miðvikudagur, janúar 12, 2005

Valkvæm samkennd og meira til...

Það er til hugtak er kallast "valkvæm hugsun", en þar er átt við er aðilar sem vilja viðhalda vissri skoðun með völdum rökum og upplýsingum en hunsa rökin sem stangast á móti þessarri skoðun, oft notað í trúmálum en á jafnmikið við stjórnmál, hagfræði, fjölmiðlum og lögfræði svo eitthvað sé nefnt.

Eftir þessar hörmulegu náttúruhamfarir í Indlandshafi sem olli dauða nær 160.000 manna í Indlandi, Taílandi, Indónesíu, Sómalíu, Súmötru og fleiri löndum, þá hefur mikið vatn runnið til sjávar þegar kemur að hjálparstarfi, hjálpargögnum og peningaframlögum, sem er gott og vel. En það sem fer mest í mig er fjölmiðlafárið í kringum þessar hamfarir. Ég er ekki að segja að fjölmiðlar eigi ekki að skipta sér af þessu máli, en mér finnst það einkennileg hvað, þó sérstaklega vestrænir fjölmiðlar og fréttamenn geta verið alveg svakalega uppteknir af hræðilegum atburðum, þó sérstaklega ef það tengist vestrænum borgurum á einhvern hátt, og þó aðallega ef þeir deyja í þúsundavís á einu bretti (11. september 2001) einsog gerðist þarna í suðurhluta Asíu. Því fréttaflutningurinn, einsog hér Íslandi, var einhvern megin á þá leið að "vorkenna aumingja Svíunum meira en innfæddum" og efast ég ekki um að þannig hafi það verið annarstaðar í Evrópu og Ameríku.

Þetta fékk mig aðeins til að staldra við og hugsa, svona einsog maður hefur margtoft gert áður; er líf hins vestræna borgara meira metið en borgara frá, t.a.m. þriðja heiminum? Þetta er það sem ég kýs að kalla valkvæm samkennd.

Ókei, nú skulum við taka annað dæmi: Það eru atburðir í gangi í Afríku sem væri kallað þriðja heimstyrjöldin ef sömu atburðir ættu sér stað í Evrópu. Borgarastyrjaldir, milliríkjadeilur, uppskerubrestur, hungursneyð, sjúkdómafaraldur, barnadauði, mannrán, nauðganir, kúgun og arðrán er ekki nær daglega, ekki næstum því daglega, ekki um það bil daglega, heldur á hverjum einasta degi og hefur haldist í nær óbreyttri mynd í tugi ára. Nær óbreyttri segji ég, því upp koma nýjar deilur á nýjum stöðum, eða bætast við deilur á sömu stöðum og stökkbreyttir sjúkdómar birtast á nokkra ára fresti (ebóla, eyðni). Útaf þessum atburðum eru milljónir sem deyja á hverju ári í Afríku, ég endurtek: MILLJÓNIR SEM DEYJA Á HVERJU ÁRI.

Þetta er ekki erfitt að reikna út, rúmlega 4 milljónir deyja útaf eyðni (6000 manns daglega miðað við 1999/2000), rúmlega 4 milljónir hafa dáið útaf átökum í Congo/Zaire, hálf milljón eða meira í Angóla síðan 1989, 10 milljón manns deyja (24.000 manns daglega miðað við 2003) útaf sulti og svona mætti lengi telja. Þetta er á bilinu 10-20 milljón manns (eða miklu meira) sem deyja á hverju ári í Afríku og talan fer hækkandi með hverju ári sem líður.

Um daginn var ég að viðra þessa skoðun fyrir einum einstaklingi, sem kom með þá pælingu í formi spurningu, sem ég man kannski orðrétt, en var einhvern meginn á þessa leið:
"Gæti það verið að þessir atburðir í Afríku er orðnir svo algengir að þetta er bara orðinn eðlilegur gangur í náttúrunni?"Ég held að þessi tiltekni einstaklingur haf hitt naglann á höfuðið.

Ég viðurkenni það sjálfur að ég hugsa ekki oft útí þessa hræðilegu atburði í Afríku, en hef þó kynnt mér ýmislegt er það varða en ekki nóg. En þessi spurning fékk mig einnig til að hugsa og styrkja þessa litlu kenningu er ég kalla valkvæma samkennd. Í sinnu ofureinföldu mynd, þá vorkennum við fólkinu sem við sjáum í fjölmiðlunum meira en fólkið sem við sjáum ekki í fjölmiðlum...

...nema um jólin og aðdraganda jólana, en þá byrja markaðshyggjumennirnir að læðast undan grjótunum og hugsa sér gott til glóðarinnar í formi markaðs-barnamisnotkun : Björgum börnunum í Fjarskakistan. Göngum til góðs. Hungruð börn. Aumingja börnin. Grátur og gnístan tanna... hjá börnunum í Langtíburtu.

En þessi hjálparsöfnun og allt sem því tengist finnst mér vera svo mikið fals. Í raun hef ég ekkert til að færa rök fyrir því nema tilfinningu; er ekki eitthvað rangt þegar eytt er nær $200.000.000.000 (ca. 16.000.000.000.000 ísl. kr.) í stríð, en þegar kemur að hungri og eyðni þá eiga almennir borgarar að punga út peningnum um jólin, og upphæðin er kannski nokkrar milljónir ísl. kr. (ca. $12.500), er ekki eitthvað athugavert við þessar upphæðir? Sirka 6 eða 7 núll? Og getum við sagt með vissu að allir þessir peningar fari virkilega til góðs, eða til þessara aumingja krakka sem eiga um svo sárt að binda.

Ég er alls ekki að gera lítið úr hjálparstofnunum eða sjálfboðaliðum í suður Asíu og Afríku, en mér finnst það bara svo bölvuð hræsni að ráðamenn og ríkisbubbar grátbiðja kúgaðan almenning til að láta af hendi rakna og hjálpa bágstöddum, þegar almenningur á í nógu um sárt að binda, en á meðan eru þessir sömu aðilar að styðja þau stríð sem skapa þessa bágstadda.

En þessi ofangreind spurning, "Gæti það verið að þessir atburðir í Afríku (og víðar) er orðnir svo algengir að þetta er bara orðinn eðlilegur gangur í náttúrunni?"Svarið er því miður já, en orsökina má finna í fréttaefni meginstrumsmiðlana sem sjaldan segja frá þeim raunverulegu atburðum sem eru í gangi, þetta á ekki að vera náttúrulegt að tug milljóni manna deyja árlega af mannavöldum. Því hvað annað er þetta nema af mannavöldum? Mennirnir virðast kjósa að hunsa þetta, jafnvel þó að mennirnir geta stoppað þetta. Við bætist ein spurning í viðbót, hvaða menn? Við eða... þeir (hvaða þeir)?

Global Issues that Affect Everyone
OneWorld.net

Engin ummæli: