fimmtudagur, desember 08, 2005

Arðrán og nýlendur

I.
Í kaflanum kemur fram að átaksinnar telja að Evrópa hafi notið góðs af arðráni nýlendnanna í þriðja heiminum.Á nýlendutímanum var Ísland hluti Danaveldis. Merkir það að við höfum verið í sömu sporum og nýlendur þriðja heimsins eða nutum við á einhvern hátt góðs af nýlendunum þar?

Í álfum einsog Afríka, Asía og Ameríka var og er töluvert af náttúrulegum auðlindum, má til að mynda nefna gas, olía, gull, demantar og aðrir verðmætir málmar sem nýlenduveldum var mjög í mál að sækjast í. Á Íslandi er vissulega auðlind: fiskur. Hvort að við vorum arðrænt af þessari auðlind er síðan annað mál en ég tel að svo hafi ekki verið. Það var ekki mikil ástæða fyrir því að vera nýlenda undir Danaveldi önnur en hégómi danskra stjórnvalda. Óbeint nutum við góðs af nýlendunum þegar Bretar og síðar Kanar komu og dældu fjármagni inní Ísland, fjármagn sem þeir höfðu grætt á arðráni í fyrrnefndum álfum.

II.
Sumir segja að áður fyrr hafi nýlendustefnan átt þátt í að stuðla að þróun í þriðja heiminum og að það sami gildi um auðhringi nú á dögum. Aðrir telja að þessi tvö fyrirbæri hafi hindrað og hindri enn þróun í þriðja heiminum. Takið saman rök fyrir báðum sjónarmiðum og takið rökstudda afstöðu til málsins.

Útbreiðsla hugmynda og menntun stuðlar að vissri framþróun ríkja og eflaust stuðluðu nýlenduveldin að lýðræðisþróun ýmissa ríkja. Auðhringir dæla nú fjármagni í ríkistjórnir í Suðri, þ.e.a.s. hluta af þeim arði sem auðhringir hafa af aðgangi jarðefnaeldsneyta og ýmsum málmanámum. En hvað hefur þetta áorkað? Í mörgum ríkjum hafa verið gegndarlausar borgarastyrjaldir, milliríkjadeilur, hryðjuverkaárásir og önnur átök, auk langtíma þurrki, hungursneyð, sjúkdómafaraldur. Fátækt er mikil og glæpatíðni (morð, nauðganir, þjófnaður o.fl.) helst í hendur við volæðið. Miðað við stærðargráðu af þessum hryllingi þá eru mætti réttilega kalla þá atburði sem eru að eiga sér stað í Afríku þriðja heimstyrjöldin, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að aðrar álfur hafa ekki dregist inní þessi átök þó að vissar stofnanir og fyrirtæki hafa gert það. Nýlenduveldin stuðluðu að þessari sérstöku lýðræðisþróun og auðhringir styðja við spillt lýðræði til þess eins að hafa greiðan aðgang að auðlindum. Hugmyndirnar, fjármagnir og menntunin hefur ekki breiðst lengra út en innan stjórnaráð ýmissa landa.

III.
Haraldur Ólafsson kristniboði sagði í Kirkjuritinu (3. hefti 1982): “Við erum arðræningjar og kúgarar, þriðji heimurinn er öreiginn.” Hvernig má rökstyðja þetta sjónarmið? Stenst rökstuðningurinn nákvæma skoðun?

Ef hann Haraldur meinar með orðinu “við” að við öll í hinum vestræna heimi erum arðræningjar og kúgarar þá hefur hann alveg rétt fyrir sér. Við styðjum beint og óbeint arðrán með því að kaupa vörur frá fyrirtækjum sem stunda arðránið og þar með styðja auðhringi til frekari arðrána og annara ámóta aðgerða. Þetta gerir okkur einnig að kúgurum því að mikið af þessum sömu fyrirtækjum eru með undirverktaka í suðaustur-Asíu, Afríku og víðar sem starfrækja þrælakistur þar sem börn allt niðrí fjögra ára gamalt vinnur næstum 14-16 tíma á dag án hlés eða klósettferða við að sauma skóna sem við göngum í, gera farsímana sem við tölum í og tína kaffibaunirnar sem við neytum og fá kannski sem samsvarar hundrað krónur á viku fyrir starfskilyrði sem varla er mönnum bjóðandi. Við erum kúgarar því við erum ekki að þrýsta á okkar ríki eða önnur sem hafa höld og tögl í efnahagskerfi heimsins og hafa hagkerfi þriðja heimsins undir sínum járnhæl.

[þetta er úr félagsfræðiverkefni, spurningarnar koma úr bókinni Ríkar þjóðir og snauðar, eftir Hannes Í. Ólafsson]

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ísland var víst arðrænt með einokunarversluninni...
Danir höfðu líka strategísk völd yfir hafsvæðinu, völd sem hægt er að nýta sér. Sömu völd hafa þeir nú yfir Færeyjum og Grænlandi og er hafsvæði þeirra talið til "Det danske farvand" eins og þeir komast svo skemmtilega að orði. Danir eru ekki að gera í gríni sínu tilkall til smáeyju við NA Grænland (sem þeir "berjast" við Kanadamenn um með flöggunum), þetta er ekki bara hégómi og áhugamál. Þetta snýst um völd yfir sjó-/landsvæðum. Þegar siglingaleið opnast vegna bráðnunar heimskautanna eru miklir hagsmunir í húfi þar sem leiðin til Asíu styttist svo um munar og þá á sá sem "á" hafsvæðið mikil völd í vændum þegar skipaflutningar hefjast þar á milli. En þess má líka til gamans geta að USA viðurkennir ekki "norður-kanadísk" hafsvæði sem kanadísk heldur séu þau alþjóðlegt. Hmmm... hví skyldi það vera... hégómi?
Úps skrifaði allt of mikið... skal þegja núna :(


Annars voru Danir ekkert svo harðir "húsbændur".