman persónulegu lífi við heimspeki, pólitík og skáldskap á snilldarlegan hátt sem leiddi til ritunar á bókum borð við Ofvitann, Íslenzkur aðall og Sálminn um blómið. Síðan þá hafa rit Þórbergs verið hópað sama í tvö ritgerðasöfn, kvæðasafninu Edda og smáævisögusafninu Í Suðursveit.

Sérstakir fangaskálar, eins konar bráðabirgðafangelsi, eru uppmubleruð með alls konar píningatækjum, svo sem stálsprotum, svipum, hlekkjum, böndum, kylfum, vatnsskjólum og laxerolíu.

Þetta er klausa úr víðfrægri grein Þórbergs Þórðarssonar[2], Kvalaþorsti Nazista, sem birt við lok ársins 1933 í Alþýðublaðinu. Í ársbyrjun 1934 birtust tveir pistlar í sitthvoru blaðinu, annar í Morgunblaðinu og sá seinni í Vísir. Í pistli Morgunblaðsins var skýrt tekið fram að Þórbergur væri “maður sem engin tæki mark á” en Þórbergi var ásakður um að spilla viðskiptasamningum milli Íslands og Þýskalands, sem má nú teljast einkennilegt ef hann væri “maður sem engin tæki mark á.”

Ræðismaður Þýskalands var mjög í mun að fá þennan mann kærðan. Málshöfðun var fyrirskipuð og hann átti að vera kærður fyrir landráð. Í þessu máli var dæmt og hann fundinn sekur og þurfti að borga sekt sem voru 100 krónur. Nú er ég ekki svo viss hvað gengið var á þessum tíma, en skilst mér á mínum heimildum að þetta gæti hafa hljóðað uppá rúmlega 40-50.000 krónur.

Rúmlega ári síðar var gefin út ritsafnið Rauðir pennar frá útgáfu Máls og menningar. Þar birtist kynning og yfirlit um efni líðandi stundar eftir Kristinn E. Andersen þar sem hann stiklaði einnig á sama efni og ofvitinn, í styttra máli þó, en sagði að “[o]fsóknir, fangelsanir, og einhverjar ægilegustu pyndingar, sem veraldarsagan kann að greina.”[3] Margt af því sem Þórbergur skrifaði var og hafði verið sagt í mörgum öðrum blöðum og tímaritum í Ameríku, Bretlandi og annarstaðar í Evrópu, að undanskildu Þýskalandi auðvitað.

Í einu af mörgum samtölum sem Matthías Johannessen hafði við Þórberg, spjölluðu þeir aðeins um blaðamennsku[4]. Líklegast er að skoðun Þórbergs á blaðamönnun má að einhverju leyti rekja til þeirra ummæla sem um hann var haft í níðskrifum Morgunblaðsins og Vísis þegar hann sagði við Matthías að “blaðamennskan hér á landi er aum, þessar óhefluðu pólítisku falsanir og ósannindi, hlutdrægni og þröngsýni.”

Í bókinni Moskvulínan er Arnór Hannibalsson mikið í mun að reyna á einhverskonar uppgjöri við kommagrýluna hér á Íslandi og gagnrýnir þjóðþekkta og yfirlýsta kommúnista, meðal annars Halldór Laxness og Þórberg fyrir að fara bara fögrum orðum um byltinguna, lífið og stjórnskipulagið í Rússlandi[5], meðan þeir gagnrýndu á sama tíma stjórnskipulagið hér á Íslandi, Bretlandi og Ameríku og spöruðu ekki gífuryrðin í þeim efnum. Það er vissulega einkennilegt að lesa hvað Þórbergur hafði að segja um einn frægasta einræðisherra 20. aldar, en hann segir að “Stalín var friðarsinni” en bætir við að “honum [hafi] orðið skyssur á.”[6] Hann gerðist í raun sekur um það sem hann ásakaði andstæðinga sína oft um. Hann laug.

Það var margt sem Þórbergur lét eftir sig sem grundvallaðist af vandaðri íhugun og nákvæmni, en hann lét sjálfur glepjast af áróðri Sóvetlýðveldisins og í þessum efnum lifði Þórbergur í “trú, en ekki skoðun[7] sem var eitthvað sem hann sjálfur hafði mikla óbeit á.

Halldór Kiljan Laxness

Það má ef til vill fullyrða að Halldór hafi verið fyrsti rithöfundurinn á landinu til að kynna nýjar bókmenntastefnur til Íslands. Hann hafði dvalist í langan tíman erlendis og kynnt sér samtímabókmenntir í ferðum sínum. Hann flutti inn til landsins stefnur einsog expressjónisma og súrélisma[8]. Glögglega má sjá að ljóðið Únglíngurinn í skóginum einkennist af súrélískri byggingu og innihaldi og hans fyrsta magnus opus, Vefarinn mikli frá Kasmír, er skrifað í expressjónískum stíl og ber vott af súréalísku formi, og að vissu leyti var sú bók uppgjör hans við ferðir hans erlendis og þegar hann var skírður inní kaþólsku kirkjuna.

En þó var hann ekki fyrsti Íslendingurinn til að brjóta upp ljóðahefðina, Jóhann Sigurjónsson er talin vera fyrsta móderníska skáldið með því að sleppa stuðlum, höfuðstöfum og rími og hafa óreglulegar ljóðalínur og Þórbergur Þórðarsson var búinn fá birt “Fútúrískar kveldstemmingar” og gefa út Hvíta hrafna, einsog áður hefur verið minnst á. En Halldór var vissulega sá fyrsti til að koma með nýjan vinkill á íslenskar bókmenntir með Vefarann.

Vefarinn var samt hans fyrsta og í raun eina bók í þessu formi, því fljótlega eftir komu sína til landsins þá henti hann kaþólskunni frá sér og fór að sökkva sig í kommúnísk fræði og rússnesku byltinguna, og gerðist ötull talsmaður nýrrar tímar. Bókmenntastefnan sem átti eftir að þróast úr þessari samsuðu var sósíal-realismi.

Sá sem er handgenginn íslenskum bókmenntum og hefur drukkið í sig anda þeirra, hann neitar ósjálfrátt að vera annarra manna handbendi, og hann mun ekki eiga hæfileika til að selja sig pólítiskum þrælahöldurum.[9]

Halldór Laxness var og hefur á undanförnum árum verið harðlega gagnrýndur fyrir þátt sinn í stuðningi Sovét-Rússlands og upphefja stjórnskipulagið á eitthvað æðra plan sem það var ekki á. Hann var “öflugasti áróðursmaður kommúnistaflokksins á Íslandi um þrjátíu ára skeið.”[10]

Sumir mundi afsaka háttalag Halldórs með því að segja að hann hafi látið glepjast af áróðrinum frá stjórnvöldum um að allt hafi verið í himnalagi og alþýðan hafi vissulega verið við stjórnvölina. Annað kom uppá teninginn. Hann viðurkenndi mjög seint á ævinni hvað var í raun að gerast í þessu landi í samtali við Matthías Johannessen. En hann vildi ekki sjá það eða trúa því að verið væri að flytja fólk í gúlagið eða drepa einstaklinga sem voru með skoðanir sem ekki voru Stalín þóknaleg. Hann, og vissulega fleiri, vonuðu að sósíalismi væri að breiðast útum hinn gjörvalla heim, og viðhéld gegndarlausum áróðri og útkoman var Atómstöðin árið 1948. Þetta varð mjög umdeild bók á sínum tíma og olli töluverðum deilum. Hún fjallaði á aðra röndina um ágang Bandaríkjana og gagnrýndi stefnu þeirra og á hina röndina var drepið niðrá dýrðarljómann sem kommúnisminn var.

En Halldór er samt ötullasti og víðlesnasti rithöfundur Íslands og það þýðir ekki að gera lítið úr hans þætti að upphefja íslenskar bókmenntir á nýtt og betra plan.

Steinn Steinarr

Ég heilsa´ yður, öreiga-æska,
með öreigans heróp á tungu.
Hjá yður fæddust þær viðkvæmu vonir,
sem vordagar lífs míns sungu.
Hjá yður er falinn sá eldur,
sem andann til starfsins vekur,
sem brýtur að lokum heimskunnar hlekki
Og harðstjórann burtu rekur.

Svo hljóma fyrsta erindið í kvæðinu Öreiga-æska og nokkuð augljóst er hvaðan innblásturinn er fenginn[11], en þó lýsti Steinn Steinarr því yfir í viðtali að hann hafi aldrei verið kommúnisti. En það er ekki óeðlilegt halda því fram að hann hafi verið töluvert rauður inn við beinið, samanber ofangreint kvæði hans úr Rauður logi brann sem kom út 1934, sama ár og hann var rekin úr Kommúnistaflokki Íslands.

Í Kvæðasafn og greinar sem kom út 1983 er að finna viðtal við Stein er birtist í Alþýðublaðinu 1956, greinin heitir Sovét-Rússland er vonandi ekki það, sem koma skal. Þar tjáir hann blaðamanni um að hann hafi ekki verið sérlega hrifinn af ferð sinni um Rússland og þetta var andsvar hans við lofsöngvum Jón Bjarnason sem höfðu birst í sama blaði. Hann sagði frá því sem hann sá og fannst og kallaði stjórnskipulagið “sósíalfasisma”.

Steinn var uppreisnamaður og líkaði alls ekki vel við ástandið í Rússlandi og missti síðan algjört álit á landinu þegar uppreisnin í Ungverjalandi var kveðið niður með vopnavaldi. Steinn var án efa einn af þeim fyrstu “rauðu skáldum” sem fordæmdi opinberlega aðgerðir Rússa. Annað er uppá teninginn með Þórberg Þórðarsson og Halldór Laxness.

Hann kom fyrst fram á sjónarsviðið sem fullmótað pólítískt skáld með bókinni sinni Rauður logi brann og olli formbyltingu í íslenskri ljóðagerð. Sjálfur sagði hann að hann hafi ekki byrjað að yrkja fyrren 1930, þegar “andinn kom alltí einu yfir mig.”[12] Kristján Karlsson segir í inngangi á Steinn Steinarri í kvæðasafni hans, að “Steinn skildi að háð og skop og níð fara að líkindum bezt í mjög sniðföst, langvöndu formi, með hvössum hornum ríms”, sem dæmi má nefna kvæðið Kommúnistaflokkur Íslands, In memoriam sem birtist í ljóðabókinni Spor í sandi sem kom út 1940, en Steinn var rekinn úr Kommúnistaflokk Íslands árið 1934:

Sic transit gloria mundi, mætti segja,
svo mjög breytt frá því, sem áður var.
Og einu sinni var hér frægur flokkur,
sem fólksins merki hreint og tigið bar.

Svo hættulegt var ekkert auð né valdi
og yfirdrottnan sérhvers glæframanns.
Svo dó hann hljóðalaust og allt í einu,
og enginn vissi banameinið hans.

En minning hans mun lifa ári og aldir,
þótt allt hans starf sé löngu fyrir bí.
Á gröf hins látnar blikar benzíntunna
frá British Petroleum Company

Honum var að vísu boðið að ganga í flokkinn stuttu seinna eftir brottrekstur, en Steinn var samkvæmur sjálfum sér og stoltur og sagði einfaldlega “Nei, takk!” og eftir það gekk hann ekki neinn flokk og við tók umbreyting frá eldheitum sósíalista í óflokksbundið og pólitískt viðrini. En þrátt fyrir það var hann kallaður kommúnisti af andstæðingum þanns flokks, en Steinn fannst að “í augum þeirra sjálfra var ég oftast hálfgerður nazisti”[13]

Hann hafði gífurleg áhrif á samtímaungskáld, einsog Jón Óskar, Jón úr Vör, Thor Vilhjálmsson og fleiri. Steinn og Jón úr Vör má telja sem brautryðjendur í atómskáldskap, þó var Steinn mjög hefðbundinn, sérstaklega þegar kom að níðkvæðum. En það var samt Tíminn og vatnið sem olli straumhvörfum. Þessi 18 erinda kvæðabálkur telst eflaust sem eitt mesta stórvirki í skáldskap, þó að margir hafa ekki náð að rýna í þær ljóðarúnir sem Steinn orti. En Tíminn og vatnið vekja upp svo margar kenndir og tilfinningar að það er í raun upplifun í sjálfu sér að lesa það upphátt. Eftir útgáfu Tímans og vatnið hætti Steinn nær alfarið að yrkja, allavega komu ekki fleiri ljóðabækur eftir hann eftir það.

Það kannast margir við Stein sem ráfandi rugludall í miðbæ Reykjavíkur. Hann var ekki beint útskúfaður úr þjóðfélaginu fyrir sínar skoðanir, kveðskap eða furðulegheit, eða svo segir hann sjálfur, heldur “að ég hafi fremur lítið sótt til þjóðfélagsins og þjóðfélagið vitanlega þaðan af minna til mín, - jæja, en við höfum alltaf verið dágóðir kunnigjar, þrátt fyrir það.”

Steinn var einn af þeim ungu draumóramönnum sem taldi að örlögin mundu bjóða honum uppá tækifæri til að láta ljós sitt skína, hann las Marx, gekk í Kommúnistaflokkinn og taldi sig vita, einsog margir aðrir, að Kommúnisminn væri hin eina og sanna rétt leið til að ná markmiði um betra þjóðfélag, betra líf og betra fólk og Sovetríkin væri hið fullkomna ríki, sannkölluð útópía. En þessar vonir urðu að litlu þegar hann heimsótti Rússland og urðu síðan engu í ljósi aðgerða Rússa gegn andspyrnu Ungverja árið 1956, og hann var eflaust enn reiður þegar hann sagði í viðtali við Morgunblaðið 1957:

Sumir halda því fram, að mér sé illa við Rússa, það er hverju orði sannara, ég hata þá og fyrirlít, þeir hafa svikið mig og alla menn, þeir hafa gert vonir okkar og fraum um betra og fegurra mannlíg að þátttöku í óafmáanlegum glæp. Hver sá kommúnisti, sem ekki þorir að viðurkenna þessa staðreynd fyrir sjálfum sér og öðrum, hlýtur að vera keyptur þræll, það er allt og sumt – og nú skulum við tala um eitthvað annað.

Niðurstaða

Þessir þrír risar í Íslenskri skálda- og bókmenntagerð hafa óneitanlega haft áhrif á núverandi, fyrrverandi og tilvonandi rithöfunda og skáld með orðum sínum og gjörðum. Vissulega hefur sú lesning haft áhrif á mig en þó er annað mál hvort að ég muni leggja þetta fyrir mig, þ.e. ritstörf.

Einn áhugaverðasti einstaklingurinn finnst mér vera Steinn Steinarr. Einsog ég drap á þá var hann mjög samkvæmur sjálfum sér, ólíkt Halldóri og Þórbergi, þegar kom að stjórnmálalegum skoðunum. Halldór og Þórbergur eiga það því miður sameiginlegt að hafa logið af alþjóð í sambandi við Rússland. En ég vill ekki taka sama pól í hæðina og Arnór Hannibalsson og halda því fram að þetta hafi eitthvað sérstaklega komið niður á þeim, því bókmenntaverking sem þeir skildu eftir er algjör fjársjóður.

Það er lítið annað sem ég get bætt við, nema að það mætti vera meira til um Stein Steinnarr, en það sem ég hef lesið mun hvetja mig til að kynna mér meira af ævistörfum og lífi hans.

Heimildaskrá:

Arnór Hannibalsson. 1999. Moskvulínan. Nýja bókafélagið. Reykjavík
Eysteinn Þorvaldsson. 1980. Atómskáldin: Aðdragandi og upphaf módernisma í íslenskri ljóðagerð. Hið Íslenska bókmenntafélag. Reykjavík
Heimir Pálsson. 2004. Sögur, ljóð og líf. Vaka-Helgafell. Reykjavík
Matthías Johannesson talar við Þórberg. 1959. Í kompaníi við allífið. Helgafell. Reykjavík
Rauðir pennar I, ritstjóri Kristin E. Andrésson. 1935. Bókaútgáfan Heimskringlan. Reykjavík
Steinn Steinarr. 1983. Kvæðasafna og greinar. Helgafell. Reykjavík
Þórbergur Þórðarsson. 1977. Ýmislegar ritgerðir, fyrra bindi. Mál og menning. Reykjvík



[1] Eysteinn Þorvalddson, 1980, s40

[2] Ýmislegar ritgerðir I, 184-188

[3] Rauðir pennar I, 1935, s22

[4] Matthías Johannessen, 1959, s56

[5] Arnór Hannibalsson, 1999, s309-313

[6] M.J, 1959, s14

[7] Ýmislegar ritgerðir I, s.190

[8] Eysteinn Þorvaldsson, 1980, s54

[9] Halldór Kiljan Laxness, 1942, s96

[10] Arnór Hannibalsson, 1999, s199

[11] Steinn Steinarr, 1983, s3

[12] Ibid, s348

[13] Ibid, s351

Engin ummæli: