sunnudagur, apríl 16, 2006

Sneið af lífi

Var í Reykjavík um daginn í einhverjum erindagjörðum. Einn góðan veðurdag, og það var góður veðurdagur, var ég á flækingi og ferðinni var heitið til félaga míns á Skólavörðustíg. Ég gekk frá Laugavegi og fór svo upp Vitastíg.

Frá horni Grettisstíg og Vitastíg arkar ungur maður um tvítugt og, merkilegt nokk, tekur stefnu að mér.

"Komdu sæll og blessaður. Afsakið ónæðið, en ég var að losna frá Litla-Hrauni fyrir þrem vikum og er að reyna halda mínu striki. En ég er ekki með neina vinnu og peningurinn minn er búinn. Og í staðinn fyrir að brjótast inní bíla eða eitthvað þá hef ég ákveðið að fara rónaleiðina og betla pening, vandamálið við þessa aðferð er að sumt fólk er hrætt við mig þegar ég nálgast það. En annars, geturðu nokkuð gefið mér einhvern pening?"

Ég var mjög undrandi. Nær orðlaus. En kinkaði kolli.

"Augnablik, ég skal bara athuga"

Ég gramsaði í buxnavasanum vitandi það að ég átti eitthvað klink. Dró upp þrjá skínandi gullpeninga merkt með vænum hundrað kalli og afhendi þessum unga manni það fjármagn.

"Þetta er ekkert rosalega mikið, en gjörðu svo vel," sagði ég hálf-afsakandi.

"Hva´? Þetta er nú þrjúhundruð kall," sagði hann kátur "það er nú töluvert fyrir mann einsog mig. Þakka þér kærlega fyrir."

Svo hélt hann sína leið.

Mér fannst þetta skondið á marga vegu. Skondið í ljósi þess að ég var nýbúinn að fara í hraðbankann og var því með 15.000 kjeddl í jakkavasanum. Skondið hvað hann var furðulega glaður. Og skondið að hann sagði að fólk hræddist hann þegar hann nálgaðist því ég var dáleiddur af honum. Þessi maður hafði furðulegustu augu, öllu heldur lithimnu, sem ég hef á ævinni séð. Sumir mundu segja tryllingsglampi, e.t.v. tengt ofskynjunarlyfjum eða hann sé með geðklofa, því augun minntu mig á eina manneskju á geðsjúkrahúsi sem ég vann á.

En með þessum stórfurðulegu augu, sjálfsöryggi, óaðfinnanlega framkoma, með því að koma sér beint að efninu og auk þess að vera nokkuð vel að máli farinn gat ég ekki annað gert en að veita þessum manni þessa smáaura fyrir hreint stórkostlegt sölutrikk.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

weirdness.

Vésteinn Valgarðsson sagði...

Vá, ertu ekki að grínast, sami herramaður áreitti mig og nokkra aðra á dögunum og uppskar 130 krónur! Það stóð af honum kaupstaðarstækjan. Synd annars að hann þurfi að gera þetta. Gæti farið í meðferð og ... eitthvað. Það er víst ekki mitt að hafa vit fyrir óreglumönnum, eða hvað?